Nafn er val(d)

Nafn er val(d)

Mér þykir við hæfi að nú þegar við stöndum á bryggjunni og sjáum fram á 366 daga sjóferð í gegnum árið 2012 að nota orð sr. Hallgríms til þess að minna okkur á mikilvægi þess að ferðin sé frá upphafi í Jesú nafni.
Flokkar

Biðjum með orðum séra Hallgríms Péturssonar:

Ég byrja reisu mín, Jesús, í nafni þín, höndin þín helg mig leiði frá hættu allri greiði. Jesús mér fylg í friði með fögru engla liði.

Í voða, vanda og þraut, vel ég þig förunaut, yfir mér virstu vaka og vara á mér taka. Jesús mér fylg í friði, með fögru engla liði.

Þá sjávarbylgjan blá borðinu skellur á, þín hægri hönd oss haldi og hjálpi með guðdómsvaldi. Jesús mér fylg í friði, með fögru engla liði.

Amen, ó, Jesú minn, að þér tak þrælinn þinn, til skips þá ganga geri, Guðs englar með mér veri. Jesús mér fylg í friði, með fögru engla liði.

Gleðilegt ár kæru kirkjugestir. Mér þykir við hæfi að nú þegar við stöndum á bryggjunni og sjáum fram á 366 daga sjóferð í gegnum árið 2012 að nota orð sr. Hallgríms til þess að minna okkur á mikilvægi þess að ferðin sé frá upphafi í Jesú nafni. Nýársdagur er einnig áttidagur jóla, dagur nýs upphafs. Það eru jú liðnir átta dagar frá fæðingarhátíð frelsarans. Á hans tíma, í hans menningarheimi var sveinbarn umskorið á áttunda degi og því gefið nafn. Sá gjörningur táknaði nýtt upphaf, nýja vegferð viðkomandi einstaklings.
Hjá okkur sem stöndum á bryggjunni í dag, eru tilfinningarnar varðandi sjóferðina sem framundan er væntanlega blendnar. Í gærkvöld komum við að bryggju að lokinni sjóferð í gegnum árið 2011. Eins og í fyrri sjóferðum lögðum við misvel undirbúin upp í þá ferð. Ef við gæfum okkur tíma til þess að setjast niður og segja sjóferðasögur ársins þá yrðu þær jafn fjölbreyttar eins og við erum mörg. Þó er ekki ólíklegt að í mörgum sögunum sé sagt frá því að það hafi gefið töluvert á bátinn og gott ef einhver myndi ekki segja sögur af strandstað eða átökum við of stórar öldur eða brotsjó. Þá má gera ráð fyrir því að sögurnar geymi líka frásagnir af nýliðun í áhöfninni, litlum sigrum og jafnvel stórum.
Væntanlega fengjum við að heyra:

- Bjartsýnissögur. - Svartsýnissögur. - Raunsæissögur. - Draumkenndar sögur. - Alls konar sögur.

Við myndum gefa atburðunum í sjóferðasögunum nöfn. Skipin hefðu nöfn, kallinn í brúnni fengi nafn, jafnvel viðurnefni, kokknum og eldamennsku hans gæfum við lýsandi nöfn svo hver og einn sem á hlustaði vissi hvað var á boðstólnum.
Við nefnum hluti, atburði, fólkið.
Án nafna verða sögur oftast illskiljanlegar.
Margar af þeim sögum sem ég ólst upp við er að finna í gamla testamentinu. Ein þeirra sem heillar mig er sagan af Jesaja spámanni. Ungur ólst hann upp í nágrenni Jerúsalem og væntanlega sótti hann skóla þar. Í öllu falli varð hann strax á yngri árum ráðgjafi við hirðina, jafnvel einn af þeim sem fóru með völd þar. Saga Jesaja er saga manns sem tekur eftir því hvernig aðrir sigla í gegnum lífið. Hann lætur sér annt um þá sem róa af stað í opnum árabátum, hann tekur sér stöðu með þeim sem vinna hörðum höndum að því að koma fjölskyldum sínum í örugga höfn og gagnrýnir þá sem stunda sjórán. Þegar við lesum bók Jesaja í gamla testamentinu þá sjáum við fljótt að hann er óhræddur við að gefa hlutum, atburðum, fólki nöfn. Mörgum okkar er Jesaja sérstaklega kunnugur af því að við lesum meðal annars í sjöunda kaflanum eftirfarandi texta:

Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.

Takið eftir. Jesaja sér atburðinn fyrir. En ekki bara það. Hann gefur barninu strax nafn. Immanúel, þ.e. Guð er með oss. Rúmlega 700 árum seinna átti þessi spádómur eftir að rætast, barnið fæddist og eins og ég gat um í upphafi máls míns, var hann, átta dögum eftir fæðingu borinn í helgidóminn. Við minnumst þess semsagt á nýársdag, að barnið fékk nafnið Jesús. Og í fjölda prédikana um allt land er í dag rifjað upp að nafnið Jesús er latnesk útgáfa af gríska nafninu Iesous, sem aftur er dregið af gyðinglega nafninu Jósúa. Það merkir Jahve er hjálpræði – Guð frelsar, bjargar, hjálpar. Og hvað sagði engill Drottins við Jósef? Lagði hann ekki einmitt áherslu á nafnið?

