Jólaguðspjallið fjallar um vald

Jólaguðspjallið fjallar um vald

Jólaguðspjallið fjallar um vald og er án nokkurs vafa áhrifamesta greining mannkynssögunnar á eðli valds. Kærleikur Guðs sker í jólaguðspjallinu í gegnum allt valdbeitingarkerfi mannkyns og sýnir okkur sannleikan um að við erum í raun öll jöfn frammi fyrir kærleika hans.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
24. desember 2013
Flokkar

Jólaguðspjallið fjallar um vald og er án nokkurs vafa áhrifamesta greining mannkynssögunnar á eðli valds. Að baki jólaguðspjallinu liggur til grundvallar sú trúarlega hugmynd að valdamesta vera alheimsins, almáttugur Guð, skapari himins og jarðar, sé að koma í heiminn.

Frásagnir af komu Guða í heiminn voru íbúum Rómarveldis vel kunnar og hinir fyrstu áheyrendur þessa texta þekktu hundruði slíkra sagna. Í grísk-rómverskri goðafræði voru mörkin á milli veröld guða og manna óljós og samgangur mikill, þannig gátu menn ferðast til Ólympus og guðir gátu getið afkvæmi með mönnum eins og hinn þekkti Herkúles er dæmi um. Guðir gátu fyrirvaralaust birst mönnum og gerðu það þá yfirleitt með því að sýna þann mátt sem þeir bjuggu yfir. Þannig birtist Júpíter í þrumuskýi, á sama hátt og forveri hans Seifur og frændi hans Þór gerðu, og undirstrikaði þannig vald sitt yfir náttuöflunum. Bakkus eða Díonýsus, Guð víns og fagnaðar, var vinsæll gestur í veislum hefðarfólks og sló um sig með því að heilla konurnar á brott eða breyta vatni í vín. Það var til marks um að veislan hafi verið vel heppnuð að guðinn legði leið sína þangað.

Fæðingarfrásagnir guða voru líka mönnum þekktar. Í nágrannaheimsveldi Egypta höfðu á tímum Jesú verið grískir valdshafar í yfir 300 ár og konungar þeirra voru álitnir hálf-guðir, sem öðluðust fullan sess sem guðir við andlát. Í hvert sinn sem erfingi fæddist konungsfjölskyldunni í Egyptalandi var því guð að fæðast og sögur af slíkum fæðingum voru vel-kunnar í rómverska heimsveldinu. Fæðingar guða í Rómarveldi voru ekki síður kunnar og þekktust er saga sem Óvíd varðveitir af getnaði og fæðingu Perseusar, en Júpíter lét sig rigna sem gulli í skaut Danáu konungsdóttur, sem hafði verið læst inni í turni föðurs síns, og þeim var síðan kastað í kistu á haf út vegna spádómar um að dóttursonur konungsins myndi einn dag verða afa sínum að bana.

Ágústus keisari, sem fyrstur er nafngreindur í jólaguðspjallinu, þekkti þennan sagnaarf vel og vildi ekki vera minni konungur. Í valdatíð hans urðu vatnaskil í stjórkerfi Rómarveldis en hinu fallvalta lýðveldiskeiði lauk með valdtöku hans og hann lýsti sig einráðan keisara Rómarveldis. Eftir því sem leið á valdatíð Ágústusar varð staða hans í veraldarsögunni æ fyrirferðarmeiri. Áróðursvélar Ágústusar lýstu hann frelsara, gríðarstórar styttur voru reistar af honum í fordyrum á hofi sem hann lét reisa til heiðurs stíðsguðnum Mars og hirðskáldið Virgill var fenginn til að réttlæta valdatíð ættarinnar á grundvelli hins grísk-rómverska sagnarfs með ritun Eneasarkviðu. Ágústus var sagður getinn af Appolló, guði skáldskapar, tónlistar og lækninga, með því móti að guðinn vitjaði Atíu móður Ágústusar sem snákur og fyrir fæðingu hans dreymdi hún að móðurlíf hennar næði upp til stjarnanna og yfir alla jörðina.

