Má bjóða þér hamingjutíma?

Má bjóða þér hamingjutíma?

Guð þorir. Í djúpi kristninnar er boðskapur um að Guð tekur upp á hinu óvænta og leggur sig í hættu vegna lífsins. Kristin trú er ekki átrúnaður hins læsta heimskerfis. Guð er hefur áhuga á að skapa líf en ekki kerfi. Þú mátt lifa í þeim anda, hugsa hættulegar hugsanir og þora. Má bjóða þér hamingjutíma?

[audio:http://db.tt/HKR4f0cO] Nýr tími og nýir möguleikar. Áramót veita tækifæri til að núllstilla, gera upp, stilla kompás og forgangsraða. Hvað skiptir máli og hvernig viljum við lifa? Hvernig getum notið þess tíma best, sem okkur er gefinn? Við, menn, erum ekki sköpuð til þrældóms heldur frelsis. Við eigum ekki að láta áreiti eða ofstjórn annarra skilgreina orð okkar og æði. Við megum hugsa sjálf, taka ákvörðun um gildi okkar og meginmál í lífinu. Ef við látum aðeins stjórnast af áreiti daganna og gerum ekkert annað en að bregðast við þá hættum við að heyra rödd hjartans. Þá blæs viskan hjá og spekin líka. Við þurfum stefnu og stjórn rétt eins og skipið, sem leggur úr höfn og siglir lífssjóinn. Æfisiglingin þarfnast korta, stefnu og stjórnar. Brian Tracy minnti einhverju sinni á, að það sé öllum þeim sameiginlegt sem ná árangri í lífinu að setja sér markmið til lengri og skemmri tíma. Má bjóða þér hanmingjutíma, hamingjuár?

Að skipuleggja tímann Ég heyrði einu sinni áhugaverðar spurningar um lífið, sem voru eitthvað á þessa leið: Hvenær viltu fara á eftirlaun? Hvað segir þú um hefja eftirlaunatímann snemma, kannski bara um þrítugt? Eða um fertugt eða jafnvel reglulega? Er alveg sjálfgefið, að skólaganga standi frá tveggja ára aldri og í mörgum tilvikum fram á þrítugsaldurinn, en þá taki við vinnutími til 65-70 ára aldurs – en þá byrji eftirlaunatíminn. Er þetta alveg nauðsynleg og ófrávíkjanleg skipan?

Ég sá fyrirlestur á veraldarvefnum um hvernig við getum breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins sem best. Fyrirlesarinn minnti á, að mörg okkar eigum þrískipta æfi. Fyrst koma bernsku- og náms-árin, oft nærri tuttugu og fimm ár. Síðan tekur við starfsæfin sem eru gjarnan fjörutíu ár ef heilsan er góð og vinnustaðir eru normal. Síðan taka við eftirlaunaárin og ellin. Margir leggja mikið á sig til að komast sem fyrst á eftirlaun. Til hvers? Jú, til að geta gert það, sem þeim þykir skemmtilegt, teygja úr tánum og slaka á. En hentar öllum þessi þrískipting æfinnar?

Fyrirlesarinn sagði frá, að hann hefði ákveðið að fara aðra leið í eigin lífi, fara reglulega á eftirlaun en vinna þó lengi! Hann ákvað að dreifa eftirlaunaárunum á alla starfsæfi sína og fara því seinna í hvíld ellinnar. Fyrsta árið fór á hann á “eftirlaun” þegar hann var liðlega þrítugur og þá í eitt ár. Svo tók við vinna í sjö ár og þá tók við nýtt náðarár til að gera það, sem hann langði mest til. Hann tók ákvörðun um, að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti. Þegar leyfisárið rennur upp lokar hann hönnunarstofu sinni, sem hann rekur í New York, og er þá búinn að safna fé til fríársins og allir á stofunni fara líka í leyfi. Fjárhagslega hefur þetta gengið betur en hann hafði búist við því gæði vinnunnar urðu meiri en áður og annars hefði orðið. Svo fæst tími til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manns óháð hasar daganna.

Tími til eflingar Ég varð hugsi við þessa lífsskipan, hugsi um eðli lífs og líka Guðs. Ég hef farið í hvarf í námsleyfi og veit hve sá tími getur verið undursamlegur, ef maður nýtir hann vel og með ákveðnu uppbyggingarmóti. Slíkur náðartími er ekki til að komast burt frá amstri og því sem er leiðinlegt og lýjandi, heldur frátekinn tími í þágu innri manns, eflingar andans, tími sem er skipulagður til að efla lífsgæði hið innra, auka sálarmátt, næra fegurðarsókn, hugsa langar hugsanir og stæla skrokkinn. Við þörfnumst heilsuræktar líkamans og einnig hinna hefðbundnu leyfa á hátíðum og að sumri.

En svo er það skipulag æfinnar. Mörgum er mögulegt að taka ákvörðun um að dreifa eftirlaunatímanum á ævina. En það krefst þess, að málum sé raðað í forgang. Í stað þess neyslu er sparað, fjármunir lagðir til hliðar til andlegrar iðju fremur en kaupa hluta og eigna. Fæstir telja við æfilok, að eignir hafi skipt meira máli en óefnisleg lífsgæði. Stærsta sorg fólks er jafnan að hafa puðað í yfirborðsmálum fremur en að hinu djúpsækna. Sorgin varðar hið djúpa og þar eru alltaf ástvinir.

