Guð og Mammon

Guð og Mammon

Guðspjall: Matt. 6. 24-34 Lexia: Sálm. 33. 1-9 Pistill: Gal. 5.25-6.5

Bæn. Drottinn. Við þökkum þér fyrir miskunn þína og trúfesti í okkar garð nú á dögum þegar við mennirnir hugsum meira um það sem heimurinn gefur en það sem þú gefur.

Ég bið þig að stuðla að því að viðhorfsbreyting verði hjá íslensku þjóðinni í þá átt að hún leiti fyrst ríkis þíns og réttlætis af hjarta og veitist síðan allt annað að auki nú á þessum erfiðu tímum í lífi hennar.

Kom Jesús í þínum heilaga anda og ver okkur nær í helgidómi þinum og tala til okkar með þinni ráðsályktun. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Um þessar mundir er þess minnst um heim allan að fimmtíu ár eru liðin síðan heimsstyrjöldin síðari hófst. Í tilefni þessara tímamóta hafa sagnfræðingar litið til baka og reynt að komast að því hvað hafi valdið því að síðari heimsstyrjóldin hófst.

Af fréttum má dæma að metnaður og ágirnd manna hafi komið styrjöldinni af stað. Afleiðingar styrjaldarinnar urðu ógurlegar, verri en nokkurn mann óraði fyrir. Því mætti ætla að mannkyn hefði lært af reynslunni og heitið því að til styrjaldar myndi aldrei koma aftur. En hégómleg blindni mannanna, ágirnd og metnaður hefur oft síðan dregið þá á tálar og skilið eftir sig svöðusár í þjóðfélögum heimsins sem seint eða aldrei munu gróa til fulls.

Þegar kjarnorkusprengjan féll yfir Hiroshima þá sögðu menn: "Aldrei aftur Hiroshima". Þrátt fyrir þessa hræðilegu reynslu þá var framleiðslu kjarnorkuvopna haldið áfram af fullum krafti og tilraunir gerðar neðanjarðar í eyðimörkum. Í dag eru til svo margar kjarnorkusprengjur að hægt væri að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum með þeim. Á bak við tilvist kjarnorkuvopna er ótti mannanna við hvern annan, sjúkleg tortryggni og heimsleg ágirnd. Já, mannkyn hefur lengi vaðið í hégómlegri villu og er á góðri leið með að tortíma Guðs góðu sköpun. Þar hefur andvaraleysið fengið að ráða og hræsnin.Já, illska mannanna er mótuð af því sem heimurinn gefur en ekki Guð. Margir hræsnarar eru til í þjóðfélögum heimsins. Á yfirborðinu eru þeir myndarlegir ásýndum en að innan eru þeir líkir kölkuðum dauðra manna gröfum eins og Jesús benti á eitt sinn. Þeir hafa hugann við jarðneska muni. Guð þeirra er maginn og þeim þykir sómi að skömminni.

Fégræðgi og ágirnd eru fylgifiskar Mammons í nútímaþjóðfélögum þar sem efnishyggjan er allsráðandi. Og þeir eru fleiri fylgifiskarnir eins og ofsi og eigingirni og hvers kyns böl. Þess konar speki kemur ekki að ofan frá Guði heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.

En sú speki sem að ofan kemur frá Guði, hún er í fyrsta lagi hrein, þvinæst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. Þessum ávöxtum réttlætis Guðs verður sáð í friði þeim til handa er frið semja.

Af bréfi Jakobs í Nýja testamentinu má ráða að hann velti fyrir sér ástæðunum fyrir stríðsrekstri á sínum tíma og deilum á milli manna. En hann skrifaði: "Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar. Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki af því að þér biðjið ekki. Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði. Þér ótrúu, vitið þér ekki á vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði. Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs. Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann sem hann gaf bústað í oss? En því meiri er náðin sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð".

Guð gaf okkur líkama, sál og anda. Guð gaf okkur anda til þess að við gætum tilbeðið sig og vegsamað. Við getum ekki tilbeðið Guð með líkama okkar eða sál. Líkaminn er jarðneskur og verður að mold, sálin er persónuleiki okkar. Margir eru leitandi í dag að einhverri varanlegri lífsfyllingu. Innra með okkur er tómarúm sem við reynum að fylla með ýmsum hætti.

Ef við leitum ekki eftir persónulegu samfélagi við son Guðs Jesú Krist sem er upprisinn og lifandi persóna og er nærverandi í heilögum anda sínum þá fyllum við tómarúmið innra með okkur með einhverju öðru t.d. heimslegum efnislegum gæðum sem hafa ekkert varanlegt gildi fyrir okkur. Þá er sú hætta fyrir hendi að Guð okkar verði maginn. Þ.e.a.s. við verðum aldrei mett af efnislegum gæðum og hlutum. Við sjáum merki um þetta í lífsgæðakapphlaupi nútímans.

