Upp er risin Krýsuvíkurkirkja

Upp er risin Krýsuvíkurkirkja

Við vígslu endurreistrar Krýsuvíkurkirkju á hvítasunnudegi 5. júní sl. flutti séra Gunnþór Þ. Ingason frumsamið ljóð, sem hann nefndi: Upp er risinn Krýsuvíkurkirkja. Hann gerði svo grein fyrir gjöfum sem kirkjunni hefðu borist og lýsti því jafnframt yfir að með vígslu hinnar nýju kirkju lyki hann prestsþjónustu sinni í Krýsuvík, sem hann hefði gegnt á vegum Þjóðminjasafns Íslands, því að hin nývígða kirkja tilheyrði Þjóðkirkju Íslands, og yrði í umsjá sóknarprests Hafnarfjarðarkirkju, prófasts Kjalarnessprófastdæmis, Skálholtsbiskups og Biskups Íslands.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
02. nóvember 2022

Upp er risin Krýsuvíkurkirkja,

Kristi vígð svo aftur ríki hans

fær hér skjól og akur til að yrkja,

en eldur hafði mikils loga og brands

eytt hinn fyrri og eldri helgidóminn.

Þar andblær gafst af fornri sögu og tíð

og áhrif trúar birtu helgan hljóminn

er hjörtu og sálir auðmjúk gerðu og blíð.

Nú er sem kalli og komi hingað nærri

kynslóðirnar fyrri hér úr sveit

að vitna og greina af kirkju sinni kærri

og kristnu lífi með sín fögru heit.

Er afhelguð var, enginn kirkju sinnti,

og árum saman nær í gleymsku hvarf.

Þá góður hirðir hér á Jesú minnti

og hlúði að sauðum líkt og gera þarf.

Loks endurbyggð var elsku með og hlýju,

og einlægri trú, krafti og miklum dug.

Kirkjan var þá vígð hér enn að nýju

að votta Guðs frelsandi kærleikshug.

Er trú og listin tóku höndum saman

tókst að glæða líf í Krýsuvík.

Í kirkju og Sveinssafninu gleði og gaman,

gerðu stefnumótin engu lík.

Kirkjan var sótt víða úr þessum heimi

og vakti trú með látleysi og smæð,

Og andi Guðs og englar voru á sveimi,

að örva skyn á bæði dýpt og hæð

og gildi þess, ef giftu menn um dreymi,

að geti opnað hreina trúaræð

í hjarta sér og nærst Krists sönnum seimi,

er segir; þjáðra kaun og meinir græð.

Allt var sem það hyrfi í heljar loga,

hvergi neitt af kirkjunni sást meir.

Brátt þó vonir vakti af upprisutoga

Vinafélag kirkju er stofnuðu þeir,

sem sárt til fundu sorgarbits og trega,

því söknuðu Guðshúss með sinni náð.

Að aftur reis það einkar fagurlega

Iðnskóla sé þökk, fyrir verk og ráð.

Árin hafa liðið, löng á stundum

en léttir er hve vel allt tókst þó til.

Margs þurfti að gæta á vinafélagsfundum,

og faglega eldri meta kirknaskil.

Smiðir hafa lokið völundsverki,

og vinir kirkju þakka og fagna í dag.

Þeir treysta því að Tækniskólinn merki,

að trúarverkið auki gengi og hag.

Þjóðminjasafni þakkir færðar eru

þegar fagra kirkju hér má sjá,

mörg því voru efni er að því sneru

og ávallt stuðning þaðan var að fá.

Djúpar rætur land og lýði styrkja,

lífleg trú og ræktun þjóðararfs.

Því miklu varðar andans afl að virkja

og efla þrá til fórnfús lífs og starfs.

Vinafélags trausta stjórn og styrka

staðið hefur við sín glæstu mið.

Drift þess og hvatning fóru fljótt að virka

svo fjöldi veitti áformunum lið.

Guð blessi alla er komu að kirkjusmíði

og knúðir voru af elsku að gera vel.

Og launi svo að lífið áfram miði

til láns og gæfu fyrir trúarþel.

Að athvarf trúin eigi í Krýsuvíkum

og einnig list með sínum fagra brag,

og áfram stuðli að högum heillaríkum

er hjartans bæn og óskin bjarta í dag.

Og kirkjan til sín förufólkið laði

sem fylli margar gestabækur hér,

og þegar fari héðan burt úr hlaði

helgan anda finni í brjósti sér.

Sé gætt að farsæld, þjóðarheill og högum.

helgast líf allt þarf Guðs elsku og náð,

svo gefi hann enn gæfu á nýjum dögum

er gæði lífsstríð þjóðar blessun og dáð.

Altarismyndin með sinn gylta boga,

minnir á svið er trúaraugu sjá.

Og Krýsuvíkurkirkja upprisin úr loga

kjarna lífs og trúar vísar á.