Er „landsbyggðin“ alltaf að væla?

Er „landsbyggðin“ alltaf að væla?

Ég ætla hér að setja fram þá staðhæfingu að síðustu ár hafi meðvitað og ómeðvitað verið unnið að því að brjóta niður sjálfsvirðingu fólks á landsyggðinni með niðrandi tali og fordómum í þeirra garð.
fullname - andlitsmynd Elínborg Sturludóttir
05. desember 2009

Arnarstapi

Ég hlusta stundum á útvarpið í bílnum á morgnana þegar ég geysist um Borgarfjörð. Oftast hlusta ég á gömlu Gufuna. Í viðtali við Lísu Páls á dögunum var maður sem um langt árabil hafði búið og starfað erlendis. Hann hafði þá sérstöðu að hafa snúið aftur heim til landsins kalda nú í harðærinu þegar marga dreymir um að flýja land.

Eins og gengur í svona viðtölum rakti hann æviferil sinn og sagði m.a. frá því að hann hefði búið bæði á Akureyri og Ísafirði. Þegar maðurinn var inntur eftir því hvernig hefði verið að búa á Ísafirði svaraði hann: „Ísfirðingar voru alltaf að væla yfir því að peningarnir færu allir suður!“ Maðurinn sagði þetta á þann máta að ég fékk það á tilfinninguna að við áheyrendur ættum auðvitað að taka þessari staðhæfingu þannig að þetta hefði að sjálfsögðu verið hin mesta firra og helber misskilningur hjá Ísfirðingum.

En er það rétt, að Ísfirðingar og/eða aðrir landsbyggðarmenn séu alltaf að væla?

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir því að undanförnu hvernig sparnaðaraðgerðir opinberra stofnana hafa einkum miðað að því að draga úr þjónustunni á landsbyggðinni á meðan miklu minni kraftur virðist lagður í það að leita leiða til að draga saman seglin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er gert með þeim rökum að þetta sé eðlilegt „enda sé svo fátt fólk sem býr á landsbyggðinni.“

Opinber orðræða um vanda landsbyggðarinnar, fólksfæðina, atvinnuleysið og takmarkaða þjónustu hefur síðustu ár verið á þeim nótum að hún hefur einna helst minnt á umræðu um ómaga og undirmálsfólk sem ætti að vera auðmjúkt og þakklátt fyrir molana sem þó hryndu af borðum hinna ríku og sterku (þ.e.a.s. höfuðborgarinnar).

Sú tilfinning mín hefur vaxið síðustu misseri að gríðarlegir fordómar gagnvart landsbyggðinni og fólkinu sem þar býr hafi sótt í sig veðrið. Stjórnmálamenn af landsbyggðinni eru t.d. oft kallaðir „kjördæmapotarar“ ef þeir reyna að vinna að framfararmálum í héraði og þannig er vinna þeirra og störf gerð tortryggileg og látið í það skína að það séu annarleg eiginhagsmunasjónarmið sem ráði för.

Ég hef verið spurð margra undarlegra spurninga um veru mína utan höfuðborgarsvæðisins sem hafa borið vott um djúpstæða fordóma að mínu viti. Ég nefni hér nokkur dæmi: Hvernig er að vera „þarna“? Er ekki allt unga og menntaða fólkið farið í burtu og bara hratið eftir? Er menntunarstigið ekki óskaplega lágt? Ertu ekki að drepast úr leiðindum? Hefurðu nokkuð að gera?

Ég ætla hér að setja fram þá staðhæfingu að síðustu ár hafi meðvitað og ómeðvitað verið unnið að því að brjóta niður sjálfsvirðingu fólks á landsyggðinni með niðrandi tali og fordómum í þeirra garð.

Það hefur verið látið að því liggja að við landsbyggðarfólk séum upp til hópa heimskari, ver menntaðri, lummulegri, tilætlunarsamari og latari heldur en gengur og gerist um fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Ef þessi staðhæfing er rétt hjá mér eru fordómarnir sem eru ríkjandi í garð fólks af landsbyggðinni ískyggilega áþekkir þeim sem aðrir minnihlutahópar, s.s. gyðingar, blökkumenn, konur og samkynhneigðir hafa þurt að sitja undir í gegnum tíðina.

Í 72. Davíðssálmi stendur: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“

Það er athyglisvert að hugsa til þess hvernig fordómar geta farið að gegnsýra stofnanir samfélagsins og alla umræðu. Og af því að skoðunin þykir fín fær hún byr undir báða vængi. Þannig fara ríkjandi forómar að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem teknar eru.

Ég hygg að mjög margir landsbyggðarmenn hafi með eigin augum „horft á peningana fara suður”. Ég hygg jafnframt að mjög margir íbúar á landsbyggðinni kannist við „landsbyggðarskattana“ sem þó er svo lítið gert úr.

Ég skynja mikið ofbeldi fólgið í því að hin, sem finnst á sér brotið og að þau sitji ekki við sama borð, megi ekki einu sinni kvarta undan sársaukanum sem það veldur þeim. Ef þau stynja, þá er það kallað væl!

Upp á síðkastið hefur verið kallað eftir sannleika og gegnsæi. Ég held að það sé kominn tími til að við horfumst í augu við landsbyggðarfordómana sem við berum í brjósti og hvernig þeir hafa áhrif á okkur og hvaða afleiðingar þeir hafa á ákvarðanirnar sem við tökum. Sannleikurinn er nefnilega sá að reynsla mín af því að búa á landsbyggðinni kemur ekki heim og saman við ofangreind sjónarmið sem eru orðin svo hávær.

Guði gefi að við höfum hugrekki til að líta í eigin barm og kannast við fordómana sem þar kunna að leynast. Guð gefi að við neytum ekki aflsmunar heldur leggjum við hlustir þegar „hinn snauði hrópar á hjálp“ og finnum til samkenndar með „hinum þjáða sem enginn liðsinnir“.