Fíkjutréð og fyrirgefningin

Fíkjutréð og fyrirgefningin

Fíkjutréð fékk eitt tækifæri enn, eitt ár í viðbót til að ná sínum árangri og bera ávöxt. Við stöndum sjálf í þeim sporum einmitt núna. Er það ekki frábært?

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ Lúk 13.6-9

Það er alltaf alveg sérstök stemning í kirkjunni á gamlárskvöld og það kemur fólk þangað sem kemur kannski aldrei annars til guðsþjónustu. Þessu hefur faðir minn, sem þjónaði sem sóknarprestur í yfir fjörutíu ár, löngum haldið fram. Það er eitthvað við þennan dag og tímamótin sem hann stendur fyrir, sem knýr okkur til að nema staðar, horfa um öxl, endurlifa stundir og tilfinningar þess sem er liðið, hvort sem er í þökk, vonbrigðum, eða sársauka.

Sálmurinn sem við syngjum alltaf þegar gamla árið kveðjur og nýtt tekur við neglir þetta alveg. “Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.” Svo endanlegt og óumdeilanlegt. Það kallar alltaf fram sterkar tilfinningar að syngja þennan sálm yfir gamla árinu, söngurinn og bænarorðin í honum eru líka leið til að tjá og ganga í gegnum sorgarferlið sem fylgir öllum breytingum í lífinu. Það er erfitt að brynna ekki músum þegar Nú árið er liðið hljómar um leið og gamla ártalið hverfur smám saman á sjónvarpsskjánum og er horfið að eilífu. Og það er bara hollt og gott að leyfa sér að finna á eigin skinni að lífið tekur á og skilur eftir óuppgerð mál og erfiðar tilfinningar og áramótin – eða táramótin eins og einhver kallaði þau – eru náttúrulegur tími fyrir það.

Áramótin snúast líka um það sem er ókomið, framtíðina. Í upphafi nýs árs stöndum við frammi fyrir ótroðinni slóð og óskrifuðum dögum. Kannski óar okkur við því sem við teljum okkur sjá. Kannski eigum við í erfiðleikum með að skilja við okkur hið liðna og vitum ekki hvernig við eigum að gera það. Venjur og siðir í kringum áramótin tengjast þessum ferðalagi sálarinnar og þar er að finna ýmislegt sem á að gera það yfirkomanlegra.

Grín og glens í áramótaskaupi og grínþáttum við árslok gegna ekki bara hlutverki upprifjunar eða skemmtunar, heldur eru þáttur í úrvinnslu og leið til að lifa af. Brennurnar eru tákn fyrir það gamla sem við losum okkur við með því að henda á bálköst og láta fuðra upp. Sömuleiðis getum við litið á flugeldana sem svipað fyrirbæri, með þeim skjótum við burt leiðindum og því sem dregur okkur niður, á táknrænan hátt. Þessu drífum við í, áður en nýtt ár gengur í garð.

Að losa sig við óþarfa og það sem þjónar ekki lífi þínu er stöðug áskorun og nauðsynlegt til að hleypa nýjum hlutum að. Það á hvort sem er við slæma vana, neikvæð viðhorf, leiðinlega vinnu, erfið samskipti, niðurbrjótandi hegðun. Halló áramótaheit! Ætlar þú að vera minna á facebook, vera duglegri að mæta í ræktina, leika við börnin fram að háttatíma, vera duglegri að heimsækja gömlu frænku?

Sagan um fíkjutréð í víngarðinum kallast á við þennan veruleika – reglulega kemur eigandi víngarðsins og leitar ávaxtanna sem tréð á að gefa af sér en finnur enga. Og loks kemur að því að hann missir þolinmæðina og biður víngarðsmanninn að höggva það upp, engin ástæða sé að hafa þetta tré í garðinum þar sem það beri engan ávöxt. En víngarðsmaðurinn bregst fallega við, hann vill gefa trénu eitt tækifæri í viðbót, og hann trúir því að fá það meiri umönnun og aðhlynningi skapist loks aðstæðurnar sem þarf til að að það beri ávöxt. Og fíkjutréð fékk að standa í eitt ár enn, í umsjón þessa góða garðyrkjumanns.

