Aldrei aftur París

Aldrei aftur París

Við þurfum hugrekki til að ræða trú og sið, menningu og ómenningu opinskátt og í almannarými samfélagsins. Við þurfum að ræða málin í skólum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlunum og í almenningnum. Við megum gjarnan vera eins og Jesús Kristur og horfa á alla með augum ástarinnar, með hlýju en fullkomnu raunsæi og einbeittri skynsemi.

Sonur minn horfði á móður sína og sagði: „Mér finnst allt vera breytt“ og drengurinn tjáði okkur að honum þætti veröldin væri önnur eftir morðin í París. Hann fann að foreldrum hans var brugðið og skelfdist það sem hann heyrði í fjölmiðlum um voðaverk óðra manna. Hann óttaðist að þriðja heimsstyjörldin væri hafin. Er allt breytt? Og hvað svo?

129 manns létu lífið í París í fyrradag. 352 særðust og þar af eru um eitt hundrað í lífshættu. Við kveiktum ljós fyrir allt þetta fólk í gær á kyrrðarstund í kirkjunni og komum þeim fyrir í kórtröppunum. Ljósin voru óhugnanlega mörg og þöktu efstu tröppurnar. Smátt og smátt erum við að fá tilfinningu fyrir umfangi, dýpt og hryllingi þessara voðaverka glæpamanna sem standa fremur með dauðanum en lífinu.

Þau sem létu lífið eru í bænum okkar, ástvinir þeirra og franska þjóðin. Og hverjir voru þessir glæpamenn sem myrtu saklaust fólk með köldu blóði, skutu fólk sem sat úti fyrir kaffihúsum og á tónleikum og sprengdu sprengjur - og sjálfa sig með - m.a. við þjóðarleikfang Frakka, Stade de France. Það voru ekki einhverjir gamlir, vitskertir, siðblindir kallar heldur fyrst og fremst ungir menn, sumir voru unglingar, aðeins 15-18 ára gamlir. Þessi drengir hafa verið aldir upp í og heilaþvegnir til að standa fremur með dauðanum en lífinu. Hvers konar afstaða er það? Hvers konar viðhorf og siðhrun er það? Öll heimsbyggðin er agndofa gagnvart hryllingnum. Allt er skelfilegt varðandi hörmungaratburðina í París.

Og hvað eigum við að gera? Hvernig getum við brugðist við? Samfélagsmiðlarnir loga og margt er þar vel sagt. Mikil samúð er tjáð, fólk speglar samstöðumyndir með Parísarbúum og Frökkum, litar prófílmyndirnar á facebook í frönsku fánalitunum og smellir inn friðarmynd af Eiffelturninum með krossi í miðju. En svo eru önnur sem bregðast við með gífuryrðum og hella úr skálum reiði sinnar með því að tengja ófriðinn við fólk sem hefur ekkert til saka unnið. Það þjónar ekki réttlæti eða friði að uppteikna alla múslima sem djöfulóða öfga- og glæpamenn. Er það hjálplegt í þessum hryllilegu aðstæðum að fella alla múslima í einn hóp? Búa til úr þeim hóp sem eru allt annað en “við?” Nei, allir múslimar eru ekki ábyrgir fyrir þessum hryllingi frekar en að ég og þú eigum sök á fjöldamorðunum í Útey í Noregi. En það þjónar hins vegar ekki friði eða réttlæti að bregðast við með því að afneita alvöru málsins. Stríð í Austurlöndum nær eru stríð sem okkur varða og vandi íbúa þeirra einnig. Fólkið sem flýr Sýrland til Evrópu er að flýja sömu glæpamennina og sama drápshópinn og réðst á Parísarúa. Átökin eru ekki aðeins átök stríðandi hópa sem berjast til valda. Stríðin varða afstöðu til lífsins, siðferði, rétt minnihlutahópa, hvort úrelt hugmyndakerfi fái ráðið.

