Kirkjan er hagsmunasamtök... barnsins

Kirkjan er hagsmunasamtök... barnsins

Sá efi sem nú er sáð um gagn og gildi guðstrúarinnar ilmar í nösum þeirra sem trúa líkt og tað á túni. Og ég er ekki að hæðast þegar ég segi Guð blessi Vantrú og Guð blessi Siðmennt fyrir þjónustu þeirra við kristnina í landinu.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
07. nóvember 2010
Flokkar

I Ýmsir eldri reykvíkingar muna eftir karli nokkrum sem gekk um stræti borgarinnar og hafði þann hátinn á að jafnan er hann þurfti að fara yfir götu tók hann í buxnaskálmar sínar og lyfti þeim líkt og hann væri að vaða yfir á. Enginn sá vatnsflauminn sem lék um leggi hans nema karlinn sjálfur og götustrákar gerðu að honum gys.

Frá sjónarhóli veraldlegrar heimsmyndar erum við sem hér komum saman í dag í svipuðum sporum og karlinn sem óð göturnar. Á allra heilagra messu horfum við yfir tímalínu lífsins líkt og reglustiku á borði og hugsum um okkar líf og ástvina okkar. Það má segja að við stígum andartak út úr efnisheiminum hefjum okkur út fyrir veröldina og tímann til þess að skoða líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin. Við minnumst þeirra sem við söknum og hugleiðum þá staðreynd að lífið sem við eigum á jörðinni hefur upphaf og endi.

Skoðað frá sjónarhóli hinnar veraldlegu heimsmyndar kann þessi íþrótt að virðast fánýt og jafnvel hlægileg. En frá sjónarhóli þeirra milljóna manna um allan heim sem lifa virku innra lífi og eiga trúarlega heimsmynd er þetta spurning um að vera í raunhæfu sambandi við veruleikann. Þegar presturinn flytur hvatninguna í undirbúningi altarisgöngunnar og segir eða syngur: „lyftum hjörtum vorum til himins og hefjum þau til Drottins” þá kemur það heim og saman við trúarlega reynslu og heimsmynd og er  tilvísun til lífshátta sem skapa heilbrigði og yfirvegun.  Hér er sú ævaforna aðferð sem gagnleg er geðheilsu manna að horfa reglulega á líf sitt ofna frá sjónarhóli samhengis og lausna, frá sjónarhóli himinsins, í stað þess að líta lífið sífellt úr einni átt fastur í hjólfari tímans.

II Við lifum á einkar vekjandi tímum þegar efast er um allt og alla. En líkt og undrunin leiðir fram þekkinguna þannig er efinn ljósmóðir trúarinnar. Þakklát megum við vera því ágæta fólki sem nú situr í Mannréttindaráði borgarinnar og sér það sem brýnasta verkefni ráðsins að tryggja börn gegn boðun trúar, því kristin kirkja er bundin efanum trúnaðarböndum. Það segir frá því í lok Matteusarguðspjalls að þegar Jesús flutti lærisveinum sínum sjálfa kristniboðsskipunina þá voru sumir í vafa. (Matt. 28) Sá efi sem nú er sáð um gagn og gildi guðstrúarinnar ilmar í nösum þeirra sem trúa líkt og tað á túni. Og ég er ekki að hæðast þegar ég segi Guð blessi Vantrú og Guð blessi Siðmennt fyrir þjónustu þeirra við kristnina í landinu. Áherslur þessara samtaka samanlagt, efinn sem þau færa fram, háðið sem snýr að starfsháttum og hugsjónum kristinna manna og krafan um það að veraldleg heimsmynd ríki í almannarýminu á kostnað hinnar trúarlegu er sú besta gjöf sem unnt var að færa kirkju Jesú á Íslandi við upphaf  21. aldar. Þetta góða fólk hefði getað safnað fyrir nýjum orgelum í allar kirkjur, barist fyrir uppsetningu steindra glugga og viljað hækka kirkjuturna og stækka bjöllur, en þau völdu að gefa kirkjunni það besta; þau færðu fram efann um heilindi hennar og gagn. Og einmitt vegna þess að Þjóðkirkjan er sem stofnun mjög sek um rangar áherslur í ytri umgjörð sinni, já, einmitt vegna þess að hún hefur vikið af leið á sviði ytri stjórnunar orðið sjálfsupptekin og framandi í embætum sínum og sein að rétta hlut hinna hrjáðu, þá hefur köld gagnrýni Vantrúar og Siðmenntar komið samfélaginu til hjálpar.

