Í minningu góðra verka

Í minningu góðra verka

Þetta er eini sálmurinn eftir sr. Einar í sálmabók Þjóðkirkjunnar og vitnar um rýran hlut miðað við framlag hans til menningar kristins siðar um aldir, en verður vonandi bætt úr fyrr en seinna. Einn sálmur sr. Einars var tekinn upp í viðbæti sálmabókarinnar, Miskunn þína mildi Guð, við lag Finns Torfa Stefánssonar.

Gleðilegt sumar og verum hjartanlega velkomin á sumarvöku í Heydalakirkju í minningu sr. Einars Sigurðssonar, prests og sálmaskálds, hér í Heydölum frá árinu 1590 fram á andlátsdag árið 1626.

Það var fjölmenni, eins og núna, hér í kirkjunni 20. júlí árið 1986 til að heiðra sérstaklega minningu prestsins og sálmaskáldsins og framlag hans til íslenskrar menningar með því að reisa honum myndarlegan minnisvarða hér á grunni gömlu kirkjunnar sem brann 17. Júní 1982. Guðjón Sveinsson, rithöfundur, hafði haft forgöngu um að endurvekja minningar um sr. Einar, bæði með fræðigreinum m.a. í Breiðdælu og forystu um að minnisvarðinn yrði reistur. Um langan tíma höfðu minningar verið frekar þögular með þjóðinni um sr. Einar. Helst má geta, að dr. Stefán Einarsson frá Höskuldsstöðum fjallaði um sr. Einar í verkum sínumr. Sr Sverrir Haraldsson skrifaði lokaritgerð í guðfræðináminu við Háksóla Íslands um skáldið. Sigvaldi Kaldalóns rakst fyrir tilviljun á nokkur erindi í tímaritinu Vikunni úr kvæðinu Af stallinum Kristí, Nóttin var sú ágæt ein, og samdi lag við sálminn sem var tekinn upp í sálmabók árið 1945 og hefur síðustu árin fest sig rækilega í hjörtu þjóðarinnar á jólum.

Þetta er eini sálmurinn eftir sr. Einar í sálmabók Þjóðkirkjunnar og vitnar um rýran hlut miðað við framlag hans til menningar kristins siðar um aldir, en verður vonandi bætt úr fyrr en seinna. Einn sálmur sr. Einars var tekinn upp í viðbæti sálmabókarinnar, Miskunn þína mildi Guð, við lag Finns Torfa Stefánssonar. Með afhjúpun minnisvarðans hér við kirkjuna árið 1986 var minningu um prestinn og sálmaskaldið sýndur verðskuldaður sómi og vakti fræðimenn til frekari verka um að skoða ævi hans, störf og áhrif á íslenska menningu. Fáir lögðu meira að mörkum en sr. Einar með sálmakveðskap sínun svo lútersk siðbót festi rætur í þjóðlífinu. Hann flutti siðbótina inn á baðstofuloftin, m.a. með framlagi sínu í Vísnabók sr. Guðbrands, biskups, 1612, þar sem sr. Einar átti helming kvæða og hafði mikil áhrif. Hann var sálmaskáld og starfandi prestur í 69 ár, auk þess að vera ættfaðir, sem allir Íslendingar geta rakið sögu sína til. Breiðdælingar eiga þá hugsjón að byggja hér við kirkjuna menningarhús um minningu sr. Einars og er undirbúið svo megi verða að veruleika. Það er verðugt og tímabært framtak fyrir þjóðina.

Hreppsnefnd Breiðdalshrepps sá um uppsetningu minnisvarðans í samstarfi við sóknarnefnd og sóknarprestinn, sr. Kristinn Hóseasson. Ungur Egilsstaðabúi, Friðrik Lúðvíksson, hlóð varðann af listrænu smekkvísi og platan var unnin hjá Álfasteini á Borgarfirði Eystra, þar sem á stendur: Nóttin var sú ágæt ein í allri veröld ljósið skein.

