Hvað hrópa steinar?

Hvað hrópa steinar?

Þetta er söngurinn okkar. Fáa söngva syngjum við oftar en þennan. Hann er nánast eins og tákn um söng kirkjunnar á öllum tímum og um tíma og eilífð. Hann er sannleikurinn. Og ef lærisveinarnir þegja, munu steinarnir hrópa. Hvað þýðir það?

Þegar hann var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð, og segja: Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum! Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: Meistari, hasta þú á lærisveina þína.Hann svaraði: Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa. Lk. 19. 37-40

Kæri miðvikudagssöfnuður.

Síðasti sunnudagur bar nafnið: Kantate. Syngið! Og í dag syngur hún sönginn sem allir sungu, jafnvel börnin. Einnig þau þekkja konung sinn og frelsara.

Guðspjallin greinir frá innreið Jesú til Jerúsalem. Nú hastar Jesús ekki á neinn og ekki sagði hann heldur eins og svo oft áður þegar lærisveinarnir urðu vitni að undrum og stórmerkjum: Segið engum, látið engan vita. Nú skyldu allir vita. Nú skyldi ekkert dulið. Nú kemur heimsins hjálparráð.

Allir guðspjallamennirnir segja frá þessum atburði. En Lúkas einn hefur viðbót við frásöguna sem aðrir hafa ekki Jesús vildi að gjört yrði opinbert hver hann var, en nokkrir farisear vildu að hann þaggaði niður í fólkinu. Þeir hafa vafalaust litið svo á að orðin: blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins, væri guðlast. Þeir vilja að fólkið þagni.

Nú hefur þessi söngur hljóðnað víða þar sem hann var áður sunginn og nær okkur en þægilegt er að hugsa um. En engir farisear lögðu þar nokkra hljóðnun til. Hvergi fækkar kristnu fólki meir en í ríkustu löndum Evrópu.

Kæri söfnuður, þetta er söngurinn okkar. Fáa söngva syngjum við oftar en þennan. Hann er nánast eins og tákn um söng kirkjunnar á öllum tímum og um tíma og eilífð. Hann er sannleikurinn. Og ef lærisveinarnir þegja, munu steinarnir hrópa.

Hvað þýðir það?

Jesús er á leiðinni til Jerúsalem. Það er mikið grjót á leið hans og margir steinar milli Olíufjallsins og niður í Kidrondalinn. Svarið getur ekki merkt að þegar munnur mannanna lokast, taki steinarnir við söngnum. Steinar syngja ekki nema þegar þeir skella hver á öðrum eða á einhverju öðru. En sungið geta þeir, það veit sá sem hlýtt hefur á steinhörpu Páls í Húsafelli er hún syngur listilega.

Sögnin merkir annars ekki að syngja og ekki heldur að hrópa. Hún merkir miklu frekar að veina, eða æpa. Í samanburði við sögnina að syngja er þessi frekar notuð um það hljóð sem froskar gefa frá sér og verður seint kennd við söng. Og fólkið söng ekki heldur, það sagði blessaður sé sá sem kemur.

Hvað á Jesús við? Er hann að hugsa um blóðuga steinana í kringum hvern þann sem grýttur var í hel? Er hann að hugsa um hrunin hús og hrunin mannvirki menningarinnar? Hvenær hrópa steinarnir? Stefán var grýttur, frumgróði hinnar kristnu kirkju og Sál snerist til Páls þegar steinarnir hrópuðu. Og

Jesús er á leiðinni. Á leið hans er hin helga borg framundan og musterishæðin sést vel. Sumir ritskýrendur benda á að Drottinn sjái fyrir augum sínum myndina af eyðingu musterisins. Þess vegna fylgi í guðspjalli Lúkasar beint á eftir frásögunni um innreiðina, frásögnin um grát hans yfir borginni. Steinar hinnar eyddu borgar eyðileggingarinnar hrópa með skerandi röddu það sem einungis rústir kunna að mæla. Rústir mannvirkja og menningarverðmæta fæddar og getnar af ofbeldi stríðsæsinga og drápsfýsnar hrópa til heimsins hver hann er sem kemur. Það er hann sem lætur líf sitt og lætur blóð sitt falla yfir hið hrunda, skemmda og eyðilagða og gerir alla hluti nýja. Steinar hrópa og enginn heyrir.

Konungshyllingin gat ekki hindrað það sem koma vildi. Hyllingarhrópin, játning elsku og virðingar, var færð í kaf af skrækjum haturs. Hatur getur ekki sungið, bara skrækt.

Eyrun þurfa að læra að skilja á milli. Því sá sem heyrir ekki orð sannleikans og söng kærleikans heyrir ekki heldur þó að steinar hrópi.