III Þegar fullorðin börn miðaldra foreldra sitja fyrir framan þau og segja: ‘Þið reyndust okkur illa í uppeldinu, þið mismunuðuð og voruð ekki réttsýn.’ Hvernig eiga foreldrarnir þá að bregðast við?  Ef börn þeirra bæta svo í og segja: ‘Þetta háttarlag ykkar hefur yfirfærst á barnabörnin og við viljum ekki að þið umgangist þau nema undir eftirliti!’ Hvað eiga aldraðir foreldrar að segja?

Ef þau reyna að verja sig og útskýra fyrir börnum sínum að þau hafi nú ekki verið svona ósanngjörn og þau megi ekki skoðað liðna atburði í ljósi nútímans og að hér fari þau aldeilis yfir strikið með því að blanda barnabörnunum inn í málið, þá mun fjölskyldan leysast upp. Aldrað foreldri sem ekki tekur auðmjúklega við ávirðingum barna sinna, áskilur þeim allan rétt og á þá einu ósk að mega læra að elska, - slíkt foreldri mun færast út á jaðar stórfjölskyldunnar og þær heimsóknir sem það fær verða af skyldurækni. Hlutverk hins aldraða í fjölskyldunni er að hafa ekki hagsmuni aðra en ástina.

Nákvæmlega þarna situr Þjóðkirkjan á Íslandi. Þjóðin er orðin fullveðja og Þjóðkirkjan er að gera það upp við sig í hverskonar geðtengslum hún vill vera við landsmenn. Ætlar hún að verjast og reyna að halda sinni fornu stöðu eða ætlar hún að dýpka sambandið við þjóðina og opna faðminn enn frekar í visku öldungsins.

IV Í dagbók borgarstjóra standa hræðileg orð sem ekki hafa fengið verðskuldaða athygli. Þar skrifar hann um málefni kirkju og skóla g segir: „Trúfélög eru hagsmunasamtök sem byggja á ákveðnum hugmyndafræðum og lífsskoðunum og skólum ber að sjá til þess að áhrif slíkra félaga á starf skólans sé eins takmarkað og mögulegt er.”

Enn ber að þakka. Takk Jón Gnarr fyrir þessi andstyggilegu orð. Takk fyrir þessa ígrunduðu árás á óeðli kristninnar!  Ég segi óeðli kristninnar vegna þess að EKKERT er fjær hinu sanna eðli kristinnar kirkju en það að vera hagsmunasamtök. Ekkert lýsir Jesú og hreyfingu hans verr en hugtakið hagsmunasamtök. Sæluboðin eru guðspjall dagsins: „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru sorgbitnir, því þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir, því þeir munu jörðina erfa.” (Matt. 5) Inntak sæluboðanna og alls sem Jesús stendur fyrir er það að hann snýr öllum hagsmunum á hvolf og tæmir vasana!

Ég held ekki að Vantrú, Siðmennt eða mannréttindaráð Reykjavíkur séu fulltrúar sanngjarnra viðhorfa er kemur að hlutverki kristninnar í samfélaginu. Ég held að þau hafi alveg ferlega rangt fyrir sér í mörgu í þeim efnum, en lífið hefur kennt mér að taka mark á andrúmsloftinu. Það liggur reiði og andúð í andrúmsloftinu í garð Þjóðkirkjunnar fyrst og síðast og einnig gagnvart trúnni almennt. Drifkraftur umræðunnar er andúð og reiði en ekki mannréttindi barna því þá værum við að tala um mannréttindi barna. Við værum þá m.a. að ræða um hina rafrænu fjöldaframleiddu sigurvegaramenningu sem gegnsýrir allt þeirra umhverfi og þann ófrið og hávaða sem börn búa við og við gerum ekkert til þess að milda. Við værum að ræða um sifjaspell og önnur sálarmorð sem snúa að börnum. Við værum að ræða tannheilsu þeirra sem orðin er að lýðheilsuvanda, þörf á talþjálfun og sálfræðiþjónustu vegna kvíðaraskana sem ekki fæst, og önnur mannréttindabrot sem framin eru á börnum í dag. En drifkraftur umræðunnar um kirkju og skóla er ekki úr þeirri átt. Þar er einkum andúð á Þjóðkirkjunni og síðan trúnni almennt. Og ég er ekki að halda því fram að andúðin sé öll að ósekju. En nú snýr kirkjuóþolið ekki að mistökum og yfirgangi yfirstjórnar kirkjunnar umliðin ár heldur að söfnuðunum í landinu og þeirri þjónustu sem þeir veita börnum og unglingum með gildishlöðnu og vönduðu tómstundastarfi.  Einmitt þar sem söfnuðir hinnar seku Þjóðkirkju eru sannir og heilir, einmitt þar sem hin samviskusærða kristni landsins vinnur sitt besta verk njótandi óskoraðs trúnaðar, þar er árásin gerð.

