Bjargráð pílagrímsins

Bjargráð pílagrímsins

Ljóskerin fá sinn sess og sæti í káetunum. Ljósið sem stafar frá þeim er þó dauft í samanburði við það ljós sem skærast sín í hjörtum pílagrímanna sem tóku á móti því í björgunarskýlinu og leggja sig nú fram um að skila dagsverki sínu um borð í stóru skútunni

Ár er liðið frá því að ég fór með ykkur í huglæga dramatíska pílagrímagöngu í anda hirðanna sem fóru af stað til að leita að Jesú barninu. Eins og okkur rekur minni til þá lentum við í margvíslegum ævintýrum og hættum. Konurnar í hópnum uppgötvuðu í upphafi ferðar að pinnaskór voru fráleitt skótau við þessar aðstæður og karlarnir gátu alls ekki fótað sig á hálum lakkskónum og sparifötin voru fráleitur göngufatnaður.  

 Ljósið

Allur gönguhópurinn skildi strax að ljósið í ljóskerunum væri sérstaklega dýrmætt. Það mátti alls ekki slokkna á því vegna þess að annars gætum við villst á vegferð okkar í myrkrinu. 

Það var gott að njóta leiðsagnar leiðsögumannsins sem leiddi okkur frá einni vörðu til annarrar frá dýpstu dölum til hæstu hæða þar til við fundum björgunarskýlið við brimströndina. Fótsár og blaut, berskjalda og áveðra komumst við í dýrmætt skjólið. Leiðsögumaðurinn hrósaði okkur fyrir hugrekkið og fúsleikann til að styðja hina óstyrku á göngunni á hálum vegslóðanum milli varðanna. Hann sagði að framtíðin væri okkur hulin en það varðaði öllu að við hefðum fastan grundvöll undur fótum í víðsjárverðum heimi sem er Jesús Kristur, frelsari mannanna. Að lokum fór hann með bænarorðin sem hann fór með í upphafi pílagrímagöngunnar:  

 ,,Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg. Engill Drottins verndi ykkur og varðveiti á vegum ykkar”.  

Þegar lýsti af nýjum degi

Það kann að vera að sum ykkar spyrji nú hvað hafi tekið við þegar lýsti af nýjum degi eftir að pílagrímahópurinn hafði þegið góða andlega og líkamlega næringu og hvíld í björgunarskýlinu. Ég tel mig knúinn til að leitast við að svara því þó að hver og einn viðstaddra pílagríma geti sem best svarað því sjálfur. En svarið varðar vegferð okkar hvers og eins árið um kring frá þeirri stund er við vorum hér saman á aðventunni í fyrra til þessarar stundar. Þar hefur vafalaust ýmislegt borið við góma til góðs og ills sem hefur vonandi þroskað okkur sem manneskjur.  

Ég ætla nú að gefa mér hvað hafi gerst þegar við í birtingu yfirgáfum appelsínugult björgunarskýlið og gengum út á svarta sendna brimströndina með ljóskerin í höndum sem við reyndum að gæta sem fyrr eins og sjáaldurs augna okkar. Leiðsögumaðurinn tók til máls og sagði að steinarnir sem þau hefðu kastað á vörðurnar á vegferðinni táknuðu byrðar lífsins sem við fáum að létta af okkur, skilja eftir  við veginn hjá honum sem er vegurinn. Einhver pílagrímurinn hafði á orði feimnislega undir orðum leiðsögumannsins að hann hefði talið sig hafa séð bjartan engil fara fyrir húshornið á skýlinu utanverðu.  Annar, kona nokkur, hafði á orði að hún gæti með engu móti séð að frelsari mannanna væri orðinn förunautur sinn eftir lífsreynslu síðustu daga því að hún sæi hann bara alls ekki með berum augum á ströndinni. Leiðsögumaðurinn hefði kannski getað leitt allan hópinn til baka eftir krókóttum stígunum upp um fjöll og firnindi, inn í blámóðu fjarskans sem er að baki en hann gerði það ekki vegna þess að hann veit sem er að lífið er ekki þannig.  Við höldum áfram göngunni um lífsins grýttu braut til móts við framtíðina sem er okkur öllum hulin. Við lítum ekki til baka nema huglægt þegar við tregum eða iljum okkur við góðar minningar úr fortíðinni. Hvert spor verður ekki aftur tekið  Fyrr en varir mást fótspor okkar af sendinni ströndinni þegar aldan hnígur inn yfir hana og sveipar sporin faldi sínum. Við verðum að gæta okkar að útsogið hremmi okkur ekki fyrirvaralaust.  

