Hin raunverulega trúarjátning

Hin raunverulega trúarjátning

Kannski þarf maður ekki að vera sérfræðingur í þróunarsögu kristinna játninga til að geta játast Kristi? Er kannski nóg að vita að eitthvað sé til æðra mannlegum mætti, eitthvað óendanlega stórt og göfugt, þyrsta í að kynnast því og treysta því að Jesús hafi lykilinn að því? Svona eins og Nikódemus.

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, og átti sæti í öldungaráði Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, við vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gerir nema Guð sé með honum.“

Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.“

Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“

Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn. Jóh. 3:1-6

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Ég vil byrja á því að þakka þann heiður sem mér er sýndur með því að vera beðinn að prédika hér yfir þessum virðulega söfnuði – og ekki síður það traust sem í því felst. Það er nefnilega ekki laust við að maður sé hálfsmeykur við að gera eitthvað vitlaust, að verða það á að útleggja eitthvað þannig að það gæti stangast á við einhverjar neðanmálsgreinar í játningum vorrar evangelísk-lúthersku kirkju eins og þær hafa þróast og mótast í 2000 ár.

Þetta er nefnilega þrælflókið. Fyrstu aldir kristindómsins einkenndust af ágreiningi og deilum um trúarlegar skilgreiningar. Menn greindi á um hvort Jesús væri sama eðlis, homoousius, og faðirinn eða svipaðs eðlis, homoiousius. Já, það munar einu I-i. Sennilega hefur aldrei í mannkynsögunni staðið meiri styr um eitt sérhljóð. Upp risu Aríusarsinnar og Pelargíusarsinnar og Nestoríanar, dynatistar, dóketistar og dónatistar, svo fáeinir séu nefndir, og allir voru þeir úrskurðaðir villutrúarmenn á kirkjuþingum. Menn greindi á um hvort heilagur andi gengi út af föðurnum einum eða út frá föður og syni og varð það atriði loks að korninu sem fyllti mælinn með þeim afleiðingum að leiðir skildi endanlega með austurkirkjunni og vesturkirkjunni. Já, það er ofboðslega flókið að vera kristinn á nákvæmlega réttan hátt. Það þarf eiginlega háskólapróf til að geta verið viss um að maður fari ekki með fleipur og sé með allt á hreinu varðandi hinar þrjár persónur guðdómsins, eðli þeirra hverrar um sig og innbyrðis tengsl þeirra, samskipti þeirra við sköpunaverkið og hjálpræðis- og friðþægingarhlutverk hverrar og einnar þeirra. Þetta er ekki einfalt mál.

Eða hvað? Kannski þarf þetta ekki að vera svona flókið. Kannski þarf maður ekki að vera sérfræðingur í þróunarsögu kristinna játninga til að geta játast Kristi? Er kannski nóg að vita að eitthvað sé til æðra mannlegum mætti, eitthvað óendanlega stórt og göfugt, þyrsta í að kynnast því og treysta því að Jesús hafi lykilinn að því? Svona eins og Nikódemus.

Við vitum ekki margt um Nikódemus, en samt má ráða í þær upplýsingar sem guðspjallið veitir okkur. Við vitum að Nikódemus var ríkur. Þannig segir síðar frá því að eftir að Kristur hafði verið krossfestur hafi Nikódemus ásamt Jósef frá Arímaþeu búið lík Krists til greftrunar. Nikódemus hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum (Jóh. 19:39). Aðeins vellauðugur maður hefði haft efni á því. Við vitum líka að hann átti sæti í öldungaráði gyðinga, sem var eins konar „hæstiréttur“ þeirra. Undir stjórn Rómverja voru völd þess að vísu minni en áður, en samt voru þau allnokkur. Það hafði algjört dómsvald yfir gyðingum í trúarlegum efnum og meðal þess sem heyrði undir æðstaráðið var að rannsaka þá sem grunaðir voru um að vera falsspámenn. Við vitum líka að hann var farísei.

