Englar í mannsmynd

Englar í mannsmynd

Kærleikur Guðs í okkar garð hlýtur að vekja okkur til ábyrgðarkenndar gagnvart sköpuninni, umhverfinu og lífríki jarðar. Kærleikur Guðs í okkar garð knýr okkur jafnframt til að auðsýna öðru fólki kærleika.

Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig. Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.Jóh 14.23-31a
Kom þú, Kristur hæða Kom í dýrð og veldi Hjarta heimsins skírðu Himnakrafti og eldi Boðskapur þinn breiðir Blessun löndin yfir Þúsundfaldar þakkir

Þér, sem í oss lifir.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Guð kemur til móts við okkur

,,Eitt sinn fyrir óralöngu urðu mikil vatnsflóð í þorpi nokkru. Menn urðu að flýja hús sín til þess að komast hjá því að drukkna. Eins og gengur þá komust ekki allir frá húsum sínum og voru því björgunarsveitir kallaðar út fólkinu til hjálpar. Maður nokkur sem var mjög trúaður sagði björgunarmönnunum að þeir þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af sér því að Guð myndi bjarga honum. Nokkrum tímum seinna var vatnselgurinn orðinn svo mikill að maðurinn varð að flýja upp á þak. Þá sigldu nokkrir menn á bát framhjá húsinu. Þeir buðu manninum aðstoð sína en hann afþakkaði þar sem hann trúði því staðfastlega að Guð myndi bjarga sér. Ekki löngu seinna var vatnið orðið svo mikið að engin von virtist til þess að maðurinn myndi bjargast. Allt í einu birtist þyrla fyrir ofan manninn og reipi var látið síga niður til hans svo að hægt væri að ná honum upp. Maðurinn tók ekki við reipinu heldur talaði enn um traust sitt á Guði. Fór svo að maðurinn drukknaði.. Þegar maðurinn kom til himnaríkis var hann heldur óhress með það að hafa treyst í blindni á Guð almáttugan. Hann hefði nú vel getað bjargað honum. ,,en Guð hefur eitthvað annað að gera en að hugsa um mig”, tautaði hann. ,,Þú getur nú sjálfum þér um kennt”, sagði Lykla Pétur, ,,fyrst sendum við heila björgunarsveit til að bjarga þér, síðan sendum við menn á bát og síðast sendum við þyrlu til þín en þú afþakkaðir alla hjálp”.

Þannig hljóðar þessi saga. Já, við komum ekki alltaf auga á það þegar Guð kemur til móts við okkur í lífinu og vill hjálpa okkur í gegnum mannfólkið.

Englar í mannsmynd

Lífið er yndislegt og fallegt en að sama skapi viðkvæmt og brothætt. Það er sannarlega vilji Guðs að gefa okkur öllum vonarríka framtíð, ekki síst ykkur kæru fermingarbörn sem í dag staðfestið vilja ykkar að gera Jesú að leiðtoga lífsins. Hann vill leiðbeina ykkur til góðs og gæfu á lífsins vegi. Leið ykkar kann að liggja um hálsa og hæðir þar sem heiðríkjan ríkir en einnig um dali þar sem skugga gætir. Þar er mikilvægt að flýta sér hægt, líta tvisvar til beggja hliða og gæta að hvar þið stigið niður fæti. Verði ykkur fótaskortur þá skulið þið þiggja hjálp í trausti þess að þar séu englar í mannsmynd að verki, sendir af Guði til að hjálpa ykkur.

Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því hvað allir virðast vera að flýta sér í þjóðfélaginu. Það er eins og fáir gefi sér tíma til að líta inn á við og meðtaka þann frið sem Guð vill gefa okkur á virkum dögum sem helgum.

Ráðning

Ég varð fyrir ráðningu um daginn. Ég var að keyra í Hvalfjarðarsveitinni. Þá sá ég skilti í vegkantinum sem bar upp við mig þessa spurningu: ,,Ertu á fleygiferð inn í eilífðina?”. Nei, nei, sagði ég við sjálfan mig. Það kemur ekkert fyrir mig”. Og ég hélt áfram. Nokkrum dögum síðar þá var mér litið í heimabankann minn og brá í brún. Ég hafði fengið sekt fyrir of hraðan akstur í Hvalfjarðarsveitinni. Ég fékk þarna holla áminningu um að hægja á mér á vegferð minni í gegnum lífið.

Sekt og fyrirgefning

Ég ber traust til lögreglunnar og mun greiða mína sekt umyrðalaust. Ég ber þó meira traust til Jesú sem sýnir okkur hvernig Guð er. Og það sem meira er. Ég þarf aldrei að inna sektargreiðslu af hendi gagnvart Guði því að Jesús dó fyrir allar mínar syndir á krossinum og fyrir aðra kristna menn. Fyrir það er ég þakklátur Guði.

Það þýðir þó ekki að við getum hagað okkur eins og okkur sýnist vitandi að Guð muni hvort sem er ætíð fyrirgefa okkur syndirnar.

