Elska og aggiornamento

Elska og aggiornamento

Kirkjur eru mikilvægar, en koma ekki stað trúarinnar. Páfi er mikilvægur, en getur aðeins svarað fyrir sjálfan sig þegar Jesús spyr um elskuna. Leiðtogar kirkjunnar ruglast illilega ef þeir bara gæta þess að sauðirnir hugsi enga nýja hugsun, fari aldrei í nýja haga og andleg engi! Í prédikun í Neskirkju 10. apríl 2005 var rætt um elsku, kirkjustefnu og uppfærslur.

Þegar þeir höfðu matast, sagði Jesús við Símon Pétur: Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?

Hann svarar: Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Gæt þú lamba minna.

Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: Símon Jóhannesson, elskar þú mig?

Hann svaraði: Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Ver hirðir sauða minna.

Hann segir við hann í þriðja sinn: Símon Jóhannesson, elskar þú mig? Pétur hryggðist við, að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: Elskar þú mig?

Hann svaraði: Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur, bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir, en þegar þú ert orðinn gamall, munt þú rétta út hendurnar, og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki. Þetta sagði Jesús til að kynna, með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt, sagði hann við hann: Fylg þú mér.

Jh.21.15-19

Jóhannes Páll II er allur. Blessuð veri minning hans. Þar fór góður maður og gegn biskup kirkju sinnar, bæði á pólskri heimaslóð og einnig í Róm. Páfi Rómarkirkjunnar er dáinn og grafinn. En hvað svo? Hvernig munu kardínálarnir velja, hvernig verður stefna Rómarkirkjunnar? Verður einhver stefnubreyting? Auðvitað skiptir páfaval miklu, ekki síst vegna þess að rómversk-kaþólska stærsta kirkjudeildin og þar að auki miðstýrð og lagskipt.

Okkur lútherana skiptir einnig máli hvernig páfinn í Róm hugsar og starfar. Deilur kaþólskra og evangelísk-lútherskra voru gerðar upp í veigamiklum atriðum, þegar hið merka plagg um “réttlætingu af trú” var undirritað á árinu 1999. En strax eftir undirritun kom þó í ljós, að ekki voru allir yfirmenn kirkjunnar sammála um útfærslu stefnubreytingar. Skoðanir páfa skipta aðrar ekki-kaþólskar kirkjur máli vegna samskipta, vegna einingar kirkju Krists í heiminum og vegna vægis og áhrifa hins kristna boðskapar í veröldinni. Páfi getur haft mikil áhrif eins og sást í uppstokkun og uppgjöri í Austur – Evrópu og falli kommúnismans. Í þeim snúnu málum lagði Jóhannes Páll þung lóð til. En páfinn markar einnig stefnu í flestum málum, gefur út páfabréf um hverju kaþólikkar skuli trúa, hvernig þeir eigi að breyta og hvers þeir megi vona. Aggiornamento.

Pétur og Jesús

Guðspjallstexti dagsins varðar páfann, Róm og alla kirkju Krists í heiminum því Jesús spyr um heilindi og afstöðu. Textinn er úr elskuguðspjallinu, Jóhannesarguðspjalli. Í því er oft vikið að elskunni, t.d. í því sem við nefnum litlu Biblíuna: “Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn...” Guð elskar og gefur í ákveðnum björgunartilgangi. Í Guði ríkir sá kærleikstilgangur að gefa líf.

Texti þessa sunnudags í kirkjuárinu er elskutexti. Nokkuð óvænt spyr Jesús vin sin, Pétur Jóhannesson: “Elskar þú mig?” Sjálfsagt hefur Pétur verið hissa á þessari spurn og fer undan á flótta, segir að Jesús viti um afstöðu hans. En Jesús lætur sig ekki og þríspyr Pétur.

Settu þig í þessi spor. Jesú er umhugað um hvað taki við, hver muni halda áfram því verki, sem hann hafi hafið, hver muni stýra hópnum sem hafi aðhyllst kenningu, skilning og leiðsögn hans. Jesús þekkti bresti Péturs, vissi um hverflyndi, ístöðuleysi og hræðsluflýti hans. Samt vildi hann efla hann til starfa og þjónustu við Guðsríkið. Aggironamento.

