Gefðu Guði pláss í hjarta þínu

Gefðu Guði pláss í hjarta þínu

Hver vill fylla hjarta sitt af kvíða og áhyggjum? Vilt þú það? Sækist þú sérstaklega eftir því? Nei, örugglega ekki. En vð vitum það að kvíðinn og áhyggjurnar læðast stundum að okkur, koma aftan að okkur er eru bara allt í einu sest að í hjarta okkar. Og það er vegna þess að við höfum skilið eftir laust pláss fyrir svoleiðis. Ef við gefum Guði pláss í hjarta okkar verður ekkert pláss fyrir kvíða og áhyggjur. Fyrir græðgi og öfund.

Það steig kona fram um daginn og lýsti því hvernig hún og systkini hennar hefðu fengið rukkun frá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem þeim var tilkynnt að faðir þeirra hefði verið ábyrgðarmaður á skuldabréfi stjúpbróður þeirra, og þar sem faðirinn var dáinn, og stjúpbróðirinn gjaldþrota, þá skyldu þau taka við ábyrgðinni og halda áfram að borga. Gott og vel, hugsum við, skuldir hverfa ekkert þótt einhver deyi. En það athyglisverða er að pabbinn var búinn að vera dáinn í tæp þrjátíu ár! Og löngu búið að gera upp dánarbúið. Finnst okkur þetta sanngjarnt? Finnst okkur yfirleitt sanngjarnt að skuldir geti elt fólk sem aldrei stofnaði til þeirra? Og það kom líka fram maður sem hefur verið að reyna að koma þaki yfir sig og fjölskyldu sína. Hann lýsti því hvernig hann reyndi að kaupa húsið sem hann býr í, á uppboði, en bankinn yfirbauð hann og er búinn að segja honum upp leigunni og fjölskyldan er á götunni. Finnst okkur þetta sanngjarnt? Finnst okkur eðlilegt að bankarnir láti tugi ef ekki hundruðir íbúða standa auðar, frekar en að leigja þær út, á meðan við vitum af fólki sem á ekki þak yfir höfuðið? Finnst okkur eðlilegt að það sé til fólk í samfélaginu okkar sem er komið undir fátæktarmörk og hefur ekki efni á því að kaupa mat handa börnunum sínum, á meðan aðrir þjást af velmegunarsjúkdómum?

Jesús segir, Enginn getur þjónað tveimur herrum. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon. Og ég sé æ fleiri merki um það að mammon sé að ná meiri og meiri tökum á okkur sem samfélagi. Dæmin sem ég nefndi eru aðeins örfá, við sjáum ótal dæmi um það í hverri viku í fjölmiðlum að við sem samfélag virðumst dýrka peninga. Það er um fátt talað meira í samfélaginu. Og það er eðlilegt. Við þurfum að tala um það hvernig við skiptum með okkur þeim sameiginlegu gæðum sem við höfum. En það er aftur á móti einkennandi að við erum á þeim stað að við notum ekki peninga sem tæki til að ná fram velferð og hamingju, heldur eru peningarnir orðnir að markmiði í sjálfu sér. Hagnaðarvonin. Að græða. Það er það sem allt gengur út á. Og hetjurnar okkar, eru fólkið sem hefur grætt mest. Fólkið sem á mestu peningana. Það eru þau sem við lesum um í Séð og heyrt, þau sem eru í fréttunum og þau sem okkur langar innst inni að líkjast. Og einn góðan veðurdag ætlið þið kæru fermingarbörn að verða eins og þau. Rík og fræg. Því að það er það sem alla dreymir um á ákveðnum tíma ævinnar.

