Að endurnýja traustið

Að endurnýja traustið

Við horfum fram til þess tíma þegar „öll jörðin nýtur hvíldar og friðar, fagnaðaróp kveða við“ svo að enn sé vitnað í Jesaja (14.7). Sá tími er augljóslega ekki runninn upp. Hryðjuverkin í Beirút á fimmtudag og í París á föstudagskvöld eru hræðileg áminning um það. Við finnum til og neyðumst til að horfast í augu við hvað jarðneskur veruleiki, lífið okkar hér og nú, er viðkvæmt.

Manstu þegar þú lást við brjóst móður þinnar? Manstu hlýjuna, ilminn, tilfinninguna þegar hlý og mettandi mjólkin rann niður hálsinn og alla leið niður í maga? Manstu umhyggjuna sem þú naust í fangi föður þíns, öryggið, traustið?

Alhliða næring í faðmi mömmu og pabba Tæplega munum við frumbernskuna svo vel að geta rifjað upp á tilfinningu að teyga í okkur móðurmjólk eða ylvolgan vökva úr pela í fangi hans eða hennar sem við treystum. En þarna var það sem grundvallarviðhorf okkar til lífsins mótaðist. Í andliti mömmu og pabba sáum við kærleika, í faðmi þeirra fundum við öryggi. Þessi mynd, af barni í fangi foreldris, hjálpar okkur að skilja blessunarorðin: láti sína ásjónu lýsa yfir þig, upplyfti sínu augliti yfir þig. Augnatillitið sem fylgdi því að frumþörfum okkar var sinnt mótar mynd okkar af Guði.

Þroskasálfræðingurinn Erik Erikson talar um að verkefni frumbernskunnar sé að læra að treysta því að þessum þörfum sé sinnt, bæði fyrir líkamlega næringu og tilfinningalega. Séu þau sem annast barnið fyrstu æviárin þess umkomin að veita alhliða næringu skapast grundvallar traust, von um að allt fari vel. Kenning Erikson á einstaklega vel við kristið lífsviðhorf, enda má segja að það að trúa á Guð sé spurning um grundvallartraust og vonarríkt hugarfar gagnvart tilverunni, eins og segir í Hebreabréfinu (11.1): „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ Von trúarinnar er líkt við „akkeri fyrir sálina, traust og öruggt“ (Heb. 6.19) og við erum hvött til að ganga fram fyrir Guð „með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti“ og halda fast við „játningu vonar okkar“ (Heb. 10.22-23).

Vonarrík framtíð? Jeremía spámaður flytur okkur þetta fyrirheit frá Guði: „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð“ (Jer 29.11). Víða í Biblíunni er okkur ráðlagt að treysta Guði; hann muni vel fyrir sjá (Sálm 37.3-6; sjá líka Sálm 56 og 27.1-3). Einn af uppáhaldsritningarstöðum mínum er Jesaja 30.15:

Því að svo segir Drottinn Guð, Hinn heilagi Ísraels: „Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“
Það er líka Jesaja spámaður sem gefur okkur magnaða líkingu af brjóstbarninu sem er nánast óhugsandi að kona geti gleymt. Hún hljóti að veita lífsafkvæmi sínu það sem það þarfnast: „Og þó þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki,“ segir Drottinn (sjá Jes. 49.14-16). Í ritningarlestri dagsins úr Gamla testamentinu er samhljómur við þessa sterku mynd af trúnni og Guði. Þar er Jerúsalem líkt við móður sem elur önn fyrir börnum sínum, veitir þeim saðningu og huggun, ber brjóstmylkinga sína á mjöðminni og hossar þeim á hnjánum (Jes 66.10-12). Í þessu samhengi er Jerúsalem tákn fyrir veruleika trúarinnar, himneskan veruleika sem líka er lýst í ritningarlestrinum úr Opinberunarbók Jóhannesar (15.2-4). Þarna er miðlað trausti og von trúarinnar og líka því hvað það getur verið gaman að vera til; að vera hossað á hnjánum eins og þegar við vorum lítil og við höfum sjálf leikið með börnunum í lífi okkar. Nálægt brjóstmylkingalíkingunni eru orð Jesú: „Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill fær ókeypis lífsins vatn“ (Op. Jóh. 22.17). Andlegum þorsta er svalað í veruleika trúarinnar.

Andstæður veruleiki Í framhaldinu hjá Jesaja (66.13) færist móðurlíkingin yfir á Guð með tengingu við himneska veruleikann, samfélag trúaðra:

Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður, í Jerúsalem verðið þér huggaðir.
Á þessu fyrirheiti og öðrum ámóta hvílir trú okkar. Við horfum fram til þess tíma þegar „öll jörðin nýtur hvíldar og friðar, fagnaðaróp kveða við“ svo að enn sé vitnað í Jesaja (14.7). Sá tími er augljóslega ekki runninn upp. Hryðjuverkin í Beirút á fimmtudag og í París á föstudagskvöld eru hræðileg áminning um það. Við finnum til og neyðumst til að horfast í augu við hvað jarðneskur veruleiki, lífið okkar hér og nú, er viðkvæmt. Eina stundina ríkir gleði og kátína, þá næstu sorg og óvissa. En það er einmitt inn í þessa óvissu tímanna sem kristin trú talar hvað sterkast. Við áttum okkur á því að við fáum litlu ráðið. Utanaðkomandi öfl geta á svipstundu breytt öllum okkar áætlunum og draumum. Þá er myndin af Guði sem móður sem huggar barn sitt sterk. Við þurfum að endurnýja grundvallartraustið, vonina um að þrátt fyrir allt eigum við okkur framtíð.

Vegur hvíldar, vegur friðar Guðspjallið miðlar sannarlega þessum einföldu staðreyndum trúarinnar: „Komið til mín,“ segir Jesús, „komið til mín, öll þið sem erfiðið; komið til mín, öll þið sem eruð hlaðin þunga; komið til mín og ég mun veita ykkur hvíld“ (sbr. Matt. 11.28). Við getum komið til Jesú Krist með áhyggjur okkar og óöryggi gagnvart bæði deginum í dag og framtíðina alla. Allt sem okkur reynist erfitt, ok okkar, ef svo má segja, það sem íþyngir okkur á þessari stundu, getum við komið með í faðm Jesú, falið okkur ástarörmum hans, fundið þetta grundvallartraust sem okkur er svo mikilvægt til að geta þrifist og notið okkar sem manneskjur. Jesús býður okkur sitt ok, sínar forsendur, að læra af sér að vera hógvær og af hjarta lítillát. Það er vegur hvíldarinnar, vegur trúarinnnar, vegur friðarins. Á þeim vegi er það sem krafist er af okkur nákvæmlega hæfilegt, mátulegt fyrir hverjar aðstæður: „Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11.30).

Ég heyrði Jesú himneskt orð: „Kom, hvíld ég veiti þér. Þitt hjarta´ er mætt og höfuð þreytt, því halla´ að brjósti mér.“

Ég heyrði Jesú ástarorð: „Kom, eg mun gefa þér að drekka þyrstum lífs af lind, þitt líf í veði er.“

Ég kom til Jesú. Örþyrst önd þar alla svölun fann, hjá honum drakk ég lífs af lind. Mitt líf er sjálfur hann. Stefán Thorarensen, Sálmabók þjóðkirkjunnar 369, v. 3 og 4

Komið, segir Jesús. Kom þú, Drottinn Jesús! segjum við með frumkristninni (Op. Jóh. 22.20) og horfum fram til aðventunnar. Kom.