Því var ekki fyrir að fara hér áður fyrr. Þá gerði fólk ekki kröfur til annarra en sjálfra sín. Það vann í sveita síns andlitis til þess að hafa ofan í sig og á og gerði sig ánægt með sinn skerf. Lífsbjörgin var fólkinu nægileg á þeim tíma en ekki í dag. Nú eru gerðar skefjalausar kröfur í allar áttir þrátt fyrir almenna velmegun þjóðarinnar. Efnishyggjan er allsráðandi hjá þjóðinni og hún eyðir um efni fram. Þess vegna er hún komin í slíkar ógöngur sem raun ber vitni.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort Guð íslensku þjóðarinnar sé efnishyggjumaginn? Er nema von að Guð skapari okkar þrái ekki með afbrýði andann sem innra með okkur býr. Kirkjur standa víðast hvar nánast tómar á Drottins dögum þegar messað er. Þetta hlýtur að vera hverjum manni mikið áhyggjuefni vegna þess að fólk er alltaf að leita að lífsfyllingu. Það vill fylla upp í tómarúmið í anda sínum. En því miður leitar það meira á vit Mammons en Guðs í því skyni. Þess vegna eru kirkjurnar tómar á Drottins dögum að mínu mati.

Efnishyggjan í þjóðfélaginu veldur því að fólk virðist aldrei gera sig ánægt með neitt. Það er alltaf áhyggjufullt og kvartar sáran yfir kjörum sínum og reynir alltaf að finna einhvern blóraböggul. Það á ákaflega erfitt með að láta sér nægja það sem fyrir hendi er.

Fólk sem tekur trú sína á frelsarann alvarlega og á persónulegt samfélag við hann virðist vera nægjusamara en margur efnishyggjumaðurinn. Það hefur lært að láta sér nægja það sem fyrir hendi er. Það stundar launuð störf og þarf að vinna baki brotnu til þess að eignast þak yfir höfuðið, bifreið og hjól. Þetta fólk er ekki þjakað af lífsgæðakapphlaupinu vegna þess að Jesús Kristur er lífsfylling þess. Hann veitir þeim andlegar og efnalegar allsnægtir. Þær detta ekki af himnum ofan fólkinu í skaut. Það þarf oft að ganga í gegnum þrengingar jafnvel svo miklar að það á ekki bensín á bílinn. En þá er gott að geta tekið hjólið út úr bílskúrnum og hjólað áhyggjulaus í vinnuna svo ég slái á léttari strengi.

Samfélagið við lifandi Guð, Jesú Krist veitir trúræknu fólki varanlegri gleði og lífsfyllingu en dauðir jarðneskir munir. Þess vegna er marg af þessu fólki nægjusamt og hleypur ekki á eftir neinum hégóma. Það tæki undir eftirfarandi orð Páls postula sem hann skrifaði í fangelsi: "Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir". (Fil: 4. 12-13)

Af guðspjalli dagsins um Guð og Mammon má ráða að lífið sé meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. þegar við lítum á lífsgæðakapphlaupið í þjóðfélaginu þá má segja að fyrir fólki sé lífið fæðan og líkaminn klæðin. Margir eru áhyggjufullir í dag um líf sitt, hvað þeir eigi að borða eða drekka eða hverju þeir eiga að klæðast.

Guð segir að allir hlutir í þessum heimi tilheyri honum. Í 24 Davíðssálmi segir. "Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa". Þess vegna er ekki rétt af einstaklingi að segja: "Ég á þennan hlut og þér kemur ekkert við hvað ég geri við hann". Hann ætti heldur að segja: "Þessi hlutur tilheyrir Guði og hann hefur leyft mér að nota hann".

Mér dettur í hug lítil saga sem lýsir þessu ákaflega vel: "Eitt sinn fór ung stúlka út í skóg að týna blóm ásamt kennaranum sínum. Þar sá hún í fyrsta skipti bláklukkur. Hún sneri sér að kennaranum og spurði: Heldur þú að guði sé sama ef ég týndi upp eitt af blómunum hans?" Þetta er rétt viðhorf til lífsins og allra hluta í heiminum.

Guði er ekki sama um alla þessa ofneyslu á efnislegum gæðum í þjóðfélaginu vegna þess að hún dregur fólk frá honum. Fólkið fer þá að dýrka húsin sín og bílana og aðra hluti í stað skaparans.

Fólk er í augum Guðs miklu mikilvægara en blóm vallarins, dýrin og jarðneskir hlutir. Manneskjan er kóróna sköpunarverksins og hefur því skyldur gagnvart því og Guði. Manneskjan er einnig eina lífveran sem getur tilbeðið Guð með anda sínum.

Úr því að Guð gaf okkur lífið þá getum við treyst honum fyrir þeim hlutum sem okkur vanhagar um til þess að geta lifað. Þess vegna væri það vantraust á Guð ef maðurinn væri áhyggjufullur út af framfærslu sinni. Áhyggjurnar fyrir framtíðinni hverfa hjá fólki þegar Guð verður ráðandi afl í lífi þess.

Þess vegna eigum við fyrst að leita ríkis Guðs og réttlætis og þá mun okkur veitast allt annað að auki. Jesús sagði okkur að lifa einn dag í einu og hafa ekki áhyggjur af framtíðinni.

Lífsgæðakapphlaupið hefur sett sig mark á flesta og valdið streitu. Við höfum þörf fyrir að leita kyrrðar í samfélagi við Jesú Krist. Aðstoð hans er nær en við höldum. Minnumst þess að allir hlutir tilheyra honum. Við þurfum þvi ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum.Segjum lífsgæðakapphlaupinu stríð á hendur með því að temja okkur nægjusamt líferni og gleymum ekki að þakka Guði í helgidóminum fyrir allar góðar gjafir, smáar sem stórar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen

sr. Sighvatur Karlsson sóknaprestur á Húsavík flutti þessa prédikun í Húsavíkurkirkju 15. sunnudag eftir þrenningarhátíð 1989.