Mamma Malaví

Mamma Malaví

Það er í anda guðspjallsins að við berjumst á móti fátæktinni með gjafmildi, vandaðri þróunaraðstoð og samstillingu hjartnanna og horfumst í augu við þær manneskjur sem búa við sístu kjörin á jörðu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sólin er í hádegisstað og bíllinn skröltir eftir veginum á leiðinni til Mangoche suður af Malaví vatni. Ferðalangurinn horfir stóreygur á það sem fyrir augun ber. Hann vann leik í endaðan nóvember þar sem Malavíferðin var í verðlaun og er nú kominn yfir á suðurhvel jarðar í fyrsta sinn á ævinni í boði Vífilfells og Rauða krossins. Í Malaví eru tvær árstíðir, hin þurra og hin raka og nú er hin raka tekin við. Það er allt morandi í geitum og maísökrum og ilmandi keimur berst frá mangó og bananatrjánum. Blómskrúð sumarsins er undarleg sjón fyrir Íslending um miðjan desember, sem er vanur skammdegi og snjó. Og áfram rennur bíllinn. Bílstjórinn hans er skemmtilegur maður, sem segir þeim ýmislegt frá sögu héraðsins og landsins síns. Hann á heima þarna rétt hjá og býður heim til sín. Hann sagði í bílnum að hann ætti tvö börn, en litlu börnin sem taka á móti Íslendingnum heima hjá leiðsögumanninum er fjögur. Það er vegna þess að tvö af börnunum eru börn systur bílstjórans sem dó úr AIDS ásamt manni sínum. Þetta segir bílstjórinn Íslendingnum eins og það sé venjulegt og sjálfsagt að börn missi báða foreldra sína og endi heima hjá ættingjum. Og það rennur upp fyrir ferðalangnum unga að á þessum slóðum geyma flestar fjölskyldur slíkar sögur.

Malaví sú sem hann sér í Mangoche er fallegt og fátækt land. Hann hrífst af þessu fólki sem er svo brosmilt og glatt þrátt fyrir örbirgð sína. Hann fær að heimsækja barnaskóla með þúsundum barna. Við barnaskólana hefur Rauði krossinn á Íslandi verið að byggja vatnsbrunna. Brunnarnir sjá börnunum fyrir hreinu vatni og verða til þess að stúlkurnar sem áður þurftu að bera vatn allan liðlangan daginn geta frekar farið í skóla en að bera brúsa á veikum herðum. Rauði krossinn er líka að byggja hreinlætisaðstöðu við skólann, svo að börnin geta farið á klósett. Þessi salernisaðstaða gerir það líka að verkum að stúlkurnar haldast í skólanum, því að þá þurfa þær sem eru orðnar kynþroska ekki lengur að halda sig heima þegar þær hafa blæðingar.

Hann ekur yfir Shire (sheery) á og klífur fjallið Namizimu austur af Mangoche með Brave leiðsögumanni. Af Namizimu er gríðarlegt útsýni yfir Malavívatn í norðvestri og Malombevatn í suðvestri. Svæðið kringum Namizimu er þjóðgarður og þar nýtur náttúran sín í allri sinni dýrð, eini hluti Malaví, sem er ekki þéttbyggður, því að Malavíbúar eru fimmtán milljónir talsins og lifa flestir í sveitum við kröpp kjör.

Og svo er hann kominn aftur til höfuðborgarinnar Lilongwe, þar sem Íslendingafélagið í Malaví heldur upp á litlu jólin. Alls staðar eru Íslendingar og þar sem Íslendingar eru þarf að halda upp á jól, þó að það sé 30 stiga hiti úti, eðla hangandi í loftinu og api í garðinum. Íslendingarnir í Malaví eru flestir tengdir þróunarverkefnum og vinna fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Rauða krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar. Sumir eru að kenna Malavímönnum nýja tækni við fiskveiðar, aðrir veita ráðgjöf um virkjun jarðhita í Malaví í samvinnu við norræna þróunarsjóði. Sumir eru að byggja brunna eða vinna að verkefnum í heilsugæslu og skólamálum . Og þennan dag koma þau saman og borða pönnukökur að íslenskum sið og spyrja frétta ofan af Íslandinu góða.

Hann afhenti gjöf upp á 250 þúsund sem að hluta til innihélt tombólufé frá krökkum og gjafafé frá Hafnafjarðardeild Rauða kross Íslands. Það eru margir krakkar sem halda tombólur fyrir Rauða krossinn og safnast þegar saman kemur. Ákveðið var að nota peningana til að ljúka við að leiða rafmagn á nýja fæðingarheimilið, sem einnig er byggt fyrir peninga frá Íslandi. Þannig verður góður hugur frá Íslandi til þess að konurnar þurfa ekki að fæða í myrkrinu og að hægt sé að koma við einhverri tækni til að auðvelda þeim stríðið. Þær eru mæður og flestar barnungar, og Malavíbúar tala líka um landið sitt sem móður. Þau syngja á chichewa sem tungumál bantúmanna og opinbert tungumál í Malaví: Mlungu dalitsani Malaŵi

Ó Guð, blessaðu landið okkar Malaví og láttu það vera land friðarins, bæg burtu öllum óvinum hungri, sjúkdómum og öfund. Sameina hjörtu okkar svo við verðum óttalaus. Blessaðu alla leiðtoga okkar, og móður Malaví.