Hvað eigum við að gera? Hvernig eigum við að bregðast við? Við getum margt lært af viðbrögðum Norðmanna við fjöldamorðunum í Noregi fyrir fjórum árum. Þá létu Norðmenn ekki dauðann ráða heldur lífið og lífsástina. Gegn hatri og grimmd létu Norðmenn hatur og ótta ekki ráða för heldur kærleika og mannúð. Forystumenn múslima og kristinna, húmanista, trúmanna og vantrúarmanna tóku höndum saman um að treysta frið og eindrægni í samfélaginu. Haldnar voru fjöldasamkomur í kirkjum og á torgum, í moskum og félagsmiðstöðvum til að fólk gæti sameinast um lífið til að dauðinn fengi ekki sigrað.

Prófið mikla Nú er komið að miklu prófi menningar Vesturlanda. Hvernig eiga franska þjóðin og okkar heimshluti að bregðast við dauðasveitunum? Hvað er best og ábyrgast að gera? Er það valkostur að Vesturlönd fari í stríð við Islamistanna? Hófst þriðja heimstyrjöldin í París? Margir halda að svo sé en við eigum ekki að láta ofbeldismennina ráða, við eigum aldrei að láta eða leyfa glæpamönnum að stjórna samfélögum eða lífi okkar. Okkar köllun og okkar skylda er fyrst og fremst að standa með lífinu en ekki dauðanum. Standa með rósemi en ekki ótta. Efla friðinn en ekki óreiðu og órétlæti.

Fellur aldrei úr gildi Kæru fermingarungmenni sem sitjið á fremstu bekkjunum í kirkjunni í dag. Hvaða afstöðu ætlið þið að taka? Hvað ætlið þið að gera í ykkar lífi? Hvaða stefnu ætlið þið að taka? Hvernig gildi viljið þið temja ykkur? Og þær spurningar varða okkur líka sem eldri erum.

Tíma einfeldninnnar er lokið um hvað trú og siður sé. Það skiptir máli hver eru gildi okkar og lífsafstaða. Við höfum alist upp í menningu sem er gegnsýrð og mótuð af kristindómi, kærleiksboðskap Jesú, umburðarlyndi, tillitssemi, fyrirgefninu og kærleika. Sá boðskapur fellur aldrei úr gildi. Kristin gildi eru leikreglur vestrænna samfélaga og hafa haft áhrif á viðmið, uppeldi, samskipti, menntunarstefnu og löggjöf. En mörgum hefur sést yfir í hraða og erli síðustu ára hve kristnin er samofin mestu dýrmætum menningar okkar. Nú er komið að krossgötum. Viljum við frelsi, jafnrétti og bræðralag sem er slagorð frönsku byltingarinnar sem jafnframt eru gildi kristninnar? Eða eitthvað annað? Það er ekki valkostur að afskræma trú og menningu annarra og það er ekki valkostur að afskræma hinn kristna sið og gildi heldur.

Ræða stóru málin Við þurfum hugrekki til að ræða trú og sið, menningu og ómenningu opinskátt og í almannarými samfélagsins. Við þurfum að ræða málin í skólum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlunum og í almenningnum. Við megum gjarnan vera eins og Jesús Kristur og horfa á alla með augum ástarinnar, með hlýju en fullkomnu raunsæi og einbeittri skynsemi. Nú flæða inn í vestræn samfélög, og brátt okkar líka, fólk með allt öðru vísi mótun, annan hugsunarhátt og viðhorf. Móttökur okkar eiga að vera kærleiksríkar en skynsamlegar. Við megum og eigum að gera kröfur um að fólk virði leikreglur vestrænna samfélaga, vestrænnar gagnrýni, vestrænnar löggjafar - hins vestræna vefs menningar.

Aldrei aftur París Já, það er allt breytt. Við stöndum á krossgötum og þurfum að hugsa okkur um og taka stefnu, án ótta, með upplýstri trú og af kærleiksríkri einurð. Fjöldamorðin í París eru árás á gildi, trú, menningu og stefnu vestrænna þjóða. Stríðsyfirlýsing gagnvart siðum og venjum Vesturlanda. Skipta þau okkur máli? Tíma einfeldninnar er lokið. Við stöndum með Frökkum. Við erum öll Parísarbúar þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa skothríðinni í París að hræða og beygja okkur? Nei. Glæpur var unnin á frönsku þjóðinni en líka okkur - öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki fólk deyja til einskis, heldur heiðrum þau með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti og trú. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur París.

Íhugun í Hallgrímskirkju 15. nóvember, 2015