Skilyrðislaust?

Skilyrðislaust?

Sennilega snýst djúpstæðasti ágreiningur íslenskra guðfræðinga um kenninguna um fyrirgefninguna. Þar aðhyllaast menn í megindráttum tvær kenningar, sem í fljótu bragði virðast svipaðar, en leiða út á ólíka stigu.
fullname - andlitsmynd Þorgrímur G Daníelsson
25. október 2011

Sennilega snýst djúpstæðasti ágreiningur íslenskra guðfræðinga um kenninguna um fyrirgefninguna. Þar aðhyllaast menn í megindráttum tvær kenningar, sem í fljótu bragði virðast svipaðar, en leiða út á ólíka stigu:

Þá fyrri mætti nefna kenninguna um hina skilyrðislausu fyrirgefningu, sem að líkindum hefur verið hin ríkjandi kenning á Íslandi síðan um 1990.

Samkvæmt henni fyrirgefur Guð allar syndir skilyrðislaust. Þessi kenning er t.d. sett fram á skýran og auðskilinn hátt í fermingarkverinu "Líf með Jesú" (hér stuðst við úg. 1997) bls. 42, í undirkafla sem heitir "Skilyrðislaust." Þar segir m.a. "Jesús kennir okkur að Guð fyrirgefur án skilyrða!" Síðan er m.a. bent á dæmisöguna um glataða soninn, sem dæmi um skilyrðislausa fyrirgefningu.

Hins vegar er það sem mætti nefna “hin klassíska" kenning um fyrirgefninguna. Samkvæmt henni fyrirgefur Guð allar syndir (og engin synd er svo stór að hann geti ekki fyrirgefið) ef maður iðrast. Hér er sem sé komið skilyrði: Án iðrunar - engin fyrirgefning. Hér má bæta við að flestir sem aðhyllast þessa kenningu, álíta iðrun svolítið meira en bara samviskubit. Margir leggja áherslu á að iðrun feli í sér viðsnúning - frá hinu ranga og illa til hins góða og sanna.

Aðrir gætu átt það til að lýsa iðrun sem nokkurs konar þriggja skrefa ferli (i) átta sig á að eitthvað sé að hjá manni sjálfum (ii) viðurkenna að vandinn sé til staðar og (iii) takast á við vandan og laga hann ef hægt er, annars lifa við hann þannig að hann valdi sem minnstum skaða. Þá mætti í þessu sambandi nefna AA fræði með tólf-spora leiðinni, sem er í raun all nákvæm leiðsögn í iðrun. Á miðöldum töluðu menn - og gera raunar enn - um “rétta iðran og yfirbætur minna synda.”

Þeir sem aðhyllast "Klassísku" kenninguna um iðrun, túlka söguna um glataða soninn þannig að hann hafi einmitt iðrast þegar hann át með svínunum. Þá hafi hann komið til sjálfs sín, gengið í sig, "snúið við." Í túlkun sinni leggja þeir gjarnan áherslu á að það hafi verið "iðrandi syndari" sem kom heim - harla ólíkur þeim sjálfumglaða glaumgosa sem fór burt. (Við höfum sem sé tvær gerólíkar túlkunarhefðir varðandi þessa sögu eftir því hvora kenninguna menn aðhyllast.)

Kenningin um hina skilyrðislausu fyrirgefningu er einföld, og auðskilin. Leiðin til hjálpræðis er stutt og auðveld: (i) Maður syndgar (ii) manni er fyrirgefið (iii) allt verður gott.

Maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af dómi Guðs, því þar eru allir sýknaðir. Maður getur því vel gert því skóna að dómsdagur og helvíti séu einungis grýlur sem "kirkja fyrri alda" notaði til að halda fólki í hlýðni með ótta við dóm og refsingar annars heims.

Hin klassíska kenning er með mun lengri, tvísýnni og erfiðari leið til hjálpræðis: (i) Maður syndgar (ii) yfir manni vofir reiði Guðs, (iii) maður iðrast (og gerir yfirbætur eftir megni) (iv) Guð fyrirgefur (v) allt verður gott. - En takið eftir að það er ekkert sem segir að maður iðrist. Þá er maður fastur á stigi tvö. Maður hefur syndgað og Guð hefur ekki fyrirgefið. Hvað þá?