II. Sameinaðu hjörtu okkar svo að við verðum óttalaus og blessaðu móður Malaví, syngja Malavíbúar. Láttu landið okkar vera land friðarins.

Tómas Guðmundsson orti eitt sinn um það hve hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu og eflaust mætti yfirfæra þau orð yfir á Grafarholt og Malaví. Hjörtu mannanna eru eins í margbreytileika sínum. Við þráum frið. Við viljum vera óttalaus og laus við hungur, sjúkdóma og öfund. Og á helgum jólum verður þessi tilfinning um samtengingu hjartnanna sterkari en oft áður. Við hugsum til þeirra sem horfnir eru og rifjum upp aldagamlar jólavenjur sem tengja okkur við fyrri tíma kynslóðir í þessu landi. Við hugsum til þeirra sem líða skort og ég hef fundið fyrir þessum hlýhug til nágrannanna síðustu vikur þegar við höfum verið að safna fyrir líknarsjóðinn hér í hverfinu. Og jólin eru líka sú hátíð þar sem við finnum til samkenndar með öllu fólki jarðar sem býr við hættur og neyð og skort. Jólin eru þannig hátíð sem samtengir hjörtun, fléttar saman fortíð og nútíð og vefur listilega saman hið þjóðlega og hið alþjóðlega.

Við syngjum sömu jólasálmana ár eftir ár. Sá elsti sem við syngjum er frá sextándu öld og hinir flestir ortir á nítjándu öldinni. Við rifjum upp það gamla og syngjum með orðum formæðra okkar og feðra um fátæka hreysið sem Jesúbarnið fæddist í og fátæku meyna sem að fæddi Guð. Sálmarnir voru ortir á öld sem hafði sterka skírskotun til fátæktar, þar sem Íslendingar bjuggu flestir í sveitum eins og Malavímenn nú, þegar við þekktum ekki leiðir til að virkja jarðhitann í iðrum jarðar, þegar tæknin við fiskveiðarnar var lítil sem engin, þegar holdsveikin var alvarlegt vandamál á Íslandi, þegar fólk dó úr hungri og flýði til Vesturheims undan fátæktinni heima. Þegar við íhugum aðstæður þeirra Íslendinga sem fyrst sungu jólasálmana okkar, þá vitum við að fátæktin er ekki eitthvað sem við getum stungið undir stól á jólunum. Hún er hluti af jólasögunni. Lífsbarátta fátæks fólks er hluti af sögu okkar sem þjóðar. Og kannski finnum við einmitt þessa tengingu við þjóðina okkar, það sem hún er og var og verður, þegar straumar hins þjóðlega og hins alþjóðlega falla saman í jólahaldi okkar.

Þessi samtenging hins þjóðlega og alþjóðlega á jólum kom einmitt sterkt fram í skemmtilegri frétt fjórum dögum fyrir jól. Þar var birt mynd af jólasveininum Skyrgámi á rauðum nærbuxum. Hann var að fara í jólabaðið með Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs Íslands. Jólasveinarnir hafa nefnilega verið að gefa mikið fé til líknarmála á undanförnum árum og á myndinni sést Skyrgámur afhenda Jónasi svarta tösku fleytifulla af peningum fyrir Hjálparstarfið. Kannski fara þessir peningar til þess að grafa brunna í Malaví og gefa litlum börnum hreint vatn og auknar lífslíkur eða til að styðja íslensk börn sem búa við bág kjör. Það er að segja ef þeir hafa ekki misst peningana ofan í heita pottinn! Stundum er maður þjóðlegastur þegar maður á hjarta fyrir allan heiminn og þetta vita jólasveinarnir.

Þegar við horfum til móður Malaví þekkjum við aftur Ísland fyrri tíðar, sem við tölum líka um sem móður, sem ber okkur á brjóstum sínum. Þessar tvær virðulegu mömmur, mamma Malaví og mamma Ísland, (stundum nefnd Fjallkonan) heilsa hvor annarri af norður og suðurhveli með börnin sín hangandi í pilsunum. Þær heilsa af virðingu, þekkja erfiða nýlendusögu hvor annarrar. Og þegar önnur berst í bökkum, þá hjálpar hin af því að hún veit hvað það er að líða skort.

III.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð.

Betlehem er borgin sem við stefnum til á jólum hverjum staðurinn þar sem ævintýrin verða til þar sem konan fæðir frelsarann og karlinn klippir á naflastrenginn þar sem dýrin fagna þar sem fátækir smalar og erfiðisfólk verður vitni að undri jólanna þar sem könnuðir og hugsuðir gefa gull, reykelsi og myrru. þar sem náttmyrkrið lýsist upp af skæru ljósi og englarnir syngja í ljósinu Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Beit Lechem er hebreska og þýðir hús brauðsins. Á jólum beinum við sjónum að húsi brauðsins að húsi gnægtanna og leitum þangað eftir öryggi og gleði, friði á jörðu, jafnvægi, kærleika og ljósi.

