Að gefnu tilefni

Að gefnu tilefni

Það sem ég þekki til get ég fullyrt að biskup Íslands hefur lagt sig í líma við að leysa úr þeim málum á sem farsælastan og bestan máta.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
19. janúar 2021

Séra Kristinn Jens Sigurþórsson, síðasti sóknarpresturinn í Saurbæ, eins og hann titlar sig sjálfur, hefur nú um nokkurt skeið birt greinar í Morgunblaðinu. Þar hefur hann m.a. tekið til umfjöllunar skipulagsbreytingar sem og ágreiningsmál sem upp hafa komið innan þjóðkirkjunnar. Ekki er ætlunin hér í þessum stutta pistli að ávarpa öll þau atriði sem hann hefur fjallað um í sínum fjölmörgu greinum, en nokkur atriði eru að mati undirritaðs nauðsynlegt að staldra við og jafnvel leiðrétta.

Kirkjuþing lagði niður Saurbæjarprestakall á Hvalfjarðarströnd. Afleiðingin varð sú að embætti sóknarprests Saurbæjarprestakalls var þar með úr sögunni. Fráfarandi sóknarprestur naut biðlaunaréttar, eftir að embættið var lagt niður, eins og lög gera ráð fyrir.

Þetta er staðreynd málsins.

Önnur staðreynd málsins er sú að biskup og kirkjuráð buðu fráfarandi sóknarpresti nýtt og sambærilegt starf, innan þjóðkirkjunnar, sem hann þáði ekki, sem og uppgjör og bætur vegna niðurlagningarinnar, sem ekki náðist samkomulag um þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af hálfu kirkjunnar. Þegar þannig er háttað er hverjum frjálst að leita til dómstóla, úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar, umboðsmanns alþingis eða hvers annars sem fólk telur rétt að fela úrlausn mála sinna.

Séra Kristinn Jens Sigurþórsson, fjallar í greinum sínum um nafngreinda aðila, sem hafa látið af störfum innan þjóðkirkjunnar, á umliðnum misserum. Ekki veit ég hvort hann hafi fengið heimild viðkomandi til að fjalla á slíkan máta um þeirra persónulegu málefni.

Þegar um er að ræða skipulagsbreytingar, hugsanleg siðferðisbrot og/eða agabrot, þegar fagráð um meðferð kynferðisbrota hefur fjölda mála um sama einstakling til umfjöllunar, sem og úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd, er ljóst að um viðkvæm og erfið mál er að ræða. Málavextir liggja þá gjarnan ekki fyrir allra augum og úrlausnin stundum flókin, þar sem margir koma að, svo sem kirkjuþing, ýmsar nefndir og einnig biskup.

Vandalaust er að geta í eyður og gera afgreiðslu og niðurstöðu mála tortryggilega, þegar um svo viðkvæm og erfið mál er að ræða. Það sem ég þekki til af þeim úrlausnarefnum sem séra Kristinn Jens Sigurþórsson fjallar um, get ég fullyrt að biskup Íslands hefur lagt sig í líma við að leysa úr þeim á sem farsælastan og bestan máta. Tvo þarf hins vegar til svo samningar náist, og svo verður fólk auðvitað að bera ábyrgð á gjörðum sínum og framkomu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2021.