Nýtt fyrir stafni

Nýtt fyrir stafni

Við sáum í sumar í Osló og Útey hvað hatur og illska myrkvaðrar sálar fær áorkað. En við sáum líka hvernig heil þjóð tók höndum saman um að mæta hatrinu með kærleika. Þvílíkt fordæmi! Við sáum líka, Guði sé lof, ótal dæmi þess hvernig hugrekki, góðvild og umhyggja ummyndar og blessar, læknar og leysir og vekur von.

Tilkomi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni, faðir vor. Amen.

Náð sé með yður og friður frá honum sem er og var og kemur, hinum alvalda. Amen. Guð gefi þér gleðilegt ár í Jesú nafni.

Hjá Jesaja spámanni er ritað: (Jes. 43. 18-20) „Svo segir Drottinn....Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni... ég læt vatn spretta upp í eyðimörkinni og fljót í auðninni til að svala minni útvöldu þjóð..“ Ég þakka liðin ár og samverustundir hér í Dómkirkjunni, prestum, sóknarnefnd og starfsliði elskuleg samskipti, söfnuði Dómkirkjunnar og þeim sem ég hef fengið að mæta hér á helgum og hátíðum, þakka ég, umfram allt þakka ég þeim sem í áranna rás hafa lagt leið sína í helgidóminn á morgni nýársdags. Þar vil ég sérstaklega nefna Oddfellowstúkuna Hallveigu. Guð launi og blessi dýrmætar samverustundir.

Þetta eru forn huggunarorð til hrelldrar þjóðar á örðugri eyðimerkurgöngu. Þú mátt taka þau til þín, íslenska þjóð á morgni ársins nýja! Þú átt hlutdeild í þessum fyrirheitum og vonarríku framtíðarsýn! Það er vegur, það eru svalalindir, það eru uppsprettur lífsþróttar og vonar, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Þegar gamla árinu tók að halla þá nutum við hjónin þeirrar hamingju að eignast nýja sonardóttur. Þvílík Guðs gjöf, gleði og vonar inn í dimma daga. Eins og móðir mín, heitin sagði gjarna: „Þar er engill í húsi þar sem ungbarn er!“ Þegar maður fær nýfætt barnabarn í fangið þá er sem tímaskyn, og skynjun og veruleikamat ummyndist. Hugsunin leitar á hver framtíð þess verði, hvernig viðbrögð okkar við því sem átök og kröfur yfirstandandi tíma krefjast munu móta það, loftslagsbreytingar, efnahagsleg óvissa, hraðfara tækniþróun sem grípur inn á meir og minna öll svið lífsins og mótar mannleg samskipti á ótal vegu. Vissulega er kvíðinn á næsta leiti. Ég finn sem afi til ábyrgðar minnar að gera mitt besta til að heimurinn verði Kristínu Þórdísi litlu og öllum börnum sem í heiminn koma betri og öruggari og heilnæmari. Í brothættum heimi, í veröld þar sem allt hefur áhrif hvað á annað, sérhver er öðrum háður, örlög fólks samtvinnast með undraverðum hætti og verk okkar og aðgerðarleysi hafa áhrif til mótunar framtíðar.

Erfiðleikaár er að baki, mikilla hamfara og þrenginga, bæði hér heima og erlendis. Við sáum í sumar í Osló og Útey hvað hatur og illska myrkvaðrar sálar fær áorkað. En við sáum líka hvernig heil þjóð tók höndum saman um að mæta hatrinu með kærleika. Þvílíkt fordæmi! Við sáum líka, Guði sé lof, ótal dæmi þess hvernig hugrekki, góðvild og umhyggja ummyndar og blessar, læknar og leysir og vekur von. Lærum af því! Við erum í sorg sem þjóð, öryggislaus andspænis heimsmynd og samfélagi sem virðist í upplausn. Óvissan er mörgum svo yfirþyrmandi að einstaka málefni dagsins geta valdið tilfinningalegum hamfaraflóðum sem dynja yfir samfélagið, eins og dæmin sanna. Sorgin á sér svo margar ásjónur og farvegi. Blind eftirsóknin eftir skjótfengnum ávinningi leiddi okkur inn í öngstræti. Ágirnd og ásókn í meira og meira af hlutum og þægindum og veraldarauði. Auðsæld okkar var sannarlega að láni og stefnir í að verða klafi á niðjum okkar og arðrændri og þrautpíndri Móður jörð.

