Fagnaðarerindið í orði og verki

Fagnaðarerindið í orði og verki

Að sjá kristindóminn sem máltíðarsamfélag gefur okkur færi á að sjá bæði Guð og heiminn frá nýju sjónarhorni, sitjandi við sama borð, deilandi matnum. Gordon Lathrop bendir á að kristindómurinn hafi orðið að raunveruleika við borð og bendir máli sínu til stuðnings á að fyrstu söfnuðurnir hafi haldið í máltíðarhefð Jesú.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
24. október 2006

Nýverið varð erindi eftir Gordon Lathrop sem nefnist Hin vígða þjónusta: Fagnaðarerindið í orði og verki í safnaðarlífinu á vegi mínum. Það vakti mig til umhugsunar og vil ég nota þann vettvang sem trú.is er til að segja frá þessu erindi hans.Í fyrsta hluta erindisins fjallar Lathrop um þá sem þjóna til borðs. Hann biður lesandann að byrja á því að taka því sem gefnu að kristindómurinn sé máltíðarsamfélag (e. meal-fellowship) vitandi það að til séu aðrar skilgreiningar á kristindómi. Og hann minnir á að í eðli sínu er kristindómurinn ekki hugmynd heldur trúhneigð (e. religious inclination) einstaklings, ekki heimspeki eða tækni til að fást við andlegan veruleika og engan vegin vara sem neytandi getur keypt á trúarbragðarmarkaðinum.

Að sjá kristindóminn sem máltíðarsamfélag gefur okkur færi á að sjá bæði Guð og heiminn frá nýju sjónarhorni, sitjandi við sama borð, deilandi matnum. Lathrop bendir á að kristindómurinn hafi orðið að raunveruleika við borð og bendir máli sínu til stuðnings á að fyrstu söfnuðurnir hafi haldið í máltíðarhefð Jesú sbr. Lúk. 7:34.

Og Lathrop gagnrýnir hve erfitt það virðist vera fyrir kristin samfélög í dag að skilja og halda þessu opna samfélagsboði, þessu undraverða tákni um veru Guðs, þessu trúarframsækna og byltandi borðhaldi sem er öllum opið, áfram. Og hann minnir á að það var líka í samhengi slíks máltíðarsamfélags sem fyrstu söfnuðunum varð ljóst að hinn krossfesti og upprisni Kristur var mitt á meðal þeirra. (Lúk. 22:27).

Í þessu samhengi minnir Lathrop einnig á umræðuna um það hver væri mestur og segir:

,,En” segir hinn krossfesti og upprisni nú, ,,ég er á meðal yðar sem djákni, sem sá sem þjónar til borðs.”  Ég er á meðal ykkar og sný þar með við merkingunni, eins og húsbóndinn, sem gyrðir sig belti, lætur þjónana setjast til borðs og þjónar þeim. (Sbr. Lúk. 12;37) (Lathrop. 2005. Bls.2).

Og Lathrop rekur þróunina frá þessu upphafi og gerir grein fyrir því hvernig kristið samfélag hafi þróast sem máltíðarsamfélag, sífellt fleiri sóttu þetta samfélag og þótt borðið minnkaði og yrði táknrænna í miðju rýmisins þá viðhélst sú venja að deila brauði og drekka af sameiginlegum bikar í samfélagi sem var öllum opið. Og yfirleitt var matur og drykkur afgangs og var hann þá nýttur til að gefa hinum fátæku og þurfandi. Og Lathrop minnir enn einu sinni á að kristindómurinn varð til sem máltíðarsamfélag:

Fæðið sjálft var nú nærvera Jesú, áþreifanlegur líkami hans í okkar miðju, blóð sáttmála hans smurt á líkama okkar. Máltíðin sýnishorn af hátíðinni á fjallinu, andblásinn endir sjálfs dauðans, samfélag alls fólks til að borða og drekka, eins og hjá Abraham og Söru með heilagri þrenningu. Samkoman var nú söfnuðurinn sem naut máltíðarinnar með Guði og sendi mat til þeirra sem ekkert hafði verið útbúið fyrir. (Lathrop. 2005. Bls. 3).

Þessum texta fylgir nokkuð ítarleg lýsing hjá Lathrop um hvernig máltíðarsamfélagið þróaðist í samhengi þess samfélags sem frumkristnin bjó við. En það nýja, hið framúrstefnulega var að meira að segja biskuparnir þjónuðu og höfðu sér við hlið fólk sem í hans umboði þjónuðu við borð Orðsins, borð heilagrar kvöldmáltíðar og borð hinna fátæku. Þetta voru djáknar. Og Lathrop ítrekar að ,,if it is healthy” sé kristið samfélag enn máltíðarsamfélag.

Og Lathrop rekur hvernig hin litúrgíska endurnýjunarhreyfing hefur gert sitt í að gera hið kristna samfélag altarismiðaðra, með það að markmiði að endurvekja þetta máltíðarsamfélag sem er öllum opið. Og hann talar um að hinir skírðu sem og þeir sem eru að undirbúa sig fyrir skírn eða eru í fermingarfræðslu fái þannig tækifæri til að verða hluti af samfélagi sem gefur af sér til fátækra. Börn og fullorðnir, ríkir og fátækir, ófermdir og fermdir, innanbúðarfólk og utanaðkomandi koma saman við borðið og deila með sér brauðhleif og drekka af einum bikar.

Máltíðin, sem er í eðli sínu einföld, er meðtekin með lotningu í sívaxandi þakkargjörð við borðið. En máltíðinni lýkur ekki við borðið því þau sem höfðu tök á því að vera viðstödd fara síðan í kærleik og með hraði út til hinna í samfélaginu sem höfðu ekki tök á því að vera viðstödd, því þau liggja veik heima, eru í fangelsi eða gegna hlutverkum úti í samfélaginu sem hindrar þau í að mæta. En hér verður hin kristna eining sýnileg og hin heilaga máltíð nær hámarki sínu. Og Lathrop minnir enn einu sinni á að hér viljum við reyna að segja að kristindómurinn sé máltíðarsamfélag en einnig:

… máltíð heimsins, heimur máltíðarinnar í sjálfu sér vitnisburður til heimsins um kærleika Guðs til heimsins, köllun Guðs í þessum heimi. (Lathrop. 2005. Bls. 6).

Og hér tekur Lathrop upp nýtt þema þessu náskylt því hann telur að ef sú fullyrðing sem hefur verið sett fram hér á undan um að kristindómurinn sé máltíðarsamfélag þá þurfi að skoða hlutverk leiðtoga hennar. Og hann bendir á að kynnt hafi verið af til sögunnar ýmsar gerðir trúarleiðtogastíla sem séu engan veginn nýtanleg fyrir kristindóminn og ítrekar að kristnir leiðtogar séu borðþjónar.

Þá telur Lathrop það tilkomumikið að þau orð sem eru fyrst og fremst notuð í Nýja testamentinu yfir ,,ministry”, ,,minister” og ,,to minister” séu orðin diakonía, diákonos og diakonéo sem í grunninn þýði: borðþjónusta (e. table-service), borðþjónn (e. table-server) og að bera fram mat (e. to serve food). Þá bendir hann á að hér megi ekki einblina á hina einföldu merkingu heldur verði að skoða dýpt hennar. Þannig vill hann leggja þann skilning í sjötta kafla Postulasögunnar að postularnir hafi viljað helga sér þjónustu bænahalds og orðsins í þeim skilningi að þeir vildu bera Orðið fram eins og matur er borinn fram í máltíðarsamfélagi. Þannig beri að skilja díakoníuna og allt hennar samhengi sem matarútdeilingu, eða í víðari merkingu, útdeilingu á áþreifanlegri liðveislu (e. concrete relief) sem fæðu fyrir hina fátæku. Og Lathrop kemst að þeirri niðurstöðu að þar sem kristindómurinn sé máltíðarsamfélag sé hin einstæða hugmynd guðspjallanna um forystu fólgin í díakoníunni og vitnar máli sínu til stuðnings í 9. kafla Markúsarguðspjalls, vers 35 sem og vers 43 til 45 úr 10. kafla sama guðspjalls og hnykkir svo á þessu með því að segja:

… hin stórkostlega þjónusta Krists við þetta borð í heiminum er krossinn. Í heilagri náð er hann þar þjóninn og fæðið, ávöstur af tréi lífsins, sem í trú má njóta, borða og lifa af, lausnin sem Guð ber til borðs til hins þurfandi heims. (Lathrop. 2005. Bls. 6).

Hér bendir Lathrop svo á að við megum einnig þjóna við þetta borð sökum þess anda sem yfir okkur er úthellt frá krossi hans og upprisu. Þjónusta okkar geti verið eins og þjónusta tengdamóður Péturs (Mark. 1:29), eða eins og þjónusta kvennanna sem fylgdu Jesú (Mark. 15:41; Matt. 27:55; Lúk. 8:3) eða eins og þjónusta Mörtu (Jóh. 12:2).

