Hugrekki upprisunnar

Hugrekki upprisunnar

Hvernig upplifir þú það í þínu lífi að Jesús er upprisinn? Hverju hefur upprisan breytt fyrir þig? Það getur verið svo margt, svo ólíkt, allt eftir aðstæðum okkar og lífsverkefnum. Einhver upplifir kannski að upprisan gefur nýjan kraft til þess að takast á við verkefni sem áður virtust óyfirstíganleg. Annar upplifir kannski hvernig upprisan hefur leitt hann eða hana út úr gröf einmanaleika og niðurbrots, út í dagsbirtuna sem er þá tákn fyrir upprisubirtuna sjálfa. Ég upplifi það sterkt að ég er aldrei ein, og ég þarf ekki að óttast. Fyrir mér er upprisan eitthvað sem gerist á hverjum degi og gefur mér kraft og hugrekki til þess að takast á við verkefni lífsins, bæði þau gleðilegu sem og þau erfiðu og jafnvel ógnvekjandi, fullviss um það að ég er örugg í hendi Guðs. Kannski eru einhver ykkar á meðal sem eruð enn að leita að merkingu upprisunnar, hvernig hún snertir við ykkur. Við ykkur segi ég; verið ekki hrædd. Hafið kjark til þess að fylgja Maríu og Maríu inn í gröfina, til að sjá sjálf að Kristur er upprisinn.

Tvær konur eru á leiðinni að gröf. Þetta er ekkert einsdæmi. Um allan heim, á öllum tímum hafa konur haldið að gröfum ástvina til þess að hugsa um þær, annast þennan hinsta hvílustað. Og áður en að hinn látni hefur verið látinn í gröfina hefur það verið þeirra verk, oftast nær, að veita honum, eða henni, hinstu þjónustu, þvo, smyrja, klæða. Hinsta kærleiksverkið, veitt ástvini sem er horfinn, þótt líkaminn sé enn til staðar. Og gröfin. Hinsti hvílustaður okkar allra. Hún tekur við okkur, umfaðmar okkur, köld, dimm. Í gröfinni erum við alein. Í gröfinni er ekki að finna neina von, enga framtíð.

Þetta var sennilega ekki í fyrsta skipti sem þessar konur, María Magdalena og María hin, gengu til grafar í þeim tilgangi að veita látnum ástvini hinstu kærleiksþjónustu. Og þeirra aðaláhyggjuefni var hver myndi velta steininum frá gröfinni. Allavega var það eina áhyggjuefnið sem þær létu uppi. Kannski hafa aðrar áhyggjur leynst undir niðri... Verða varðmennirnir okkur fjandsamlegir, hleypa þeir okkur kannski ekki að gröfinni? Verðum við kannski handteknar líka, fyrir að fylgja Jesú. Hvað verður nú um okkur?

En það reynir ekki á þessar áhyggjur þeirra. Matteus guðspjallamaður segir frá því að það hafi orðið landskjálfti mikill og engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Allt í einu eru það ekki áhyggjurnar um framtíðina sem eiga hug þeirra allan, heldur einfaldlega hræðslan um eigið líf, hér og nú. Því að jarðskjálfti er ekkert gamanmál, og það er svo sannarlega ekkert gamanmál heldur að mæta engli. Það er alveg morgunljóst í Biblíunni, því að allir englar sem þar birtast byrja á því að segja fólki að óttast ekki. Því að það eru eðlilegustu viðbrögðin. Og þau geta orðið svo sterk, að fólk lamast. Eins og varðmennirnir gerðu. Þeir urðu svo hræddir að það leið yfir þá, óttinn var svo yfirþyrmandi, svo lamandi, að þeir réðu ekki við sjálfa sig, þeir blinduðust, misstu heyrn og skynjun.

Við vitum ekki af hverju konurnar lömuðust ekki líka. Kannski hafa þær innst inni verið að vonast eftir því að eitthvað svona lagað gerðist. Og engillinn hughreystir þær. Þið skuluð eigi óttast. Ekki missa vitið, ekki tapa ykkur, eins og varðmennirnir. Þið hafið nefnilega verk að vinna. Og þetta verk er tvíþætt: Fyrst segir engillinn: ,,Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá”. Það er fyrsta verkefnið. Að koma og sjá, að ganga úr skugga um að Jesús sé sannarlega upprisinn. Síðan segir hann: ,,Farið í skyndi og segið”, og það er hitt verkefnið. Að fara og segja lærisveinunum fréttirnar.

Konurnar þurftu ekki að taka orð engilsins trúanleg. Hann bauð þeim að sjá sjálfar, sannreyna það sem hann var að segja þeim. Til þess urðu þær að ganga inn í gröfina, þennan kalda, dimma stað dauða og ósigurs, en í öðrum tilgangi en þær höfðu búið sig undir. Nú var óttinn blandinn undrun, og von. Getur þetta verið? Er Jesús í alvörunni ekki í gröfinni?

