Í heimi draums og líkingamáls

Í heimi draums og líkingamáls

Þessi líking er mér huggun í veröld þar sem sífellt er barist um völd. Vígvellirnir birtast okkur víða: í stríðshrjáðum löndum, á svívirtum líkömum eða í hljóðlátu en ógnvekjandi kapphlaupi við stjórnlausa tækni sem kann að svipta okkur mennskunni. Þurfum við, mitt í þessum ósköpum ekki einmitt þá trú sem talar til okkar úr annarri átt – úr heimi draums og líkingamáls?

„Hví ekki að lifa undir formerkjum eigin trúararfs? Trúarmenning okkar er fögur. Til þess að meðtaka trú og náðarmeðul þurfum við að skilja að táknmál trúarinnar er af heimi sem vísindin komast aldrei með fótinn í. Heimi draums og líkingamáls.“


Trúin á tímum gervigreindar

 

Fer vel á því að opna með orðum Þórunnar Valdimarsdóttur sem tekur við keflinu hér að guðsþjónustu lokinni og ræðir sína Litlu bók um stóra hluti.

 

Trúararfur og trúarmenning eru vissulega hátimbruð orð sem mögulega standa í fólki. Þessa dagana þykir lítið gagn í því að rökstyðja afstöðu með vísan til hefðar og hugmynda liðinna kynslóða sem þekktu minna um heiminn en samtíminn gerir.

 

Nú eru tímar upplýsingar – þekkingu miðar svo hratt fram að engin dæmi eru um viðlíka. Fregnir berast af fólki úr innsta hring þessarar byltingar sem virðist hafa fengið nóg af því góða og vill koma sér í burtu. Vandséð er samt hvert það vill flýja.

 

Við stöndum á þröskuldi nýs kapphlaups – við getum kallað það vígbúnaðarkapphlaup sem mín kynslóð tengir við. En staðan virðist vera einhvern veginn svona: Ef fram fer sem horfir verðum við, mannfólkið, ekki lengur með bestu heilana á plánetunni. Þess er skammt að bíða, segja kunnugir að títtnefnd gervigreindin geti ekki bara unnið þau verk sem eru einhæf og endurtekningarsöm. Hún geti hún líka sinnt störfum sem mannshugurinn ræður ekki við að því ógleymdu að semja listaverk af áður óþekktum gæðum.

 

Fræðimenn sjá í þessu ógn. Af hverju? Jú, það er eitthvað nöturlegt við þá tilhugsun að við hröpum niður í annað sætið á heimslistanum í greind. Gáfur okkur hafa fram að þessu gert okkur kleift að koma grimmilega fram við aðrar lífverur jarðar. Við réttlætum þá meðferð með vísan til þessara yfirburða. Er von að uggur fari um fólk ef flugreindar tölvurnar taka upp framferði okkar.


Kynbæling

 

Já, trúararfur, Þórunn tengir hann ekki aðeins því fagra, í gegnum hann fléttast líka drottnun, á lífríki, kynjum, kynþáttum og kynslóðum. Hún bendir á að kenna megi „kristninni um ægilegar kynbælingar sem gera það að verkum þrátt fyrir afhelgunina að ótrúlega erfitt er að tala um það allra viðkvæmasta.“

 

Þennan tepruskap sem hún og margir aðrir tengja við kristna trú má þó setja í ákveðið samhengi. Hún reyndar ýjar að því, víða í bókinni þegar hún ræðir baráttu kirkjunnar manna gegn fjölkvæni. Áður áttu hinir voldugu margar spúsur en þeir sem minna máttu sín þurfu að sætta sig við einlífi. Valdakarlar hafa í gegnum tíðina látið aðra kenna á mætti sínum og sannarlega þekktu þeir enga kynbælingu. Þeir höfðu fullan rétt yfir líkömum þræla sinna og þegna.  

 

Kollegar Þórunnar hafa í þessu sambandi séð í aldalangri bælingu kirkjunnar hliðstæðu með metoo vakningu síðustu ára. Í báðum tilvikum var bent á eitraða samblöndun valda og kynlífs og hvatt til siðprýði og háttsemi á þeim sviðum. Ráðamenn eru krafðir þess að bæla hvatir sínar og setja þá í siðsamlegan farveg.


Valdhafar tamdir

 

Þessi trúararfur er nefnilega ekki viðleitni til að halda öllu í föstum skorðum. Hann getur líka tekið á sig mynd róttækra breytinga og umbóta. Þar lesum við harða gagnrýni á það hvernig ráðandi stéttir fara með völd sín.

 

Þetta lesum í í frásögnum allt frá Natani sem var spámaður við hirð Davíðs fyrir þrjúþúsund árum, til kristinna safnaða sem börðust gegn þrælahaldi og kynþáttamismunn. Kirkjusagan er í þeim skilningi saga sístæðrar viðleitni til að endurbæta og siðbreyta ríkjandi trú og framkomu okkar hvert við annað.

