Kirkjulegt æskulýðsstarf

Kirkjulegt æskulýðsstarf

Aðstæður ungs fólks (unglinga) í dag eru þær að ekki er hægt að tala um þau sem hóp heldur sem marga samhliða, fjöllita hópa þar sem áhugamál og skoðanir eru jafnólíkar og hóparnir eru margir. Hér eru á ferðinni óháðir og sjálfstæð ungmenni sem eru ekki bundin þröngu svæði, hvorki hvað samskipti, upplýsingar, afþreyingu né ferðir varðar.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
08. febrúar 2006

Aðstæður ungs fólks (unglinga) í dag eru þær að ekki er hægt að tala um þau sem hóp heldur sem marga samhliða, fjöllita hópa þar sem áhugamál og skoðanir eru jafnólíkar og hóparnir eru margir. Hér eru á ferðinni óháðir og sjálfstæð ungmenni sem eru ekki bundin þröngu svæði, hvorki hvað samskipti (SMS, MSN ...), upplýsingar (internetið ...), afþreyingu (sjónvarpið ...) né ferðir varðar. Auk þess er þetta unga fólk markhópurinn sem flestir vilja ná til, hvort heldur það er skemmtana- eða afþreyingariðnaðurinn, tísku- og snyrtivörukaupmenn eða íþróttafélög, félagsmiðstöðvar ...

Sem betur fer kann lang stærstur hluti unglinga að nýta sér þessa fjölföldu möguleika á skynsaman hátt, til eigin uppbyggingar og gleði fyrir sjálf sig og aðra. Þegar kemur að tómstundastarfinu, hvort heldur það er í íþróttageiranum eða æskulýðsstarfinu er unglingurinn fljótur að taka eftir því hvort að við sem stöndum að starfinu, þjálfarar, leiðbeinendur og leiðtogar, höfum alvöru áhuga á honum. Unglingur sem finnur að honum er bara tekið sem einum af fjöldanum er fljótur að finna sér annað föruneyti. Öll erum við sérstök og viljum að það sé komið fram við okkur sem slík.

Hér er styrkleiki kirkjulegs æskulýðsstarfs. Í smáhópum þar sem unglingnum gefst kostur á samskiptum við leiðtoga og æskulýðsfulltrúa á ýmsum aldri upplifir hann að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði og að sá kærleikur sem Guð sendi okkur í Jesú Kristi gildir fyrir okkur öll. Hér er það hið kristilega samfélag sem skapar grunn að jákvæðum samskiptum þar sem unglingurinn fær að vera sá/sú sem hann/hún. Kirkjulegt æskulýðsstarf skapar samskiptaflöt og er tilboð til þeirra sem vilja njóta samfélags þar sem að ekkert athugavert er við það að koma upp með efasemdarspurningar um trú og gagnrýni á kirkjuna. Mikilvægi þess að ungir einstaklingar eigi sér stað og stund innan kirkjunnar þar sem þau mega vera á móti henni og draga trúarsetningar í efa verður seint undirstrikað. Kirkjan má ekki falla í þau hjólför að vera að svara spurningum sem enginn spyr og útiloka umræðu um tilgang og tilvist kirkju og trúar. Slík umræða á einmitt heima innan kirkjunnar.

Með stofnun landssambands kirkjulegs æskulýðsstarfs 3. febrúar var lagður nýr farvegur fyrir félagslegan þátt barna- og unglingastarfs kirkjunnar. Farvegur sem vonandi verður börnum og unglingum í kirkjulegu starfi til blessunar og Drottni til dýrðar.