Farísearnir eru ekki beint góðu gæjarnir í Biblíunni. Þess vegna höfum við oft kolranga mynd af þeirri stöðu sem þeir höfðu og almennum viðhorfum til þeirra á tímum guðspjallanna. Farísearnir voru með eindæmum guðhræddir, þeir höfðu svarið þess dýran eið að helga líf sitt því að fylgja lögmáli gyðinga út í ystu æsar. Hvað þýddi það? Lögmálið er ekki það nákvæmt. Þar segir til dæmis aðeins um hvíldardaginn að halda beri hann heilagan. Þá mátti enginn vinna. Til að skilgreina nákvæmlega hvað í því fólst höfðu þess vegna verið samdar reglur niður í minnstu smáatriði svo ljóst mætti vera hvað teldist vinna og hvað ekki.

Svo dæmi sé tekið þá flokkaðist það undir vinnu að hnýta hnút. En það var ekki sama hvernig hnútur það var. Þannig mátti binda klæði sín og höfuðföt, reima mátti skó og hnýta fyrir skjóður. Þetta þýddi að ef einhver ætlaði að sækja vatn í brunn á hvíldardegi gerðist hann brotlegur við lögmálið ef hann hnýtti reipi í fötuna áður en hann lét hana síga ofan í brunninn. Hins vegar mátti hann hnýta magabelti konunnar sinnar í fötuna og nota það, því það mátti hnýta hnúta á klæðnað. Þið sjáið í hvílíkar ógöngur smásmyglisleg lagahyggja faríesanna hafði stefnt sambandi Guðs og manns. En farísear nutu gríðarlegrar virðingar. Orðið sjálft þýðir „sá sem sker sig úr“. Þeir þóttu skara fram úr öðrum í siðferðilegri breytni með sinni skilyrðislausu hlýðni við lögmálið í einu og öllu.

Þarna er sem sagt maður sem hefur allt; auð, völd og virðingu. En samt vantar hann eitthvað. Eitthvað knýr hann á fund Jesú og hann velur að koma um nótt. Samkvæmt rabbínskum fræðum var nóttin besti tíminn til að rannsaka lögmálið. Auk þess var Jesús umkringdur fylgjendum sínum á daginn. Hann vildi sem sagt hitta Jesú í næði og eiga stund með honum óáreittur. Næturheimsóknin bar ekki vott um hugleysi. Það eitt að maður, sem játast hafði undir hina níðþröngt skilgreindu lögmáls-maníu faríseanna, maður af hans stétt og stöðu, skyldi yfirhöfuð ganga á fund Jesú og síðar annast greftrun hans á sinn kostnað, bendir til alls annars en hugleysis.

Og um hvað ræddu þeir svo? „Enginn getur séð guð ríki nema hann fæðist að nýju,“ segir Jesús. Svo gæti virst sem Nikódemus hafi lagt barnalegan bókstafsskilning í þessi orð, hann svarar eitthvað á þá leið að fullorðinn maður geti ekki skriðið aftur inn í maga móður sinnar og fæðst á ný. En Nikódemus var enginn kjáni. Hann þekkti alveg endurfæðingarhugtakið og óeiginlega merkingu þess. Það þekkist í gyðinglegum trúararfi, sem hann var auðvitað þaulkunnugur, hafandi æðsta dómsvald yfir gyðingum í trúarlegum málefnum. Þegar heiðingi tók gyðingatrú var hann sagður hafa fæðst að nýju, syndir hans fyrir trúskiptin væru allar þvegnar burt. Nikódemus misskilur því Jesú ekki í barnaskap. Það er ekki æskileiki umbreytingarinnar sem hann efar, heldur möguleikinn á henni. „Þú gætir eins sagt mér, fullorðnum manninum, að skríða aftur inn í magann á mömmu minni og fæðast þannig upp á nýtt.“

Markmiðið með endurfæðingunni er að sjá Guðs ríki. Hvað eigum við við með því? Jesús talar oft um Guðs ríki, segja má að hann þrástagist á því. Í Lúkasarguðspjalli segir frá því að farísear hafi spurt Jesú hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: „Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það því að Guðs ríki er innra með yður“ (Lúk. 17:20-21). Þarna mætti líka þýða: „Guðs ríki er meðal ykkar“, þótt sú leið sé ekki farin í íslensku Biblíunni. Þekktustu orð Jesú um Guðs ríki, þau sem flestir kunna og fara með eru samt sennilega þessi: „Til komi þitt ríki.“ Ríki Guðs komi.