Og þá er ekki úr vegi að við spyrjum hvert það fólk sé sem við kjósum að eyða með jólum, hverja við köllum til inn í fögnuð og frið og hverjum við gleymum og leiðum hjá okkur. Jólin eru bara einu sinni á ári en áhrif þeirra geta verið langvarandi, ef við leyfum þeim það. Þá tekur jólagleðin ekki enda á þrettándanum, þó svo að ljósin og trén séu tekin niður, heldur varir í janúar og febrúar og alla hina mánuðina líka.

Við varðveitum best fögnuð jólanna með gestrisni og opnum huga, með því að sameina hjörtu okkar, svo við verðum óttalaus og friðsöm. Og þess vegna skiptir þessi samstilling hjartnanna á jólum svo óendanlega miklu máli. Við erum næmari fyrir neyð náungans á jólum en oft áður og fúsari til að koma henni og honum til hjálpar. Við skynjum hluti sem við erum oft lokuð fyrir eða leiðum hjá okkur, tilfinningar og sorgir annars fólks. Kannski erum við stundum betri manneskjur í desember heldur en hina dagana þrátt fyrir fýluköst í jólahreingerningum, skammdegisdrunga og ergelsi þegar við erum að setja upp allar seríurnar. Og einhvern veginn ættum við að finna leiðir til að viðhalda þessari meðlíðunarkennd. Við ættum að leita leiða til að viðhalda gestrisninni og gæskunni hina ellefu mánuði ársins líka.

Við sem manneskjur berum siðferðilega ábyrgð á öðrum manneskjum og við höfum ekki efni á örbirgð heimsins. Og þess vegna skiptir það máli, þegar við vegsömum frelsarann litla í jötunni sinni, innan um áburðardýr, flækingsforeldra og fátæka smala, að við upphefjum ekki fátæktina sem við syngjum um í sálmunum. Það er nefnilega ekkert krúttlegt við að vera fátækur. Það er í anda guðspjallsins að við berjumst á móti fátæktinni með gjafmildi, vandaðri þróunaraðstoð og samstillingu hjartnanna og horfumst í augu við þær manneskjur sem búa við sístu kjörin á jörðu. Þá fyrst skynjum við stráin í jötunni, götin á veggjunum, forina á gólfinu þar sem María fæddi barnið sitt og slitin klæði hirðanna, staðinn þar sem ljós jólanna birtist og englarnir sungu.

Það er vegna jólagleði sem tekur aldrei enda, sem við sinnum þróunarhjálp, vegna þess að jólin hjálpa okkur að horfast í augu við eigin mennsku og tengir okkur við mennsku annarra. Þessi þróunarhjálp byggist fyrst á fremst á forvörnum, að því að styrkja innviði og að hjálpa öðru fólki til sjálfshjálpar svo að það lendi ekki í vergangi. Hún byggir á því að leita leiða til þess að vandamálin verði viðráðanleg. En slík forvarnarverkefni njóta ekki alltaf athygli heimsbyggðarinnar og sumir telja ranglega að hún skili ekki neinu. En hún skilar miklu. Þjóðir heims hafa tekið höndum saman við að draga úr AIDS faraldrinum í Afríku og þannig sjá til þess að börn á borð við litlu systurbörn bílstjórans sem keyrði unga Íslendinginn í Malaví á dögunum, þurfi ekki að standa uppi foreldralaus og allslaus. Það hefur að miklu leyti tekist að draga úr eyðnismitun í Afríku. En fólk sem ekki fékk AIDS er ekki endilega frétt. Klósett við barnaskóla eru yfirleitt ekki frétt. Ljós í áður almyrkvaðri fæðingarstofu þykir yfirleitt ekki fréttnæmi- nema þeim sem eignast hreint vatn, salernisaðstöðu og ljós til að fæða við.

Íslendingurinn ungi kveður Malaví og flýgur yfir Mangochi á leiðinni aftur til baka. Hann vonar að Malavíbúar megi lifa óttalausir og í friði og lausir við hungur, Mlungu dalitsani Malaŵi. Og einn dag, af því að hann kom færandi hendi með gjafir úr norðri, einn dag ekki í ýkjalangri framtíð þá fæðir hún María barn í litlu og fátæklegu húsi. Það er dimmt í kringum hana og hún finnur fyrir hönd Jósefs í lófa sér sem hjálpar henni að þola sársauka hríðanna. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þau, vegna þess að vinafólk í norðri hefur reynst þeim engill Drottins. Þetta fólk sem þau þekkja ekki hafa leitt rafmagn í fæðingarstofuna svo að Betlehemsvellirnir lýsast upp. Þau hafa hitað upp kotið með jarðhita og grafið brunn fyrir utan fjárhúsið sem í vella lækir lifandi vatns.

Guð blessi mömmu Malaví og velgjörðarkonu hennar fjallkonuna og gefi þeim báðum kjark, styrk og gjafmildi í baráttunni gegn fátæktinni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.