Bernskuhamingja er drýgsta veganestið til lífsgæfu

Bernskuhamingja er drýgsta veganestið til lífsgæfu

Framtíð Íslands og heimsins alls, veltur á því hvernig að við sinnum börnum okkar og kirkjan gegnir þar mikilvægu hlutverki í samstarfi við uppalendur, uppeldisstofnanir og frístundavettvang.

Kæru landsmenn, gleðilegan æskulýðsdag.

Kirkjan hefur haldið æskulýðsdag, óslitið frá árinu 1959, en sá dagur er frátekinn til að gleðjast yfir því góða starfi sem kirkjan vinnur með börnum og unglingum um land allt og til að biðja fyrir börnum þessa heims.

Starf kirkjunnar byggir á biblíulegum grunni og afstaða biblíunnar til bernskunnar gerir þá kröfu á hana, sem erindreka Jesú Krists, að sinna börnum og láta sig varða velferð þeirra. Í hinni hebresku Biblíu er börnum ítrekað kennt að bera virðingu fyrir og læra af þeim sem eldri eru og því fylgir það loforð að þurfa ekki að endurtaka mistök fyrri kynslóða. ,,Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.” Afstaða Jesú snýr þessari hugmyndafræði á haus og hann segir börnin miðla okkur sannleika um sjálfa leyndardóma skaparans. Þegar lærisveinar Jesú vildu tryggja að friður fengist fyrir börnum sem trufluðu samkomu hinna fullorðnu, setti hann ofan í við þá og sagði ,,leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki” (Mt. 10.14-16) og þegar lærisveinarnir rifust um hver þeirra væri mestur sýndi hann þeim ungabarn og sagði ,, Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér” (Mt. 18.3-5). Skylda kirkjunnar gagnvart börnum er að ljúka dyrum sínum upp á gátt í þjónustu sinni við þau og á sama hátt er það skylda okkar að ljúka hjörtum okkar upp á gátt gagnvart þeirri gjöf guðsríkisins sem þau bera með sér.

Það eru forréttindi að mega alast upp í þeirri trú að heimurinn allur, heimur barnsins, sé í öruggri og ástríkri hendi Guðs. Barn sem elst upp við að biðja með ástvinum sínum við rúmstokkinn lærir að það stendur aldrei eitt í lífinu. Betra veganesti er ekki hægt að gefa barni og öllu barna og unglingastarf kirkjunnar er ætlað að styðja fjölskyldur í þessari mikilvægu heimilisguðrækni. Heilbrigt bænalíf og þátttaka í æskulýðsstarfi kirkjunnar hefur gríðarlegt forvarnargildi.

Börnum sem glíma við kvíða er það lífsnauðsynlegt að upplifa öryggi bænarinnar. Börn sem standa höllum fæti félagslega finna mörg í kirkjustarfi vettvang þar sem engar hæfniskröfur eru gerðar til þátttöku. Unglingar sem hafa misst fótana í lífinu og sækja 12 spora starf, byggja nýja framtíð á grunni þess bænalífs sem ástvinir þeirra deildu með þeim sem börn við rúmstokkinn.

Sunnudagaskólinn, eða kirkjuskólinn eins og hann heitir víða, er samveruvettvangur yngstu barnanna með fjölskyldu sinni og það bænalíf og sá söngvaarfur sem fylgir sunnudagaskólastarfi býr með börnum ævilangt. Kirkju- og barnakórastarf barna á grunnskólaaldri kennir börnum þær biblíusögur sem mótað hafa sagnaheim og siðgæði okkar Íslendinga frá landnámi og veitir börnum aðgang að helgihaldi sem miðar að þörfum þeirra. Fermingarárið tekur fjölskyldan öll þátt í að styðja barn sitt fyrstu skrefin í að slíta barnsskóm trúarlífsins, og biður fyrir unglingnum sem tekið hefur þá ákvörðun að fylgja Jesú í átt til farsæls og heilbrigðs lífs. Unglingastarf kirkjunnar, leiðtogafræðsla og æskulýðsmót eru síðan vettvangur fyrir ungt fólk til að taka sér stöðu innan kirkjunnar og láta um sig muna. Leiðtogaefni kirkjunnar, á aldrinum 14 til 20 ára, hafa aldrei verið fleiri og í þeirra höndum er framtíð kirkjunnar borgið.

Hinn umdeildi niðurskurður sóknargjalda á árunum eftir efnahagshrun okkar Íslendinga hefur leitt af sér þverstæðukennda stöðu í æskulýðsstarfi kirkjunnar. Á sama tíma og fagmenntuðu fólki sem sinnir barna- og unglingastarfi í kirkjum hefur fækkað uggvænlega, hefur aðsókn í æskulýðsstarf kirkjunnar aldrei verið meiri. Nýafstaðin æskulýðsmót héraðssambanda kirkjunnnar í reykjavíkurprófastsdæmum (ÆSKR) og á norður- og austurlandi (ÆSKEY/ÆSKA), eru til marks um það en þátttakan á þeim fóru fram úr björtustu vonum. Árleg Landsmót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar eru orðinn stærsti einstaki viðburður kirkjunnar, en unglingalandsmótin hafa meira en tvöfaldast frá árinu 2008 og síðastliðin ár hafa þátttakendur verið yfir 600.