Guðlegur uppruni var leið valdshafa til að festa í sessi veraldleg völd sín. Í ljósi þessa fær sú upptalning valdsmanna í fæðingarfrásögnum guðspjallanna nýja merkingu. Ágústus keisari, Kýreníus landsstjóri og Heródes konungur eru handhafar hins veraldlega valds og tilkall þeirra til valds er réttlætt með guðlegum uppruna. Á sama hátt og guðleg fæðing Perseusar ógnaði valdatíð konungsins af Argos, ógnar guðleg fæðing hins gyðinglega frelsara völdum Heródesar konungs. Á sama hátt og guðir hafa fæðst inn í konunglegar fjölskyldur valdshafa, fjallar nýja testamentið um þann atburð þegar skapari himins og jarðar, Guð almáttugur fæðist inn í heiminn.

Aðalpersónur guðspjallsins eru hinsvegar valdlausar, fátæk hjónaleysi frá útnára heimsveldisins. [Á hátindi heimsveldisins við upphaf annarar aldar voru íbúar Rómarveldis ca. 88 milljónir á landssvæði sem náði yfir 6½ milljónir ferkílómetra. Ísrael nær yfir 27.000 ferkílómetra og talið er að gyðingar hafi verið á þessum tíma 4,2 milljónir, þar af 3 milljónir búandi í Ísrael.] Vel upplýstir Rómverjar gætu hafa vitað hvar Ísrael liggur en mikilvægi þess fyrir heimsveldið lá fyrst og fremst í því að vera áningastaður á leiðinni til Egyptalands. Nasaret var að öllu óþekkt, bæði Gyðingum og Rómverjum, og engar skriflegar vísanir eru þekktar til þorpsins fyrir ritun Nýja testamentisins. Höfundur Jóhannesarguðspjalls spyr eðlilega ,,Getur nokkuð gott komið frá Nasaret”.

Þjóðfélagsstaða Jósefs og Maríu er þekkt og guðspjallamennirnir gera enga tilraun til að fela alþýðlega stöðu þeirra, hann var trésmiður í smáþorpi á strjálbýlu svæði. María hefur verið unglingsstúlka á giftingaraldri og ættir hennar eru hvergi raktar, sem gefur til kynna að ekki hafi verið frá mörgu að segja. Mótttökur þeirra í Betlehem á jólanótt gefa til kynna að ættin hans hafi ekki verið burðug, fyrst þau þurftu að leita á náðir gistihúsa og hrökkluðust á endanum út í fjárhús.

Fyrstu vitnin að jólaundrinu eru hirðar að gæta fjár að nóttu en það verkefni kom í hlut þeirra lægst settu í samfélaginu. Verkefnið fólst í að gæta sofandi fjár fyrir villidýrum og ræningjum sem sóttu að fénu og líklega hafa þeir ekki fengið nema máltíð að launum. [Samtíma heimildir á borð við rit gyðingsins Fílon frá Alexandríu og rabbínsk rit gera lítið úr þessari stétt manna og um er að ræða annaðhvort þræla eða fátækt frjálsborið sveitafólk. Sögulega höfðu hirðar djúpan sess í sögu þjóðarinnar, Abraham, Ísak og Davíð voru fjárhirðar, en staða þeirra hafði breyst og sú jákvæða mynd sem birtist af slíkum næturverkamönnum í Nýja testamentinu er óvenjuleg meðal samtímabókmennta.]

Það boð sem barst frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina byggði vitaskuld á skattheimtu en þegar Ágústus komst til valda var heimsveldið fjársvelt eftir stríðsrekstur. Skrásetning Ágústusar og skattaumbætur skiluðu árangri og heimsveldið rétti úr kútnum á kostnað hinna lægst launuðu eins og alltaf vill verða. [Sér til heiðurs hófst hann handa við að gera minningu sína ódauðlega með því að gera minnismerki um sig og styttur af sér glæsilegri en forvera sinna.]

Boð keisarans kom á versta tíma fyrir hin ungu hjónaleysi og þau eru færð af valdshöfum, sem engu skeyta um þarfir þegna sinna. María kasólétt ferðast um langan veg um grýtta leið en um 140 kílómetrar eru á milli Nasaret og Bethlehem. Hinn margrómaði asni sem fylgir þeim á öllum helgimyndum er hvergi nefndur í guðspjöllunum en asnar voru reiðskjótar almennings og báru yfirleitt farangur frekar en fólk.

