Jesús tekur á móti þér!

Jesús tekur á móti þér!

Það er dýrmætt að heyra í foreldrum sem er það hjartans mál að börnin þeirra sæki sunnudagaskóla. Sumir foreldrar eiga ekki heimangengt. Þá er gott að eiga nágranna, vinkonu eða vin, sem grípur börnin með í sunnudagaskólann.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
26. september 2011

WOOD-jesus-stood-on-the-shore

Ó, Jesús bróðir besti og barnavinur mesti, æ, breið þú blessun þína á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera og góðan ávöxt bera, en forðast allt hið illa, svo ei mér nái‘ að spilla.

Þannig hefst hinn þekkti barnasálmur eftir Pál Jónsson sem við þekkjum svo mörg. Þegar ég heyri hann hljóma tek ég ósjálfrátt undir í huganum og minningar vakna. Ég var svo heppinn að fá að vera barn í sunnudagaskóla. Ég var ekki hár í loftinu þegar Bogi frændi – sem flestir þekktu sem Boga á Ástjörn – fór að taka mig með í sunnudagaskólann. Hann ók um þorpið á Bronco jeppa sem hann átti og sótti okkur í sunnudagaskólann. Stundum fór hann jafnvel nokkrar ferðir því honum var það hjartans mál að við sæktum sunnudagaskóla. Sunnudagaskólinn fór fram í kennslustofu í Glerárskóla. Umsjón með starfinu höfðu auk Boga mætir menn úr Sjónarhæðasöfnuði á Akureyri. Söngur, gleði, lifandi frásagnir og leikir einkenndu þetta sunnudagaskólastarf. Þegar Glerárprestakall var stofnað og fékk sinn prest fyrir tæpum 30 árum tók söfnuðurinn við sunnudagaskólanum. Frá þeim tíma hefur verið sunnudagaskóli á vegum þjóðkirkjunnar norðan Glerár, stundum á laugardögum, stundum á sunnudögum, en alltaf til staðar fyrir börn og fullorðna.

Það er dýrmætt að heyra í foreldrum sem er það hjartans mál að börnin þeirra sæki sunnudagaskóla. Af samtali við fólk verður um leið ljóst að aðstæður fólks eru mismunandi og sumir eiga þess frekar kost að mæta með börnin sín í sunnudagaskóla, meðan aðstæður hjá öðrum eru þær að þau eiga ekki heimangengt. Þá er gott að eiga nágranna, vinkonu eða vin, sem grípur börnin með í sunnudagaskólann.

Ég upplifi að það er Jesús sem tekur á móti mér í hvaða aðstæðum sem er í lífinu. Hvort sem ég er í hlutverki sjómannsins sem kemur þreyttur heim úr róðri eða einstaklingsins sem þykja öldur lífsins háar og róðurinn erfiður, má ég vita að Jesús stendur á ströndinni með útbreiddan faðm. Þess lífssýn mín mótaðist meðal annars vegna þess að ég sótti sunnudagaskóla sem barn. Ég vona að þú getir gefið barninu þínu slíkt tækifæri. Það er fjársjóður fyrir hjartað að vita: Jesús tekur á móti mér.

[Þessi pistill birtist einnig í Safnaðarblaði Glerárkirkju, september 2011.]