Treystum Jesú!

Treystum Jesú!

Guðspjall: Matt. 14.22-33 Lexia: Job 42 1- 5 Pistill: 1. Jóh. 4. 7-11

Þessi frásaga af Jesú og lærisveinunum í Matteusarguðspjalli kemur strax á eftir frásögunni af því er Jesús mettaði 5 þúsund manns. En eftir þann atburð vildi fólkið gera Jesú að konungi með valdi. Jesús naut slíkrar hylli sökum hæfileika sinna að margir Gyðingar álitu að hann væri sá Messías sem Ísraelslýður hafði beðið eftir í margar aldir. Þeim fannst að honum bæri því með réttu að vera kallaður konungur Gyðinga. Lærisveinar Jesú hugsuðu einnig á þessum nótum. Þeir vildu líkt og aðrir gera Jesú að konungi Gyðinga til þess að hann gæti með hervaldi hrakið Rómverjana í burtu úr landinu. Þrátt fyrir að Jesús væri með þeim allan sólarhringinn og sýni þeim með kærleiksríku viðmóti þegar hann framkvæmdi kraftaverk og læknaði sjúka til líkama og sálar, að ríki hans væri ekki af þessum heimi, þá áttu þeir afar erfitt með að trúa honum, hvað þá skilja hann. Jesús gerði sér það vel ljóst. Þess vegna sendi hann lærisveinana tafarlaust burt eftir mettun 5 þúsundanna. Hann vildi ekki að mannfjöldinn hefði meiri áhrif á þá en nauðsynlegt var. Hann sendi þá í bát einn og bauð þeim að halda yfir um Galileuvatn en sjálfur ætlaði hann sér senda mannfjöldann burt frá sér.

Þegar Jesús var orðinn einn þá hélt hann upp á fjall til þess að biðjast fyrir en þá var komin nótt. Og lærisveinarnir voru nú komnir út á vatnið í opnum bát sínum. Þá brast skyndilega stormur á þá sem þeir fengu í fangið. Og þeir börðust þarna lengi vel gegn öldunum og vindinum með litlum árangri.

Þegar líða tók á nóttina gekk Jesús niður af fjallinu og gekk eftir ströndinni í áttina að þeim stað er hann bjóst við að þeir myndu lenda. Þetta gerðist að vorlagi og tunglið var fullt. Jesús sá bátinn greinilega í tunglsljósinu þar sem gaf á hann og hann ákvað að hjálpa þeim með því að ganga til þeirra á vatninu.

Það sem er aðalatriðið í þessari frásögu er ekki það hvort Jesús hafi virkilega gengið á vatninu til þeirra eða ekki heldur sú staðreynd að þegar neyð lærisveinanna var stærst þá kom Jesús og hjálpaði þeim. Þar sem vindasamt var og lífið barátta þar var og er Jesús.

Vindar eru oft óhagstæðir í lífinu. Þeir tímar koma að þeir blása á móti okkur og lífið er örvæntingarfull barátta við okkur sjálf, við kringumstæður okkar, við freistingar okkar, við áhyggjur okkar og ákvarðanir. Á slíkum stundum þarf enginn maður að berjast einn því að Jesús kemur til okkar með útréttan faðminn og segir: "Þetta er ég, verið óhrædd".

Það verður mörgum hált á svellinu í lífinu og margir fá slæma byltu. En þótt fallið reynist mörgum fararheill þá geta ekki allir staðið á fætur aftur án aðstoðar.

Nú um langt skeið hefur mjög mikill fjármagnskostnaður gert það að verkum að mörg fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota og ekki er séð fyrir endann á þeim ennþá. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær áhyggjur og streitu sem gjaldþrotamál valda þeim er fyrir þeim verða. En þótt eigendur fyrirtækjanna komi verst út úr gjaldþrotum þá verða starfsmenn fyrirtækjanna fyrir þungum búsifjum.

Mörgum reynist það erfitt að þiggja aðstoð þegar í óefni er komið. En þegar ekkert nema svartnætti vofir yfir þá er gott að grípa í síðasta hálmstráið sem er Jesús Kristur. Trúin á hann hefur gefið mörgum manninum styrk, já nýjan kraft. Þá hafa þeir séð ljósglætu í svartnættinu sem sigrast um síðir á myrkrinu.

Eins og kunnugt er þá ákvað Jesús að gera lærisvein sinn, Símon Pétur að leiðtoga kirkjunnar eftir að hann hyrfi af þessu jarðneska tilverusviði.. Það er ljóst af frásögum Nýja testamentisins að Símon Pétur var flautaþyrill. Hann sagði og gerði stundum hluti án þess að hugsa út í hvað hann var að segja eða gera. Eitt sinn sagði hann við Jesú að þótt hann ætti að deyja með honum þá myndi hann aldrei afneita honum. En við vitum að þrátt fyrir þessi orð Símonar Péturs þá afneitaði hann Jesú þrisvar eftir að hann var handtekinn á skírdagskvöld. Mistök hans voru í því fólgin að horfast ekki í augu við aðstæður sínar og reikna út kostnaðinn. Af þessu dæmi má sjá að Símon Pétur hafði til að bera breyskleika sem víða sést í mannlegu fari nú á tímum. En Jesús vissi að hjarta Símonar Péturs var fullt af kærleika í garð Guðs og manna. Og hann trúði því sem hann sá og heyrði: Þess vegna gat hann sagt við Krist er hann spurði lærisveinana hver þeir héldu að hann væri: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs".

Símon bar kennsl á Jesú en eftirfylgdin reyndist honum erfiðari en hann hafði reiknað með. Hann brást oft Jesú en hann fyrirgaf honum alltaf vegna þess að Símon leitaði alltaf til hans aftur og aftur eftir hvert fall. Svo virtist sem mistök hans færðu hann nær og nær Jesú Kristi.

Hin myndræna frásögn í guðspjalli dagsins kemur aftur í huga minn. Þar kemur glannaskapur Péturs vel í ljós þar sem hann anar út í óvissuna. Hann hlýðir orðum Jesú án þess að hugsa út í hvað þau merkja. En hann sté út úr bátnum og gekk á vatninu til hans. Þá varð honum ljóst hvar hann var í raun og veru og tók að sökkva. Og er hann sökk kallaði hann á Jesú og bað hann að bjarga sér. Jesús gerði það fúslega og þeir stigu saman í bátinn. Með nærveru Jesú lægði vindinn og hræðsla lærisveinanna vék fyrir umvefjandi friði hans og kærleika.

Með nærveru sinni gefur Jesús okkur sinn frið sem er æðri öllum skilningi. Sá friður er enginn streituvaldur heldur þvert á móti. Hann kemur á jafnvægi í líkamanum og sálinni. Friði Guðs fylgir lækningamáttur sem er engum líkur.

Þegar okkur mæta hvers kyns erfiðleikar og áhyggjurnar hrannast upp t.d. út af afkomu okkar þá er dýrmætt að sækjast eftir þeim fjársjóði sem ekkert fær eytt, hvorki verðbógubál né mölur eða ryð. Sá fjársjóður er Jesús sjálfur og öll sú viska og þekking sem býr í honum. Orðin hans eru dýrmætari en gull. Megi okkur auðnast að læra að treysta orðum frelsarans Jesú Krists og tileinka okkur þau í lífi og starfi. Amen.