Á þessum stað kemur Lathrop með áhugaverða tengingu við gríska heimsspeki og hlutverk kynjanna. Hann bendir á að aðeins Jesús sjálfur, konurnar og svo englarnir í Markúsar- og Matteusarguðspjöllum hefðu áttað sig á mikilvægi þjónustunnar. Og hann veltir því fyrir sér hvort verið geti að karlarnir hafi lesið Plato og vitnar beint í Georgias þar sem spurt er: ,,Hvernig getur karlmaður verið hamingjusamur ef hann þarf að þjóna einhverjum?” Og Lathrop bætir við:

Karlar öldust upp við að stjórna, ekki þjóna. En hefð guðsspjallanna snýr að þessari hugsun. Þannig að ef við fetum í spor Jesú og kvennanna í guðsspjöllunum, mætti þjónusta okkar vera eins og Páls sem þjónaði við borð sáttárgjörðarinnar (2. Kor. 5;18-19) … eða eins og þeirra sjö, sem samkvæmt Postulasgöunni þjónuðu til borðs, linuðu þjáningu …(Postulasagan 6) … eða eins og þjónusta englanna sjálfra, sem komu til hins fastandi Krists í óbyggðinni og fæddu hann. (Mark. 1:13). (Lathrop. 2005. Bls. 8-9).

Þegar hér er komið við sögu finnst mér sem Lathrop dragi allt að því djúpt andann áður en hann bendir á að í tengslum við þetta viðhorf, það að sjá hina vígðu þjónustu (e. Ministry) verði að skoða að minnsta kosti fjórar andríkar ábendingar:
  1. Hlutverk hinnar vígðu þjónustu er ekki að deila út hvaða mat sem er, heldur að deila út í hinni helgu guðsþjónustu þar sem söfnuðurinn er samankominn um fagnaðarerindi Jesú Krists. Og þar sem við horfum hér á þessa þjónustu sem díakoníu þá sækir predikarinn umboð sitt í framkomu sem auðmjúkur þjónn, sem betlari gefandi öðrum betlurum brauð í hungruðum heimi. Og Lathrop ítrekar að þar sem Kristi er ekki útdeilt (e. if it is not really the bread of Christ) þar er ekkert umboð (e. no authority).
  2. Þjónusta fagnaðarerindisins við borðið er ekki bara hlutverk hinna vígðu. Í söfnuði Drottins eru mörg hlutverk, alls konar þjónusta við borðið. Fjölbreytileiki þeirra endurspeglar hinn ríkulega fjölda náðargjafa Guðs sem og breidd safnaðarins. Samstarf þeirra við borðið er tákn um einingu safnaðarins. Og þó hingað til hafi verið einblínt á borð Orðsins, borð Kvöldmáltíðarinnar, borð hinna fátæku og mikilvægi þessarar þjónustu sett fram má ekki gleymast að söfnuðurinn þarf á fleiru að halda til að stjórna tónlistinni, lesa texta og bænir, aðstoða við útdeilingu, taka á móti fólki við innganginn, vísa til sætis ... Allir sem þjóna í slíkum hlutverkum eru líka þjónar við borðið. Og þeirri þjónustu líkur ekki þegar við göngum út úr kirkjunni heldur erum við öll kölluð til að vera nágrönnum okkar fæða.
  3. Þeir sem þjóna við borðið þurfa líka að gæta þess að vera þátttakendur og láta þjóna sér til borðs segir Lathrop. Auk þess bendir hann á að þetta hlutverk, að taka á móti öðrum eigi að endurspeglast í okkar eigin heimilishaldi og minnir á að við erum hvött til gestrisni (Róm. 15:7).
  4. Sérhvert okkar sem þjónar við þetta borð hlýtur að halda áfram með okkur hinum að hugsa um þessa þjónustu við borðið og vinna að því markmiði að halda áfram að minna okkur á hvaða frekari endurbætur tengdar þessari borðhugsun þurfi að fara fram.
Í lok þessa erindis þakkar Lathrop fyrir sig með auðmjúkum orðum og segist vita að áheyrendur hans hafi sýnt það með lífi sínu að þeir séu þjónar við þetta borð og biður sérhvern um að taka þessi orð til uppörvunar og sem þakkir fyrir þjónustuna við borðið, þjónustu sem við getum ekki lifað án.