Yfirskrift æskulýðsdagsins að þessu sinni er Hendur Guðs – okkar hendur og það rímar vel við þær áherslur sem hin fjölmennu Landsmót vinna eftir en markmið þeirra er að láta sig aðstæður barna í heiminum varða. Undanfarin ár hafa þátttakendur frelsað börn úr vinnuþrælkun á Indlandi, aðstoðað skóla sem fór illa í hamförunum í Japan og nú síðast var þorp í Chikawa héraði í Malaví stutt með tveimur brunnum, tuttugu hænum og átján geitum. Næsta Landsmót er þegar í fullum undirbúningi og verður haldið í Reykjanesbæ í október næstkomandi en þar verður fjallað um fátækt á Íslandi og mun mótið leggja innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar lið.

Heilbrigð kirkja lætur sig varða stöðu barna í heiminum og það er auðvelt að fallast hendur gagnvart því óréttlæti sem börn þurfa víða að þola. Samkvæmt upplýsingum frá barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna hefur mikill árangur náðst í baráttunni við barnadauða og á heimsvíðsu hefur fjöldi barna sem deyr ár hvert lækkað úr tólf milljónum barna árið 1990 í sjö milljónir í fyrra. Séu þær tölur settar í samhengi þýðir það að á æskulýðsdaginn munu nítján þúsund börn deyja úr næringarskorti eða eitt barn á tæplega fimm sekúndna fresti.

Þá eru ótalin þau börn er lifa við skelfilegar aðstæður vegna fátæktar, uppskerubrests eða hamfara, átaka á ófriðarsvæðum eða ánauðar barnaþrælkunnar og vændis. Hér á landi er neyð barna fyrst og fremst fólgin í afleiðingum áfengismisnotkunar, kynferðislegs ofbeldis gegn börnum og fátæktar. Í stað þess að fallast hendur gagnvart þessum vanda ber okkur að lifa eftir slagorði Breytenda, ungliðahreyfingar hjálparstarfs kirkjunnar, en þeirra einkunnarorð eru ,,Auðvitað getum við breytt heiminum!” og ,,enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað”.

Sýn kristinnar trúar á helgi manneskjunnar og sú hugsjón að hvert mannsbarn eigi meðfæddan rétt til að mega lifa og þroskast óáreitt hefur alið af sér þá mannréttindahugsjón sem barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna endurspeglar. Barnasáttmálinn er í eðli sínu árétting á Mannréttindayfirlýsingunni, sem á rætur að rekja til deiglu eftistríðsáranna, en nauðsyn sáttmálans sprettur af þeirri sérstöku vernd sem börn þurfa, vegna þroska- og reynsluleysis. Barnasáttmálinn á að tryggja börnum vernd, umönnun og þátttöku í samfélaginu og byggir á þeim grundvallarreglum að börnum sé ekki mismunað, að ráðstafanir yfirvalda séu byggðar á því sem þeim er fyrir bestu, að börn eigi meðfæddan rétt til að lifa og þroskast og að láta skoðanir sínar í ljós.

Fá skjöl hafa djúpstæðari þýðingu fyrir heimsbyggðina en Mannréttinda-yfirlýsing og Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna. Barnasáttmálinn öðlaðist gildi á Íslandi árið 1992 en hann var lögfestur fyrir örfáum dögum, þann 20. febrúar síðastliðinn. Það er mikið gleðiefni að hann hafi nú verið innleiddur í íslensk lög, en það er gert í þeirri von að honum verði oftar beitt í framkvæmd og hafi þannig bein réttaráhrif. Barnasáttmálinn tryggir börnum grundvallarmannréttindi svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Rétturinn til að iðka trú óáreitt eru grundvallarmannréttindi og er börnum nauðsynlegur til að verða heilbrigðar manneskjur.

Í nafni mannréttinda hafa borgaryfirvöld sett kirkjunni stólinn fyrir dyrnar í að bjóða börnum upp á kirkjustarf í húsnæði Reykjavíkurborgar og þannig mismunað kirkjustarfi gagnvart öðru uppbyggilegu frístundastarfi á borð við íþróttir og tónlistarnám. Það er dapurlegt að verða vitni að mannréttindahugsjón sem tryggja á rétt barna til að iðka trú, snúið upp í andhverfu sína með þeim hætti.

Framtíð Íslands og heimsins alls, veltur á því hvernig að við sinnum börnum okkar og kirkjan gegnir þar mikilvægu hlutverki í samstarfi við uppalendur, uppeldisstofnanir og frístundavettvang. Hlutverk kirkjunnar er að veita börnum skjól og athvarf, að kenna þeim að leita í bæna- og menningararf kristinnar trúar og að miðla þeim boðskap Jesú Krists.

Skilboð kirkjunnar til ungs fólks eru þessi: Þú ert velkomin eins og þú ert. Við erum til staðar fyrir þig, hlustum á þig og viljum að þér líði vel. Það er bæn okkar að þú fáir að dafna og þroskast sem sú dýrmæta sköpun sem þú ert.

Með orðum Frú Vigdísar Finnbogadóttur ,,Bernskuhamingja er drýgsta veganestið til lífsgæfu.” (Nýársávarp forseta 1. janúar 1992)