Brauðið

Brauðið

Um kvöldið, þegar allir eru komnir heim eru flestir orðnir þreyttir. Kvöldmatur er snæddur, fréttir sjónvarpsins renna framhjá á skjánum. Síðan tekur fjarstýringin við, Kastljós, gamanþáttur tekur við. Þá sportið og síðan sakamálamynd með tilheyrandi ofbeldi. Steinar fyrir brauð.

Brauðið er áberandi í orðum Jesú í guðspjallstexta dagsins, þar sem hann kennir sig við það, ég er brauð lífsins. Það er ekkert óvenjulegt við það að brauðið hafi verið mikilvægt og að frelsarinn hafi notað það sem líkingu fyrir líkama sinn. Brauðið var mikilvægasta fæðutegund Ísraelsmanna eins og flest allra þjóða. Það voru bökuð brauð á hverjum degi, brauð var dagleg næring. Og Jesús kenndi okkur í bæn sinni að biðja um daglegt brauð.

Ég heyrði einu sinni skemmtilegan brandara.

Eitt sinn kom forstjóri Coca Cola og sérfræðingar hans í auglýsingasálfræði í heimsókn í Páfagarð. Erindið var að fá páfa og kirkjuna til að bæta inn í Faðir vorið Gef oss í dag vort daglegt brauð og Coca Cola. En Páfi var ekki til viðtals um það. Þeir buðu honum milljónir og alltaf hækkaði boðið þeirra, en páfi sagði alltaf nei. Loks gáfust þeir upp, og forstjórinn spurði páfa.

Hvað borguðu bakararnir ykkur.

Gef oss í dag vort daglegt brauð

Jesús talaði oft um brauð. Í upphafi starf síns svaraði hann Freistaranum um að við lifum ekki af brauði einu saman. Við þurfum ýmislegt annað til þess að lifa, lifa góðu innihaldsríku lífi. Það er einlæg trú mín og sannfæring að með því að kenna börnunum okkar bænir og fræða þau um allt það góða sem Jesús kenndi með lífi sínu og starfi gerum við þau færari til þess að takast á við lífið bæði þegar vel gengur og á móti blæs. Í gleði og sorg.

Þess vegna segir Jesús í texta dagsins. Ég er brauð lífsins.

Eitt sinn dró Jesú upp myndina af steinum og brauði þegar hann lýsti því hvernig Guð gefur þeim sem hann biðja góðar gjafir: "Hann segir, eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?" (Matt. 7,9·11).

Getur það verið að sá tími sé kominn að myndin sé ónothæf? Getur það verið að við höfum ekki lengur vit á að gefa börnum okkar góðar gjafir? Fyllum við líf þeirra af gervigæðum meðan hin raunverulegu gæði eru vanrækt? Getur verið að við séum að gefa börnum okkar steina fyrir brauð, í andlegum skilningi?

Mörg börn eru ein þegar þau koma heim úr skóla. Það gerir ekkert til. Sjónvarpið, dvd spilarinn, tölvuleikirnir, ipadinn eða isiminn. Það er nóg við að vera. En á hvað horfa þau. Steinar fyrir brauð.

Um kvöldið, þegar allir eru komnir heim eru flestir orðnir þreyttir. Kvöldmatur er snæddur, fréttir sjónvarpsins renna framhjá á skjánum. Síðan tekur fjarstýringin við, Kastljós, gamanþáttur tekur við. Þá sportið og síðan sakamálamynd með tilheyrandi ofbeldi. Steinar fyrir brauð.

Þetta er afar einfölduð mynd og mikil alhæfing að halda því fram að þannig sé málum almennt komið hjá íslensku þjóðinni. Samt felur þessi mynd í sér ákveðinn sannleika. Hún er fyrst og fremst dregin upp til að vekja umhugsun um þá spurningu hvort við gefum börnunum okkar steina þegar þau biðja um brauð.

Hvað leggjum við til grundvallar í okkar eigin fjölskyldu og fjölskyldulíf.? Á hvers konar gildismati byggjum við? Hvaða verðmæti setjum við á oddinn? Þegar á reynir skiptir mestu hvernig innviðirnir standa sig.