Ábyrgðarkenndin

Kærleikur Guðs í okkar garð hlýtur að vekja okkur til ábyrgðarkenndar gagnvart sköpuninni, umhverfinu og lífríki jarðar. Kærleikur Guðs í okkar garð knýr okkur jafnframt til að auðsýna öðru fólki kærleika.

Stórkostlegt lífríki jarðarinnar gefur að sönnu til kynna að Guð hafi skapað það. Guð vill að við séu samverkamenn sínir gagnvart lífríkinu og verndum það. Við mannfólkið getum mengað lífríkið með ýmis konar úrgangi sem fer mjög illa með það.

Við getum líka mengað umhverfið með því að tala illa um annað fólk, t.d. útlendinga sem hingað sækja í atvinnuleit. En það þarf ekki útlendinga til. Dagblöðin og ljósvakamiðlarnir eru alla daga fullir af neikvæðum fréttum um andlegt sem líkamlegt ofbeldi sem íslendingar hafa orðið fyrir af hendi íslendinga.

Góðar og neikvæðar fréttir

Góðu fréttirnar, heilnæmu og uppbyggilegu falla oft í skuggann fyrir þessum neikvæðu fréttum. Það er eins og þær eigi ekki upp á pallborðið í fjölmiðlunum. Sennilega vegna þess að þær selja ekki eins vel og neikvæðu fréttirnar og óafvitandi tökum við þátt í fjölmiðlaleiknum og lesum fréttirnar sem aldrei fyrr. Þá getum við með tímanum orðið ónæm fyrir neikvæðu fréttunum og látum þær í léttu rúmi liggja. Þetta er varasamt.

Ég vona kæru fermingarbörn að ég eigi eftir að heyra góðar fréttir af ykkur í framtíðinni þar sem þið leitist við að feta í fótspor Jesú Krists í orði og verki, ekki síst gagnvart samferðafólki ykkar.

Nærvera Guðs

Í dag á Hvítasunnudegi biðjum við Guð í syni sínum Jesú Kristi að koma til okkar í dýrð og veldi og gefa okkur himnakraft og eld líkt og lærisveinarnir forðum gerðu sem á Hvítasunnudegi, stofndegi kirkjunnar, reyndu sterka nærveru Guðs í sál og sinni. Þeim fannst Guð beinlínis lifa innra með sér. Í stað þess að finnast allar bjargir bannaðar þá fannst þeim allir vegir vera sér færir. Og heilög ritning greinir frá því í Postulasögunni að hinir fyrstu lærisveinar hafi framkvæmt mörg kraftaverk á fyrstu dögum og vikum kirkjunnar líkt og frelsarinn sjálfur gerði. Jesús sagði þeim að þeir myndu koma til með að geta framkvæmt stærri kraftaverk en hann gerði.

Lærisveinakeðjan er óslitin frá stofndegi kirkjunnar til þessa dags. Þið, kæru fermingarbörn eruð mikilvægir hlekkir í þessari lærisveinakeðju. Guð lifir innra með ykkur. Það þykja mér mikil og góð tíðindi sem þið skuluð íhuga Ég ráðlegg ykkur að varðveita þennan guðs neista innra með ykkur. Þið skuluð endilega hlúa að honum og næra hann með því að biðja til Guðs og þakka honum fyrir lífið, fyrir foreldra ykkar, systkini, afa og ömmu, fyrir vernd og varðveislu á lífsins vegi hvert sem leiðir ykkar kunna að liggja.

Þið skuluð endilega muna eftir því að lærisveinar Jesú Krists eru þátttakendur í sannkölluðu sigurliði þar sem Jesús er besti þjálfari sem hugsast getur, kannski ekki í fótbolta eða handbolta, heldur í mannlegum samskiptum. Þegar okkur verða á mistök á leikvangi lífsins og hittum ekki í mark eins og stundum er sagt þá réttir frelsarinn okkur boltann og segir: ,,Reyndu aftur”. Þannig hvetur hann okkur til dáða með ýmsu móti því að hann hefur fulla trú á sínu sigurliði, að því auðnist að koma mörgu góðu í höfn. Við getum þess vegna sungið eins hljómsveitin Queen gerði: ,,We are the Champions”.

Guð lifir innra með fólki

Við skulum ekki láta áhyggjurnar hlaupa með okkur í gönur því að oftast eru þetta smávægileg vandamál miðað við stóru áföllin sem geta riðið yfir okkur fyrirvaralaust á vettvangi lífsins. Við skulum þess í stað hægja á okkur, draga djúpt andann og njóta þessa Hvítasunnudags þegar fjölskyldan kemur saman og samfagnar fermingarbarninu. Við skulum líka njóta morgundagsins og hlúa að því sem skiptir virkilega máli sem er samband okkar við Guð og fjölskyldan. Styrkjum kærleiksböndin innan fjölskyldunnar og flýjum í föðurfaðm Guðs með vandamál sem virðast óyfirstíganleg. Við skulum vera reiðubúin að þiggja hjálparhönd samferðafólks okkar ef við þurfum á aðstoð að halda vegna þess að Guð lifir innra með því.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.