Brúðurin og börnin

Brúðurin og börnin

Mér þykir eins og okkur sé vel ráðlagt þessa aðventu, að huga að aðstæðum barna. Það er eins og andinn knýji okkur á þessari stundu til þess að sjá við hve hörmulegar og niðurlægjandi aðstæður börn þessa heims lifa oft við – án þess að gráti þeirra sé veitt eftirtekt.
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
30. nóvember 2005
Flokkar

Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. Og andinn og brúðurin segja: Kom þú! Og sá sem heyrir segi: Kom þú! Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.

Sá sem þetta vottar segir: Já, ég kem skjótt. Amen. Kom þú, Drottinn Jesús! Náðin Drottins Jesú sé með öllum. Op 22.12-13, 17, 20-21

Samtal Krists og kirkju hans

Það sem við heyrum í morgunlestrinum þessa fyrstu viku jólaföstunnar er samtal Krists og kirkju hans. Það er samtal elskenda. Og meira en það. Það er samtal Drottins og brúðar hans. Þau kallast á. Kom þú! segir brúðurin. Já, ég kem skjótt! segir Drottinn. Samtalið er þrungið eftirvæntingu og fyrirheitum. Fyrirheitum um eilífa tryggð, kærleika sem tekur aldrei enda og uppfyllingu allra þarfa. Fyrirheitin byggjast á lögmáli allra sambanda – það er gefið og það er þegið. Brúðurin leggur ást sína fram fyrir Drottin og launin eru lífið sjálft, sem aðeins hann sem er hinn fyrsti og hinn síðasti getur gefið.

Elskulegu systkin. Aðventan á því herrans ári 2005 er umgjörð þessa samtals kirkjunnar og Drottins hennar. Kirkjan ákallar Drottin sinn um að koma – og hann kemur. Hann kemur skjótt og hefur launin með sér til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. Eina rétta andsvarið – eina rétta játningin – sem kirkjan getur veitt Herra sínum, er þjónusta við heiminn. Vegna þess að samband kirkjunnar og Drottins er ekki innhverft og mystískt ástarsamband heldur leitar ávallt út á við, til sköpunarinnar allrar. Það er því hluti af hinum sanna undirbúningi jólanna að við beinum kærleika okkar að sköpuninni á sérstakan hátt.

Hugum að aðstæðum barna

Mér þykir eins og okkur sé vel ráðlagt þessa aðventu, að huga að aðstæðum barna. Það er eins og andinn knýji okkur á þessari stundu til þess að sjá við hve hörmulegar og niðurlægjandi aðstæður börn þessa heims lifa oft við – án þess að gráti þeirra sé veitt eftirtekt. Við getum valið Thelmu mann ársins en við getum ekki gefið henni að nýju barnæskuna blíðu sem hún var rænd. Við erum rétt farin að sjá glitta í yfirborðið á svívirðilegum barnsránum og mannsali kínverskra barna í Norður-Evrópu. Á sumum svæðum Afríku lenda börn í þeim aðstæðum að þurfa að sjá fyrir hvert öðru og veita heimilum forstöðu með öllu sem því fylgir vegna þess að fullorðna fólkið er dáið úr alnæmi. Þau eru ein og fá ekki að vera börn lengur.

Allt þetta ætti að ná eyrum okkar og beina athyglinni að ekki eingöngu að því hve viðkvæm og auðsæranleg börn eru, heldur einnig hve mikilvægt er að vernda börn og vernda bernskuna. Þjóðkirkjan er aðili að átaki með þeirri yfirskrift og beint er til foreldra og uppalenda. Það er mikil játning fólgin í því að gera börn og vellíðan þeirra að forgangsatriði í þjónustu kirkju sem er kölluð af þeim sem sagði: “það sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra, það gjörið þið mér”.

Orðaforði fjölskyldunnar

Takið eftir að við fáum að láni orðaforða fjölskyldunnar þegar við tölum um eðli Guðs og samband hans við manneskjuna. Kirkjan er oss kristnum móðir og brúður Krists. Jesús er okkar besti bróðir. Og í fyllsta trausti ávörpum við Guð sem föður. Hinn mikilvægi sess sköpunarinnar er hvergi betur undirstrikaður en með þessum orðum. Þau fela fyrst og fremst í sér tengsl. Það getur enginn verið bara bróðir einn og sér. Eða móðir. Sonur. Brúður. Það er alltaf tilvist einhvers annars sem leggur þetta heiti til. Vera okkar er því skilgreind út frá tengslum við einhvern annan. Og tengsl eru aldrei niðurnegld og uppstoppuð heldur lifandi og dýnamísk. Þannig er samband kirkjunnar við Krist. Af því að það er lifandi er það krefjandi OG gefandi. Það er líka eftirsóknarvert og ástríðufullt. Allt þetta kristallast í aðventunni þegar Kristur heyrir hróp brúðar sinnar sem játar ást sína með þjónustu í kærleika. Kom þú, Drottinn Jesús! Amen.