Æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar, já takk!

Æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar, já takk!

Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur æskulýðsstarf kirkjunnar svo sannarlega fundið fyrir niðurskurði. Þjónusta Biskupsstofu við æskulýðsstarf í sóknum landsins er nú svipuð og hún var upp úr 1960. Niðurskurður stjórnvalda á sóknargjöldum í bland við skipulagsbreytingar á Biskupsstofu hefur valdið stórtjóni í barna- og unglingastarfi kirkjunnar.

Connections

Skipulagsbreytingar og hagræðingar valda því að í dag er það aðeins Austurland sem heldur ennþá uppi merkjum fræðslustarfs með því að vera með starfandi fræðslufulltrúa. Enginn fræðslufulltrúi er starfandi lengur á Norðurland og stuðningur frá Biskupsstofu við æskulýðsstarf á Vestur- og Suðurlandi afar takmarkaður. Stöðum fræðslufulltrúa hefur stórlega fækkað á Biskupsstofu, en þegar Æskulýðsstarf Þjóðkirkjunnar var lagt niður fyrir 23 árum voru stöðugildin í æskulýðsstarfi samtals 475% á Biskupsstofu og þjónustuskrifstofum á Norður- og Austurlandi, auk þess sem árlega var verkefnaráðið í ýmsa efnisútgáfu og umsjón með landsmóti æskulýðsfélaga. Í dag er ein staða á Biskupsstofu (100%) til að sinna æskulýðsstarfinu og fyrrnefnd fræðslufulltrúastaða á Austurlandi (100%) það eina sem eftir er. Þá er lítið um verkefnaráðningar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur æskulýðsstarf kirkjunnar svo sannarlega fundið fyrir niðurskurði.

Að tillögu starfsháttanefndar kirkjunnar var Æskulýðsstarf Þjóðkirkjunnar lagt niður um áramótin 1988 / 1989 eftir um það bil 30 ára farsælt starf. Til varð fræðsludeild Biskupsstofu sem ætlað var að sinna æskulýðsstarfinu ásamt fjölda annarra verkefna. Stöðum æskulýðsfulltrúa sem störfuðu á Austurlandi, Norðurlandi og í Reykjavík var breytt í fræðslufulltrúastöður og Æskulýðsnefnd þjóðkirkjunnar var lögð niður. Rökin voru meðal annars þau að nú væri fjárhagur sókna orðinn það öflugur að margar sóknir væru farnar að ráða til sín æskulýðsfulltrúa auk þess sem að ÆSKR hefði verið stofnað og þangað ráðinn starfsmaður. Breytt lög um sóknargjöld tryggðu sóknum sjálfstæði í æskulýðsmálum á þeim tíma. Þær forsendur brustu 2009 þegar stjórnvöld hófu að skera niður sóknargjöldin langt umfram það sem ríkisstofnanir urðu að sætta sig við.

Ljós í myrkrinu er starf Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum, ÆSKR og Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar ÆSKÞ. ÆSKR er með starfsmann í 100% stöðu og frjálsu félagasamtökin ÆSKÞ eru með starfsmann í 50 % starfi. ÆSKÞ hafa meðal annars náð þeim undraverða árangri að þrefalda aðsókn á landsmót æskulýðsfélaga. Hér á árum áður voru oft 200 unglingar á mótunum, einstaka sinnum rúmlega þrjúhundruð, en nú eru þátttakendur oft sex til sjö hundruð talsins. Styrkja og efla þarf starf ÆSKÞ sérstaklega en það er styrkt af Kirkjuráði og verðum við öll sem störfum í Þjóðkirkjunni að taka höndum saman þannig að ÆSKÞ fái að vaxa.