Saga þeirra heldur áfram í Matteusarguðspjalli en þar er því lýst að fjölskyldan hafi þurft að flýja til Egyptalands og dvalið þar sem pólitískir flóttamenn þar til sú ógn sem þeim steðjaði að geðsýki Heródesar var liðin hjá. Frásögnin um barnamorð Heródesar er hvergi nefnd utan Matteusarguðspjalls en hún er þó í takt við þá mynd sem samtímaheimildir gefa af persónu konungsins. Jósefus sagnritari nefnir mörg voðaverk sem hann framdi á sinni valdatíð og þekktast er morð hans á konu sinni og tveimur sonum, sem vakið hefur ugg hjá almenningi.

María og Jósef eru því fullkomlega valdlausir einstaklingar af almúgaættum og utan að landi, sem eru færð til og hrakin á flótta af veraldlegum valdshöfum. Andstæðurnar gætu ekki verið augljósari, hið veraldlega vald, sem byggir vald sitt á þjóðfélagsstöðu, hernaðarmætti og peningum og réttlætir það á grundvelli guðlegra forréttinda kallast á við fátæk hjónaleysi, færð úr stað til að þjóna hagsmunum valdshafa og hrakin á flótta. Innkoma Jesú Krists í heiminn er ekki í samkeppni við stöðu og guði valdastéttarinnar heldur í beinni andstöðu við þær.

Guð kemur í heiminn, ekki til þeirra sem þegar njóta forréttinda, heldur inn í aðstæður þeirra sem minnst mega sín á hverjum tíma. Valdið sem birtist í fæðingu frelsarans byggir ekki á þjóðfélagsstöðu eða valdbeitingu, heldur á valdi kærleikans, sem er eðlisólíkt annarskonar valdi. Hin mörgu andlit valdbeitingar taka á sig ólíkar birtingarmyndir á hverjum tíma en byggja á sammannlegum lögmálum. Sá eða sú sem beitir valdi gerir það í krafti forréttinda á kostnað annarra, í formi meðfæddrar þjóðfélagsstöðu, sannfæringarkrafts, peninga, fegurðar eða líkamlegrar getu, en vald kærleikans gengur þvert á valdbeitingu.

Það vald birtist í sinni hreinustu mynd í nærveru nýfædds barns og það vald krefst engrar valdbeitingar. Þau forréttindi að vera í nærveru barns er ekki hægt að þvinga fram með peningum eða áhrifum og nærvera ungabarns krefur okkur um athygli án þess að gera það á kostnað annarra.

Jólaguðspjallið birtir okkur sannleikan um eðli valds. Sannleikan um hversu máttlaust hið veraldlega vald í raun er þegar það reynir að hræða eða kaupa lífsgæði, sem verða einungis þegin af hjartans auðmýkt og þakklæti. Kærleikur Guðs sker í jólaguðspjallinu í gegnum allt valdbeitingarkerfi mannkyns og sýnir okkur sannleikan um að við erum í raun öll jöfn frammi fyrir kærleika hans. Það sem sýnist sundra okkur í lífinu er blekking og valdsbeiting birtingarmynd þess ótta að geta ekki nálgast þann kærleika, sem okkur stendur til boða án skilyrða viljum við þiggja hann.

Hverjar sem aðstæður okkar eru og hversu miklu veraldlegu valdi við völdum, er okkur jafnt úthlutað af valdi kærleikans. Kærleikurinn birtist okkur í getunni til að eiga gæðastundir með ástvinum okkar á helgum tíðum, án þess að þurfa að upphefja okkur eða gera lítið úr öðrum. Kærleikur er getan til að sjá útfyrir eigin þarfir og væntingar og þiggja nærveru og gjafir annara af hjartans auðmýkt og þakklæti. Kærleikur er getan til að gefa af sér, tíma, athygli og veraldleg gæði án þess að þurfa að krefjast einhvers í staðin. Og vald kærleikans felst í getunni til að mæta illu með góðu, án þess þó að leyfa öðrum að brjóta á okkur. Að mæta dónaskap með kurteisi, reiði með yfirvegun, ranglæti með því að standa með náunga okkar og verkefnum lífsins af hjartans gleði.

Það barn oss fæddi :,: fátæk mær. :,: Hann er þó dýrðar Drottinn skær.

Hann var í jötu :,: lagður lágt, :,: en ríkir þó á himnum hátt.

Hvert fátækt hreysi :,: höll nú er, :,: því Guð er sjálfur gestur hér.

Í myrkrum ljómar :,: lífsins sól. :,: Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól.