Spegill, spegill

Spegill, spegill

Annar spegill, Biblían, sýnir allt aðra sögu, magnar upp það smæsta svo það verður stórt, úrkastið svo það verður úrval, hið vanburða svo það verður fullburða, hið skemmda svo það verði heilt, hið ljóta svo það verði fagurt og gott. Í spegli himinsins verður allt mikið og gott.

[audio:http://db.tt/aPGOFy4p] Einn morguninn sagði sonur minn mér frá reynslu af því að horfa í spéspegil. “Ég var stuttur og feitur” sagði hann og skellihló. Spéspeglar veita oft fyndna sjón. Svo eru til aðrir speglar sem hafa önnur árhif. Að horfa í spegil getur orðið heilmikil reynsla og fólk jafnvel ruglast. Gríski guðinn Narcissus var sagður hafa heillast af spegilmynd sjálfs sín og dáið af þeirri sjálfsást. Harry Potter heillaðist af spegli í Hogwartskólanum, en sá spegill sýndi ekki ytri raunveruleika, heldur það sem drengurinn þráði, pabba og mömmu og návist þeirra. Og speglar gegna merkilegum hlutverkum í draumum og eru oft táknrænir. María Guðsmóðir, sem líka er hugsað um á þessum degi, er n.k. spegill sem mótar túlkun á fólki, hlutverkum, mannsýn og þar með kristni. Passíusálmarnir eru spegill til sálarskoðunar. Speglar eru mikilvægir. Hvernig líður þér fyrir framan spegil? Viltu sjá? Hvað viltu sjá? Föstutíminn er eiginlega speglunartími. Í dag tala ég um ólíka spegla og lífsnálgun.

Töfraspegill

Danski sagnameistarinn H. C. Andersen skrifaði merkilega sögu um töfraspegil, sem var þeirrar gerðar, að allt sem var satt, gott og göfugt brenglaðist eða hvarf í spegluninni. Jafnvel besta fólk stóðst ekki spegilinn, því hann var voðaverkfæri, sem illviljaður hafði gert. Stórkostlegar náttúruperlur urðu sem soðið spínat í afmynd spegilsins. Hinum illa spegilsmið fannst smíð sín góð, því nú gæti hið fagra og fullkomna ekki lengur staðist, alla vega ekki þegar spegillinn væri annars vegar.

Tröll hófu spegilinn á loft og flugu með hann upp í himininn. Tilgangurinn var að efna til stríðs við allt hið besta og fegursta - að spegla allt, sem væri á himnum og umbreyta því í ekkert. En í flugferðinni upp í Guðsheima rann þetta ofurvopn illskunnar úr greipum tröllanna og féll til jarðar og splundraðist í milljarða flísa, sem dreifðust um alla jörðina. Og það varð til, að allir menn fengu flís í auga, sem breytti sjón manna með skelfilegum hætti. Vegna flísanna sjá menn ekki lengur hið fallega og góða, heldur sér fólk betur vankanta annarra, sér hversu gölluð og auðvirðileg við erum. Sumir hafa jafnvel fengið flís í hjartað og það síðan orðið að ísstykki. Það eru þessi kaldrifjuðu og vondu, sem hafa slík hjörtu.

Þetta er merkileg saga – og eins og allar viskusögur er hún áleitin, kitlar huga, kveikir hugsun og í besta falli visku. Saga H. C. Andersen er um refilsstilu hins illa, um illt verk, illt tæki, sem á sér þann illa tillgang að spilla hinu góða, sannleikanum. Töfraspegillinn er um illskuna og afleiðingar hennar. Og afleiðingar hennar eru alltaf hinar sömu, lífsbrenglun – skemmd lífsins.

Lífsspegill En svo er til annar spegill, sem sýnir allt aðra sögu. Það er Biblían, sem er einn af speglum himinsins. Sá spegill magnar upp það smæsta svo það verður stórt, úrkastið svo það verður úrval, hið vanburða svo það verður fullburða, hið skemmda svo það verði heilt, hið ljóta svo það verði fagurt og gott. Í spegli himinsins verður allt, sem við metum lítils, að því sem er mikið og gott.

Biblíusagan er um Jesú, sem elskaði mikið, sinnti utangarðsfólki samfélagsins svo það varð mennskt að nýju, sá alla, kallaði til allra og umvafði alla. Málarinn Van Gogh sagði einhvern tíma, að Jesús hefði elskað veröldina meira en skynsamlegt væri. Fyrir það hefði hann goldið með lífi sínu. Það er dýrt að elska. En Jesús horfði á fólk og sá það með umhyggjuaugum. Hann hlustaði á orð þess og heyrði þau, hann sá persónuna, sem var að baki og mat hana. Hann er himinspegill sem tjáir, að líf okkar er undur.

Sannleikurinn Biblíutextinn í dag er áleitinn texti. Hann er einn af þessum speglum, sem er brugðið upp til að hafa áhrif og fá menn til að hugsa. Jesús var að tala við landa sína, en þeir trúðu fæstir orðum hans og efuðust reyndar um flest, sem hann sagði. Og Jesús sagði: “Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?” Og hann bætti við:” Sannlega, sannlega segi ég yður. Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.”

