... og þjóðin situr á kirkjutröppunum í norðangarranum

... og þjóðin situr á kirkjutröppunum í norðangarranum

Í ljósi atburða síðustu daga hef ég spurt sjálfan mig hvort verið geti að ég og jafnvel fleiri vígðir þjónar í kirkjunni séum týnd í smáatriðunum, blinduð af sjálflægri þekkingu og sannfærð um að geta bjargað kirkju Krists í eigin mætti. Á meðan stækkar hins vegar gjáin milli kirkju og þjóðar.

Í gegnum árin hef ég hlustað á marga prédikara. Ein af sögunum sem sagðar hafa verið í ýmsum útgáfum er af einstaklingi sem kemur í messu, finnur sig ekki – eða er jafnvel rekinn út – og sest hryggur á tröppurnar fyrir utan kirkjuna. Þar hittir hann fyrir karlmann. Eftir smá spjall saman kemur í ljós að sá er enginn annar en Jesús sjálfur sem þar situr því ekkert pláss var fyrir hann í messunni.

PS-1913-brotning-braudsins2Þessi saga kom í huga mér þegar ég las orð páfa í bók hans um Jesús frá Nasaret:

Það eru ekki fræðimennirnir, þeir sem tengjast Guði í atvinnuskyni, sem þekkja hann; þeir eru of uppteknir af smáatriðunum í sinni miklu þekkingu. Hin mikla þekking hindrar þá í því að líta einfaldlega yfir sviðið, á veruleika Guðs eins og hann opinberast – en svo einfalt getur það ekki verið fyrir fólk sem veit svona mikið um flóknar hliðar málsins. (Bls. 329).
Páfi tekur undir með Páli postula sem áminnir hvern kristinn mann:
Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur í þessum heimi verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur. (1. Kor.3:18).
Og páfi minnir okkur á hver merking þess að ,,verða heimskur“ sé. Lykilinn sé að finna í fjallræðunni. Þar sé innri grunnur þessarar merkilegu reynslu afhjúpaður og vegur sinnaskiptanna gerður ljós, þar sem við verðum eins og börn, köstum frá okkur sjálfræðinu sem snýst um sjálfið og verðum eitt með Föðurnum.

Í ljósi atburða síðustu daga hef ég spurt sjálfan mig hvort verið geti að ég og jafnvel fleiri vígðir þjónar í kirkjunni séum týnd í smáatriðunum, blinduð af sjálflægri þekkingu og sannfærð um að geta bjargað kirkju Krists í eigin mætti.

Á meðan stækkar hins vegar gjáin milli kirkju og þjóðar. Fólkið situr úti á kirkjutröppunum í norðangarranum.

En ég á þá von að Jesús Kristur sé meðal fólksins úti á tröppunum. Og bæn mín er sú að hann kenni mér sem vígðum þjóni í kirkju hans auðmýkt svo ég fái skilið að spurning dagsins er ekki hver ég er. Spurning dagsins er hvort ég trúi því sem hann er:

  • Brauð lífsins
  • Ljós jarðar
  • Dyrnar
  • Góði hirðirinn
  • Upprisan og lífið
  • Vegurinn
  • Sannleikurinn
  • Lífið
  • Hinn sanni vínviður.
Og ég vona að hann sendi mig út á tröppur líka því við öll – KIRKJAN – eigum erindi meðal fólksins.