Björgunin er vís

Á ströndinni eru björgunarbátar, úti fyrir liggur stór skúta við akkeri, seglin liggja niðri. Þetta virðist vera aldagömul skúta með rá og reiða, yfirbyggð með öllu tilheyrandi eins og í bíómyndunum. Íslenski fáninn blaktir við hún með sitt krosslag. Leiðsögumaðurinn bendir okkur á krosslagið á siglutrjánum á skútunni og segir við okkur að við höfum verið bænheyrð. Líkt og Guð hafi gefið okkur son sinn eingetinn sem dó fyrir syndir okkar á krossinum þá hafi hann hafi sent björgunarsveit til að bjarga okkur enda sé nú allra veðra von á nýjan leik og best að þiggja þessa hjálparhönd.  

Við ýtum bátunum úr vör og förum um borð og setjumst við árar ásamt bátsverjum og tökum fast á þeim þegar færi gefst með útsoginu. Á stjórnborða og bakborða eru tvær árar báðum megin. Við tökum eftir því að á árunum á stjórnborða stendur orðið trú grafið í viðinn en orðið verk er grafið í árarnar á bakborða. Okkur þykir þetta furðu sæta en þá bendir leiðsögumaðurinn okkur á næsta bát sem á í erfiðleikum vegna þess að bátsverjar eru ekki samtaka í því að róa. Ef trú og verk fari hins vegar saman þá miði okkur í rétta átt. Í sameiningu taka loks allir á árunum og skila bátunum að stóru skútunni.  

 Dagsverkin smáu og stóru

Þar um borð ganga allir til sinna verka, stórir sem smáir. Brátt fer að hvessa, akkerum er létt og seglum þöndum fer skútan af stað, knúin af náttúruöflunum. Ljóskerin fá sinn sess og sæti í káetunum. Ljósið sem stafar frá þeim er þó dauft í samanburði við það ljós sem skærast sín í hjörtum pílagrímanna sem tóku á móti því í björgunarskýlinu og leggja sig nú fram um að skila dagsverki sínu um borð í stóru skútunni.  

Hvar er Kristur? , spyr konan

Þar á meðal er kona, ein af pílagrímunum sem sagðist ekki hafa séð Krist bregða fyrir í fjöruborðinu við björgunarskýlið. Hún tekur þá ákvörðun að biðja Jesú að hitta sig og gerir það á hverjum degi um borð í langan tíma en aldrei verður Kristur á vegi hennar.    

Þessi kona er ákaflega hjálpsöm og miskunnsöm. Dag einn kemur til hennar gamall maður sem spyr hvort hún geti ekki gefið sér að borða. Hún bregst auðvitað vel við kalli hans, eldar handa honum góðan mat. Hann þakkar fyrir sig og heldur glaður á braut. Næsta dag gaf hún þyrstum bátsverja að drekka sem var að skúra skipsdekkið. Annan dag heimsótti hún fanga um borð sem var einmana og spjallaði við hann drjúga stund. Hann var ánægður með heimsóknina og þakkaði henni fyrir innlitið. Hún fékk til sín góða gesti sem hún hýsti yfir nótt, suma margar nætur í senn. . Hún heimsótti sjúka skipverja og lét sér annt um þá.  

Hún var yndisleg kona sem fann til með hverju lífi og þráði að fá að sjá Jesú berum augum. Svo var það dag einn að hún dustaði rykið af Biblíunni sinni. Hún opnaðist á Mattheusarguðspjalli þar sem hún las söguna um meyjarnar tíu sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar vegna þess að þær tóku olíu með sér til að koma í veg fyrir að slokknaði á lömpunum. Þegar konan las þessi orð þá rann upp fyrir henni ljós því að sjálf hafði hún haldið á logandi lampa á vegferð sinni í pílagrímagöngunni. Áhugi hennar á þessu lifandi orði vaknaði til muna og hún ákvað að lesa allan kaflann. Hvert orð virtist tala til hennar, einkum eftirfarandi orð frelsarans:  

 ,,Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín, - Allt sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra það hafið þér gjört mér”. ( Matt. 25.35- 36)  