Það er alþekkt stílbragð í trúarlegri málhefð gyðinga að tvítaka merkingu, eða setja fram fullyrðingu sem í næstu setningu á eftir er útskýrð eða útlistuð nánar. Davíðssálmar eru morandi af þessu, svo morandi að segja má að ekki sé um eiginlegt stílbragð að ræða lengur heldur mun fremur rótgróna tjáningarhefð. Við þekkjum þetta kannski best úr 23. Davíðssálmi: „Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, / leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta“ (Slm. 23:2). Jesús þekkti sálmana vel, hann vitnaði í þá á krossinum.

Af hverju er ég að nefna þetta hér? Jú, það er kannski ekki fráleitt að Jesús, sem talaði eins og „sá sem valdið hefur“, hafi tileinkað sér þessa málnotkun. Það kynni að útskýra hvað hann á við með orðunum „til komi þitt ríki“. Er hugsanlegt að hann hafi útlistað það fyllilega í næstu setningu á eftir: „Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni“? Að Guðs ríki sé það ástand innra með okkur eða meðal okkar, þar sem vilji Guðs einn ræður ríkjum? Og þessu ástandi eða markmiði náum við ekki af eigin rammleik. Við verðum að undirgangast svo gagngera breytingu að ekki er hægt að líkja því við neitt annað en endurfæðingu eða nýja sköpun. Við hreinsumst, þ. e. endurfæðumst af vatni, og öðlumst nýjan kraft, öflugri okkar eigin mætti, þ. e. endurfæðumst af anda. Við látum af og leyfum Guði. Með því einu að láta líf okkar og vilja lúta handleiðslu Guðs getum við sætt okkur við að hans vilji ráði ríkjum, ekki okkar eigin langanir og þrár.

En nú erum við komin í laglegar ógöngur. Leit okkar að merkingunni á bak við Guðsríkið og endurfæðingarhugtakið hefur leitt okkur á slóðir afar eldfimrar hugmyndar, svo ekki sé meira sagt – hugmyndarinnar sem sennilega hefur verið misbeitt af mestu miskunnarleysi allra hugmynda fyrr og síðar, hugmyndarinnar um Guðs vilja. Sagan geymir hræðilega mörg dæmi um það hvað getur gerst þegar menn þykjast sjá að Guðs vilji fari saman við persónulega þráhyggju eða jafnvel pólitískar hugsjónir þeirra sjálfra og taka að sér að hrinda honum í framkvæmd fyrir Guðs hönd, oftast í himinhrópandi mótsögn við helstu grundvallaratriði kristinnar trúar, s. s. „elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig“ og „það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra gjörið þér mér“, svo ekki sé minnst á „það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra“. Það að vera kristinn er nefnilega ekki það sama og að hafa prókúru á Guðs vilja. Þvert á móti. Það er mun fremur í því fólgið að gefa Guði prókúru á sinn vilja.

En hvað þýða svo þessi grundvallarsannindi í raun? Hvað er á bak við orðagjálfrið og kærleikshjalið – svona í hinum hversdagslega raunveruleika?

Fyrr í vetur var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera viðstaddur fullorðinsskírn og við það tækifæri var guðspjallstexti dagsins einmitt lesinn. En er þá verið að segja að ég sé hólpinn ef ég skírist til kristinnar trúar, af vatni og anda, og læt þar við sitja, að þeir sem ekki skírist til kristinnar trúar séu glataðir? Ef svo er ekki, hvað á ég þá að gera til að öðlast eilíft líf?