Leggja þarf rækt við samfélag og samheldni þar sem einstaklingarnir læra að lifa saman og bera umhyggju og virðingu hver fyrir öðrum. Jesús sagði: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir" (Jóh. 6,35). Jesús er hið lifandi brauð sem Guð gaf okkur mönnum til hjálpræðis. Ætlum við að taka þetta brauð frá uppvaxandi kynslóð? Ætlum víð að gefa henni steina í staðinn fyrir brauð?

Kristin trú er ákveðinn skilningur á heimi manneskjunnar og sannfæring um rétta mynd af tilgangi lífsins. "Dauðinn dó, en lífið lifir" er boðskapur kristninnar. Fólk kemur saman í kirkju Krists, lofsyngur Guð, biður í Jesú nafni vegna þess að það vill vera merkt lífinu, helgað af Kristi, sem dó og reis upp frá dauðum. Markmið og takmark kristins trúarlífs er leitin að vilja Guðs. Í kristnu líferni felst einnig vilji til að lifa lífinu eins og höfundur þess væntir, svo farsæld verði úr. Mikilvægast er og verður það, að hver einstaklingur komi lífi sínu nær vilja Guðs með mannlífið yfirleitt. Því biðjum við í nafni kærleikans, sem Jesús birti.

Biðjum sem sagt í Jesú nafni. Biðjum með hugarfari kærleikans, biðjum um það að vilji Guðs verði svo á jörðu sem á himni. Biðjum þannig í bæninni sem Drottinn kenndi.

Þar er einnig bænin um hið daglega brauð. Marteinn Lúther skýrir í fræðum sínum biblíulegan sannleika þess, að maðurinn lifi ekki á einu saman brauðinu. Að hans skilningi er brauð allt það sem heyrir til lífinu á jörðinni. Lífinu heyrir ekki aðeins til fæði og klæði, hinar brýnustu lífsnauðsynjar, efnislegar. Einnig það, að lifa í friði í samfélagi okkar, hvort sem litið er til þrengsta eða víðasta hrings, heimilis eða mannheims alls.

Bænar og hugarfars er þörf, sem færir frið. Þar sem ekki er friður, heldur stríð, þar gengur daglegt brauð fljótt upp. Nær tvöþúsund ár eru frá því Jesús kenndi fyrstu lærisveinunum að biðja Guð um daglegt brauð. Jafnlangt er síðan Jesús sagði þeim frá samábyrgð mannanna. Að elska náungann eins og sjálfan sig. Brauð lífsins er að sjálfsögðu það að hafa mat til viðurværis. Brauð lífsins er líka það að hafa samband við annað fólk, upplifa það að aðrir eru í raun ríkidæmi, auðlegð.

Eins og Lúther sagði: "Við erum hvert öðru hið daglega brauð." Og brauð lífsins er Jesús Kristur. Það brauð meðtökum við þegar við gerum vilja Guðs. Þegar við gefum okkur til þjónustu að framgangi Guðs ríkis. "Ég er brauð lífsins," segir Jesús í guðspjalli dagsins. Kenning Lúthers er sú að hver sem trúir þessum orðum hafi það sem þau segja. “Ég er brauð lífsins”, segir Jesús. Ef hann er það, þá er hið sanna réttlæti fólgið í því fá að þiggja brauðið.

Við þörfnumst bæði brauðs fyrir magann og sálina. Okkar andlega brauð er Jesús Kristur, hann er brauð lífsins. Því það sem Jesús afrekaði nægir öllum heiminum. Það sem Jesús hefur sagt, gert eða liðið er þess eðlis að allir hafa not fyrir það ef þeir færa sér það í nyt. Þannig felur kenning Jesú í sér svo einfalda speki að hvert barn skilur hana og er nægilegt íhugunarefni fyrir hina mestu spekinga. En hún geymir einnig í sér huggun sem styrkir hinn sorgbitna. Loks opnar hún augu okkar fyrir þörfum náungans fyrir líkamlega og andlega fæðu. Fagnaðarerindið er því hin sanna fæða sálarinnar og hjálpar okkur að neyta hins daglega brauðs í þakklæti.