Innan skamms

Innan skamms

Innan skamms ... Þetta eru kveðjuorð Jesú og þau eru full af spennu. Í lífi lærisveinanna rúmuðust bæði Getsemane og Golgata, kvölin og krossinn innan þessa tímaskeiðs. Hið sama má segja um undur upprisunnar og þá ómældu gleði og þann kraft sem hún gefur. Hvað vitum við þegar við kveðjumst? Munum við finnast á ný innan skamms?

Jubilate – fagnið – fagnið fyrir Guði..- er nafnið á þessum sunnudegi. Sú nafngift fer vel, því dagarnir eftir páska eru kallaðir GLEÐIDAGAR í kirkjunni.

Með ákveðnum rökum má kalla vel flesta daga í kirkjunni gleðidaga, en það verður þó að skoðast undir sjónarhorni hins spennufulla guðspjalls dagsins hvort gleðin vegur þyngra heldur en þjáningin og sorgin.

Hér slær Jesús torskilda strengi í skilnaðarræðu sinni til lærisveinanna í loftsalnum á skírdagskvöld þegar hann segir: “Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Jóh. 16:16. Spurningin um hvað hann væri að meina vaknaði strax, enda skorti lærisveinana á þeirri stundu forsendur til að geta skilið hann. Orð hans öðlast dýpri merkingu af því sem á eftir gekk, af atburðunum í Getsemane og á Golgata, en jafnframt af undri upprisunnar á páskadagsmorgunn. Við kunnum söguna um lærisveinana. Hvað þeir gengu í gegnum og hvernig þeim reiddi af. Við þekkjum sigurafl upprisunnar og þann boðskap sem hún stendur fyrir. Við vitum að það er hún sem gefur gleðidögunum nafn. Samt er það svo að ómæld þjáning skyggir á lífið í heiminum.

Innan skamms…. Þetta eru kveðjuorð Jesú og þau eru full af spennu. Í lífi lærisveinanna rúmuðust bæði Getsemane og Golgata, kvölin og krossinn innan þessa tímaskeiðs. Hið sama má segja um undur upprisunnar og þá ómældu gleði og þann kraft sem hún gefur.

Hvað vitum við þegar við kveðjumst? Munum við finnast á ný innan skamms? Munu endurfundirnir fylla okkur von og gleði eða mun okkur ekki auðnast að eiga frekari samvistir?

Bæði hér og annarsstaðar blasir við raunveruleiki þeirra sem misst hafa ástvini sína ótímabært og oft á augabragði. Þau standa nær þjáningum Golgata heldur en gleði upprisunnar. Vonandi finna þau samt innan skamms þann sigur sem páskarnir tjá.

Líking Jesú af barnsnauð konunnar fellur vel að þessum veruleika. Þannig myndi framtíðin verða - fyrst þjáningin, á meðan á fæðingunni stendur, en síðan fögnuðurinn yfir hinu nýja lífi sem breiðir yfir alla þjáningu og raunir, því gleðin er svo mikil yfir hinu nýfædda barni að ekkert fær skyggt á hana. Á þessum árstíma er margt sem höfðar sterkt til fegurðar lífsins. Við getum notað orðin “innan skamms” með ótal jákvæðum formerkjum. Við bíðum með óþreyju eftir öllum merkjum vorsins. Tré og runnar hafa þegar tekið lit og lífið iðar af vorboðum. Hver nýr laukur sem springur út og hvert blóm sem vaknar til lífsins vekur gleði.Við gleðjumst yfir þeim vorboðum sem þegar hafa látið á sér kræla og hér á Álftanesi vænta menn þess á hverjum degi að sjá kríuna á ný.

Þótt ákveðnar þjáningar fylgi því að stinga upp kartöflugarðinn og koma útsæðinu niður, þá mun gróska lífsins innan skamms veita okkur þá gleði að njóta ávaxta erfiðisins. Þannig mætti lengi telja.

Svipaða sögu er að segja í skólunum. Innan skamms ljúka nemendurnir prófum. Þá munu þeir uppskera árangur erfiðis síns og innan skamms skilar menntunin þeim áfram til starfsframa eða annarra lífsgæða.

Innan skamms verður gengið til kosninga. Þá munu gömlu sveitarstjórnirnar ýmist kveðja eða taka við endurnýjuðu umboði sem byggist á nýjum fyrirheitum.

Baráttumenn allra framboðslistanna segja innan skamms. Innan skamms ætlum við að gera betur og færa ykkur betra samfélag, betri heim. Vonir standa til að allir erfiðleikar aldraðra leysist innan skamms. Þeir eru orðinn stór hópur í þjóðfélaginu og aukin samstaða þeirra gerir það að verkum að allir pólitísku flokkarnir ætla að fleyta sér til valda með því að láta málefni þeirra til sín taka. Það er vonandi að þeir upplifi ekki innan skamms ný vonbrigði, en oft fylgir þessum loforðum vænn skammtur af þeim.