Þegar Jesús var spurður að þessu síðasta svaraði hann með dæmisögu, og það engri smá dæmisögu. Sennilega þekktustu dæmisögu allra tíma, sögunni af miskunnsama Samverjanum. Maður verður fyrir árás og liggur í blóði sínu. Farísei og Levíti ganga framhjá. Þeir haga sér óaðfinnanlega samkvæmt lögmálinu sem þeir höfðu helgað líf sitt og gengu fram hjá, af því að maðurinn hefði getað verið dauður og þeir máttu ekki snerta lík, með því hefðu þeir saurgað sig. Hlýðni við lögmálið vó þyngra en allt annað. Þá ber þar að heiðingja, nánar til tekið Samverja. Þessa sögu þekkja allir. Samverjinn hugsaði ekki með sér: „Ég er alls ekki undir það búinn að axla þessa ábyrgð. Ég verð nú fyrst að leysa öll samfélagslegu vandamálin heima í Samaríu áður en ég get farið að ala önn fyrir fólki sem kemur mér ekki við.“ Það er Samverjinn, sem auðsýndi kærleika í verki, sem er fyrirmyndin um rétta breytni. En við skulum ekki gleyma því að miskunnsami Samverjinn var ekki kristinnar trúar ... í orði. Þannig stillir Jesús elífa lífinu ekki upp og segir: „Sjá, allt þetta skal ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Þau orð koma hvergi fyrir í Nýja Testamentinu ... eða hvað? Jú, þau koma reyndar fyrir, en það er ekki Kristur sem talar. Við hljótum að hafa villst mjög langa leið frá hinum tæra kjarna trúarinnar þegar við erum farin að gera frelsaranum upp aðferðafræði andskotans. Þvert á móti þá er það miskunnsemi í verki sem er hin raunverulega trúarjátning, ekki trúfélagsaðild – jafnvel þótt hún hafi verið staðfest á táknrænan hátt með skírn. Í nútímaútgáfunni af þessari dæmisögu, svo óforskömmuð er hún, væri hún sennilega um miskunnsama múslimann sem annaðist manninn sem presturinn og sóknarnefndarformaðurinn hunsuðu, af því að þeir voru að flýta sér í messu og vildu ekki fá blóð á sparifötin.

Jesús segir líka á öðrum stað: „Ég var flóttamaður og þið tókuð á móti mér.“ Flóttamaður er að vísu þýtt með orðinu „gestur“, en orðið sem þarna stendur á frummálinu er lýsingarorðið xenos, sem vissulega getur merkt gestur, en líka „ókunnugur“, „framandi“, „útlenskur“. Þetta orð þekkjum við helst í dag í samsetningunni xenofóbía – útlendingahatur. Hvaða útlendingar eða framandi fólk skyldu nú hafa verið á þvælingi þarna um Palestínu á fyrstu öldinni? Þetta voru ekki túristar í sólarlandaferð eða forvitnir heimshornaflakkarar að þvælast einhverja erindisleysu sér til upplyftingar. Þetta var fólk sem hafði verið herleitt og flutt nauðugt í þrældóm eða fólk sem hafði flúið hungur, ofsóknir eða aðrar hörmungar í heimalandi sínu til að bjarga lífi sínu. Jesús sagði ekki: „Ég var landflótta, en auðvitað var ekki hægt að ætlast til þess að þið tækjuð á móti mér, enda með nóg á ykkar könnu, svona eins og ástandið í dagvistarmálum og bensínverðið hjá ykkur var á þeim tíma.“

Þið skiljð sennilega hvað ég er að fara. Að vera kristinn, ekki bara í orði heldur á borði, er að auðsýna kærleika í verki. Það þarf ekkert háskólapróf til þess. Trú er ekki fræði. Jesús klifar á því að það sé vilji föðurins, þannig er Guðsríkið sem við verðum að taka algjörum stakkaskiptum til að geta komið á. Það er ekki spurning um skírn eða fermingu, kirkjurækni eða jafnvel ekki einu sinni trúfélagsaðild, heldur endurfæðingu – að við látum af allri eigingirni og sérplægni og þjónum hvert öðru í kærleika. Og það þarf enginn að segja mér að sá boðskapur eigi ekki fullt erindi til okkar í daglegum raunveruleika hversdagsins. Það þarf ekki annað en að líta í blöðin til að sjá að Jesús talar beint til okkar í úrlausnarefnum líðandi stundar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen