Ég og Kim Kardashian

Ég og Kim Kardashian

Ég vann internetið í síðustu viku. Ég virkur á samfélagsmiðlinum twitter og fæ tilkynningar þegar einhverjum líkar við það sem ég skrifa, þegar einhver ber það áfram með því að rítvíta og svo auðvitað þegar einhver bætist við í hóp þeirra sem fylgjast með mér á twitter.

Ég vann internetið í síðustu viku.

Ég virkur á samfélagsmiðlinum twitter og fæ tilkynningar þegar einhverjum líkar við það sem ég skrifa, þegar einhver ber það áfram með því að rítvíta og svo auðvitað þegar einhver bætist við í hóp þeirra sem fylgjast með mér á twitter. Nema hvað.

Þennan dag, líklega var þetta á þriðjudaginn, þá fékk ég tilkynningu:

„Kim Kardashian followed you on Twitter.“

Og ég hugsaði með mér: Vá, nú get ég bara hætt því Kim Kardashian, raunveruleikastjarnan, eiginkona Kanye West, helmingurinn af #kimye tvíeykinum, er lykilmanneskja á internetinu. Stundum er sagt að Kim geti sett það á hliðina með myndbirtingum. Og hún af öllu fólkinu í heiminum ákvað að fylgjast með því sem ég er að gera á twitter. Ég var búinn að vinna internetið!

Svo skoðaði ég þetta nánar og komst að því að þetta var víst ekki Kim Kardashian sjálf heldur bara einhver annar sem notar nafnið hennar sem yfirskrift tístsins síns og birtir uppáhaldsfrasa sem hún hefur látið frá sér. Svo skoðaði ég þetta aftur og komst að því að hún fylgist ekki einu sinni með mér lengur heldur var líklega bara að elta fullt af fólki í von um það að fá fylgjendur sjálf og hættir svo bara að fylgjast með þeim.

Frekar grunn tengsl semsagt! Og ég vann ekki internetið. En ég lifi samt af.

Það eru nokkrir svona reikningar á twitter - reyndar töluvert margir - þar sem einn eða fleiri einstaklingar skrifa í nafni einhvers frægs. Sumir til dæmis í nafni Jesú. Einn heitir JesusOfNaz316 og hann lýsir sér með orðunum:

„Trésmiður sem hangir með fiskimönnum, alkohólistum og vændiskonum.“

Hann skilur eftir sig skilaboð sem eru jákvæð, uppbyggileg og brýnandi:

„Þegar nóttin eykur bara angist þína og þjáningu, mundu þá að ég er með þér.“

„Sæl eru þau sem þurfa að taka erfiðar ákvarðanir af umhyggju fyrir öldruðum foreldrum sínum. Biðjið fyrir þeim og huggið þau í raunum sínum.“

Stundum eru tístin fyndin en það er alltaf alvarlegur undirtónn – eins og er reyndar raunin með svo margt sem fær dreifingu á netinu.

* * *

Samfélagsmiðlarnir eru leikvöllur. Leikvöllur sjálfsins. Þar sem við drögum upp mynd af okkur sjálfum og myndum tengsl á grundvelli þess. Við skrifum, birtum myndir, tökum þátt í samtali. Oftast undir eigin nafni, stundum undir dulnefni.

En þeir eru meira. Þeir eru líka vettvangur samfélagsins til að hugsa upphátt sem hópur. Og þeir geta skapað samkennd og tilfinningu fyrir því að við getum/megum/eigum að taka þátt og fyrir því að við séum hluti af einhverju sem er stærra - jafnvel miklu stærra - en við erum sjálf.

Við höfum séð dæmi um þetta upp á síðkastið. Aðallega að frumkvæði ungra kvenna. Eitt dæmi er líkamsmyndarátakið átakið sem menntaskólastúlkur ýttu af stað og var kallað #freethenipple og svo það sem fór af stað í síðustu eða kannski þarsíðustu viku og var merkt #6dagsleikinn. Það miðaði að því að afhjúpa hversdagslega kynjamisréttið, fordómana sem við berum ekki bara með okkur sem einstaklingar heldur sem samfélag.

Þegar við komum hingað í kirkjuna finnum við að við eigum eitthvað sameiginlegt: ákveðin grunngildi sem við tjáum til dæmis í tvöfalda kærleiksboðorðinu um að elska Guð og náungann, löngun til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar. Það sama gátum við líka fundið og reynt á samfélagsmiðlunum í vikunni. Deildu þinni sögu og merktu hana og þannig ertu hluti af hópnum. Eini aðgangseyririnn er einlægni, heiðarleiki og vilji til að láta gott af sér leiða.

* * *

Í dag er þriðji sunnudagur eftir páska og tuttugasti og annar gleðidagur. Þeir eru bráðum hálfnaðir. Í lestrum dagsins er teflt saman tveimur stefjum sem kallast skemmtilega á. Jesús segir: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ Og við getum - og eigum jafnvel í dag - að skoða það í ljósi hinna textanna. Til dæmis sálmsins sem við lásum sem er eins konar helgigönguljóð, sungið af fólki á leið til síns helgidóms. En þetta er líka söngur um líf þess sem fylgir Jesú, þess sem tekur til sín orðin um að Jesús sé vegurinn:

„Þá fylltist munnur vor hlátri og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: „Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“ Drottinn hefur gert mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.“

Og svo kemur bænin til Guðs sem er bæn um samstöðu:

„Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi. Þeir sem sá með tárum munu uppskera með gleðisöng. Grátandi fara menn og bera sáðkorn til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.“

Unglingarnir í Breytendum sem eru virk í unglingastarfinu hér í Laugarneskirkju áttu sér slagorð fyrir nokkrum árum sem lýsti verkefninu þeirra og kannski okkar allra. Þau sögðu: Við erum hendur Guðs til góðra verka í heiminum. Það er út frá þessu slagorði sem ég sé svo góða hliðstæðu milli samfélagsmiðlanna sem ég ræddi um áðan og þess sem við lesum um í lestrum þessa 22. gleðidags: Við erum hendurnar og hvert erum við send og til hvers? Til að stuðla að því að tár verði gleðisöngur, til að skapa samstöðu, til að búa til fögnuð.

* * *

Kim Kardashian getur sigrað internetið og lagt það á hliðina. En hvað með okkur? Hvernig sigrum við internetið? Ekki með því að tengjast henni, en kannski með því að lifa það á netinu að vera hendur – fingur – Guðs til góðra verka. Með því að nota þennan miðil og vettvang til að skapa samstöðu um það sem er gott og fallegt og til að afhjúpa ranglætið í heiminum. Með húmor og með alvarleika.

Það er verkefnið. Guð leiði okkur áfram til þess.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.