Einingarband

Einingarband

Um þessar mundir horfum við upp á hin kristnu Vesturlönd æ meir á valdi bölsýni og uppgjafar. Tilfinningin fyrir tilvist Guðs hefur daprast í okkar heimshluta. Það sorgleg staðreynd. Mér finnst næsta augljóst, þótt öðru sé gjarna haldið fram, að brotthvarf guðsvitundar úr menningu og uppeldi okkar heimshluta hafi ekki leitt til aukins víðsýnis og skynsemi, heldur þvert á móti til vaxandi trúgirni og hleypidóma, og máttleysis andspænis hverskonar öfgum.

Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum. Jesús svaraði þeim: Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig, en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna. Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. Ég og faðirinn erum eitt. Jóh 10.22-30

Gleðilega hátíð, á kirkjudegi Dómkirkjunnar í Reykjavík, 210 ára vígsluafmæli hennar. Eins er hér fagnað upphafi Tónlistardaga Dómkirkjunnar, sem um aldarfjórðungsskeið hafa sett svip sinn á og auðgað menningarlíf borgarinnar. Það er margt að gleðjast yfir á þessum degi, minnast og þakka. Þakka ykkur, Dómkór og tónlistarfólk sem flytjið okkur yndislega tóna Mozarts, þann undursamlega léttleika, himneska, tæra, hreina, sanna fegurð, sem lyftir þessari stund. Guð blessi þau öll sem halda hér uppi helgri iðkun, boðun og helgum söng. Guð blessi þau sem hér eiga sér andlegt athvarf og leggja sitt að mörkum til þess að hér er opinn helgidómur lifandi safnaðar, sem er salt og ljós í höfuðborginni. Guð blessi það og allt sem þessi aldni helgidómur stendur fyrir í minningu og sögu þjóðar og kirkju. Í ár hefur verið minnst að 950 ár eru liðin frá því að Ísleifur var vígður biskup og Skálholt varð biskupssetur, og 900 ár frá því að Hólabiskupsstóll var stofnsettur. Eins eru rétt tvöhundruð ár síðan Geir Vídalín, sem fyrstur bar titilinn biskupinn yfir Íslandi, settist að í Reykjavík, hér í Aðalstræti 10. Þetta er mikið minningarár biskupsdæmisins á Íslandi.

Þegar Dómkirkjan í Reykjavík var vígð, 30. október 1796, þá leysti hún af hólmi Víkurkirkju, Jónskirkju postula í Vík, eins og hún var gjarna kölluð. Víkurkirkja sem áratug áður varð dómkirkja suðurstiftisins, var helguð Jóhannesi guðspjallamanni.

Guðspjall dagsins er einmitt úr guðspjalli hans, Jóhannesarguðspjalli. Jóhannes guðspjallamaður hefur verið nefndur “postuli kærleikans.” Hann var yngstur postulanna, vart af barnsaldri þegar atburðir þeir sem guðspjöllin greina frá gerðust, “lærisveinninn sem Jesús elskaði,” segir í guðspjalli hans. Hann varðveitir ýmsar fegurstu perlurnar af vörum Jesú, opinn barnshugurinn hefur drukkið í sig þau heilnæmu orð og dæmi, og síðar vefur hann þau svo listilega inn í frásögn sína af Jesú, að rit hans eru óviðjafnanleg að fegurð og tign. Hann geymir orð Jesú sem einatt hafa huggað í sorg og neyð: “Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig! Hann geymir orðin sem svala og sefa: “Ég er ljós heimsins” Ég lifi og þér munuð lifa.” Og hann geymir orðin sem draga gjörvallan boðskap kristninnar saman í einni setningu: “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” Og úr guðspjalli hans eru orð Jesú, hugnæm og yndisleg: “Ég er góði hirðirinn.” Og guðspjall þessa dags: “Mínir sauðir heyra raust mína. Ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir munu aldrei að eilífu glatast.”