V Ég sagði áðan að ekkert væri fjær kirkjunni en að vera hagsmunasamtök. E.t.v. væri nær að snúa því við og segja: Kirkjan er ekkert annað en hagsmunasamtök, hún er hagsmunasamtök barnsins! Kjarni hins kristna átrúnaðar er það að lúta barninu. Við skírnarlaugina er óvitinn ávarpaður og honum heitið skilyrðislausri samtöðu að hann skuli fá að vaxa upp í frelsi og sanngirni.  Helgisögn jólanna segir frá guði sem fæðist í hendur ráðvilltra foreldra sem eru á flækingi vegna ákvarðana sem teknar hafa verið hátt uppi í kerfinu af fólki sem aldrei þarf að mæta afleiðingum eigin gjörða. Þar eru skilaboð um gildi mennskunnar í varnarleysi sínu og höfnun á yfirdrepsskap og misnotkun valds.  Í þessari dómsjúku veröld miðri stendur Kristur og segir: ‘Hættið að metast og dæma, það eru börnin sem dæma heiminn! Þú ert sá sem þú ert í augum þeirra barna sem eiga öryggi sitt og frelsi undir þér komið.’  Það er undir þessa mannréttindavernd frelsarans Jesú sem barnið er borið við skírnarlaugina. Í fyrsta sinn sem það er opinberlega ávarpað þá er það til þess að lýsa yfir mannrétindum þess í Jesú nafni. Hversu sanngjarnt er það? Hversu rétt og satt og hreint? Það er um þetta sem barnastarfið í sóknarkirkjunni snýst. Barnastarf safnaðarins er um það að vera virkur aðili að uppeldi barnsins með foreldrunum og öllum hinum í þorpinu. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Erindi safnaðarins við barnið er ekki að fá það til þess að halda eitthvað um Guð heldur boða því þann fögnuð að það sé elskuverð manneskja. Sögurnar um Jesú og líka dæmisögurnar hans útskýra hvernig má treysta því að það sé í lagi að vera maður sjálfur. Þær lýsa jafnri virðingu Jesú fyrir öllu fólki, kröfu hans um réttlæti handa hinum þjáðu, óttaleysi hans og frelsi gagnvart öllu þvingunarvaldi. Sögur Nýjatestamenntisins lýsa einlægri trú á góðan Guð sem fyrst og síðast hefur trú á fólki og þráir samfélag. Trúboð kirkjunnar til barnsins er einkum það að Guð hafi trú á því sjálfu. Sú tilraun sem nú er gerð til að jaðarsetja æskulýðsstarf kristinna safnaða með tortryggni og aðdróttunum um annarlega hagsmunagæslu í bland við ýmsar sjálfsagðar athugasemdir er varða samskipti sóknarkirkju og skóla er þakkarverð í ljósi þess að nú koma heilindi kristninnar berlega í ljós og vilj íslensks samfélags til þess að varðveita sið sinn. Siður okkar er fyrst og síðast sá að samfélag hinna fullorðnu á trúnað þvert á allar lífsskoðanir um það atlæti sem við búum börnum okkar. Þar ætlum við ekki að yfirgefa hvert annað og búa til glerveggi andúðar og framandleika.