Smitandi

Smitandi

Það er nefnilega þannig að hvar sem við erum og hvert sem við förum erum við smitandi. Við smitum út frá okkur því sem innra býr, til góðs og ills.

Kyrrðarstund í Grensáskirkju 5. janúar 2021

Kæru vinir. Ég veit ekki með ykkur en ég verð oft dálítið meyr um áramót. Við horfum til baka á árið sem var, stundum var það gott og stundum ekki, oftast bæði. Stundum líður okkur eins og við séum að kveðja góðan vin og finnum hvað við erum nú smá í stóra samhenginu. En stundum erum við eftirvæntingarfull: Hvað skyldi nú nýja árið bera í skauti sér?

Sum okkar strengja áramótaheit eða nýársheit: Fara fyrr að sofa, hreyfa sig meira, hætta að borða sykur eða kjöt. Það er auðvitað gott og blessað, að vilja hlú að heilsunni sinni. En þá megum við ekki gleyma andlegu heilsunni, að gefa Guði tíma, tíma til að móta okkur til sinnar myndar, tíma til að næra okkur andlega og endurnýja líf okkar innan frá.

Og sum okkar vilja kannski bæta sig í samskiptum við annað fólk, sína nánustu, vinnufélagana, eða bara alls konar fólk sem við hittum í raunheimum eða á netinu. Þá er líka mikilvægt að byrja á réttum stað, með því að leita Guðs sem lagar þau forrit í okkur sem snúa að samskiptum og tengslum.

Það er nefnilega þannig að hvar sem við erum og hvert sem við förum erum við smitandi. Við smitum út frá okkur því sem innra býr, til góðs og ills.

Í ritningarlestri fyrsta sunnudags í nýju ári, úr Efesusbréfinu, segir í þrígang að við eigum að vera dýrð Guðs til vegsemdar. Háfleygt orðalag, já, það er rétt, en orðin birta djúpan veruleika. Við erum kölluð til að vera til vegsemdar, ekki vansemdar, til að flytja blessun og náð Guðs inn í þennan heim. Við höfum verið merkt innsigli heilags anda, segir líka í fyrsta kafla Efesusbréfsins. Heilagur andi á að vera það sem við smitum út frá okkur, andi Guðs, nærvera Guðs.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem í Kristi hefur blessað oss með allri andlegri blessun himinsins. Áður en grunnur heimsins var lagður útvaldi hann oss í Kristi að hann hefði oss fyrir augum sér heilög og lýtalaus í kærleika.
Fyrir fram ákvað hann að gera oss að börnum sínum í Jesú Kristi.
Sá var náðarvilji hans.
Hann vildi að vér yrðum til vegsemdar dýrð hans og náð
sem hann hefur gefið oss í sínum elskaða syni.
Í honum, fyrir hans blóð, eigum vér endurlausnina
og fyrirgefningu afbrota vorra.
Svo auðug er náð hans sem hann gaf oss ríkulega
með hvers konar vísdómi og skilningi.
Og hann hefur birt oss leyndardóm vilja síns,
þann ásetning um Krist sem hann í náð sinni ætlaði sér að framkvæma í fyllingu tímanna:
Að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi.
Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina
eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans
er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns
til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists,
skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.
Í honum eruð og þér eftir að hafa heyrt orð sannleikans,
fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann
og verið merkt innsigli heilags anda sem yður var fyrirheitið.
Hann er pantur arfleifðar vorrar
að vér verðum endurleyst Guði til eignar,
dýrð hans til vegsemdar.

Ef 1.3-14

Þannig segir líka í öðru Korintubréfi að við eigum að breiða út þekkinguna um Guð eins og þekkan ilm. Guði til dýrðar eigum við að vera ilmur sem flytjum Krists til þeirra sem á vegi okkar verða.

En Guði séu þakkir sem fer með mig í óslitinni sigurför Krists og lætur mig alls staðar breiða út þekkinguna um sig eins og þekkan ilm. Því að Guði til dýrðar er ég ilmur sem flyt Krist bæði til þeirra sem frelsast og til þeirra sem glatast. 

2Kor 2.14-15 

Ilmur, frá dýrð til dýrðar. Og því erum við hér í dag, til að uppbyggjast í þeirri dýrð, til að drekka í okkur ilm anda Guðs sem síðan fylgi okkur inn í samskiptin við þau sem við mætum í dag.

Biðjum saman: Faðir vor....

Blessun Guðs fari á undan þér, dýrð Guðs streymi frá þér, náð Guðs fylgi þér á öllum vegum þínum. Amen.