Ævimorgunn

Ævimorgunn

Þessi tímamót hafa sterka samsvörun við lífið og í textum Biblíunnar sem lesnir eru í kirkjum um þetta leyti er barnæskan ofarlega á baugi.

Það er eitthvað nýtt og ferskt við það að heilsa nýju ári. Það er svipað því að stíga fram úr rekkju að morgni dags eftir góðan nætursvefn. Verkefnin bíða, jafn misjöfn og þau kunna að vera. Í morgunskímunni heilsar dagurinn ferskur og nýr. Að minnsta kosti hafa engin glappaskot verið gerð enn!

Ævimorgunn

Þessi tímamót hafa sterka samsvörun við lífið og í textum Biblíunnar sem lesnir eru í kirkjum um þetta leyti er barnæskan ofarlega á baugi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um jólahátíðina, sem rann sitt skeið í síðustu viku. Þar minnir barnið okkur á sakleysið, vonina og upphafið að því sem nýtt er og gefandi. Í texta þessa dags, sem er fyrsti sunnudagur eftir þrettándann er kveðið við sama tón. Þetta er einn þeirra texta sem þekktastur er: sjálft skírnarguðspjallið sem lýsir því þegar fólkið færði börnin til Jesú og hann umfaðmaði þau með kærleika sínum og umhyggju. Þar sýndi hann það sem fyrr hversu hinn almáttugi Guð lætur sér annt um okkur öll – þá sem stórir eru og ekki síður hina sem minnstir eru.

Hvað okkur varðar þá minnir Kristur okkur í sífellu á það að réttlæti Guðs er ekki það að hinn sterki drottni yfir hinum veika, eins og réttlætið er stundum skrumskælt í samfélagi manna. Nei, okkar mikilvægasti tilgangur og hið sanna réttlæti snýst um þann sem ekki getur sjálfur varið sig eða framfleytt sér. Köllun okkar er sú að létta af honum byrðunum og hjálpa að standa á eigin fótum.

Sjálfur boðaði Kristur, að hann mæti okkur í hinum minnsta bróður. ,,Allt sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra það gjörið þér mér" – sagði hann. Víst eru það sterk skilaboð til okkar um það hvernig við eigum að koma fram við þá sem ekki geta varið sig sjálfir. Ekkert veitir slíkan prófstein á siðferði okkar, hvort heldur sem einstaklinga eða samfélags en einmitt framkoman við börnin. Í samskiptunum við þau býr umhyggjan, framtíðarvonin og sú mikla gjöf að láta sér annt um einhvern skilyrðislaust. Það er hið sanna réttlæti sem Guð kallar okkur til að sinna.

Skilyrðislaus ást

Já, það er einmitt þetta sem guðspjall dagsins fjallar um. Skilyrðislaus ást er það vegarnesti sem dýrmætast er þeim sem eru enn í árdegi ævi sinnar og eiga lífið framundan. Skilyrðislaus ást er ekki flókið fyrirbæri. Barn sem hennar nýtur hvílir algerlega stöðugt í þeirri fullvissu að það sé dýrmætt og ómetanlegt hvernig svo sem það stendur sig. Jafnvel þótt mistök séu gerð, hrapalegar skyssur henda, haggar það á engan hátt öruggri og sterkri sjálfsmynd. Slíkur jarðvegur hentar ekki aðeins til vaxtar og þroska heldur er hann að sama skapi móttækilegastur fyrir leiðréttingu og gagnrýni. Sá sem býr að slíku er miklu fljótari að koma sér að nýju upp á lappirnar eftir að hafa hrasað.

Frásögnin af því þegar Kristur tók börnin til sín lýsir því hvernig Guð mætir manninum. Hún minnir okkur á það að trúin gengur ekki bara í eina átt. Hún snýst ekki aðeins um það að ég trúi á Guð. Hún gengur lika út á það að Guð trúir á mig. Og þótt mér verði á mistök í lífinu, eins og gengur og gerist, þá hagga þau á engan hátt því trausti sem Guð ber til mín. Ég get alltaf bætt mitt ráð og hef allt sem þarf til þess arna, vitandi það að ég er umlukinn þeim kærleika sem ekkert getur frá mér tekið. Börnin sem eiga lífið framundan eru minnt á þetta. Þau ganga inn í framtíðina með blessun Krists í nestismalnum.

Guðspjallið og siðbótin

Guðspjallið hefur á sér aðrar hliðar, sem eru þessu þó nátengdar. Þar kemur einnig fram að Kristi sárnar viðbrögð lærisveinanna sem standa í veginum fyrir börnunum.

