Biskupsdæmið Ísland - tækifæri nýsköpunar ?

Biskupsdæmið Ísland - tækifæri nýsköpunar ?

Ég hvet framtíðarnefnd kirkjunnar, milliþinganefndina, forsætisnefnd kirkjuþings og kirkjuráð til að taka nú höndum saman og beita sér fyrir málþingi/málþingum á útmánuðum, þar sem ýmis atriði Þjóðkirkjufrumvarpsins verði rædd - af fólki úr öllu biskupsdæminu.

Í þau rúmu 100 ár sem liðin eru frá því að lög um vígslubiskupa voru fyrst samþykkt hafa þrisvar komið fram tillögur á alþingi, en mun oftar á kirkjuþingi, um breytingu á biskupsdæmi Íslands. Yfirleitt hafa tillögurnar hnigið að því að biskupsdæmin yrðu þrjú og biskupar þrír með fullu biskupsvaldi (árrin 1958, 1964, 1966, 1982 og 1984). Sú hugmynd hefur hins vegar ætíð verið felld og þá gjarnan með vísan í mikinn tilkostnað.

Umræðan kemur þó upp með vissu millibili, enda var beinlínis gert ráð fyrir að endurskoðun þessa fyrirkomulags kæmi til síðar „ef reynslan sýnir að það sé nauðsynlegt“ sbr. lög nr. 62/1990. Þrátt fyrir að Alþingi héldi í óbreytt biskupsdæmi, kaus það samt að efla embætti vígslubiskupa og auka veg fornu biskupsstólana á Hólum og í Skálholti með því að gera vígslubiskupsembættið að að fullu starfi, sem svo var áréttað með þjóðkirkjulögunum árið 1997.

Á grundvelli Þjóðkirkjulaganna setti kirkjuþing starfsreglur um vígslubiskupa sem síðan hafa verið uppfærðar, síðast 2007. Reynslan sýnir að þrátt fyrir starfsreglurnar kemur ítrekað upp sú umræða að vígslubiskuparnir hafi í raun ekkert alvöru hlutverk í kirkjunni og kosti allt of mikið.

Árið 2008 voru drög að nýjum þjóðkirkjulögum kynnt á kirkjuþingi og urðu þá m.a. nokkrar umræður um biskupsdæmið. Líkt og áður voru skiptar soðanir um framtíðarskipan þess. En það eru fjölmörg fleiri atriði í frumvarpsdrögunum sem fengu litla sem enga umræðu á kirkjuþinginu 2008 og síðan hafa drögin legið í skúffum ráðherra.

Mig langar að vekja athygli á því að á síðasta kirkjuþingi var frumvarpinu vísað í milliþinganefnd kirkjuþings og því er nú kjörið tækifæri til opinberrar umræðu um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar allrar.

Ég hvet framtíðarnefnd kirkjunnar, milliþinganefndina, forsætisnefnd kirkjuþings og kirkjuráð til að taka nú höndum saman og beita sér fyrir málþingi/málþingum á útmánuðum, þar sem ýmis atriði Þjóðkirkjufrumvarpsins verði rædd - af fólki úr öllu biskupsdæminu. Um leið vil ég hvetja kirkjuráð til að fresta auglýsingu um vígslubiskupsembættið í Skálholti. Við – þjóðin- þurfum að ræða um það, hvernig kirkjan okkar eigi að þróast.