Þú ljúfa liljurósin

Þú ljúfa liljurósin

Nú er runnin upp hátíð og hátíðin er engin venjuleg tíð. Við heyrum það svo vel í sálminum fallega sem kórfélagar hafa sungið inn í predikunina hvað hátíðin felur í sér.

Gleðilega hátíð kæru vinir. Nú er runnin upp hátíð og hátíð er engin venjuleg tíð. Yfir henni er helgi, eitthvað sem minnir okkur á að sumar stundir eru svo sérstakar að þær viljum við taka frá, eiga fyrir það sem okkur er kærast.

Fyrir jól...

Hátíðin á sér alltaf aðdraganda. Við eygjum hana af löngu færi eins og langhlaupari sem sér grilla í markið langt í burtu. Við miðum við hana þegar við gerum áform. Við tölum um fyrir og eftir jól. Einu sinni vann ég í fyrirtæki sem sinnti ýmsum pöntunum fyrir viðskiptavinina. Starfsfólkið var metnaðarfullt og vandvirkt en metnaðurinn lá allur í gæðum vinnunnar, ekki því hversu skjótt tókst að ljúka verkinu. Þegar kúnninn spurði því hvenær varan yrði tilbúin var viðkvæðið alltaf það sama: Fyrir jól. Og svo þegar hann hafði lokað á eftir sér, bættu sölumennirnir við, ekki endilega þau næstu. Svona verða jólin eins á mælistika í tíma sem við tökum mið af þótt þarna hafi vandvirkir smiðirnir vitað að jól koma á hverju ári. Hátíðin stendur uppi úr hinu hversdagslega og allir vita hvenær jólin ganga í garð.

Jólin eru hátíð, eins og hár tindur upp úr öðrum tíðum. Þess vegna notum við allt það sem við kunnum til þess að fanga þau miklu hughrif sem þeim fylgja. Þar höfum við fordæmi í hinni stórkostlegu jólafrásögn Lúkasar þar sem frásögnin er svo myndræn að við getum ekki hlýtt á lesturinn án þess að framkalla í huganum mynd af þessum atburðum. Þar er bæði myrkur og ljós, veraldleg fátækt og andlegt ríkidæmi. Og þar hljómar tónlistin hátt. Englakór frá himnahöll birtist þar á Betlehemsvöllum og syngur um að dýrð Guðs sé með hinum snauðu hirðum er gættu fjár úti í nóttinni.

Hátíð allra skynfæra

Hátíðinni fögnum við með öllu því besta sem við eigum. Tónlistin er órjúfanlegur þáttur hennar. Þar hefjum við andann upp á hið hátíðlega svið og leyfum hljómkviðum og tónum að auka þau hughrif sem við njótum á helgri tíð. Sá jólasálmur sem ég held hvað mest upp á fjallar einmitt um andstæður lífs og dauða og sigur lífs á dauða. Mitt í dimmri og kaldri vetrarnóttinni springur aldinið út og ilmar sólu mót.

(kór syngur: "Það aldin út er sprungið"... fyrra erindi)

Sálmur þessi er að mínu mati ómissandi á hátíðinni og hann rúmar svo vel allt það sem jólin hafa að geyma þótt ekki sé á þau minnst í textanum. Hátíðin birtist okkur í því hvernig við horfum fram til hennar af löngu færi. Orðin í sálminum: Af fríðri Jesse rót merkja einmitt ættstofn Davíðs sem nefndur eru í jólaguðspjallinu. Jesse þessi var faðir konungsins fræga í Ísrael en heitir Ísaí í nýrri Biblíuþýðingum.

Hátíðin er stund skynfæranna allra og á að endurnæra okkur og styrkja svo að sjálf séum við tilbúin að miðla því áfram sem okkur hefur verið gefið. Öll sú gleði sem við viljum njóta á helgri tíð er eins og næring fyrir sálina okkar ekki síst þegar jólaljósin eru slokknuð og erill daganna tekur við að nýju. Þegar við leyfum okkur að sækja allt hið góða sem jólin veita þá erum við að styrkja okkur sjálf sem gott verkfæri Guðs. Með augum, tónum, bragði og lykt, með nærveru og faðmlögum kærra vina eflum við okkur sjálf sem manneskjur og stuðlum að því að geta sinnt því hlutverki sem okkur er ætlað að vinna.

Jólaguðspjallið flytur okkur þann boðskap. Það fjallar um þau sem voru utangarðs og lifðu við sára fátækt. Staða þeirra er þó ekki sú að þau séu eingöngu hlutlausir þolendur hins illa sem grimmur heimur býður þeim upp á né heldur máttvana þiggjendur þess sem að þeim er gaukað. Hið fátæka fólk í jólafrásögninni býr yfir meiri mennsku og hefur meiri tilgang en dæmi eru um í veraldarsögunni. Þau María og Jósef sem ekki fengu inni í gistihúsinu fæddu í heiminn sjálfan frelsarann sem átti eftir að breyta heiminum og lífga þelið kalt.

Þú ljúfa liljurósin

Hér er sungið um hina ljúfu liljurós enda liggja rætur þessa fallega sálms aftur til miðalda þegar María var lofsungin. Blómið endurvarpar litum í hið svarthvíta vetrarumhverfi. Það lífgar við helið kalt rétt eins og hinn kærleiksríki boðskapur þess sem fæddist á hinum fyrstu jólum birtir okkur allt það sem nærir sál og hug og líkama. Þar finnum við birtingarmynd gleðinnar og vonarinnar.

(Kór syngur: Það aldin út er sprungið ... seinna erindið)

Nú er runnin upp hátíð og hátíðin er engin venjuleg tíð. Við heyrum það svo vel í sálminum fallega sem kórfélagar hafa sungið inn í predikunina hvað hátíðin felur í sér. Þar mætast aðrar tíðir, fortíð, nútíð og framtíð. Þar springur út allt hið besta sem við eigum og við skulum dvelja í helgi hennar og gleði meðan hún varir. Síðan tökum við það með okkur inn í aðrar tíðir tilverunnar sem við höfum sótt til okkar á helgum jólum og endurnært mennskuna okkar og fyllt hana inntaki og merkingu.

Þá eru jólin sannarlega sú hátíð sem þeim ber að vera. Gleðileg jól kæru vinir, gleðilega hátíð.