Við krefjum forystusveitina vægðarlaust um það hvað hún ætlar að gera – hvernig hún ætlar að bæta heiminn? Álíka oft gleymum við að spyrja: “Hvað ætla ég að gera?” “Hvernig vil ég breyta heiminum og með hvaða ráðum? Það er léttara að láta aðra um hituna heldur en að ganga sjálfur fram fyrir skjöldu. Það er líka létt að horfa framhjá þeim sem þjást. Sleppa því að ganga undir byrðarnar með náunganum. Sagan um miskunnsama samverjann kennir okkur allt um það.

Tíðarandinn kallar á breytingar og margir telja að breyta þurfi kirkjunni. Breytingarnar geta verið ágætar, en ég tel að kirkjan þurfi að hafa áhrif á það hvernig tíðarandinn breytist.

Frá árinu 120, þegar síðasta bók N.t. var rituð hefur Guð haldið áfram að opinbera sig í Jesú Kristi og Heilögum anda. Enginn endir hefur orðið á opinberun Guðs. Hún á sér ekki einungis stað í Biblíunni, heldur í hinu mikla og kröftuga starfi sem víða á sér stað í söfnuðunum og hjá félagasamtökum og einstaklingum sem gerst hafa farvegur fyrir kærleikann. Hafa tekið upp baráttu fyrir betri heimi, heilbrigðara lífi, meiri friði og auknum mannréttindum. Ein og sér stöndum við máttvana gagnvart því að breyta heiminum, en með Kristi höldum við áfram baráttunni með gleði í huga, fyllt krafti Heilags anda. Berjumst að settu marki, því að með honum eygjum við von sem vekur gleði. Kristnum mönnum hefur aldrei verið lofað að sleppa við þjáninguna. Í textanum segir: “Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.” Þar segir einnig: “…hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.” Stef hamingju og vonar eru miklu algengari og sterkari í boðskap N.t. heldur en stef þjáningar og dóms.

Á sama hátt og Jesú gekk illa að fá lærisveina sína til að skilja hefur mér oft virst erfitt fyrir kirkjuna að koma til skila þeim boðskap sem Biblían boðar. Með hliðsjón af orðum guðspjallsins er það gömul saga og ný að boðskapurinn fari fyrir ofan garð og neðan. Margt af því sem fjallað er um krefst góðrar undirstöðuþekkingar í Biblíunni til að skiljast, en vissulega er oft verið að fást við erfið hugtök sem ekki verða skilgreind nema í ljósi sögulegrar yfirlitsþekkingar og með innsýn í framandi hugarheim löngu liðins tíma. Minnkandi kristindómsfræðsla í skólunum kallar á að kirkjan taki upp aukna fræðslu á eigin vegum. Hún þarf einnig að skapa umhverfi fyrir gæðasamverur til handa fjölskyldunni.

Það er sérstök Guðs gjöf að vera heilbrigður og eiga börnin sín og mega á degi hverjum vænta þess að eiga innan skamms von á samvistum við þau, fjölskyldur og vini.

Þegar við lítum fram á veginn, nær viska okkar skammt. Við vitum ekki hvaða happ eða raunir kunna að bíða okkar næsta dag, en ljóst er þó að eitt bíður allra, en enginn veit sitt skapadægur.

Á lífsgöngunni þurfum við að vera undir það búin að taka því sem að höndum ber og stýra málefnum okkar til góðs, að svo miklu leyti sem við fáum ráðið. Þegar Jesús segir: "Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur" þá höfðar hann til atburðarins á Golgata. Sú lexía kennir okkur að leið Krists til Guðs lá um krossinn með allri þeirri ómældu þjáningu og niðurlægingu sem á undan fylgdi. Þar á eftir kom gleðin yfir upprisunni og gjöf heilags anda á hvítasunnunni, en í ljósi þeirra atburða er krossinn ekki lengur tákn ósigurs og þjáninga, heldur sigurs lífsins yfir dauðanum.

Á sama hátt og leið Krists til Guðs liggur um krossinn, liggur leið margra manna um kross þjáninganna til Krists. Þjáningin er þrautalykill Guðs að hjarta mannsins, en sá lykill er ekki notaður nema vegna þvermóðsku mannsins við Guð.

Krossinn er í upphafi ætlaður til að pína fólk og deyða, og sem slíkur er hann svartur og ægilegur. Þótt krossinn sé svartur og ægilegur, þá er það ljós upprisunnar sem ljómar frá honum. Það ljós er táknrænt og gefur fyrirheit um þá birtu og þann fögnuð sem sigur eilífa lífsins ber með sér. Sú birta stendur fyrir orð guðspjallsins í dag: ...og aftur innan skamms munuð þér sjá mig. Innan skamms er hvítasunnan. Biðjum föðurinn í Jesú nafni að hann sendi okkur þá sinn heilaga anda til að staðfesta fögnuð okkar og styrkja okkur í trúnni.

Við biðjum og þiggjum í nafni Jesú Krists. Við nálgumst verkefni lífsins í hans nafni og þiggjum gleði okkar frá honum. AMEN.