Hér kynna klassíkerarnir til sögunnar Herra Iðrunarlausan: Herra Iðrunarlaus er það sem gamla fólkið hefði nefnt "vondur maður." Hann lemur konuna sína í spað á hverjum sunnudegi í þann mund sem aðrir fara til kirkju. Hann misnotar börnin sín, hann er fjárglæframaður sem kemur þjóð sinni á kaldan klaka en safnar digrum sjóðum á Tortóla eða svipuðum stöðum - og hann stundar raðmorð þegar hann hefur ekkert að gera.

Allt þetta fyrirgefur Guð honum skilyrðislaust samkvæmt skilyrðislausu kenningunni. Herra Iðrunarlaus syngur "Ég er eins og ég er!" Þegar konan bröltir í blóði sínu eftir barsmíðarnar, sparkar í hausinn á henni og syngur "Jé-jé-ég þekki Jesú og tala oft við hann. Við erum ofsa góðir vinir!"

Síðan öskrar hann framan í konuna "Fyrirgefðu!" og fer að níðast á börnunum. - Hugljúf fjölskyldumynd?

Athugið að hér vaknar spurningin hvort konan á ekki að taka Guð sér til fyrirmyndar og fyrirgefa skilyrðislaust – og “horfa fram á við” í stað þess að fást um orðinn hlut, vera “nísk á fyrirgefninguna” “setja sig á háan hest” heimta “tryggingu fyrir að þetta endurtaki sig ekki” – svo notað sé orðalag af sömu blaðsíðu í áðurnefndu fermingarkveri. - Hvað með réttarkerfið og þjóðfélagið allt? Ef Guð fyrirgefur skilyrðislaust eigum við þá ekki að gera það líka?

Nei segja klassíkerarnir. Þeir halda því sem sé fram að skilyrðislausa kenningin sé kolröng og leiði til hugmyndar um Guð sem lætur sig í raun engu varða um rétt og rangt, gott og illt. Sá kristindómur sem af slíku leiði sé í reynd ekki hótinu betri siðferðilega en afstæðishyggja efnishyggjunnar, þar sem hver og einn gerir það sem honum sýnist - svo lengi sem hann kemst upp með það.

En skilyrðisleysissinnar og klassíkerar eru ekki sammála um áhrif þessara kenninga.

Fylgismenn kenningarinnar um skilyrðislausa fyrirgefningu halda því auðvitað fram að hún hafi haft mildandi áhrif á samfélagið, kennt fólki að fyrirgefa og ná sáttum, dregið úr ótta við dóm og helvíti, aukið kærleika og aðra góða hluti.

Klassíkerarnir álíta hins vegar að vegna hinnar skilyrðislausu fyrirgefningar hafi öll kenning kirkjunnar um rétt og rangt - og þar með siðferði almennt - orðið meira og minna "loppin" - þannig að eiginlega hafi boðunin verið sú að það sé alveg sama hvað maður gerir - Guð fyrirgefi. - Og þá sé nú orðin spurning hvaða máli rétt og rangt skipti.

Jafnvel telja þeir að hér sé að finna ástæðu þess að kirkjan sé vanbúin til að takast á við hinar andlegu afleiðingar hrunsins, þegar fólk vaknar allt í einu upp við vondan draum, áttar sig á að það er ekki sama hvað maður gerir og fer að heimta réttlæti.

Ég hef þá reynt að gera grein fyrir þessum tveimur mismunandi skoðunum íslenskra guðfræðinga. Þessi ágreiningur er djúpstæður en ekki hávær. Við höfum ekki séð opinbera deilu um þetta meðal guðfræðinga síðan 1996.

Í reynd eru þessi sjónarmið hins vegar stöðugt að takast á, t.d. í ágreiningi um það hvernig taka beri á einelti í skólum, hver skuli vera tilgangur fangelsisvistar, hvernig réttarkerfið eigi að starfa, hvernig barnauppeldi skuli háttað, hvort – og þá hvernig – menn skuli “axla ábyrgð” svo fátt eitt sé nefnt.