Uppeldishættir og árangur

Uppeldishættir og árangur

Börnin þrá samvistir við fullorðna, samvistir sem eru ekki á grundvelli þess fullorðna, heldur á grundvelli barnsins. Það eru ótal atriði sem hægt er að gera saman sem kosta ekki neitt, en eru óendanlega dýrmætar stundir, því þessar stundir safnast inn í banka minninganna. Banka sem mikið er leitað í, sérstaklega á erfiðum tímum.
fullname - andlitsmynd Gunnar Einar Steingrímsson
26. október 2006

Uppeldishættir og leiðir að góðu uppeldi eru þættir sem hafa verið mikið til umfjöllunar síðustu ár og jafnvel áratugi og hefur mikið verið skrifað og fjallað um uppeldishætti og þær leiðir sem vænlegastar eru til árangurs.

En hvað er uppeldi? Uppeldi eru samskipti fullorðinna og barna sem hafa það að markmiði að barnið nái að verða þroskaður ábyrgur einstaklingur. Þannig á að nást með aga og uppeldi að barnið læri samskiptareglur, siðræn gildi og sjálfsaga.

Sem betur fer þá eru flestir foreldrar þannig úr garði gerðir að þeir vilja börnum sínum aðeins það besta en er það nóg? Nei, það er ekki nóg að vilja börnum sínum aðeins það besta heldur verðum við að gefa börnunum okkar aðeins það besta. Þá er ég ekki að tala um veraldlega hluti sem fást keyptir fyrir peninga og mölur og ryð eyðir, heldur er ég að tala um mun dýrmætari hluti. Ég er að tala um ást, kærleika, nærveru og síðast en ekki síst tíma. Gefum við börnunum okkar tíma?

Þátttaka

Ég tel uppeldi snúast að stórum hluta um að taka þátt. Taka þátt í því sem börnin okkar og unglingarnir eru að gera. Sama hvert sem litið er þá finnst mér eins og foreldrar hafi engan tíma fyrir börnin sín lengur, megi ekki vera að því að hugsa um þau og sinna þeim. Það er t.d. sorglegt hve stór hluti leikskólabarna eru 9-9,5 klst. í vistun á leikskólum. Ef að barn vaknar klukkan 7 á morgnanna og er sofnað klukkan 20.30 á kvöldin (sem er nokkuð eðlilegt að ég tel) þá er barnið upp undir 70% af vökutíma sínum í vistun á leikskóla. Svo er ekki eins og tíminn eftir leikskólann sé alltaf einhver gæðatími hjá fjölskyldunni. Það þarf að hendast í búðina og kaupa inn, búa til matinn og slíkt. Á meðan eru börnin oft annaðhvort fyrir framan sjónvarpið eða í tölvuleikjum. Svo má ekki gleyma þeim börnum sem eru sótt á leikskólann, það er farið beint með þau í pössun á líkamsræktarstöðinni þar sem þau eru næsta einn og hálfa tímann. Svo er komið heim og borðað og svo kemur jafnvel barnapían því foreldrarnir þurfa að fara aftur í vinnuna eða eru að fara í bíó eða eitthvað, þá eru börnin í vistun eða pössun jafnvel yfir 90% af vökutímanum sínum. Svo tölum við um að við séum fjölskylduvænt þjóðfélag!

Þrennt skiptir höfuðmáli

Það er í raun þrennt sem skiptir höfuðmáli í uppeldi skv. kenningum sem grundvallaðar eru á kenningum bandaríska sálfræðingsins og fræðimanneskjunnar Diönu Baumrind:

  1. Hegðunarstjórnun, þar sem eru sett skýr mörk og reglum er framfylgt. Þetta vísar til þess hvernig foreldrar stjórna hegðun barna sinna, t.d. með því hvernig þeir setja þeim skýr mörk og reglur.
  2. Stuðningur og samheldni fjölskyldu, þar sem allir taka þátt. Fjölskyldan gerir eitthvað saman sem heild og sýnir þannig stuðning hvert við annað. Foreldrar hvetja börn sín til þess að standa sig vel í t.d. námi og veita þeim stuðning.
  3. Viðurkenning foreldra, þar sem börn eru hvött til þess að tjá sig og þar sem hlustað er eftir röddum og tilfinningum barnanna og unglinganna. Foreldrarnir taka hugrenningum barna sinna vel og sýna þeim þannig virðingu. Andstæða viðurkenningarinnar er sálræn stjórnun foreldranna sem er þegar foreldrar ásaka oft börn sín og gera lítið úr hugmyndum þeirra og skoðunum og eru stöðugt að setja út á börnin og ráðskast með líf þeirra.

Líklega eru flestir sammála því, að foreldrar og/eða forráðamenn eru einn áhrifamesti þátturinn í umhverfi og uppeldi barna og unglinga. Þessi stóri þáttur er fjölbreytilegur með ýmsum kostum og göllum hver um sig. Foreldrarnir eru misjafnir eins og þeir eru margir og beita mismunandi uppeldisaðferðum sem hafa mismunandi áhrif.

Samvistir

En börn og unglingar vilja samvistir við foreldra sína og vilja láta hlusta á sig og vilja fá að taka þátt í því sem gerist innan veggja heimilisins. Því er ómetanlegt að gera eitthvað saman sem fjölskylda. T.d. setjast niður og spila, fara í göngutúr. Hlusta á tónlist með unglingunum. Syngja með börnunum, lesa fyrir þau og spyrja þau út í söguna sem lesin var og leyfa þeim að tjá það sem þau upplifa og skynja. Fara með kvöldbænir með börnunum, við skírn þá gangast foreldrar undir þá ábyrgð að ala börn sín upp í kristinni trú og uppfræða þau um trúna og kenna þeim bænir.

Börnin þrá samvistir við fullorðna, samvistir sem eru ekki á grundvelli þess fullorðna, heldur á grundvelli barnsins. Það eru ótal atriði sem hægt er að gera saman sem kosta ekki neitt, en eru óendanlega dýrmætar stundir, því þessar stundir safnast inn í banka minninganna. Banka sem mikið er leitað í, sérstaklega á erfiðum tímum. Hvað er þá mikilvægara en að eiga góðar og fallegar minningar sem ylja manni um hjartaræturnar með þeim manneskjum sem eru okkur dýrmætastar, börnum okkar og foreldrum okkar.

Náum áttum og áttum okkur á því hvað er dýrmætast, áttum okkur á því hvað það er sem skiptir okkur mestu í lífinu þegar öllu er á botninn hvolft. Hvort er dýrmætara veraldlegur auður eða börnin okkar?