Annar maður stóð einnig í fremstu röð um að kalla fólk til umhugsunar um sr. Einar. Það var sr. Emil Björnsson, síðasti kvíasmalinn í Breiðdal, fæddist í Felli 21. sept. 1915, þar sem hann ólst upp við kröpp kjör og fornaldaraðstæður fram á sitt sautjánda ár, eins og hann segir sjálfur frá í bókinni sinni Á misjöfnu þrífast börnin best. Hann kvaddi mig í vetrabryjun árið 1986, þegar ég var að undirbúa mig til að taka við brauðinu hér á Staðnum, með þeim orðum, að halda minningu sr. Einars Sigurðssonar hátt á lofti. Mikil þörf væri á því fyrir þjóðina. Kvíasmalinn í Felli átti síðar eftir að verða áhrifamestur manna í fjölmiðlum á Íslandi, þegar hann gegndi starfi frétta-og fræðslustjóra Sjónvarpsins í tvo áratugi frá stofnun þess, auk þess að stofna með samferðafólki nýjan söfnuð í Reykjavík, Óháða söfnuðinn, árið 1950 og gegna þar prestþjónustu í 34 ár.

Sr. Emil var sérstakur heiðursgestur hér við afhjúpun minnisvarðans 20. júlí árið 1986 og flutti kjarnyrt erindi um sr. Einar og síðar í Útvarpinu. Þetta var líklega í einasta skiptið sem sr. Emil stóð fyrir altari í sinni heimabyggð og var honum afar kært og minntist þess við mig af hlýhug.

Með sr. Emil í för var Ómar Ragnarsson, fréttamaður þjóðarinnar, um langa tíð. Ómar starfaði lengi með sr. Emil á Sjónvarpinu og þekkti vel, flaug honum hingað í Heydali í flugvélinni sinni og lentu hér á gamla flugvellinum sunnan við kirkjuna. Það reyndist svo vera síðasta lending og flugtak frá þeim flugvelli, en nýr flugvöllur hafði verið tekinn í notkun við þorpið á Breiðdalsvík. En fyrsta flugbrautin sem flugvélar lentu á hér í sveitinni var á aurunum innan við Þverá. Það fer því vel á og sannarlega ánægjulegt, að Ómar skuli aftur vera kominn og nú 30 árum síðar til að segja okkur nánar af sr. Emil og lífshlaupi hans. Þess er verðugt að minnast. Sömuleiðis minnumst við Hlífar Petru Magnúsdóttur. Það mun Páll Baldursson, föðursonur hennar og fyrrum sveitarstjóri í Breiðdal gera og tileinka minningu hennar kvæði eftir sr. Einar. Hlíf markaði djúp spor í sögu kirkjunnar okkar, lék á orgelið áratugum saman og stjórnaði kirkjusöngnum við helgihaldið af trúfesti og virðingu.

Anna María Sveinsdóttir, frá Stöðvarfirði, flytur okkur nokkur erindi úr kvæðinu Hugvekju eftir sr. Einar. Tökum eftir, að þar er kveðið fast að orði og gætu einhverjir haldið að kvæðið hafi verið samið í gær sem er rammpólitískt og staðfestir, að rödd kirkjunnar lét í sér heyra þegar hallaði á þá sem minnst máttu sín og réttlætinu var misboðið. Svo munu Sif Hauksdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Breiðdalsvík, og Katrín Birta Björgvinsdóttir, nemandi skólans, flytja okkur helgileik sem gefur innsýn inn í lífshlaup sr. Einars og varpar ljósi á arfinn sem við eigum fyrir verkin hans.

Þá verða frumflutt hér tvö ný lög við sálma eftir sr. Einar og samin af Daníel Arasyni, organistanum okkar og kórstjóra. Það er gott framtak, en Daníel hefur látið sér annt um sálmaskáldið og samið fleiri lög við sálma sr. Einars sem hér hafa verið flutt við helgihald kirkjunnar. Fyrir það þökkum við heilum huga.

Tónlistin og kórsöngurinn gegna svo stóru hlutverki í menningu kirkjunnar. Engin trúarbrögð óma eins af fögrum söng og lúterskur siður. Þar leggur kórfólkið mikið að mörkum og auðgar fagurt mannlíf. Það er einmitt tilgangur samveru okkar hér í dag að auðga fagurt mannlíf. Njótum þess innilega og Guð blessi það. Amen.