 

Já, þegar við horfum til baka og veltum því fyrir okkur hvernig þessi arfur birtist – þá er það oftar en ekki í tengslum við það hvernig við greinum og skiljum það hvernig sumir öðlast yfirráð yfir öðrum. Það eru einmitt þessi völd, sem mörgum eru hugleikin þessa dagana, þegar svo gæti farið að mannkynið sé andartökum frá því að missa þau úr greipum sér.


Nýtt boðorð

 

Eru þessi textar sem hér voru lesnir ekki ágætt dæmi um þessa menningu? Sá fyrsti, úr Tóbítsbók, birtir okkur þá sýn að Guð einn hefur völdin. Þið sem fylgdust með krýningu Bretakóngs í gær hafið mögulega skynjað sambærilega hugsun þar.

 

Mitt í allri dýrðinni kom þessi áminning um að kóngur ætti fyrst og fremst að þjóna fólkinu sínu. Slík krafa til valdhafa nær langt aftur í tímann og er arfur úr kristinni trú. Hin verstu rustamenni, forverar Karls og annars kóngafólks, máttu beygja sig undir sömu yfirlýsingar þegar þeir voru krýndir. Valdhafar skyldu gæta hófs og milli lína í eiðstaf þeirra má greina þá hugsun að framkoman við hin minnstu systkini okkar, sé hinn sanni mælikvarði á gæði lífs og breytni.

 

Þetta birtist auðvitað skýrast á krossinum, þar sem hinn æðsti líður þjáningarfullan og auðmýkjandi dauðadaga.

 

Og við getum lesið hina texta dagsins með þetta í huga. Jóhannesarbréfið fyrsta setur kærleikann sem mælikvarða á mannlega breytni. Á öðrum stað í því bréfi lýsir hann því yfir að hver sá sem segir trúa en hati náunga sinn, sé óheill í sinni afstöðu – í rauninni lygari. Hér er með öðrum orðum spjótum beint að trúarleiðtogum sem misnota vald sitt.

 

Loks er það texti guðspjallsins: Þegar Jesús talar um boðorð og snýr því upp á kröfuna um gagnkvæma ást – má segja að það jaðri við helgispjöll í hugum þeirra sem á hlýddu. Boðorðin – sjálft lögmálið – voru jú kjarninn í hinu gamla samfélagi. Þau voru geymd í kistu í hinu allra heilaga í musterinu, því sem samsvarar altarinu í kirkjum. Þetta voru leikreglur um mannlega hegðun – boðorð sem af innihaldinu að dæma hefði fremur mátt kenna við bannorð.

 

En Jesús leysir þau upp með þessum orðum. Og hann rýfur um leið mörk yfirráðs og stéttskiptingar á milli sín og lærisveinanna: „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum.“


Kreddulaus tilvera

 

Aftur getum við lesið þessa texta með völdin í huga og skynjað hversu róttækir þeir geta verið. Sú menning sem spratt upp af orðum Jesú er einmitt lifandi og síbreytileg. Þetta finnst mér Þórunn greina svo vel í hugleiðingu sinni um lífið og tilveruna – sem er orðið sem hún kýs að nota yfir guðdóminn:

 

„Við skynjum öll trú, meira og minna, þegar barnið er skírt og ástvinur liggur í kistu. Bullandi þökk og nístandi sársauka. Helgi Tilverunnar sem liggur handan takmarkaðrar getu þess mannlega sem þykist hafa lagt undir sig jörðina. Við þurfum magabrauð, hugbrauð og hjartabrauð.“

 

Þetta lesum við jú um í þessari góðu bók sem kollegi minn einn kallaði „guðfræðilega skemmtigöngu“. Við tökum þessar hugsanir í arf og það er ekki lítils virði að halda þeim lifandi og vakandi. Margur hefur áhyggjur af stöðu kristninnar hér á landi sem víðar. Sjálf telur Þórunn að milli kristni og þjóðar sé „tryggðarband“. Óskandi er að sú mynd sé sönn.

 

„Táknmál trúarinnar er af heimi sem vísindin komast aldrei með fótinn í. Heimi draums og líkingamáls.“

 

Þessi líking er mér huggun í veröld þar sem sífellt er barist um völd. Vígvellirnir birtast okkur víða: í stríðshrjáðum löndum, á svívirtum líkömum eða í hljóðlátu en ógnvekjandi kapphlaupi við stjórnlausa tækni sem kann að svipta okkur mennskunni. Þurfum við, mitt í þessum ósköpum ekki einmitt þá trú sem talar til okkar úr annarri átt – úr heimi draums og líkingamáls?

 

Þannig verður trúin síbreytileg og síhvik frá einum tíma til annars en kjarni hennar er sá sami, hvernig svo sem dogmurnar hljóma – að bæta og efla það góða í hverri manneskju. Þetta orðar Þórunn vel og ég geri þau orð að mínum lokaorðum:

 

„Má bjóða yður að opna hjartað, leggjast á jörð undir stjörnuhiminni og tilbiðja Tilveruna, kreddulaust?“