Framtíð þjóðarinnar má ekki verða framlenging þess liðna. Hér þarf nýtt að koma til. Vegur sjálfhverfu og sjálfselsku er auðn og eyðimörk, brautir ágirndar og græðgi eru ógöngur. Gata hefnda og haturs er blindgata. Æ fleirum verður ljóst að þjóð okkar hafi leiðst inn á slíkar ófærur. Mér finnst Landsdómsákæran gegn einum manni vera einn vottur þess, og þjóðarsmán. Vissulega á að lögsækja vegna afbrota og dæma þau sem sek eru! Við höfum byggt upp nútíma réttarríki á grundvelli vestrænna mannúðarsjónarmiða og virðingar fyrir réttlátum lögum og samstöðu um siðferðilegar meginreglur. Samstöðu um siðferðilegar meginreglur. Það er mikilvægt að standa vörð um þann grundvöll. Það er ekki sjálfgefið þegar hinn siðferðilegi áttaviti veiklast, siðvitund og dómgreind dofnar. Er nýtt réttarkerfi komið hér í landi? Þar sem menn eru dæmdir sekir umsvifalaust ef frásagan, ávirðingin telst söluvæn, og afplánun hefst þegar í stað í gapastokki almenningsálitsins. Sorprit hafa lengi verið til og lapið dreggjar mannfélagsins, og uppskorið andstyggð siðaðs fólks, en nú virðist sorpið meir og minna viðurkennt. Jafnvel níð og rógur og einelti. Hagnaðarvonin ræður för, mistök fólks og harmar selja, og því má engan varða um líf og líðan og sálarheill þeirra sem í hlut eiga og jafnvel alsaklauss fólks sem því tengist. Og við sitjum í örfoka auðn hálfsannleika, upphrópana og yfirboða. Orðræða illmælgi og gífuryrða telst gjaldgeng í fjölmiðlum og á blogginu og jafnvel til marks um mannvit og snilli og spámannlegan eldmóð, eða fyndni. Svo virðist sem ýmsir telji að það að hrópa og blogga sé að hugsa, eintal, upphrópanir koma í stað samtalsins, sam-viskan sljóvgast. Sem og tilfinningin fyrir blæbrigðunum, óvissunni og efanum sem yfirleitt er nú aðalsmerki hugsandi manna.

Guðmundur Andri Thorsson ritaði skömmu fyrir jól umhugsunarverðan pistil um Hannes Hafstein, ráðherra, og vitnar í orð hans: „Strikum yfir stóru orðin, standa við þau minni reynum. Skjöllum ekki skrílsins vammir, skiljum sjálfir hvað vér meinum.“ - Guðmundur Andri bætir svo við: „Reynum að vanda okkur við það hvernig við tölum og skrifum. Hættum þessu gargi, þessu lýðskrumi, hættum að espa upp verstu kenndir fjöldans, leggjum af þessa ofsafengnu umræðu en reynum heldur að segja það sem við meinum og meina það sem við segjum. Skilja það sem við meinum. Við verðum að reyna að endurheimta orðin.“ Þetta eru tímabær orð og áminning.

Í Ævisögu Lárusar Pálssonar, leikarans óviðjafnanlega, sem Þorvaldur Kristinsson ritaði, er vitnað í vinarbréf til Lárusar sem segir: „Maður líttu í eigin barm, leitaðu að brumunum... sem breytast í umburðarleysi, valdagræðgi, tillitslausa sjálfumgleði og annað það sem býr í brjóstinu og urðu kveikjan að því sem við gengum í gegnum...“ Þessi orð bréfritarans eru tekið úr allt öðru samhengi en gætu vel verið töluð inn til okkar hér og nú. Öll þurfum við að horfa í eigin barm og skyggnast eftir brumum umburðarleysis og sjálfumgleði hjá okkur sjálfum. Og uppræta flísina úr eigin auga áður en við kveðum upp dóma yfir öðrum.

Oft er það því miður svo skelfilega satt sem vitur maður sagði að besta fólk er einatt svo önnum kafið við að frelsa heiminn að það gleymir að vera gott hvert við annað.

Kristur Jesús sýnir fram á grundvöll mannlegs samfélags og menningar sem er ekki lögmál endurgjalds og blóðfórna heldur andi miskunnsemi og fyrirgefningar, afl upprisu og vonar, sem er leiðin til lífsins.

Lífsspekin talar til okkar úr reynslusjóði alda og kynslóða, og vísar á hamingjuleið og heilla fyrir einstaklinga og samfélag. Hún er ekki sprottin upp úr viðhorfskönnunum, og er nú sjaldan hátt rómuð á torgum. Frekar hvíslað undir væng í aftankyrrð, en leggur til þrautreynd viðmið og traustan áttavita á villugjarnri leið. Eins og skáldið Guðmundur Friðjónsson frá Sandi lýsti því: ( sá sami og orti ljóðið um ekkjuna við ána sem margir þekkja og unna -)

Ljúkast upp hin luktu sund, ljómar yfir þeim sólin, þegar boðar fagnafund frelsari vor um jólin.

Minning ýms er mikils virð manna, er leita frétta. Undir væng í aftankyrrð ungur heyrði ég þetta:

Handa mér og handa þér -Hvílíkt ævintýri!- lýsigull í lófa ber Lávarður minn dýri.

Meðan hálfeyg metur þrá mikils gildi trúar: Lófagulli lumar á ljúf´rinn Guðs og Frúar.

