Umkomuleysi barnsins

Umkomuleysi barnsins

Þegar hvítvoðungur hvílir í örmum manns, einungis nokkurra mínútna gamalt barnið og maður horfir á það, þá verður maður svo áþreifanlega var við umkomuleysi þess. Hvítvoðungurinn er algerlega upp á aðra kominn.

Þegar hvítvoðungur hvílir í örmum manns, einungis nokkurra mínútna gamalt barnið og maður horfir á það, þá verður maður svo áþreifanlega var við umkomuleysi þess. Hvítvoðungurinn er algerlega upp á aðra kominn. Það eina sem þetta litla kraftaverk kann er að drekka við brjóst móður sinnar, en það er líka það eina sem það þarf að kunna að svo stöddu.

Barnsfingur. Mynd: Gunnar Einar SteingrímssonKraftaverk lífsins er stærra en orð fá lýst. Augnablikið þegar nýfætt barn dregur andann í fyrsta sinn og grætur er augnablik sjálfs lífsins. Þessi stund er stærri og meiri en hægt er að tjá með orðum, þarna er kraftur Guðs að verki. Guð blæs lífsins anda til barnsins sem grípur andann á lofti, fyllir lungun og andar svo frá sér.

Þegar maður ber nýfætt barnið augum þá er ekki hjá því komist að klökkna og tárast vegna þess að sakleysi og hreinleiki þess er svo tær, en um leið svo sterkur. Agnarsmáir fingur, algerlega ónotaðir fætur, lítill kroppur sem í öllu sínu sakleysi treystir á mömmu og pabba.

Já, líf barnsins er algerlega í höndum foreldra þess. Þessi litla smáa vera sem virðist ekkert geta né kunna, nema það eitt að nærast við brjóst móður sinnar, hefur samt einhvern dulinn kraft. Kraft sem veldur því að allir sem umgangast það hægja á sér, fara að tala lægra og jafnvel systkini þess nýfædda, sem eru þó ekki nema örfáum árum eldri, róast niður á undraverðan hátt við það eitt að vera í nærveru hins nýfædda systkinis.

Í þessu litla kríli býr nefnilega kraftur Guðs. Barnið er svo sannarlega skapað í Guðs mynd og frá því stafar kraftur Guðs, náð hans og gæska sem gerir það að verkum að maður fyllist lotningu fyrir kraftaverki lífsins. Umkomuleysi hvítvoðungins er því senn algert en um leið býr í því svo sterkur kraftur að það hefur mann algerlega á valdi sínu.

Þetta er kraftaverk lífsins.