Hvað höfum við að gera við helgidagafrið?

Hvað höfum við að gera við helgidagafrið?

Þegar dregur að páskum heyrum við árlega upphrópanir um hvað það sé nú heimskulegt að ekki megi spila bingó vegna einhverra kirkjulaga. En hvernig stendur á þessu banni? Er helgidagalöggjöfin úrelt – eða einhvers virði í nútíma?

Þegar dregur að páskum heyrum við árlega upphrópanir um hvað það sé nú heimskulegt að ekki megi spila bingó vegna einhverra ,,kirkjulaga“. En hvernig stendur á þessu banni? Er helgidagalöggjöfin úrelt – eða einhvers virði í nútíma?

Lög um helgidagafrið eiga rætur í kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar í Skálholti frá 1275 sem fjallaði um kaþólska kristni sem þá var þjóðkirkja á Íslandi, en þeim sið tilheyra mun fleiri helgidagar en lútherskum. Kristinrétturinn (og Járnsíða) voru fyrstu íslensku lögin eftir Grágás og þau urðu til eftir ,,hrun“ þjóðveldisins. Í þrjúhundruð ár giltu þessi lög eða þangað til kaþólskur siður var brotinn á bak aftur af lútherskum yfirvöldum á 16. öld. Um leið fækkaði helgidögunum, en á 18. öld komst hér á tilskipun um strangan kirkjuaga og það var ekki fyrr en með næstu tilskipun, um 1860, sem losnaði nokkuð um hann og þótti víst ,,sumum of langt gengið sérstaklega með að draga úr friðun sunnudags“1. Með stjórnarskránni 1874 var lútherski siðurinn svo festur sem þjóðkirkja og lög nr. 47/1901 tryggðu helgidaga kirkjunnar. Þau lög voru endurnýjuð árið 1926 þegar sett voru lög „um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar“ en þar voru dagarnir ekki tilgreindir. Þessi lög giltu næstum óbreytt fram til 1997 að lög ,,um helgidagafrið“ voru samþykkt, en þá voru dagarnir nefndir og flokkaðir í þrennt:

Sunnudagar , annar í jólum, nýársdagur, skírdagur, annar í páskum, uppstigningardagur og annar í hvítasunnu.   Föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur og jóladagur. Aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags.

Markmiðið er „að tryggja fólki frið, ró og næði á tilteknum hátíðisdögum“. Um leið er fólki gert kleift „innan vissra takmarka“ að stunda afþreyingu sem samræmist helgi umræddra daga.

Lögin eru frá 1997

Höfum í huga að það eru 14 ár síðan þessi lög voru sett, en í athugasemdum með lagafrumvarpinu kemur fram að ,,á síðari árum“ hafi ýmis önnur sjónarmið en trúarleg tengst helgidagalöggjöfinni, ekki síst vinnuverndarsjónarmið, til ,,að tryggja fólki frí frá vinnu á helgidögum.“ Vegna breyttra þjóðfélagshátta eiga lögin líka að koma til móts við kröfur um meira svigrúm til afþreyingar. Þá byggja lögin á því sjónarmiði að hægt sé að framfylgja þeim, vegna almennrar afstöðu til helgidaga og helgihalds. Helgidagalöggjöfin er því rökstudd svo að skipanin falli að viðhorfum almennings. Takmarkanir eru fyrst og fremst bundnar við stórhátíðisdaga (flokk 2 og 3). Á jóladag nær friðunin til kl. 06 næsta morgun, þar sem „að í huga fólks er helgi þessa dags með öðrum hætti en annarra hátíðisdaga“ eins og segir í athugasemdum með lagafrumvarpinu, en í því var þó gert ráð fyrir sömu friðun á föstudaginn langa og páskadag. Það varð hins vegar ekki niðurstaða löggjafans. Aðfaranætur páskadags og hvítasunnudags á skemmtanahald ekki að standa ekki lengur en til kl. 03.00. Hins vegar er engin friðun sett á flokk 1: Sunnudaga, annan í jólum, nýársdag, skírdag, annan í páskum, uppstigningardag og annan í hvítasunnu.

Fyrir kristna menn eru þrjár stórhátíðir á ári. Þær eru páskar, hvítasunna og jól. Samkvæmt lögum nr. 32/1997 hefur hver þeirra einn skilgreindan helgidag, nema páskar, þegar bæði föstudagurinn langi og páskadagur eru haldnir heilagir. Sórhátíðisdagar að lögum eru því alls fjórir, auk aðfangadagskvölds og um þá gildir eftirfarandi bann ,,skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi.“

Hér er fyrst og fremst verið tryggja frið og ró í opinberu rými, en til að hægt sé að framfylgja lögunum ná þau einnig til einkasamkvæma. Hafa ber þó í huga að lögreglan getur veitt undanþágu frá því ákvæði, sbr. 5 gr. laga nr. 32/1997 þar sem ýmis tilgreind starfsemi er undanþegin banni.

Hvers vegna bingóbann?

Ýmsir spyrja hvernig standi á því að sýningar og spilastarfsemi sé bönnuð stórhátíðisdagana fjóra og hvaða tilgangi það þjóni að banna verslun og viðskipti. Hér ber að hafa í huga að bannið er bundið við opinbert rými. Því eru engir að brjóta lög sem spila bingó í heimahúsum. Þá er líka rétt að hafa í huga að undirrót spilabannsins er sú sýn að ,,takmarka spilastarfsemi þar sem spilað er um fjármuni með einum eða öðrum hætti.“ Af þessu má sjá að löggjafinn vill halda þessum fjórum dögum á ári sem mest lausum undan lögmálum peninga, en þá skýtur nokkuð skökku við að ekki þarf að loka spilakössum þessa sömu daga. Lögreglan getur veitt undanþágu frá banni við sýningahaldi og veitingastaðir og hótel mega stunda sína starfsemi. Það má því segja að viðskipta- og sýningabannið sé lítið meira en orðin tóm og því standi nánast bara eftir stórhátíðabann við happdrætti og bingóspili á almannafæri. Það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær það bann verður afnumið, því rökin fyrir því eru einfaldlega of veik í samanburði við aðra starfsemi sem leyfð er.

Getur þögn og kyrrð verið nauðsyn?

Það er ljóst að lög um helgidaga frá 1997 eiga ekki bara að þjóna kristnum sið, heldur „að tryggja almenningi frið og ró þesa daga jafnframt því að veita svigrúm fyrir afþreyingu innan tiltekinna marka.“ „Afþreying“ er vítt hugtak og því sjálfsagt að skoða núgildandi viðmið. Það er hins vegar ekki bara löggjafinn sem á að huga að því. Hver og einn ætti að líta í eigin barm og ígrunda helgidagalöggjöfina og spyrja: Hvernig ver ég frítíma mínum? Ætti ég kannski að taka frá fjóra daga á ári fyrir þögn og kyrrð? Kannski er það hverjum manni nauðsyn að draga sig í hlé, fá að vera óáreittur og anda að sér þögninni, þó ekki sé nema fjóra daga á ári. Hugum að því.