Við þessi orð laukst upp fyrir konunni að hún hafði umgengist Jesú Krist eftir allt saman. Honum hafði brugðið fyrir í fari þeirra sem hún hjálpaði. Hún gekk út úr káetunni og fór upp á þilfar og virti fyrir sér siglutrén sem mynduðu þéttan skóg af krossmörkum. Já, táknin um návist Guðs í mínu lífi eru alls staðar, hugsaði hún með sér. Ég bara tók ekki eftir því. Og þessi ágæta kona ákvað að halda áfram að lifa sínu heiðvirða og góða lífi líkt og við  

 Breyskleiki

Ég held að við ættum að taka þessa konu okkur til fyrirmyndar, ekki síst í kreppunni sem nú ríkir. Jólin eru á næsta leyti. Þjóðarskútan svonefnda liggur mölbrotinn í brimgarðinum og góssið liggur eins og hráviði í fjörunni. Mistök á mistök ofan ollu því að þessi skúta strandaði. Þau sýna  hversu manneskjan er skammt á veg komin á þroskabraut á vissum sviðum. Græðgin varð mörgum að falli, einkum þeim sem tóku þátt í lífsgæðakapphlaupinu af fullum þunga. Þá gleymdu margir að sýna varúð og hófsemi. Verra þykir mér að þetta skuli bitna harðast á saklausu fólki sem lagt hefur árum saman til hliðar til elliáranna og missir nú atvinnuna og veraldlegar eigur sínar. En verst þykir mér á sjá spillingarklíkuna taka til sín verðmæti úr góssinu á strandstaðnum fyrir lítið sem ekkert til að hagnast á því á nýjan leik. Við erum öll reið og köllum eftir réttlæti. Réttlæti heimsins er annað en réttlæti Guðs. Stjórnmálamennirnir munu taka út sinn dóm fyrr eða síðar og þessi auðvaldsklíka einnig sem reynir nú hvað hún getur að taka mikilvægar stöður í valdapíramídanum í íslensku þjóðfélagi.  

 Réttlæti Guðs og fyrirgefning

Ég hygg að við höfum komið auga á í hverju réttlæti Guðs er fólgið. Þrátt fyrir allan breyskleika mannanna fyrr og síðar þá hefur barnið í jötunni mikilvægt vægi því að í þessu barni er fyrirgefningu Guðs að finna sem er svo stór að Guð minnist ekki syndarinnar framar, hversu lítil eða stór sem hún er.  

En iðrunin verður að koma fyrst hjá þeim sem brotið hefur af sér í hugsun, orðum eða verkum. Annars virkar fyrirgefningin ekki. Þetta finnum við á eigin skinni í samskiptum okkar við hvert annað. Ég velti því stundum fyrir mér af hverju enginn stígur fram og tekur á sig ábyrgð út af strandi þjóðarskútunnar? Svarið liggur í mannlegum breyskleika sem er t.d. hrokinn.   

 Náungakærleikur

Annað atriði langar mig til að minnast á en það er náungakærleikurinn.  Við höfum tekið eftir því undanfarnar vikur hversu þörfin á kærleika í garð náungans hefur vaxið. Ef einhvern tíma var þörf á kærleika í garð náungans þá er sú stund runnin upp núna. Og ég hef tekið eftir því að þessari þörf hefur verið mætt í vaxandi mæli en áður. Og þörfin verður brýnni með hverjum deginum sem líður fram að jólum og þegar þeim sleppir. Þessi trú, von og kærleikur á rætur sínar í barninu í jötunni, manninum á krossinum, hinum upprisna Jesú Kristi sem við tilbiðjum í anda og sannleika á jólum.  

Trúin, von og kærleikur í garð náungans er ekki aðeins málefni helgidaganna og hátíðanna heldur hversdagsins. Þessu þurfum við að miðla allan ársins hring þar sem við siglum seglum þöndum um borð í gömlu skútunni,  þjóðkirkjuskútunni sem aldrei siglir í strand vegna þess að skipstjórinn Jesús Kristur, þekkir hættu boðana og torleiðið af eigin raun. Hann hefur kannað þetta fyrirfram til þess að hann geti leiðbeint okkur og vísað okkur leiðina heim að föðurhjarta Guðs. Honum einum sé viskan, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

Á aðventunni árið 2007 samdi höfundur aðventuhugvekju sem nefnist ,,Vörðuð gata pílagrímsins á aðventu”. Hún er varðveitt á trú.is  Hugvekjan um bjargráð pílagrímsins er framhald þeirrar hugvekju.