Sprungur og lífssöngur

Sprungur og lífssöngur

Þegar allt er komið í þrot er gott að vita að lífssöngur er eftir. Máttur Guðs er meiri en dauðans. Guð er þér nær en klakabunkar örvæntingar, missis og örbirgðar. Líknsemin kemur inn í myrkrið, inn í ömurlegar aðstæður og björgunin verður. Þegar bjarginu er velt frá hellinum er líf gefið, þú upplifir upprisu í Kristi. Prédikun Sigurðar Árna Þórðarsonar á páskamorgni í Neskirkju.

Kristur er upprisinn.

Kristur er sannarlega upprisinn.

Móðir mín kenndi mér kveðju þessa kveðju kristinna manna: “Kristur er upprisinn” og líka svarið: “Kristur er sannarlega upprisinn!” Kveðjan er til okkar komin úr austur-evrópskri kristni. Móðir mín mat páskana mest allra kristinna hátíða og þegar ég var einhvers staðar fjarri henni hringdi hún snemma á páskamorgni og sagði án þess að heilsa: “Kristur er upprisinn” og ég svaraði að bragði í símann: “Kristur er sannarlega upprisinn.” Þetta voru góð orðaskipti.

Sprungusaga og lífgjöf

Maður leitaði eitt sinn kinda austur í Suðursveit. Hann varð að fara upp á jökulsporð. Skyndilega missti hann fóta, féll sprungu og hrapaði langt niður. Öll sund voru lokuð. Hann sat einn og aðkrepptur, bjargarlaus og fangelsaður í greip jökulsins.

Bræður og nágrannar tóku að undrast um fjármanninn. Leit var hafin, en bar engan árangur. Myrkrið lagðist að og leit var hætt þann daginn. Bróðir hins týnda átti erfitt með að sætta sig við þessar lyktir og hélt áfram að svipast um. Skyndilega heyrði hann hljóð. Hvað var þetta, það var eins og söngur kæmi úr jöklinum! Hann gekk nær og þekkti þar rödd bróður síns. Trúarsöngur barst upp úr jökulsprungu. Það var sálmur sem hljómaði, ekki sorgar- eða kvein-sálmur. Hinn týndi maður söng lofsöng: “Lofið vorn Drottinn hinn líknsama föður á hæðum....”

Bróðirinn hljóp heim og ræsti út tortryggna leitarmenn. Sprungusöngvaranum var bjargað. Verður skýrar lifað? Einn í iðrum kaldrar ófreskju, sem meltir lengi og skilar seint. Ekkert haldreipi annað en Guð, sem elskar lofsögva í lífinu. Söngur um Guð er nóg.

Þetta er páskaboðskapurinn. Guð kallar menn fram í ljósið á ný. Hann fer á undan okkur alla leiðina um refilstigu mannlífsins, heldur í hendi okkar, líka þegar að kreppir. “Þér skuluð eigi óttast. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn!

Gjárnar í lífinu

Lífið er fjölbreytilegt. Því lengur sem við lifum þeim mun betur sjáum við að hamingjan er ekki fasteign, enginn gengur að henni vísri. Lífshamingjan er verkefni sem vinna verður að og púla fyrir. Jú, okkur er úthlutað ýmsum gæðum, gáfum, hæfileikum, en líka takmörkunum og snöggum blettum. Vísindin hafa skýrt margt um genaarfinn. Við mótumst síðan af félags-sálfræðilegum háttum fjölskyldu, skóla, vina og aðstandenda. Lykilatburðir í lífinu eru afdrifaríkir og við bregðumst við eða skoppum með einhverju móti í lífsfljóti okkar.

Auðvitað njótum við öll ljósríkra daga. En svo líðum við líka slæma daga, þegar við hröpum í einhverjar sprungur. Stundum náum við að krafla okkur upp, en í öðrum eru við strand. Erfiðleikar, sjúkdómar, skelfileg lífsreynsla, skilnaðir, maka- eða barns-missir, foreldramissir, atvinnumissir, jafnvel ærumissir eru mál, sem við höfum orðið fyrir eða höfum innsýn í vegna tengsla við einhver, sem lent hafa í. Þetta eru sprungurnar í lífinu. Þekkir þú einhverjar þeirra eða ertu jafnvel í einhverri núna? Staldraðu við og hugsaðu um: Hvað var það versta sem ég lenti í? Hvar var ég algerlega strand? Það er sprungan í þínu lífi.

Hvernig bregstu við þegar þú verður fyrir þungu áfalli? Dregurðu þig saman, hniprar þú þig í einhverju skoti og reynir að draga öll tjöld fyrir til að enginn sjái þig eða enginn komist að þér? Hefur þú gert eitthvað, sem er svo vont að þú vilt ekki að neinn komist að því? Getur þú ekki talað um það og rætt við nokkurn mann? Þá ertu fastur eða föst? Refsar þú þér árum saman, ef þér mistekst eitthvað?

Afstaða fólks skiptir líka máli. Þau sem eru með hugann algerlega bundinn við einhverja horfna gulltíð í lífi sínu, einhverjar gullaldaraðstæður, eitthvað sem er búið og kemur aldrei aftur - þau geta verið í djúpri dauðagjá. Það er ekki gott að lifa í nútíð þegar fólk er með allan huga við fortíðina. Þá er fólk byrjað að deyja.

Það er auðvelt að lifa þegar allt leikur í lyndi og allt gengur upp. En hvað gerir þú og hvað hjálpar þér þegar þú hefur dottið? Hvernig bregstu við í ísgjá lífs þíns?