Hlutverk kirkju og trúar

Hvað er það að gæta sauðanna? Hvað merkir að gæta lamba Jesú? Jóhannes Páll II varð páfi skömmu áður en ég lauk guðfræðiprófi frá HÍ. Ég fór sem næst beint frá prófborði vestur um haf til framhaldsnáms. Sundurleit hjörð var við nám í guðfræðideild Vanderbiltháskóla. Skólinn og þar með deildin var óháð kirkjum og fólk með ólíkan trúarlegan bakgrunn sótti til hennar í akademískum tilgangi. Margir kaþólikkar voru þarna á kafi í skruddunum. Einna merkilegast þótti mér að kynnast Jesúítaprestunum og nunnum úr ýmsum reglum, sem voru í doktorsnámi. Þau opnuðu fyrir mér furður og ríkidæmi kaþólsku kirkjunnar, fjölbreytileika hennar og skipulag. Þau voru flest trygg köllun sinni til prestsþjónustu og einlífis, en voru jafnframt í góðu sambandi við samfélagsbreytingar og þarfir tímans. Öll voru þau sammála um, að kaþólska kirkjan þyrfti að nútímavæðast, koma til móts við félagslegar, menningarlegar, pólitískar og fjölbreytilegar lífsþarfir fólks.

Þau voru jákvæð á val Carol Wojtyla, sem varð Jóhannes Páll II. páfi. En þau minntu á, að hann hefði hlotið mótun í baráttu við pólitísk einræðiskerfi og því væri ekki að vænta að hann myndi vinna nein stórvirki utan þess ramma, sem uppvöxtur hans hefði skapað. “Það verður ekki fyrr en eftir hans dag, að einhverja breytinga er að vænta. En þá verður að stokka upp að nýju, nútímavæða málin,” sögðu þau. Aggiornamento.

Hinn nýlátni páfi var lengur páfi en nær allir Rómarpáfar og gætti sauðanna. Ég held, að hann hafi gert vel í flestu, t.d. í samskiptum við trúmenn annarra hefða, múslima og Gyðinga, lagt góð lóð á skálar friðar í heiminum, staðið með hinum fátækari í heiminum, tengt páfaembættið alþýðu fólks um allan heim með ferðum sínum o.s.frv. En á páfatíð hans hefur kaþólska kirkjan ekki siglt inn í siðfræði- eða trúfræðisjó samtíðar. Kenning hennar, stefnumál og atferli er í flestu í takt við gamla hætti. Hún heldur fast í gömul samskiptaform kynjanna, veitir ekki konum aðgang að prestsþjónustu, leyfir ekki prestum sínum að kvænast eins og flestar aðrar kirkjur og er íhaldsöm í siðferðisefnum. Festan og hefðarhyggjan er styrkleiki kaþólsku kirkjustofnunarinnar en vísast einnig veikleiki.

Þrátt fyrir upphaf og mótun benti Jóhannes Páll II. til gamalkunnugra lausna og beitti sér fyrir skipan gamalhugsandi kardínála og biskupa. Þegar yfir lauk var páfinn búinn að ákveða hvernig páfi framtíðar hugsar, verður og starfar því hann sat svo lengi, að hann var búinn að skipa flesta yfirmenn kaþólikka í heiminum. Gátin á yfirsauðunum var alger og því verður þess að vænta að kardínálarnir muni velja einhvern sem verður með sama marki og Jóhannes Páll 2. Aggiornamento Andans eða hvað? Vandi kaþólsku kirkjunnar er vandi allra kirkna, lausnir hennar hafa áhrif á allar kirkjur, veikleikar hennar eru einnig okkar brestir. Við getum því ekki dæmt, heldur lært af henni og með henni, beðið með trúsystkinum okkar og beðið stjórnendur kaþólsku kirkjunnar að hugsa nýja guðfræði með okkur hinum. Við erum á sama bát, á sama kirkjuskipi á öldum tímans. Við erum þjónar.

Uppfærsla og hlutverk

Hvert er hlutverk kirkjunnar í heiminum? “Elskar þú mig?” spurði Jesús Pétur. Páfinn í Róm er arftaki þess Péturs, sem á að hafa verið fyrsti biskupinn í Róm. Jóhannes Páll II. skildi vel spurningu Jesú og streittist við að þjóna meistara sínum allt til enda, gæta sauðanna eins vel og hann gat allt þar til heilsan bilaði algerlega. Ekki lét hann Parkinson aftra, ekki hrumleika ellinnar. Auðvitað elskaði hann Jesú, en var þetta um of? Hvað er það að elska Jesú og gæta hjarðar hans? Það er alveg örugglega ekki fólgið í að viðhalda kirkjustrúktúr sjálfs hans vegna og gildir einu við hvaða kirkju og deild er átt. Það er ekki fólgið í að tryggja að karlar einir geti þjónað að sakramentum kirkjunnar og gildir einu við hvaða kirkju er átt í þeim efnum. Það er ekki fólgið í því að stjórnkerfi kirkna sé í flestu eða öllu í samræmi við alda-hefðir og –venjur og örugglega ekki fólgið í því að meina fólki að nota getnaðarverjur! Adiafora er tímatengt, allir skyldu reyna að greina á milli gilda tíma og lögmála eilífðar. Þar skjöplast okkur flestum og höfum öll verkefni að vinna. Kirkjur þarnast sífelldrar siðbótar, allar kirkjur veraldar hafa það verkefni, okkar kirkja sérstaklega og við skulum byrja hér í okkar söfnuði.

