Vonin

Vonin

Guðspjall: Lúkas 13: 6-9

Nýr dagur, nýtt ár, nýr áratugur. Við horfum með þakklæti til liðins tíma.

Þótt við séum ólík þá eigum við þó eitt sameiginlegt, tíminn hefur sett sitt mark á okkur. Það eru þó ekki allir sem horfa með þakklæti til liðins tíma, raunar vilja sumir gleyma honum því að það má vera að sá tími hafi einkennst af brostnum vonum, vonbrigðum vegna langvarandi heilsumissis eða atvinnuleysis.

E.t.v. hefur Bakkus konungur gerst tíður gestur á heimili þínu eða einhvers sem þér þykir vænt um. Kannski hefur hann skilið eftir sig ýmislegt sem betra væri að vera án. Já, hann getur valdið mikli böli á mörgum heimilum. Það hefur reynslan sýnt. Hann hefur valdið því að fjölskyldur hafa flosnað upp vegna biturleika eða ósættis.

Margir eiga um sárt að binda sökum ástvinamissis á árinu sem nú er liðið í aldanna skaut. Við lifum á þessum dauðans óvissu tíma þegar enginn veit hver er næstur.

Þjóðin hefur nú þurft að sjá á eftir efnilegu æskufólki sem dó langt fyrir aldur fram og við stöndum öll eftir hnípin og spyrjum: "Hvers vegna?". Svörin liggja ekki á reiðum höndum frekar en fyrri daginn. En kannski lærum við af þessari reynslu að nota tímann vel með okkar nánustu ættingjum og vinum og lifum lífinu lifandi með hugarfar kærleikans að leiðarljósi. Við höfum öll þörf fyrir það að þörfum okkar sé mætt.

Vissulega höfum við flest til hnífs og skeiðar, hýbýli og klæði eigum við einnig. Og við eigum einhverjar innistæður í bankanum, misjafnlega miklar þó. En okkur gengur misjafnlega vel að safna. En ég ætla nú ekki að fara að tala um peninga heldur hitt að við getum stofnað bankareikning í hjörtum hvors annars. Okkur er í sjálfsvald sett hvort við setjum inn á hann eða ekki. Innistæðan verður þá ekki í formi peninga heldur kærleika. Sá maður sem leitast við að leggja slíka innistæðu fyrir í hjarta eiginkonu sinnar reglulega mætir þörfum hennar fyrir umhyggju, athygli og öryggi. Ef hvor aðili um sig leitast við að elska hinn aðilann í orði og verki þá hækkar innistæðan í kærleiksbankanum og hjónabandið blómstrar.

Þetta lögmál gildir um öll mannleg samskipti. Ef við ræktum ekki garðinn okkar þá þrífst hann ekki. Á sama hátt má segja að ef við leggjum okkur ekki fram um að elska okkar nánustu vandamenn og vini þá minnkar innistæðan óðfluga og að lokum getur allt farið í bál og brand.

E.t.v. er innistæðan lítil nú um og eftir áramótin hjá mörgum. Reynslan hefur sýnt að hjá mörgu fólki verður spennufall eftir áramótin og hjón æskja skilnaðar vegna alvarlegs ósættis. Þegar svo er komið þá hafa jólin snúist upp í andhverfu sína. Jólin eru friðarhátíð en ekki hátíð ófriðar. En mér finnst einhvern veginn að það magnist upp einhver spenna hjá fólki fyrir jólin. Það á að kosta svo miklu til til þess að allt verði fægt og fínpússað innan dyra sem utan og að allir hafi nægilega mikið í sig og á. Það vill enginn vera minni maður en nágranninn. Þetta kostar oft blóð, svita og tár. Þá er nú betra heima setið en af stað farið.

Margir hafa það fyrir sið að strengja áramótaheit um áramótin. Það er vinsælt að hætta að reykja um áramótin. En mér finnst nú skynsamlegast að líta bara í eigin barm og sjá hvort maður geti ekki mætt þörfum ættingja sinna og vina betur. Það er gott í þessu sambandi að líta til baka yfir farinn veg og athuga hvað hefði mátt fara betur í samskiptum manns við annað fólk og reyna síðan að koma þar betra lagi á.

Kannski hafa mörg góð tækifæri runnið okkur úr greipum á s.l. ári með þeim afleiðingum að við erum lík fíkjutrénu í guðspjalli dagsins sem hefur engan ávöxt borið í þrjú ár.

Vonleysi þess virtist algjört af þessum sökum. En þrátt fyrir það er tréð ekki hoggið upp. Vonarglætan er gefin því að trénu er gefinn gálgafrestur. Maðurinn sem gróðursetti fíkjutréð fær eitt ár til þess að freista þess að það komi ávextir á það. Og nú ákveður hann að hlúa enn betur að því en síðustu þrjú árin með því að vaka yfir því dag og nótt, bera að góðan áburð og vökva það reglulega.

Fíkjutréð dró kraft og næringu úr jarðveginum og framleiddi ekkert í staðinn. Það var synd þess. Ef við tökum meira til okkar en við gefum frá okkur þá erum við í sömu sporum og fíkjutréð.

Við erum öll í skuld gagnvart lífinu og gagnvart Guði. Við komum inn í það fyrir tilstuðlan annarra sem ósjálfbjarga börn og við hefðum aldrei komist af án umvefjandi kærleika þeirra sem elskuðu okkur. Þessa gjöf kærleikans og lífsins ber okkur skylda til að endurgreiða í þágu næstu kynslóða ella berum við engan ávöxt líkt og fíkjutréð. Sú skylda er lögð okkur á herðar að skila hlutunum betri en þeir voru er við tókum við þeim.

Abraham Lincoln sagði eitt sinn: "Ég vil að um mig verði sagt að ég reytti illgresi og setti niður blóm þar sem ég hélt að þau myndu vaxa".

Við erum eitt og sérhvert lík manninum sem gróðursetti fíkjutréð. Okkur er gefin von. Við verðum að reyna að gera betur á þessu ári en því síðasta. Verkefnin eru næg ef grannt er skoðað. Sérhver líti í eigin barm.

Ég hef þá trú t.d. að flestum hjónaböndum megi bjarga ef allir leggjast á árarnar. Stundum er sagt að vilji sé allt sem þarf. Vandamál innan hjónabands og fjölskyldna virðast smávægileg samanborið við vanda stórþjóða þar sem glundroði og stjórnleysi ríkir eins og t.d.í Sovétríkjunum. Þar hafa frelsisvindar blásið um foldu og íbúar í mörgum lýðveldum lýst yfir sjálfstæði og sagt sig úr lögum við miðstýringarvaldið í Kreml.

Ég ætla ekki að tala um pólitík hér heldur aðeins leggja enn einu sinni áherslu á þessa von hjá fólki hvar sem það er nú statt á jarðarkringlunni. Það er ákaflega gott að eiga von um betri tíð, betri hag til lands og sjávar, von um meiri sjávarafla og betri nýtingu hans, von um góðæri til lands og sjávar, von um betri heilsu og andlega og efnalega hamingju. Nú þegar við horfum öll fram á veginn þá bið ég góðan Guð að blessa okkur sporin og megi hann afstýra hörmungum stríðsátaka í Sovétríkjunum og um heim allan. Amen