Allt búið

Ástandið var ekki björgulegt föstudaginn langa í Jersúsalem. Meistarinn dáinn, allar vonir brostnar. En svo varð undrið í sorgargjánni. Guðlegt líf vann sigur á dauða veraldar.

Sporin í kirkjugarð strax eftir dauðsfall eru þung. Vinkonur Jesú fóru harmi slegnar að gröf hans til að vinna skylduverk á látnum líkama vinar síns, smyrja hann, en líka til að gráta og kveina yfir honum. Einfalt erindi en ótrúleg umskipti. Þær urðu fyrir sérkennilegri reynslu, sem sannfærði þær allar um, að Jesús væri ekki lengur í landi hinna látnu heldur lifði. Himnesk orð fylltu eyru þeirra og huga – sem var lofsöngur um lífið. Þær hlupu með þá himnesku músík alla leið inn í borgina.

Það eru tíðindi páskamorguns. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi að ekki sé von. Ekkert er svo svart og saurugt að ekki megni hinn ljósi og hreini að skíra til góðs. Ekkert er svo endanlegt í lífi þínu, aðstæðum, missi og sorg að ekki sé einhver von og ljósglæta.

Hellir eða himinn

Gríski heimspekingurinn Platón gildaskipti veröldinni með frummyndakenningu sinni. Hann tók líkingu af helli og sagði okkur menn ekki skynja hið eiginlega og mest grundavallandi með beinum hætti. Við værum sem í helli. Á hellisveggnum væru skuggamyndir, sem við héldum að væri raunveruleikinn sjálfur, en væru í raun ekkert annað en skuggar frá ljósuppsprettu, sem menn sæju ekki. Hellislíkingin getur túlkað stöðu fólks, sem hefur dottið í sprungu í lífinu í einhverjum skilningi.

Þegar þú hefur hrapað sérðu skuggamyndir á skjá þínum óttaefni en líka líf og hjálp Guðs. Merking upprisu Jesú Krists fyrir þig í þeirri stöðu er, að hann hefur fundið þig týndan og týnda, hann losar þig og leysir fjötra þína. Þú þarft ekki lengur að híma í gjá einsemdar og hægfara dauða, heldur máttu taka við boskapnum um að lífið er gott, lífið er fyrir þig, vegna þess að hringrás hins vonda, dauða, illsku, vonleysi og vonbrigða hefur verið rofin. Upprisuboðskapur kristninnar tjáir að engar aðstæður séu of erfiðar, að ekki sé unnt að byrja á ný. Engar sprungur eru svo djúpar að Guð geti ekki náð þér. Allir eiga möguleika á að byrja að nýju – sérstaklega þú.

Ég er bróðirinn

Ég bjó í Skálholti á þeim árum þegar söngmálastjóri þjóðkirkjunnar hélt þar fjölsótt kóramót. Mér var einu sinni sem oftar falið að flytja hugleiðingu í kirkjunni og fannst við hæfi að segja þessu vel syngjandi kirkjufólki sögu um að lofsöngur bjargar raunverulega lífi fólks. Svo sagði ég þeim söguna um sprungusöngvarann. Þegar athöfninni lauk kom til mín hópur brosandi fólks, sem þakkaði söguna. Þar á meðal var maður, sem sagði hógvær og feiminn: “Ég er bróðirinn, sem gat ekki hætt að leita og heyrði sönginn!” Það var sterk reynsla að hitta þennan góða dreng frá Kvískerjum, sem skildi hvað lofsöngur er mikilvægur þegar allt virðist búið.

Lífssöngur

Þegar allt er komið í þrot er gott að vita að lífssöngur er eftir. “Lofið vorn Drottinn hinn líknsama föður á hæðum.” Máttur Guðs er meiri en dauðans. Guð er þér nær en klakabunkar örvæntingar, missis og örbirgðar. Líknsemin kemur inn í myrkrið, inn í ömurlegar aðstæður og björgunin verður. Þegar bjarginu er velt frá hellinum og ljósið flæðir inn til þín verður lífgjöf.

Jökulsöngvarinn söng ekki sálm í fyrsta sinn þegar hann hafði fallið í gjá. Hann var vanur að syngja, söng mikið og kunni þvi ókjör af sálmum. Í þann sjóð gat hann leitað þegar illa var komið, hann var þjálfaður í söngnum um Guð. Hann hafði sungið góðan part af sálmabókinni þegar heyrðist til hans.

Þegar þú lendir í hættu er gott að eiga þjálfuð Guðstengsl. Þá hefur þú sjóð að leita í, þá kanntu sitthvað í lífskúnstinni sem flýtir fyrir björgun þinni.

Upprisan í lífi þínu

Lítill strákur var veikur heima á páskamorgni, þegar flestir fjölskyldumeðlimir fóru í kirkju. Þeir komu fagnanadi heim úr messunni, hlógu og skríktu. Veiki stubburinn spurði forviða, hvað hefði eiginlega gerst í kirkjunni. Honum var sagt, að Jesús Kristur hefði vaknað upp frá dauðum og væri nú lifandi. Sá stutti beygði af og hrein hágrátandi: “Af hverju gerist alltaf eitthvað spennandi, þegar ég fæ ekki að vera með!”

En ertu nokkuð í liði með þeim stutta? Ertu nokkuð fjarri vettvangi þegar undrið verður? Kanntu að syngja lofsöng? Hvernig er með upprisuna í þínum ranni? Kristur er upprisinn, en er hann sannarlega upprisinn í þínu lífi alla daga, þér til góðs og samferðafólki þínu sömuleiðis?