Jóhannes er sá eini postulanna sem þurfti ekki að gjalda trúna á Jesú Krist lífi sínu. Allir hinir postularnir voru deyddir píslarvættisdauða. Jóhannes lifði til hárrar elli, eftir því sem helgisagnir herma, og lauk ævi sinni sem biskup í Efesus, þar sem nú er í Tyrklandi. Þar hafði hann búið ásamt Maríu, Guðs móður, uns hún var burt kölluð af heimi. Ungur stóð hann við krossinn á Golgata á þeim dimma, langa degi, þegar lausnarinn leit til hans og sagði: “Nú er hún móðir þín!” Og við Maríu, móður sína, sagði hann: “Nú er hann sonur þinn!” Kærleikurinn er ekki fólginn í frómum hugsunum. Kærleikurinn, umhyggjan birtist í verki, gerir ráðstafanir, kærleikurinn er trú í verki. Eins og Jóhannes sagði síðar í einu bréfa sinna: “Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.” Og í þeirri umhyggju hafa börnin og þau ungu sérstakan sess, sem og þau öldruðu og einmana.

Sagt er að þegar Jóhannes postuli var háaldraður orðinn í Efesus hafði prédikun hans verið þetta eitt: “Börnin mín, elskið hvert annað!“ Það var raust hirðisins góða. Kirkjan hans hér, Dómkirkjan í Reykjavík, segir hið sama við hvern þann sem hljómur klukkna hennar berst til, og hvern þann sem hingað kemur inn: “Börnin mín, elskum hvert annað!” Henni er ætlað að bera raust góða hirðisins áfram svo þau heyri sem eru hans, sem hann þekkir og vill leiða og gefa eilíft líf með sér.

* * *

Þegar Dómkirkjan í Reykjavík var vígð fyrir tveim öldum og áratug betur þá var höfuðstaður landsins rétt tíu ára. Yfir þjóðina gengu einhverjir mestu umbrotatímar og umbyltinga Íslandssögunnar, ekkert minna en menningarlegt hrun og hefðarrof. Innan fárra ára var alþingi afnumið, og Hólastóll sömuleiðis. Hin mikla dómkirkja Brynjólfs biskups í Skálholti rifin, Þorláksskrín selt á uppboði og brotið, altarisbríkin óviðjafnanlega flutt til Eyrarbakka áleiðis til Reykjavíkur, til að prýða hina nýju dómkirkju, en gleymdist á Bakkanum, og varð eyðingunni að bráð. Og jafnvel var rætt um að hin tæplega hálfrar aldar gamla dómkirkja á Hólum yrði rifin! Erfitt er að skilja þetta eyðileggingarfár. Það var sem héldist í hendur dáðleysi og metnaðarleysi annars vegar, og hins vegar óðagot í glýju framfaradrauma og nýrrar heimsmyndar sem hafði takmarkað rúm fyrir virðingu við helgar hefðir og sögu.

En hér í Reykjavík var lagður grundvöllur að höfuðborg. Það var heldur fátæklegt upphaf og dapurlegar aðstæður. Dómkirkjan var fyrsta byggingin sem þar var reist og teljast mátti sæma höfuðborg. Ég sé fólgna í því áminningu og tákn. Þjóðinni tókst að rétta úr kútnum og sækja fram til þjóðlegrar endurreisnar. Vegna þess að þjóðin átti þrátt fyrir allt verðmæti, auð, sem ekki varð tvístrað og eytt, auð sem ekki var unnt að selja á neinu uppboði og ekkert fékk grandað, hún átti andlegan arf, sem kynslóðir þessa lands höfðu borið fram, ávaxtað og frjóvgað með menningu, sið og samfélag. Það var hin kristna iðkun, kristna hefð, kristna trú sem varðveitti og ávaxtaði allt hið besta sem menningin og tungan og sagan geyma og lyftir anda og styrkir holla sjálfsmynd frjálsborins fólks. Ég er jafn sannfærður um það að sá arfur verður þjóðinni enn hamingjuleið til heilla og hagsældar, ef við höldum vöku okkar í tímans flaumi.