Og þegar þær höfðu sannfærst, þá flýttu þær sér frá gröfinni. ,,Þær fóru í skyndi frá gröfinni með ótta og mikilli gleði”. Þær hættu ekki að vera hræddar. Ég get eiginlega ímyndað mér að þær hafi verið helmingi hræddari en þegar þær komu út að gröfinni. Því að nú var verkefnið þeirra ekki bara þetta hversdagslega, að búa um lík ástvinar, og fara síðan heim og syrgja í friði. Nei, þær höfðu fengið verkefni sem þær vissu ekkert hvert myndi leiða þær, hvort þær myndu ná að sannfæra lærisveinana, hvort þær yrðu álitnar geggjaðar, eða jafnvel, hvort þær myndu líka verða handteknar og drepnar.

Okkur eru falin sömu verkefni og Maríu og Maríu. Þess vegna erum við hér í dag, við erum í rauninni að ganga í gegnum það sem konurnar upplifðu við gröfina. Komið og sjáið. Sjáið sjálf, Jesús er upprisinn! Þið þurfið ekki að taka orð annarra fyrir því, þið getið sannreynt það.

Kannski hafið þið þá hugmynd að upprisan hljóti fyrst og fremst að snúast um það að Jesús hafi lifnað við og sé núna hjá Guði, og að við fáum... kannski... einhvern tíma í framtíðinni, þegar við deyjum, t.d, að hitta hann. Kannski snýst upprisufrásögnin fyrst og fremst um það í ykkar huga að upprisa Jesú gefi von um að dauðinn sé ekki endalok alls. Og það er svo sannarlega falleg hugsun. En upprisan er um svo miklu meira. Hún fjallar nefnilega um núið. Hvernig Guð getur gert alla hluti nýja, núna. Ekki bara kannski, einhvern tíma í framtíðinni, ef maður trúir nógu heitt, heldur einmitt núna. Og jafnvel þótt við séum hrædd. Því að upprisan snýst ekki um að Guð taki frá okkur allan ótta. Því að lífið er oft ógnvekjandi, jafnvel hræðilegt, og því verður ekkert breytt. En í ljósi upprisunnar getum við lifað lífinu, í ótta og mikilli gleði, eins og konurnar sem hlupu frá gröfinni. Þannig að upprisan gefur okkur hugrekki. Hugrekki til að horfast í augu við lífið eins og það er, og gera það í gleði.

Hvernig upplifir þú það í þínu lífi að Jesús er upprisinn? Hverju hefur upprisan breytt fyrir þig? Það getur verið svo margt, svo ólíkt, allt eftir aðstæðum okkar og lífsverkefnum. Einhver upplifir kannski að upprisan gefur nýjan kraft til þess að takast á við verkefni sem áður virtust óyfirstíganleg. Annar upplifir kannski hvernig upprisan hefur leitt hann eða hana út úr gröf einmanaleika og niðurbrots, út í dagsbirtuna sem er þá tákn fyrir upprisubirtuna sjálfa. Ég upplifi það sterkt að ég er aldrei ein, og ég þarf ekki að óttast. Fyrir mér er upprisan eitthvað sem gerist á hverjum degi og gefur mér kraft og hugrekki til þess að takast á við verkefni lífsins, bæði þau gleðilegu sem og þau erfiðu og jafnvel ógnvekjandi, fullviss um það að ég er örugg í hendi Guðs. Kannski eru einhver ykkar á meðal sem eruð enn að leita að merkingu upprisunnar, hvernig hún snertir við ykkur. Við ykkur segi ég; verið ekki hrædd. Hafið kjark til þess að fylgja Maríu og Maríu inn í gröfina, til að sjá sjálf að Kristur er upprisinn. Við getum kallað þetta að ganga í okkur sjálf, að skoða okkar innri mann, skoða aðstæður okkar af fullri alvöru, með vilja til að breyta, með vilja til að hleypa hinum læknandi og uppbyggjandi krafti Jesú Krists inn í líf okkar.

Og þetta er bara annað verkefnið, hitt verkefnið er að fara og segja öðrum frá. Vitnisburður okkar um það hvernig trúin hefur áhrif í okkar lífi, hvernig upprisa Jesú Krists hefur breytt lífi okkar, er dauðans alvara. Hann er dauðans alvara fyrir öll þau sem þurfa á upprisu að halda í lífi sínu, fyrir öll þau sem eru ennþá lokuð inni í gröf ótta, einmanaleika, niðurbrots og dauða. Og þannig getum við orðið englar í lífi annarra, með því að velta steininum frá gröfinni, með þvi að segja, verið ekki hrædd, óttist ekki, skelfist ekki, Kristur er upprisinn. Og það er hann svo sannarlega. Dýrð sé Guði.