Samhygð tuttugu ára

Samhygð tuttugu ára

Á Akureyri er starfandi félagsskapur sem ber nafnið Samhygð og hittast félagar reglulega í Akureyrarkirkju. Það fer ekki mikið fyrir þessum félagsskap en þangað leitar fólk sem á það sameiginlegt að búa yfir eigin reynslu af áföllum eða tengslum við fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
10. október 2009

Á Akureyri er starfandi félagsskapur sem ber nafnið Samhygð og hittast félagar reglulega í Akureyrarkirkju. Það fer ekki mikið fyrir þessum félagsskap en þangað leitar fólk sem á það sameiginlegt að búa yfir eigin reynslu af áföllum eða tengslum við fólk sem hefur orðið fyrir áföllum. Í vikunni sem leið fagnaði félagsfólk og velunnarar félagsins því að 20 ár eru liðin frá stofnun þess. Til að gefa viðstöddum innlit í starfið fékk undirritaður það hlutverk að segja frá upplifun konu sem hefur tengst starfinu frá upphafi.

Á bak við söguna býr saga konu og áfall hennar og fjölskyldu hennar. En frásagnarefnið hér er reynsla hennar af starfi Samhygðar og hugmyndir hennar tengdar slíku starfi. Hún hefur sótt hvoru tveggja fundi hjá Nýrri Dögun systursamtökum Samhygðar í Reykjavík og hér á Akureyri hjá Samhygð. Hún segist stundum hissa á því hve fáir mæti á fundina, hún sjái þá sem tækifæri fyrir fólk til þess að geta skilið aðeins betur að þær tilfinningar og hugsanir sem koma upp við áfall og í kjölfar áfalls séu á engan hátt óeðlilegar. Í hennar huga hefur það ekki skipt máli þó svo að framlög þeirra sem fundina hafa sótt hafi snúið að áföllum sem hafa verið öðruvísi en hennar eigið áfall, því það að hlusta á lífsreynslusögur og fræðileg erindi um hvers konar áföll hafi ætíð hjálpað henni til að komast áfram í eigin sorgarvinnu. Því það er hennar reynsla og mat að við læknumst ekki af sorg, heldur lærum að lifa við sorgina. Og þannig var það hennar upplifun eftir fyrstu fundina sem hún sótti ásamt manni sínum mjög fljótt eftir hið stóra áfall sem hafði skollið á þeim. Hún sat hálf dofin á fundunum og skyldi lítið af því sem fram fór, en seinna þegar leið lengra frá áfallinu og hún fór að hafa tök á því að hugsa um hvað væri að gerast við sig þá komu upp margir hlutir í hugann sem höfðu verið sagðir á fundunum og hjálpuðu henni að átta sig á því að ferlið sem hún var að ganga í gegnum var hluti af hinu eðlilega sorgarferli.

Mér þótti áhugavert að heyra lýsingar hennar á þeim stuðningi, hlýhug og samkennd sem hún hafði upplifað í gegnum þann félagsskap sem Samhygð er og ljóst að Samhygð var mikilvægur þáttur í hennar sorgarvinnu og að það hjálpaði mikið til að hópurinn skyldi vera staðsettur í eigin heimabyggð. Hún tjáði mér að fólki hefði oft þótt erfitt að mæta henni á förnum vegi fyrst eftir áfallið og fannst henni hún verða vör við að fólk jafnvel forðaðist að hitta hana, sennilegast af ótta við að finna ekki réttu orðin eða vita ekki hvernig það ætti að koma fram við hana. Hér reyndist þá samfélagið í Samhygð um svo dýrmætara þar sem fólk stóð saman og henni og öðrum lærðist að það er ekki það sem við segjum og gerum sem skiptir alltaf mestu máli, heldur sá stuðningur sem hægt er að upplifa í gegnum nærveru annarra, nærveru fólks sem tekur sér tíma og er til staðar.

Þó hún hafi ekki alltaf verið virk í félagsskapnum er Samhygð henni dýrmætur félagsskapur og segist hún vilja halda áfram að styðja við starf þess, það hafi verið henni mikilvæg hjálp og hún sé viss um að það geti hjálpað öðrum. Í samtali okkar var henni tíðrætt um mikilvægi þess að líka þeir sem eru ekki beint að vinna úr eigin áfalli mæti á fundi hjá Samhygð, í því felist stuðningur við hina sem mæta og að það gefi fólki tækifæri til að vera ögn betur undirbúið til þess að styðja við aðra sem hafa lent í áfalli eða jafnvel ef viðkomandi lendir í áfalli sjálfur.

Saga þessarar konu er saga einstaklings. Í 20 ára starfi Samhygðar hefur fjöldi fólks komið á fundi eða tengst starfinu. Upplifun þeirra hefur verið jafn misjöfn og einstaklingarnir eru margir. Kannski að það sé einmitt eitt af því sem einkennir upplifun okkar af sorg, að hún er mjög persónubundin þó hún slái í ákveðnum, svipuðum takti hjá okkur öllum. En við erum sífellt að læra hvað getur reynst vel og hvað það er sem getur kannski hjálpað. Sjálfur er ég heillaður af því skrefi sem Ný Dögun (www.nydogun.is) hefur nú tekið í samstarfi við kirkjur á höfuðborgarsvæðinu um hópastarf fyrir syrgjendur. Nokkuð sem þarft væri að við fyrir norðan næðum að taka upp líka.