Eigin tækifæri og annarra

Eigin tækifæri og annarra

Tvær bækur á jólamarkaðinum hafa vakið vonarneista í brjósti mér. Von um að margir íbúar þessarar litlu eyju sem við búum á gefi öðrum og sjálfum sér þær í jólagjöf. Því þar með gefa þeir tækifæri!
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
03. desember 2005

Tvær bækur á jólamarkaðinum hafa vakið vonarneista í brjósti mér. Von um að margir íbúar þessarar litlu eyju sem við búum á gefi öðrum og sjálfum sér þær í jólagjöf. Því þar með gefa þeir tækifæri!

Tækifæri til þess að eiga jól allt árið. Mörg okkar binda þær vonir við aðventuna og jólahátíðina að geta tekið sér frí frá amstri hversdagsins, verið góð við sinn innri mann, notið samvista við vini og fjölskyldu og fundið hinn helga frið í hjarta sér. Þegar líður á aðventuna eykst svo stressið. Ekki aðeins vegna alls þess sem við þurfum að ,,redda” jólanna vegna og vinnunnar vegna. Heldur líka vegna þess að við óttumst að geta ekki uppfyllt væntingar okkar og annarra um persónulegan jólafrið.

Hænuskref

Fyrr en varir er kominn janúar og við uppgötvum að stóra skrefið sem við höfðum ásett okkur að taka í átt að meiri frið og ró var pínulítið hænuskref. Og okkur hafði dreymt um risaskref. Hér þurfum við að spyrja okkur hvort verið geti að það verkefni að taka sér frí frá amstrinu og stressinu sé verkefni sem þurfi að þjálfa sjálfan sig upp í. Fáum okkar dettur í hug að taka þátt í hálfmaraþoni, ekki einu sinni að hlaupa tíu kílómetra án þjálfunar. Þar vitum við að skrefið væri of stórt fyrir okkur, við værum í besta falli ,,alveg búin” að hlaupinu loknu.

Og hér koma bækurnar tvær til sögunnar. Þær geta báðar, hvor á sinn hátt, nýst okkur til þjálfunar í þeirri viðleitni að taka frí frá amstri og stressi og hlúa að okkar innri manni.

Í 366 daga

Hér á ég annars vegar við bókina ,,Í dag” sem er nýútkomin hjá Skálholtsútgáfunni. Hún hefur að geyma vangaveltur um lífið og tilveruna á 366 blaðsíðum. 366 Íslendingar skrifuðu bókina og senda lesandanum daglega kveðju. Þegar ég held þessari veglegu bók í hönd og les kveðju dagsins þá finnst mér sem jólin séu komin.

Ég kveiki á kerti, sest í stofusófann og leyfi hinum íslensku vangaveltum um tilgang lífsins, tilfinningar, lausn vandamála og áskoranir í mannlegum samskiptum að flæða af fögrum síðum bókarinnar. Og ég uppgötva að bókin er tækifæri fyrir mig til þess að sinna mínum innri manni í fimm mínútur. Fullur tilhlökkunar yfir texta morgundagsins legg ég bókina frá mér og uppgötva að kvöldi að textinn sem ég las gaf lífi mínu gleðigrunn þennan dag.

Lítil lykilorð

Hin bókin sem ég sé sem tækifæri er minni um sig. Nafn hennar er Lykilorð og kemur hún út í fyrsta sinn á íslensku. En sagan á bak við bók þessa er stór því að hún hefur komið út 276 ár í röð. Upphafið má rekja til lítils þorps í Þýskalandi, Herrnhut þar sem Lykilorðum var fyrst dreift í 32 eintökum 3. maí 1728. Í dag er bókin gefin út árlega á 50 tungumálum og selst í milljónum eintaka.

Lykilorð er ein leið til þess að tengja Orð Guðs við daglegt líf okkar. Í Lykilorðum er að finna tvo biblíutexta fyrir hvern dag ásamt sálmaversi eða öðrum hugvekjandi texta. Þannig geta Lykilorð verið fyrstu skrefin í þá átt að læra að þekkja breidd og dýpt Biblíunnar, bókarinnar sem boðar okkur jólin.

Ég kveiki á kerti, sest í stofusófann og finn samsömun með þeim fjölmörgu kristnu einstaklingum um víða veröld sem lesa sama texta og ég, hugleiða sömu orð og taka sér vonandi tíma til bænahalds. Og ég uppgötva að bókin er tækifæri fyrir mig til þess að sinna sambandi mínu við Guð. Fullur gleði yfir þeim krafti sem býr í Orði Drottins held ég út í daginn. Að kveldi uppgötva ég að textinn sem ég las gaf mér hughreystingu og kraft fyrir verkefni dagsins.

Gefum hvort öðru tækifæri. Gefum lífinu tækifæri. Gefum Guði tækifæri.