En tilheyrendur Jesú höfðu allt á hornum sér, sögðu hann ljúga og að hann væri beinlínis setinn illum anda. Og þeir gripu grjót og ætluðu að henda í hann. Þeir höfðu engan húmor, opinn huga eða umburðarlyndi gagnvart orðum og athöfnum Jesú. Þeir ætluðu að vanvirða spegilinn eins og vonda stjúpan, sem vildi ekki hlusta á sannleiksspegilinn í sögunni um Mjallhvíti og dvergana sjö.

“Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.” Þetta æsti tilheyrendur svo mjög, að þeir urðu hamslausir af reiði. Þeir sættu sig ekki við, að Jesús segði sjálfan sig vera þann, sem beðið hefði verið eftir, sendiboði Guðs, þjóðarleiðtogi, sonur Guðs. Styrrinn og deilan stóð ekki um siðaboðskap eða umhyggju Jesú Krists, heldur um persónu hans. Þeir tóku upp steina til að grýta hann. En hann duldist og fór út úr helgidóminum. Þeir ætluðu að grýta hann og þá hvarf hann þeim. Í því er merkilegur sannleikur, að þegar reynt er að drepa sannleika, henda í hann grjóti, þá hverfur hann. Og þeir, sem kasta verða að tröllum, verða afmyndaðir og hræðilegir.

Speglar föstunnar Biblíutextarnir í messum á föstunni eru vandlega valdir og eru n.k. konungsskuggsjá. Það er ástæða fyrir, að við erum löðuð til íhugunar um hver Jesús sé áður en við komum að kyrruviku og inn í mitt páskaundrið. Það er ekkert sjálfsagt, að við skiljum efni páskanna, nema við undirbúum okkur. Einu gildir þó við þekkjum plottið og atburðarásina. Skilningur er ekki vitneskja um framvindu heldur innsæi varðandi inntak. Kirkjuárið er uppbyggt sem heilagt drama.

Lífsspegill himinsins “Sá sem varðveitir mitt orð, mun aldrei að eilífu deyja” – segir Jesús Kristur. Er þess virði að varðveita orð hans? “Ef ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess, að þér eruð ekki af Guði….. Sannlega, sannlega segi ég yður. Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja…. Þá tóku þeir upp stein til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum…”

Hvað er satt og hvað er logið? Það skiptir svo sannarlega máli að kunna að greina á milli. Það er eiginlega æviverkefni okkar allra æfa okkur í þeirri aðgreiningu, að læra að sjá hið sanna og þekkja frá hinu falska. Falleg og efnileg börn og ungmenni spegla sig í einhverjum tröllaspeglinum og verða að engu.

En hins vegar er himinspegillinn, Jesús sjálfur, sem er tilbúinn að magna þig upp, gera þig góða eða góðan að nýju, draga fram fegurð þína og möguleika, sýna þér guðsmynd þína að nýju. Í lífinu eru safn af speglum. Þú velur í hvaða spegil þú horfir, spéspegil, illskuspegil lyginnar, eyðingarspegil eða lífsspegil himinsins.

Fyrir viku síðan skírði ég stúlku í Háteigskirkju. Hún heitir Heiðbjört Anna, undursamlega fallegt barn. Afinn hélt á dótturdóttur sinni undir skírn og hélt á hinu unga lífi með fögnuði. Þessi litla stúlka var fullkomlega meðvituð, horfði á prestinn, skírnarfontinn, fólkið og umhvefið stórum og óttalausum augum. Svo var hún krossuð, fyrir henni var beðið. Hún var ausin vatni og augun voru alltaf stór og óhrædd.

Alltaf verð ég snortin í skírnum og alltaf upplifi ég Guðskomuna í slíkum athöfnum. Á þessum sunnudegi horfði ég í spegil augna barnsins og sá í þeim undur lífsins og skildi, að lífið er í góðu fangi hins heilaga. Augu barnsis urðu mér speglar sannleikans og tjáðu mér gæsku himinsins.

Guð talar við okkur sannleika sinn, um sig og um okkur öll. Guð talar við okkur í speglum lífsins og sýnir okkur í þeim Jesú Krist.

5 sd. í föstu 2012

Textaröð: A Lexía: 4Mós 21.4b-9 En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“ Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“ Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.

Pistill: Heb 9.11-15 En Kristur er kominn sem æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð sem ekki er með höndum gerð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa heldur með eigið blóð inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gerst, á að helga þá svo að þeir verði hreinir hið ytra. Hve miklu fremur mun þá blóð Krists, þegar hann hefur í krafti eilífs anda borið sjálfan sig fram fyrir Guð sem lýtalausa fórn, hreinsa samvisku okkar af dauðum verkum svo að við getum þjónað lifanda Guði. Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum til þess að þau sem Guð hafði kallað mættu öðlast hina eilífu arfleifð sem heitið var.

Guðspjall: Jóh 8.46-59 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“ Þá sögðu þeir við hann: „Nú vitum við að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir og þú segir að sá sem varðveitir orð þitt skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir okkar, Abraham? Hann dó og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“ Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn og hann sá hann og gladdist.“ Þá sögðu þeir við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur og hefur séð Abraham!“ Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist er ég.“ Þá tóku menn upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og hvarf úr helgidóminum.