[Láttu barnið] heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra (Mt. 1.21).
Það að barn beri nafn er hluti af því sem okkur þykir sjálfsagt. Og okkur þykir sjálfsagt að nota nöfn yfirleitt. Ef við höldum okkur við myndlíkinguna um sjóferðina þá ber skipið sem við siglum á í gegnum árið 2012 væntanlega nafn. Svavar Sigmundsson nafnafræðingur hefur bent á að það er ævafornt fyrirbæri að gefa skipum eða bátum nöfn. Þannig má finna skipanöfn í fornum íslenskum heimildum. Í Snorra Eddu lesum við að Naglfar var skip jötna í Ragnarökum og að Baldur átti skipið Hringhorna svo dæmi séu nefnd. Þá þekkir Landnámabók skipið Elliða, í Njáls sögu heyrum við um skipið Gamm, Stíganda er að finna í Vatnsdæla sögu og Trékyllir í Grettis sögu. Og okkur sem umgöngumst biblíuna er Örkin hans Nóa oftar en ekki hugleikin.
En til hvers erum við að gefa skipum nöfn? Fyrrnefndur Svavar telur að þar geti komið til ýmsar ástæður, þær geti verið trúarlegar, það geti verið um hjátrú að ræða, viðkomandi sé að reyna að koma sér í mjúkinn hjá einhverjum öflum eða þá að hann sé einfaldlega með nafngiftinni að tjá ósk eða von um velgengni.
En frá skipunum aftur í biblíuna. Í níunda kafla Jesaja er að finna fleiri nöfn um konunginn sem fæðast muni. Nöfnin eiga það öll sameiginlegt að þau eru lýsandi, þau eru gegnsæ og frekari útskýringar óþarfar.

- Undraráðgjafi. - Guðhetja. - Eilífðarfaðir. - Friðarhöfðingi.

Þegar við heyrum þessar lýsingar spámannsins þá málum við ósjálfrátt í huganum mynd af þessum nýja konungi.

- Jesús. - Kristur. - Immanúel.

Myndin verður fyllri.
Ef þú fengir það hlutverk að gefa barni sem fæðist í dag, á fyrsta degi þessa árs, nafn. Hvaða nafn myndir þú velja?

- Sólbjört? - Skuggi?

Eitt af því sem hefur gert mig hvað mest hugsi yfir sögunni um Jesaja er að hann velur mjög sérstakt nafn fyrir son sinn:

- Hraðfengi Skyndirán

Þetta er útskýrt á eftirfarandi hátt í áttunda kafla Jesaja:

því að áður en drengurinn lærir að segja pabbi minn og mamma mín, verður auðurinn frá Damaskus og herfangið frá Samaríu flutt fram fyrir Assýríukonung.

Það er verið að ræna samfélagið innan frá. Jesaja velur einstaka leið til þess að vara samferðafólkið við. Hann notar nafn sonar síns. Sjáið þið þetta fyrir ykkur?

- Komdu hérna Hraðfengi Skyndirán. - Viltu meira að drekka Hraðfengi Skyndirán. - Getur þú farið út í búð fyrir mig Hraðfengi Skyndirán. - Hættu þessu, Hraðfengi Skyndirán.

Hver stendur vaktina nú þegar við stígum um borð í fleyið sem leggur úr höfn inn í árið 2012? Jesaja stóð vaktina á sínum tíma. Hann benti á þær ógnanir sem steðjuðu að samfélaginu. Ert þú sá sem ætlar að standa vaktina um borð í þínum bát? Ert þú sá sem ætlar að vara börnin þín, þína nánustu, samferðafólk þitt við þeim hættum sem eru í kringum okkur? Ætlar þú að vera með í liði þeirra sem nefna hið illa sínu rétta nafni?
Ég hóf mál mitt hér í dag á því að ítreka mikilvægi þess að við minntum sjálf okkur og aðra á að ferðin sem við leggjum upp í er farin í Jesú nafni. Í því samhengi þykir mér vert að við rifjum upp það sem Jesús sagði við lærisveinana sína:

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt 28.18-20

Það getur vissulega verið óttablandin tilfinning að stíga um borð í bátinn og sigla inn í nýtt ár. En þar þykir mér gott að minna sjálfan mig á að Jesús er við stýrið. Ég fel mig og mína í hans hendur, fullviss um að hann mun vel fyrir sjá.
Og ég bið hann að hjálpa mér að nefna hlutina réttum nöfnum, svo ég skilji og sjái hvað framundan er.

Jesús mér fylg í friði, með fögru engla liði.