Þó að leiki tungum tveim tilvist helgra dóma, gefðu, maður, að gneistum þeim gaum, sem ætíð ljóma.

Loka dags er sunna sezt, sverfur að greining lita, oss mun verða blessun bezt bending áttavita.

Það fer ekki milli mála hver áttavitinn er. Hann er í lófa barnsins í jötunni, sem er „lávarður heims, lifandi brunnur hins andlega seims, Konungur lífs vors og ljóss“ – eins og við sungum á jólunum. Já, þetta hafa kynslóðirnar í okkar landi þekkt og vitað og leitast við að miðla börnum sínum. Þó að eins og skáldið segir, skoðanir séu skiptar um gildi trúar og tilvist helgra dóma, þá er þarna ómetanlegur áttaviti og leiðarljós. Þar eru viðmið hinna fátæku í anda, syrgjenda, hógværra, þeirra sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, hinna miskunnsömu og hjartahreinu, friðflytjenda og þeirra sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, þeirra sem smánaðir eru og ofsóttir vegna trúar sinnar. Já, og þeirra sem heyra Guðs orð og varðveita það. Þetta eru viðmið og mælikvarðar Drottins Jesú Krists og vísa á veg í auðn og eyðimörkinni, uppsprettulindir vonar og framtíðar á vegferð manns. Vott þess sjáum við hvar sem einhver heyrir og hlýðir, vaknar til vitundar um ábyrgð sína og snýr baki við ágirnd, fýsn og valdahroka. Hvar sem það gerist og hvar sem fólk gengur erinda sátta og friðar þar vottar fyrir hinu nýja, sem Guð hefur fyrir stafni. Og það er hann sem mun hafa síðasta orðið.

Ég horfi á hana Kristínu Þórdísi litlu, sonardóttur mína, og sé litlu augun skima upp í jólaljósin. Hún er sköpuð fyrir ljósið, eins og ég og þú og sérhvert barn. Og ég bið þess að ljósið frá Betlehem lýsi þeim og okkur öllum veginn fram. Mörg eru ljósin og misholl sem krefjast munu athygli hennar. En ég veit að foreldrar hennar munu sá fræjum bænar og trúar í sál hennar og hjarta - eins og flestir foreldrar á Íslandi leitast enn við að gera, Guði sé lof! Ég bið þess að það fái borið ávöxt og veri henni og öllum börnum áttaviti og leiðarljós að feta sig eftir.

Framtíðin er óvissu hulin. Sem betur fer vitum við ekki. Það er aðeins einn sem veit og þekkir. „Fortjaldið sem hylur framtíðina er ofið af miskunnsemi,“ segir sænskur orðskviður. Í birtu þeirrar miskunnsemi fáum við að horfa fram. Eins megum við minnast að því meir sem skammdegið er, þeim mun nær eru sólhvörfin, því meir sem myrkrið er, þeim mun nær er dögunin, dagrenning þar sem allir skuggar flýja.

Á huga minn leitar gömul barnagæla frá Stokkseyri sem segir: Mitt barnið blíða, mér bregður til kvíða því hulið er mér hvað mæta skal þér, um kjör þín samt ugga þarft eigi. Því forsjón Guðs há mun fyrir vel sjá og leiða þig lífsins á vegi.

Ég sjálfur reyndi það sér eigi leyndi að lögð var mér leið mitt lífs yfir skeið þótt annan veg yrði en ég vildi, sem bar tíðum að æ betur fór það - það ávallt ég eftir á skildi.

Skáldið horfir í augu ungbarnsins og finnur kvíðann yfir óvissri framtíð. En grípur í traust handtak trúarinnar á forsjón Guðs, sem mun vel fyrir sjá. Og svo mælir rödd reynslunnar sem horfir um öxl yfir gengin spor. Það fór svo margt á annan veg en ætlað var, en nú sér hann að æ betur fór það. Af því að Guð var með í för. Nýjar dyr lukust enn og aftur upp eða þá að ófæran sem þú ætlaðir um megn, torleiðið sem þú gast með engu móti séð út yfir, það reyndist vera til blessunar, þrátt fyrir allt. Gott á það barn sem á slíkt veganesti úr foreldrahúsum. Veganesti trúar, reynslu og lífsvisku sem ætíð fær að reyna og sjá lausn og von, þótt syrti að og sundin virðist lokast.

Dagur rann úr skauti nætur með nýtt ár í faðmi sér: Árið tvöþúsund og tólf frá fæðingu Drottins Jesú Krists. Ár og aldir eru talin frá honum. En hann er ekki aðeins viðmiðun í fjarlægri fortíð. Trúin á hann horfir fram í von og bæn: „Tilkomi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni!“ Ríkið hans og vilji er ljósið og dagurinn, hið góða, fagra og fullkomna, ást og náð sem vill lækna og ummynda þennan heim, þerra hvert tár af hvörmum og láta ljósið og lífið ríkja. Við skulum leggja okkur fram um að svo verði. Með bæn okkar, lífi, góðvild og góðum verkum.