Hér á eftir má finna nokkur atriði sem undirrituð telja vera rök fyrir því að endurvekja ætti stöðu Æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar:

  • Það vantar formlegan málsvara barna og æskulýðsstarfs þjóðkirkjunnar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að börn og unglingar eigi sinn málsvara innan kirkjunnar.
  • Út um allt land er fólk að gera góða hluti í æskulýðsstarfi kirkjunnar. Sumir hafa tök á því að segja frá því á opinberum vettvangi hvað þau eru að gera, önnur ekki. En mikilvægt er á tímum margmiðlunar og upplýsingaflóru að við hefjum þetta góða starf markvisst upp.
  • Á hverjum sunnudegi koma börn og unglingar ásamt fjölskyldum sínum í kirkjur landsins. Því miður eigum við takmarkað úrval af guðsþjónustuformum sem taka mið af þessum aldurshópi og til dæmis er engin þeirra almennu kirkjubæna sem nú eru í handbók kirkjunnar til þess fallnar að nýta í starfi með þessum yngri aldurshópum. Ef við sem kirkja viljum færa börn og unglinga nær helgihaldi safnaðarins þá þurfum við að efla þennan þátt. Til þess þurfum við Æskulýðsfulltrúa kirkjunnar.
  • Lykillinn að árangursríku starfi er fólginn í samstarfi við fjölmarga aðila. Því þarf að sinna innan kirkju og utan og þá ekki síst á opinberum vettvangi, gagnvart ráðuneytum og stofnunum sem og félagasamtökum, á innlendum og erlendum vettvangi. Oftar en ekki höfum við sem kirkja þurft að sleppa því að taka þátt því að enginn hefur verið til að skipuleggja þessi tengsl æskulýðsstarfsins. Hér þurfum við Æskulýðsfulltrúa kirkjunnar, ekki til að sinna þessum tengslum öllum sjálfur, heldur til að halda utan um að þeim sé sinnt.
  • Í ljósi þess að fagmenntuðu starfsfólki í barna og æskulýðsstarfi kirkjunnar hefur fækkað stórlega er þess mun mikilvægara að sinna faglegri aðstoð bæði kennslufræðilega og guðfræðilega við allt barna- og unglingastarf kirkjunnar umfram það sem nú er gert.
  • Mannauðsstjórnun er mikilvægur þáttur í allri safnaðaruppbyggingu. Þegar kemur að safnaðaruppbyggingu er mikilvægt að starfsfólk fái stuðning sem endurspeglar sérhæfingu hvers og eins. Til þess að sinna þeim fáu sérhæfðu starfskröftum, en einnig til að byggja upp frekari sérhæfingu innan kirkjunnar þarf kirkjan að eignast hafa Æskulýðsfulltrúa á Biskupsstofu.
  • Á síðasta ári ákvað Kirkjuþing að endurvekja Æskulýðsnefnd kirkjunnar og hóf sú nefnd störf nýverið. Það er skref í rétta átt, en nefndin verður vanmáttug á meðan hún hefur ekki Æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar sér við hlið sem sækir umboð sitt beint til biskups og Kirkjuþings.
Og þannig mætti lengi upp telja. Mikilvægt er að hér komi fram að með þessum pistli viljum við á engan hátt varpa rýrð á það góða starf sem unnið er af því starfsfólki sem enn er til staðar og sinnir barna- og unglingastarfi á Biskupsstofu, hjá ÆSKR, ÆSKÞ og út um land allt. En þau eru einfaldlega of fá. Kirkjan þarf fleiri til starfa á þessum vettvangi. Þar væri þarft að næsta skref yrði að stofnað yrði aftur embætti Æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar.

Því ber að fagna að margir biskupskandidatar sem og núverandi Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir hafa haldið mikilvægi barna- og unglingastarfs á lofti. Nú síðast sagði nývígður vígslubiskup á Hólum, Solveig Lára Guðmundsdóttir í prédikun á vígsludegi:

Ef við kennum ekki börnunum okkar að biðja, gerir enginn það. Ef við kennum ekki börnunum okkar það sem Jesús kenndi lærisveinum sínum gerir enginn það. Ábyrgð okkar er því mikil, okkar allra sem höfum borið börnin okkar til skírnar og falið þau góðum Guði. En kirkjan er öllum þeim til trausts og halds í þessu mikla hlutverki að koma kærleiksboðskapnum áfram til næstu kynslóðar. Þess vegna er barna- og unglingastarf kirkjunnar langmikilvægasta starfið, sem við vinnum að saman. #
Með því að endurvekja embætti Æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar tækjum við í kirkjunni allri undir þetta ákall biskupanna.