Að elska Jesú er að opna tilveru sína gagnvart hinu mesta, stærsta og besta – Guði. Það er að opna fyrir elskuna í öllum myndum. Vissulega munum við menn eiga í erfiðleikum með að vita í hverju elskan er fólgin, þegar hún er tengd og túlkuð að ákveðnum aðstæðum í tíma, menningu, félagslífi og skyndilegum kreppum.

Kirkjur eru mikilvægar, en koma ekki stað trúarinnar. Páfi er mikilvægur, en getur aðeins svarað fyrir sjálfan sig þegar Jesús spyr um elskuna. Jesús spyr biskupa allra alda, allra kirkna, allra kirkjudeilda - um elskuna. En leiðtogar kirkna og safnaða ruglast illilega, ef þeir halda að vel sé svarað ef þess er bara gæt að sauðirnir hugsi enga nýja hugsun, sæki aldrei í nýja haga og andleg engi! Trúmennska biskups á rót í því að biskup svari grunnspurningunni, sem Jesús spyr: “Elskar þú mig?” Þar er forsenda hirðisstarfsins. Þeirri spurningu verður prestur að svara játandi - einu gildir í hvaða trúfélagi sá starfar. Þjónusta prests snýst í andhverfu sína, ef hann eða hún getur ekki svarað meistara sínum með elskuyrði.

Kirkja, hvort sem hún er kaþólsk, evangelísk-lúthersk, Fíladelfía eða Vegurinn, - kirkja er á rangri braut ef hún aðeins reisir girðingar umhverfis fólk, skilgreinir siðferði og rétt líf, skipar fyrir um skoðanir og atferli, en hjálpar fólki ekki til að svara vel frumspurningunni: Elskar þú Jesú, ertu ástvinur Guðs?

Þá erum við komin inn í okkar veröld. Texti dagsins varðar Róm, en líka kirkjur á Íslandi, alla biskupa, presta, djákna, organista, sóknarnefndarfólk, starfsmenn, sjálfboðaliða, fólk sem sækir kirkju en líka hin sem ekki sækja kirkju. Umfram allt varðar spurningin þig. Jesús Kristur spyr þig beint: “Elskar þú mig?” Þá spyr hann þig ekki um kreddu, siðferði, heldur um afstöðu eða það sem kallast trú. Ef þú átt í vandræðum með þá spurningu þarftu að ræða við þennan Jesú og kannski líka fá hjálp hjá þeim trúmönnum, sem þú treystir til samræðu. Til þeirra starfa erum við kirkjulegir starfsmenn valdir og okkur falið að þjóna því hlutverki. Verkefnið í Róm á sér hliðstæð verkefni meðal allra kristinna manna og allra þeirra sem þjóna kirkju Krists - aggiornamento.

Til nútímans

Þegar einn merkasti páfi síðari tíma Jóhannes 23. kallaði saman kirkjuþing fyrir liðlega fjörutíu árum, gerðu fæstir sér von um nokkur mikilvæg tíðindi. En kirkjuþingið varð hið merkasta og margt var rætt, sem virtist benda til að vortíð væri hafin meðal kaþólikka. Þá var talað um, að nú væri verið að færa mál kaþólskunnar til nútímans. Aggiornamento varð slagorð þingsins og meðal kaþólikka um allan heim. Það þýðir bókstaflega að færa til dagsins í dag, færa til nútímans. Það merkir að uppfæra, hugsa og lifa í samræmi við þarfir samtímans.

En uppfærslan varð fljótt úrelt, aldraðir leiðtogar kirkjunnar hræddust breytingar. Það er alltaf auðveldara að vera eins og menn hafa “löngum” verið, en opna fyrir því, sem enginn veit hvernig lyktar.

Kirkjan býr alla tíma við þá kröfu að bregst við þörfum samtíma síns, líka nú. Á miðöldum voru oft miklir áhyggjutímar og prestar sem páfar voru hræddir. Nótt eina dreymdi Leó páfa, að honum fannst kirkja Krists væri að hrynja. Angistin greip páfann. En svo sá hann í draumnum, að fátæklega búinn maður kom til hjálpar. Páfi gerði sér grein fyrir, að þar fór góðmennið og munkurinn Frans frá Asissi. Kirkjuyfirvöld höfðu ekki haft mikla trú á starfi hans og fylgismanna hans. En páfinn veitti Frans þó leyfi til starfa eftir þennan draum, sem varð til mikils góðs.

Hverjir halda uppi kirkju Krists á jörðinni? Það eru ekki aðeins einhverjir útvaldir heldur öll þau, sem vilja varðveita lífið, vilja þjóna Guði. Elskar þú mig? Spurningunni verða allir að svara, kardínálar við páfaval, en þó helst við sem erum hér í dag.

Aggiornamento - Amen.