Jesús segir, þér getið ekki þjónað bæði Guði og mammon. Vill Jesús þá ekki að við græðum? Vill Guð ekki að við höfum það gott? Stendur ekki í Biblíunni að peningar séu undirrót alls ills? Guð vill svo sannarlega að við höfum það gott. Takið eftir hvað Jesús segir í textanum. Verið ekki áhyggjufull! Guð veit hvers þið þarfnist, og hann hefur gefið ykkur allt sem þið þurfið til að uppfylla þarfir ykkar. Hugsið ykkur. Veröldin er full af gæðum sem við megum öll njóta. Sem Guð hefur skapað handa okkur. Og það er nóg til. Og nei, það stendur nefnilega ekki að peningar séu undirrót alls ills. Það stendur að ástin á peningum sé undirrót alls ill. Það er græðgin sem er undirrót alls ills. Að líta á peninga sem markmið í sjálfum sér. Að safna að sér auði sem nýtist engum nema manni sjálfum, ef hann gerir það þá einu sinni. Það er ekkert að því að afla sér peninga og veraldlegra gæða. Og það er ekkert að því að verða ríkur og frægur. En þegar peningarnir eru farnir að stjórna, þá lendum við í vandræðum. Því að græðgin verður aldrei réttlát. Græðgin verður aldrei góð, græðgin getur aldrei verið örlát.

Ég var á málþingi í gær vegna þess að um helgina er haldið upp á það að fyrsta konan, Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð til prests á Íslandi fyrir fjörtíu árum. Í tilefni þessa tímamóta voru teknar saman stuttar tilvitnanir í ýmislegt sem hún hefur sagt í gegnum tíðina, og tístað á samfélagsmiðlum. Og það er svo ótrúlegt með hana Auði Eir, hún segir svo margt bráðsnjallt og gáfulegt, án þess að vera eitthvað rosalega háfleyg og óskiljanleg. Hún segir til dæmis: Gefðu Guði pláss í hjarta þínu svo að það fyllist ekki af allskonar vitleysu. Hugsið ykkur hvað þetta er einfalt! Þetta er eiginlega guðspjall dagsins í hnotskurn. Gefðu Guði pláss í hjarta þínu þannig að það fyllist ekki af alls konar vitleysu!!! Gefðu Guði pláss í hjarta þínu. En er þá Guð bara eins og einn guð í samkeppni við aðra guði, eins og mammon, eða bakkus, eða einhvern annan? Eigum við eitthvað frekar að leyfa Guði að stjórna? Eigum við ekki bara að stjórna okkur sjálf? Bera ábyrgð á okkur sjálf? Nei, Guð er ekki eins og aðrir guðir. Þetta snýst ekki um það að Guð sé eins og afbrýðisamur eiginmaður eða kærasti sem vill ekki leyfa sinni heittelskuðu að tala við neinn annan. Við erum miklu frekar að tala um að Guð stendur fyrir ákveðin öfl í tilverunni sem við viljum hafa í lífi okkar. Að gefa Guði pláss í hjarta sínu þýðir í rauninni að við viljum fylla hjarta okkar af öllu því góða, fagra og fullkomna í heiminum. Kærleika, umhyggju, réttlæti, friði. Ef við fyllum hjarta okkar af þessum hlutum verður ekkert pláss fyrir alls konar vitleysu. Jesús talar t.d. sérstaklega um kvíða og áhyggjur í texta dagsins. Hver vill fylla hjarta sitt af kvíða og áhyggjum? Vilt þú það? Sækist þú sérstaklega eftir því? Nei, örugglega ekki. En vð vitum það að kvíðinn og áhyggjurnar læðast stundum að okkur, koma aftan að okkur er eru bara allt í einu sest að í hjarta okkar. Og það er vegna þess að við höfum skilið eftir laust pláss fyrir svoleiðis. Ef við gefum Guði pláss í hjarta okkar verður ekkert pláss fyrir kvíða og áhyggjur. Fyrir græðgi og öfund. Fyrir alla þá ömurlegu hluti sem hjáguðirnir eru í raun tákn fyrir. Að gefa Guði pláss í hjarta sínu er aðbiðja Guð að fylla það af öllu því sem er gott fagurt og fullkomið. Og það er ekki nóg að gera það einu sinni. Það þarf að gera það á hverjum degi. Að gefa Guði pláss er að kveðja áhyggjur og kvíða, að gefa Guði pláss er að leita eftir réttlæti og friði, að gefa Guði pláss er að eignast frelsi.

Vilt þú gefa Guði pláss í hjarta þínu?

Dýrð sé Guði, sem vill taka frá okkur áhyggjur og kvíða og fylla hjarta okkar af gleði og friði.