Hvað er bæn?

Hvað er bæn?

Móðir Teresa var einhverju sinni spurð af blaðamanni hvort hún eyddi löngum stundum í bæn. Hún svaraði játandi. "Og hvað segirðu við Guð?" spurði blaðamaðurinn. "Ekkert," svaraði hún. Og hvað segir Guð þá við þig? "Ekkert" svaraði Móðir Teresa enn.

[Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn. Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.Lærisveinar hans sögðu: Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði. Jóh.16.23b-30

Að biðja sem mér bæri mig brestur stórum á. Minn Herra, Kristur kæri, æ, kenn mér íþrótt þá. Gef yndi mitt og iðja það alla daga sé með bljúgum hug að biðja sem barn við föður kné. Sb. 1886 nr. 164 - Björn Halldórsson

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

"Það er erfitt að biðja ef þú veist ekki hvernig á að biðja. Fyrsta ráðið er að nota þögn. Sálir biðjenda eru sálir mikillar þagnar. Við getum ekki sett okkur sjálf beint í nærveru Guðs ef við iðkum ekki innri og ytri þögn. " Þessi hugsun er fyrsta hugleiðing Móður Teresu í bæna- og hugleiðingabók fyrir hvern dag ársins.

Bæn er ekki fyrst og fremst orðin sem við berum fram. Bæn er að opna fyrir Guði. Bæn er að bjóða Guð velkominn í samfélag okkar. Bæn er að hlusta á Guð.

Móðir Teresa var einhverju sinni spurð af blaðamanni hvort hún eyddi löngum stundum í bæn. Hún svaraði játandi. "Og hvað segirðu við Guð?" spurði blaðamaðurinn. "Ekkert," svaraði hún. Og hvað segir Guð þá við þig? "Ekkert" svaraði Móðir Teresa enn.

Bæn er að vera með Guði. En bænin kemur ekki til með að verða þetta nema við iðkum bæn. Þá er hún orðin djúpt og merkingarríkt samband sem veitir hugsvölun og fullnægju. Þið vitið hvernig það er með góðan vin. Það er hægt að þegja með honum og það er gott. Þegar við erum innanum fólk sem við þekkjum lítið, koma ekki þessar innihaldsríku þagnir, við höldum uppi snakki sem stundum er innihaldslítið, bara fyrir kurteisissakir. Vináttan byrjar þannig og þróast síðan með miklum samskiptum.

Vinátta er ekki bara innihaldsrík þögn, stundum er þörf fyrir að tala, og mala um sín hjartans mál. Þar ríkir traust, góðum vini er hægt að segja frá því sem virkilega skiptir máli.

Það sama á við í bæninni. Þó að kyrrðin og þögnin sé ein hlið bænar, þá er líka nauðsynlegt að tala. Orðin, setningarnar eru ekki nauðsynleg fyrir Guð, heldur fyrir okkur. Þegar við segjum bænina upphátt verður hún raunverulegri fyrir okkur. Við mótum hugsun sem við gerum að bæn, við skerpum huga okkar og gerum okkur grein fyrir hvers við biðjum, með því að segja það upphátt.

* * * Það er víða hvatning í Biblíunni til bænar. Af henni getum við líka lært hvernig við eigum að biðja. Daviðíssálmarnir eru meira og minna bænir.

Ég ætla að taka dæmi þaðan til að draga fram blæbrigði bænar.

Í 25. sálmi er hrópið svona:

" Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni. Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður. Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum. Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar. Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig. Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis. Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég. Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans."Sálm.25.15-22

Hér er hrjáð manneskja sem hrópar í angist til Guðs. Biðjandinn lýsir líðan sinni, það megum og eigum við einnig að gera frammi fyrir Guði. Það er beðið um fyrirgefningu og líkn. Það er kvartað yfir óvinum og beðið um varðveislu frá illu og frelsi. Manneskjan biður um að Guð hjálpi henni svo hún verði ekki til skammar. Það er beðið um að Guð gefi ráðvendni og hreinskilni svo að það megi varðveita biðjandann. Í lokin biður viðkomandi fyrir frelsun fyrir Ísrael, þ.e.a.s. það er beðið fyrir allri þjóðinni. Í sömu mund minnir biðjandinn sig og Guð á að hann setur alla von sína á Drottinsem hefur greitt fót hans úr snörunni.