Sagan af fíkjutrénu minnir á margt í fræðunum sem við kennum við leiðtoga og markþjálfun. Við lesum gjarnan lista eða úttektir á því hvað það sé sem einkenni góðan leiðtoga, og þá er bæði átt við fólk í leiðtogastöðum eða fólk almennt sem vill vera leiðtogi í sínu eigin lífi.

Þessi listi getur t.d. litið einhvern veginn svona út:

Fólk sem nær árangri setur sér langtímamarkmið. Skammtímamarkmið setur það sér, sem styðja við langtímamarkmiðið. Markmiðin geta verið hvað sem er, og þau styðja alltaf við það sem gerir þér gott og styrkir þig. Markmiðin þín eru einstök og ólík allra annarra, vegna þess að árangur þinn er einstakur og bara unninn af þér.

Fólk sem nær árangri kemur sér upp leiðum til að vinna að markmiðum sínum, og heldur sig við þær.

Fólk sem nær árangri hefur trú á sér sjálfu. Með jákvæðu hugarfari og sjálfstrausti heldur það áfram að fylgja leiðunum að markmiðum sínum, og gefast ekki upp þegar á móti blæs, heldur reynir aftur og aftur þangað til það tekst.

Fólk sem nær árangri hefur þá trú að það sé við stjórnvölinn í eigin lífi. Það ert þú sjálfur sem hefur stjórnina, ekki heppni eða örlögin. Engin andleg orka fer í að hafa áhyggjur af því hvort maður hafi heppnina með sér eða hvort stjörnurnar séu í hagstæðri línu, hún fer öll í það að láta hlutina gerast. Því þú veist að þú getur ekki stjórnað heppninni, en þú getur stjórnað þér sjálfum.

Fólk sem nær árangri gleðst yfir árangri annarra. Ó já.

Fólk sem nær árangri er ekki hrætt við að leita hjálpar. Bæði vegna þess að það nýtur þess sem hjálpin kemur til leiða og vegna þess að með því að biðja um hjálp sýnir það þekkingu og reynslu annarra virðingu. Virðing getur af sér virðingu. Og það hvetur til árangurs að vera innan um fólk sem sýnir þér virðingu, treystir þér og veitir þér innblástur.

Og kannski er rúsínan í pylsuendanum sú að fólk sem nær árangri dvelur ekki við hið liðna, það fyrirgefur sér og öðrum. Þetta er eitthvað sem æfa þarf upp, það virðist koma flestum okkar náttúrulega að ala á beiskju og biturð, ekki síst í eigin garð. Hætta því, tala við sig sjálf á jákvæðan hátt, ekki refsa þér fyrir mistök heldur halda áfram og gera þitt besta.

Fíkjutréð fékk eitt tækifæri enn, eitt ár í viðbót til að ná sínum árangri og bera ávöxt. Við stöndum sjálf í þeim sporum einmitt núna. Er það ekki frábært? Við fáum eitt tækifæri í viðbót til að vera þau sem okkur er ætlað að vera, ná árangri í því að vera glaðar og góðar manneskjur sem fyrirgefa sér og öðrum, gleðjast yfir árangri annarra, sýna öðrum virðingu, eru ekki hræddar við að biðja um hjálp, eru við stjórnvölinn í eigin lífi og hafa trú á sjálfri sér.

Við stöndum í þeim sporum að fá áfram að telja dagana okkar svo við getum öðlast viturt hjarta, eins og Davíðssálmurinn segir. Þar erum við í stóra samhenginu, þar er Guð frá eilífð til eilífðar, Guð áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, Guð sem hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Í verkefnum nýs árs og í uppgjöri við hið liðna er gott að hafa orð postulans Páls í huga þegar hann segir í Rómverjabréfinu, Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Og hann heldur áfram: Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?

Það er fullt af hlutum sem við munum ekki geta haft stjórn á á nýja árinu. En það er líka fullt af hlutum sem við getum stjórnað. Og þótt við vitum ekki hvað nýtt ár ber í skauti sér, vitum við að “hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.”

Þetta er fyrirgefningarboðskapur áramótanna. Fyrir fíkjutré og okkur hin.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.