Hin opna afstaða Nú eru áramót og tímaskil gefa andrúm til íhugunar. Hvers þarfnastu í þínu lífi? Ertu á þeim krossgötum, að þú getir ákveðið að fara í hvarf reglulega? Þú getur hagað málum eins og þér hentar. Kannski eru þrír mánuðir í fyrsta sinn hentugur tími, kannski hálft ár? Hið mikilvæga er að skoða og íhuga æfihrynjandi þína, hvernig þú vilt lifa, hvers þú óskar og hvað þú þráir. Þú mátt gjarnan skilgreina markmið þín og setja þinn kúrs. Ef þú kemst ekki í heilt ár eða einhverja mánuði er alla vega kostur að nýta eina viku í að stæla anda þinn og baða þig í lindum visku og trúar.

Aðferðirnar til þess eru margar, t.d. að fara í hvarf á kyrrðardögum, eiga kyrran tíma til að skoða lífskortin, að hvíla sig og eiga næði með Anda Guðs. Kyrrðardagar eru vissulega ekki að fara á eftirlaun, en þeir eru vettvangur heilsueflingar, aðrein hamingjuvegs. Allir þarfnast þess að staldra við. Ég hvet þig á nýju ári til að taka frá tíma til innri vinnu. Má bjóða þér reglulegan unað, sjálfseflingu og lífsgleði? Regluleg starfslok eru valkostur og regluleg ræktun innri manns er allra þörf.

Tíminn er ekki bara peningar. Tíminn er ekki heldur aðeins hinn krónlógíski tími. Tími í lífi okkar er meira en hið fjórvíða tímarými. Tími þinn getur verið angistarfullur sorgartími, bjarleitur gleðitími, stórkostlegur barneignatími, áhyggjutími eða tími algleymis og hamingju. Til er tími veraldar en svo er til himneskur tími. Við erum vissulega verur í heimi tímans, en í okkur á frelsið heima. Við megum sjálf gefa tímanum merkingu. Við getum tekið við gjöfum Guðs og búið til tíma til góðs. Hver stund og hver dagur er slíkur gjörningur. Hin trúarlega nálgun er að leyfa himni og heimi að kyssast, leyfa tíma og eilífð að faðmast í okkar eigin lífi. Þá farnast okkur vel því þá fær tíminn að fléttast að hinu guðlega og stóra, tilfinning þín að hinu stórkostlega, hið jarðneska að æfintýri eilífðar, hið smágerða fær að verða púsl í verðandi stóra Guðspúslsins. Guð opnunnar Nítugasti Davíðssálmur, lexía nýársdags, er bæn guðsmannsins Móse, sem sr. Matthías Jochumsson hreifst af. Í anda þess sálms orkti hann þjóðsöng Íslendinga. “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. .... frá eilífð til eilífðar ert þú ó guð.” Og svo fléttar Matthías tíma og eilífð saman svo að himinn og jörð kyssast og á smáblómi eilífðar titrar tár.

Krossgötur og áramót opna og gefa færi til langra hugsana. Hvað viltu gera við nýtt ár, hvíta og bjarta daga, brosandi stundir, bjarta veröld vonanna? Máttu leyfa þér að hugsa nýjar hugsanir og jafnvel hættulegar? Já. Í djúpi kristninnar er boðskapur um að Guð þorir og að Guð breytir um stefnu og tekur upp á hinu óvænta. Það er því einnig eðli veraldarinnar, lífsins. Boðskapurinn um Jesú merkir, að Guð kemur út úr ofuröryggi hins guðlega og inn í veröld óreiðu og hættu. Guð leggur sig í hættu vegna lífsins. Nafnið Jesús merkir að Guð bjargar, frelsar, hjálpar.

Kristin trú er ekki átrúnaður hins hrædda og ofurskipulagða, heldur trú á að Guð er Guð alls sem er, tíma og eilífðar, heims og himins, festu og nýjungar, sköpunar og möguleika. Kristin trú er ekki niðurnjörvaður átrúnaður hins læsta heimskerfis heldur ferð inn í von, ljós, bót, gleði, ást. Guð er hefur áhuga á að skapa líf en ekki kerfi. Þú mátt lifa í þeim anda og því skoða líf þitt með nýjum augum á hverri tíð. Því máttu gjarnan staldra við og skoða lífskortin, ákvarða siglinguna og muna að það verður engin sigling ef skipið er bara bundið við kæjann. Útgerðarstjóri himinsins kallar þig til lífs: “Til hvers lifir þú og fyrir hvað?” Þú svarar með lífi þínu. Guð geymi þig þegar þú breytir tímanum þér og þínum til góðs. Má bjóða þér hamingjutíma? Guð gefi þér hamingjuár. Í Jesú nafni, amen.

Hugvekja flutt í Neskirkju, 1. janúar, 2012.

Textaröð: A Lexía: Slm 90.1b-4, 12 Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

Pistill: Gal 3.23-29 Áður en þessi leið var fær vorum við innilokuð í gæslu lögmálsins þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara. Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Lúk 2.21 Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.