Það ýtir kannski við einhverjum hve biðjandinn biður þarna ákaft fyrir sjálfum sér, en setur bæn fyrir öðrum aftast. Það hefur verið greipt í huga margra kristinna að við eigum að hugsa meir um aðra en okkur sjálf. Slík bæn gæti í huga þeirra virst frek og sjálfselsk. Ef við skoðum tvöfalda kærleiksboð Krists, er ástæða að lyfta því upp að Jesús sagði, þú átt að elska náungann eins og sjálfan þig. Þ.e. þú átt að gefa þér rými, því þú átt að elska þig á jákvæðan, og uppbyggilegan hátt eins og náunga þinn.

Ef við skoðum bænina sem Jesús kenndi lærisveinum sínum sjáum við að þar fer mikið rými í að heiðra Guð og óska þess að vilji hans verði ríkjandi á jörðu eins og hann er á himni. Í það fara þrjár fyrstu bænir Faðirvorsins. Þar á eftir biðjum við þriggja bæna fyrir okkur sjálfum og í einni þeirra felst bæn um fyrirgefningu fyrir náunga okkar. Að lokum er lofgjörð til Guðs, því að hans er ríkið, mátturinn og dýrðin. Af þessu má sjá að Jesús vill að við biðjum fyrir okkur sjálfum.

* * *

Þegar við förum að biðja reglulega til Guðs þekkir hver biðjandi þá hættu að biðja einungis fyrir sjálfum sér. Ef grant er skoðað hættir okkur til að biðja Guð að bjarga málunum eins og okkur sýnist hagkvæmast. Við ætlum að stýra því hvernig Guð svarar bænunum. Þetta er hluti af þroskaferli biðjandans. Slíkar bænir sjáum við t.d. í Davíðssálmum. Hver sem biður slíkra bæna hefur líka rekið sig á að sjá ekki bænasvör. Það er af því biðjandinn einblínir á aðeins eina birtingu bænasvars. Guð svarar bæninni samkvæmt sinni heildstæðu vitneskju um hvað okkur er fyrir bestu.

Það er til lítil saga af trúaðir stelpu sem bað Guð að gefa sér hjól. Hún sagði öllum í fjölskyldunni frá bæn sinni. Frændi hennar sem ekki trúði á Guð stríddi henni og sagði að hún fengi ekkert bænasvar. Telpan bað og bað um hjól en ekkert bólaði á því. Þegar frændinn kom í heimsókn nokkru seinna spurði hann telpuna hvort hjólið væri komið.

"Nei," hváði stelpan við. "Ég sagði þér það, Guð svarar ekki bænum" sagði frændinn hróðugur. "Jú víst, hann hefur svarað." sagði hún. "Nú. Hvar er þá hjólið?" "Guð sagði nei."

Guð segir nei þegar við biðjum í andstöðu við það sem okkur er fyrir bestu. Það er leyndardómur þess sem Jesús sagði í guðspjalli dagsins. Hann sagði:

Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn." Jóh.16.23b,24

Að biðja í Jesú nafni merkir að við biðjum eftir vilja hans. Vilji Jesú er hinn sami og vilji Guðs föður, en Páll postuli segir okkur að vilji Guðs sé "hið góða, fagra og fullkomna." Róm.12.2 Tökum eftir því að Jesús hvatti fylgjendur sína til að biðja eftir vilja hans svo að fögnuður þeirra yrði fullkominn. Það er fólgin mikil umbun í bæninni. En öll erum við ónýtir biðjendur eins og bæn Björns Halldórssonar sem ég fór með í upphafi minnir okkur á.