* * *

Um þessar mundir horfum við upp á hin kristnu Vesturlönd æ meir á valdi bölsýni og uppgjafar. Tilfinningin fyrir tilvist Guðs hefur daprast í okkar heimshluta. Það sorgleg staðreynd. Mér finnst næsta augljóst, þótt öðru sé gjarna haldið fram, að brotthvarf guðsvitundar úr menningu og uppeldi okkar heimshluta hafi ekki leitt til aukins víðsýnis og skynsemi, heldur þvert á móti til vaxandi trúgirni og hleypidóma, og máttleysis andspænis hverskonar öfgum. Erfitt reynist að ganga gegn slíku á grundvelli hefðbundinna og sameiginlegra viðmiða, gilda og kennivalds. Þeir sem dirfast að höfða til slíks eru einatt úthrópaðir fyrir fáfræði og fordóma og valdahroka. Dow Jones eða Futsji og skoðanakannanir fréttamiðla er almennt álitið sem trúverðugir mælikvarðar á raunveruleikann, en guðspjöllin og Faðir vor eru í besta falli séð sem steingervingar úr forneskju.

Trúarbrögðin eru samt komin á dagskrá, þau sækja fram til áhrifa, og í nafni trúarbragða er efnt til liðsafnaða, heilagra stríða og krossferða. Svo höfum við á hinn bóginn hatramma og þröngsýna heimshyggju sem hamast gegn trú í sérhverri mynd.

Frægur erlendur prófessor sem sótti Ísland heim í sumar hélt því fram að trúarbrögð væru rót alls ills. Hann var spurður hvernig heimurinn myndi líta út án trúarbragða og svaraði að bragði: “Nú, við myndum enn eiga tvíburaturnana!” Ja, þvílíkt og annað eins!

Tuttugusta öldin sá tilraunir með samfélög þar sem trúarbrögðin voru barin niður með hörku, útrýmt af opinbera sviðinu og upprætt úr uppeldinu. Seint verða ríki Hitlers og Stalíns kennd við frið og frelsi! Þau voru mestu manndráparar tuttugustu aldarinnar. Ríki sem settu manninn í öndvegi og leituðust kerfisbundið og markvisst við að ganga af allri guðstrú dauðri. Þau byggðu á guðlausri hugmyndafræði, sem gaf sig út fyrir að vera reist á vísindalegum forsendum og sögulegri nauðsyn. Og út frá þeirri forsendu sáu þeir Hitler og Stalín fyrir sér fyrirheitna landið rísa á fjöldagröfum milljónanna sem nauðsyn bar til að ryðja úr vegi. Samt tyggur hver eftir öðrum sömu tugguna um að verstu stríð sögunnar hafi verið trúarbragðastríð! Og rétttrúnaður samtímans telur fullvíst að þar beri kristindómurinn þyngstu ábyrgð. Víst hafa voðaverk verið unnin í nafni Krists. Trú verður sannarlega oft handbendi illra hvata heiftar og haturs. Það er harmsefni og smánar. Einhverju sinni var spurt: “Hvernig stendur á því að við höfum næga trú til að hata hvert annað, en ekki nóga til að elska hvert annað?” Sú spurning er í fullu gildi. Þess vegna skulum við hlusta eftir og taka mark á rödd postula kærleikans: “Börnin mín, elskum hvert annað!” Og leitast við að greiða því afli og áhrifum veg í þjóðlífinu sem helst má að því stuðla.

* * *

Dómkirkjan, sem hér stendur við hlið Alþingishússins, minnir á að þjóð okkar hefur mótað sér stjórnskipan og samfélag þar sem trúin er þáttur hins opinbera lífs og mótað hefur grunngildi samfélagsins. Trúin er ekki bara einkamál, trú er samfélagslegur raunveruleiki og samhengi. Dómkirkjan er áminning til alþjóðar um einingarbandið, samnefnarann, grunntóninn í menningu okkar, trú og sið.

Dómkirkjan í Reykjavík er 210 ára. Hún vitnar um sögu og samhengi kynslóðanna. Hún, eins og helgidómarnir stórir og smáir um land allt, varðveitir minningu þjóðar, og helgar landið. Og framar öllu vitnar hún um framtíð, framtíð með Kristi. Með veru sinni og starfi, helgihaldi, boðun, kærleiksþjónustu og tónlistariðkun stuðlar hún að því að byggja og móta hið góða samfélag á traustum grunni kristninnar, og leitast við að tryggja að sagan um Jesú, boðskapur hans og bænin í hans nafni verði nýjum kynslóðum í þessu landi leiðarljós og blessun. Að raust hirðisins góða berist að eyrum og snerti hjörtun og veki líf og von. Honum sé dýrð um aldir alda.