Það er engin tilviljun að guðspjall þetta er hafið til vegs og virðingar í kjölfar siðbreytingarinnar. Þar mótmæltu menn því hvernig kirkjan setti sig á milli Guðs og manna. „Engin sáluhjálp fæst utan kirkjunnar!“ sögðu þeir í Rómaborg og páfinn átti að fá lyklavöld sín frá Kristi, sem gerði hann óskeikulan og hæfan til þess að fella sérstaka dóma í trúarlegum málum.

Ekkert af þessu fær staðist, sagði Marteinn Lúther. Hann fordæmdi rómversk kaþólsku kirkjuna og sagði hana leiða kristna menn á villigötur. Í stað þess að greiða leið mannsins að Guði, setti kirkjan sig þar á milli. Hann og fylgismenn hans vísuðu því gjarnan til þessa guðspjalls í gagnrýni sinni og sýndu það hvernig manneskjan er ætíð velkomin í faðm Guðs, jafnvel barnið sem ekkert hefur unnið sér til vegsemdar mætir opnum örum Krists. Lærisveinarnir standa hins vegar í hlutverki þeirra sem telja sig hafa einkarétt á guðdómnum. Þeir stíga á milli barnanna og Krists og varna fólkinu að færa börn sín til hans.

Það er eftirtektarvert að lesa frásagnirnar af Kristi í þessu ljósi. Umvandanir hans snúa sjaldnast að þeim sem villst hafa af veginum með augljósum hætti. Hann kemur ekki til þess að tyfta tollheimtumenn og skækjur. Þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð, þeir sem eru utangarðs sökum fátæktar, þjóðernis eða fötlunar – eiga jafnan greiðan aðgang að Kristi, jafnvel þótt fólksfjöldinn hneykslist eða vilji varna þeim því að nálgast hann.

Kristur beinir miklu fremur orðum sínum og gjörðum gegn skinhelginni og tvöfeldninni sem einkennir marga þá sem telja sig hafa höndlað Sannleikann með stóru essi. Móttökurnar sem börnin fá eru sérstaklega eftirtektarverðar í því ljósi. Hversu frábrugðin eru þau ekki, hinum hátt upp höfnu og hrokafullu? Þótt þau eigi langt í land í þekkingu og þroska sýnir Kristur fram á það hversu dýrmæt þau eru í sjálfum sér.

Og meira en það.

Í niðurlagi frásagnarinnar lýsir hann því hvað það er sem við þurfum að hafa til að bera, ætlum við okkur inngöngu í Guðs ríki. Það er að taka við því eins og barn. Taka við því fordómalaust og af hreinu hjarta, ekki með hleypidómum og yfirlæti þess sem allt þykist vita. Þeir sem vilja ekki láta af ósiðum sínum, þeir sem vilja ekki mæta náunganum í kærleika og af umhyggju. Þeir sem vilja ekki fórna því sem þarf að fórna til þess að ganga inn í samfélagið við Guð, kjósa annað hlutskipti.

Frómur maður orðaði þetta svo, að þegar kæmi að Guðs ríki mætti skipta mönnum í tvo hópa. Sá fyrri segir við Guð: „Verði þinn vilji“ en við þann síðari segir Guð: „Verði þinn vilji“. Hrokinn heldur okkur frá ríki Guðs. Barnið mætir umhverfi sínu í auðmýkt þess sem þekkir vanmátt sinn. Enginn tekur við Guðs ríki nema sem barn.

Tilfinningin í upphafi árs

Núna fá margir þá tilfinningu að þeir standi á byrjunarreit. Það þarf ekki mikið til að kalla fram þá tilfinningu í hjarta okkar. Við höfum jú öll staðið í þeim sporum í lífinu. Stundum óskum við þess að við hefðum haft þann þroska þegar við vorum börn, sem við öðluðumst síðar. Í upphafi ársins finnum við snert af þessari tilfinningu að eiga framtíðina fyrir höndum, eins og þegar við laugum okkur að morgni og horfum fram á nýjan dag hreinan og óflekkaðan. Eins og barn sem er nýkomið í heiminn og getur jafnvel í svefni kallað fram gleði þeirra sem í kringum standa.

Þessi tilfinning að eiga framtíðina fyrir höndum – ókomin andartök sem bíða okkar, er samofin þeirri sjálfsmynd sem kristinn maður hefur. Hann lifir lífi sínu frammi fyrir augliti Guðs þar sem hann er óflekkaður og hreinn eins og einstaklingur sem stígur sín fyrstu skref til heillar mannsævi.

Þetta er vegarnesti kirkjunnar til okkar í upphafi nýs árs. Megi góður Guð blessa okkur öll og varðveita á vegum sínum. Amen.