Það mikilvægasta til að ná árangri í bænaiðkun er líklega að taka frá fastan tíma á hverjum degi til bæna. Við megum þar leggja allt fram fyrir Guð, okkar sárustu jafnt sem gleðilegustu hugsanir. Við eigum að tileinka okkur samræðuna við Guð eins og hann sé okkar allra nánasti vinur. Smám saman lærist okkur að biðja Guð um bænasvar eftir hans vilja. Með því öðlumst við hvíldina, gleðina og endurnæringuna sem bænin veitir.

Það er líka gagnlegt að nota bænavers sem við þekkjum, eða gera bænir annarra úr bænabókum að okkar. Það gefur okkur víðsýni í bæninni og eykur þroska. En það er líka ákveðin samsömun með kjörum annarra og vekur okkur stuðning að sjá að fleiri en við biðjum á þessum nótum.

Best er þó að vita að Jesús biður fyrir okkur og með okkur (Róm.8.34). Höfum það í huga í hvert sinn er við biðjum Faðirvorið að Jesús er okkur við hlið og tekur undir bæn okkar. Og í Faðirvorinu liggja bænir fyrir öllum þörfum okkar.

* * *

Guð gaf okkur í skírninni gjöf heilags anda. Það er sami andinn og Jesús sagði lærisveinum sínum að leita eftir hans dag, því heilagur andi yrði fulltrúi hans og málsvari á jörðinni eftir að hann væri stiginn upp til himna. Það er heilagur andi sem fræðir okkur um Jesú og minnir okkur á allt sem Jesú tilheyrir. Heilagur andi skapar í okkur trúna, og hann biður fyrir okkur eftir vilja Guðs þegar við vitum ekki hvernig biðja ber (Róm.8.26-27).

Nú er árstíminn sem minnir okkur á úthellingu andans á Hvítasunnudag. Við ættum að biðja eins og postularnir forðum um úthellingu andans yfir okkar líf. Því það er heilagur andi Guðs sem starfar í dag í heiminum og gefur okkur kraft til að lifa fullburða kristnu lífi. Ef bænalífið er þurrpumpulegt, biðjum Guð að úthella anda sínum yfir okkur. Jesús gaf okkur fyrirheit um það, að ef veraldlegir feður og mæður vildu gefa börnum sínum góðar gjafir þá vildi Guð miklu fremur gefa þeim heilagan anda sem biðja hann (Lk.11.13). Biðjum í von og trúarvissu, því slík bæn er samkvæmt vilja Jesú og hefur þegar verið heyrð á himnum.

Postulinn Páll hvetur okkur til bæna á þennan hátt:

" Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú." Fil.4.6,7

Það er fyrirheit um frið sem fylgir bænunum.

Við erum hvött til að leggja málefni okkar framfyrir Guð. En við erum líka hvött til að þakka.. Þakka fyrir bænasvör, þakka fyrir að eiga aðgang að ástríkum Guði. Með þakklætinu lærum við að njóta þess sem við þiggjum. Þakklætið opnar augu okkar fyrir fyrir gæðum í lífinu. þakklætið vekur gleði. Af þakklæti sprettur fram lofgjörð til Guðs sem elskar sköpun sína. Hugsum til þess að í upphafi og endi Faðirvorsins er lofgjörð og tilbeiðsla. Það er eðlilegur þáttur af bæn, sem sprettur fram þegar við skynjum elsku Guðs til okkar.

Lofgjörð Páls postula brýst fram á þennan hátt:

"En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen." Ef.3.20,21

* * *

Munum að bæn er að opna fyrir Guði. Drottinn veit um allar okkar þarfir, meir en það, hann elskar okkur eins og segir í guðspjallinu. Guð þráir að mæta bænum okkar langt umfram það sem við þorum að vona.

Leyfum okkur að gera bænina meira að samfélagi þar sem við njótum nálægðar Guðs.

Að lokaorðum vil ég gera orð Móður Teresu sem hljóða svo:

"Jesús er alltaf að bíða okkar í þögninni. Í þeirri kyrrð vill hann hlusta á okkur, þar vill hann tala við sál okkar, og þar munum við heyra rödd hans."

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.