Yfirgefðu

Yfirgefðu

Þetta að veita fyrirgefningu, gerir það verkum, að það sem er fyrirgefið, er yfirgefið. Nýtt og betra verður til.
fullname - andlitsmynd Axel Árnason Njarðvík
23. júní 2011

Það getur verið gaman að henda snjóbolta. En nú er hásumar og snjóboltar er fjarri höndum og höfði. Samt getur minning um einn snjóbolta lifað lífið á enda, því flest eigum við minningu um snjóbolta sem hitti í mark og hafði eftirköst.

En um leið og boltinn yfirgefur hendina -ráðum við ekki við eitt né neitt. En hann á það eitt eftir, að lenda- það vitum við.

Við eigum mörg hver, líka minningu um lítinn snjóbolta sem velt var eftir snjóþekjunni uns hann var orðinn svo stór að tveir gátu ekki lyft. Ekki einu sinni þrír.

En nú er sumar og allur snjór hjá okkur bráðnaður og vatnið runnið sína leið. Þannig vinnur tíminn og náttúrann á sjálfri sér. En verksummerki sjást þó víða Dr. Sigurður Árni Þórðarson ritaði skemmtilega og ljóslifandi frásögu um snjóbolta einn og stúlku frá horfinni tíð í pistili sem heitir http://tru.is/pistlar/2011/06/fyrirgefdu">Fyrirgefðu> og birtist hér á vefnum.

Guði sé lof fyrir feður og mæður sem kenna börnum sínum að biðjast fyrirgefningar. Guði sé lof fyrir þá mótun sem mæður og feður kenna börnum sínum að veita fyrirgefningu. Þetta tvennt verður nefnilega að haldast í hendur.

Þetta að veita fyrirgefningu, gerir það verkum, að það sem er fyrirgefið, er yfirgefið. Nýtt og betra verður til. Hjá báðum. Önnur tækifæri, betri tækifæri gefast og fólkið er laust undan þeim klafa sem borinn var, bæði hjá þeim sem olli og hins sem varð fyrir. Fólkið gengur sátt frá fundi.

Ef þú veitir ekki þeim fyrirgefningu, sem biðst fyrirgefningar, þá situr þú uppi með boltann. Þennan líka allt of þunga snjóbolta sem veltist upp í veldi af tímanum sem líður, og mun gera hann stærri og stærri. Stærri en borinn verður. Sá sem ekki veitir fyrirgefningu, kafnar að lokun undan eigin nei-i. Málinu lýkur aldrei hjá honum, sem vill ekki veita fyrirgefninguna. Hinn er laus.

Nú hefur Kirkjuþing beðist fyrirgefningar. Biskup Íslands líka. Prestar sömuleiðis. Allt opinberlega. En við heyrum ekkert um að sá, sem beðinn er fyrirgefningar, hafi veitt fyrirgefningu.

Hvar er tefur svarið: já ég fyrirgef þér.