Fjögur brúðkaup og jarðarför?

Fjögur brúðkaup og jarðarför?

Það fylgir ekki handrit með okkur þegar við fæðumst og við fáum ekki að sjá fyrirfram hvernig sagan okkar verður –hversu mörg brúðkaup eða hversu margar jarðarfarir eru skrifaðar inn í okkar lífssögu.

Velkomin öllsömul og til hamingju með daginn,

Það er alltaf erfiðast að byrja. Eflaust vegna þess að ég er ekkert viss um það hver byrjunin er. Ef við hugsum um það, þá virðist lífið vera svo kaflaskipt, stöðugt flæði upphafs og endis. Eitt endar í okkar lífi og annað byrjar. Ég var beðin um að flytja hugvekju hér í dag og upphafið virðist eitthvað vefjast fyrir mér.

Þetta er aðeins auðveldara þegar kemur að leikhúsi. Þar sem ég er leikari og leikstjóri, þá byrjar maður á því þegar búa á til leiksýningu að velta því fyrir sér hvaða sögu er verið að segja og þá liggur upphafið yfirleitt fyrir. Þetta er aðeins flóknara. Á fimmtudaginn frumsýndi ég t.d. söngleik sem ég skrifaði upp úr kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför. Mér líður einmitt núna á svipaðan hátt og prestinum sem Rowan Atkinsson lék ... frekar mikið stressandi.

En varðandi upphafið á því leikriti þá er það frekar einfalt…..sagan byrjar á fyrsta brúðkaupi og eftir fjögur brúðkaup og eina jarðarför endar umfjöllunarefni leikritsins……en í lífinu er þetta ekki alveg svona einfalt. Það fylgir ekki handrit með okkur þegar við fæðumst og við fáum ekki að sjá fyrirfram hvernig sagan okkar verður……hversu mörg brúðkaup eða hversu margar jarðarfarir eru skrifaðar inn í okkar lífssögu…..en hvað sem verður á vegi okkar….ja…..í hvert sinn verður endir á einhverju og í kjölfarið nýtt upphaf. Stundum veljum við að enda sambönd, hætta í vinnu, flytja og annað slíkt, en stundum ýtir lífið okkur út í það og það er ekkert val.

Ég veit ekki hvaða sögu ég ætla að segja hér í dag og því veit ég ekki hvert upphafið á henni er. Biblían talar um upphaf….í upphafi skapaði Guð himinn og jörð……allt í lagi, það hljómar vel. Það er byrjun….. Ja, ef þetta væri mín saga væri mitt upphaf líklegast fæðingin…..fædd og uppalin hér í Garðabæ. En þegar ég hugsa betur um það, hófst nýr kafli þegar ég fór í framhaldsskóla, þá fannst mér lífið vera að byrja……en ég skipti um skoðun þegar ég fór í leiklistarskóla, já alveg rétt, það er upphafið, þá var ég búin að finna drauminn minn.

Svo hófst nýr kafli þegar pabbi minn veiktist, og annar þegar ég fór að vinna sem leikkona, nei, ég veit, upphafið var þegar ég kynntist ástinni minni, eða þegar pabbi minn lést, þegar ég eignaðist fyrsta barnið mitt, þegar ég giftist ástinni minni, þegar ég missti ástina mína snögglega, þegar ég kynntist ástinni á ný……ef við hugsum um það, þá eru stöðugar kaflaskiptingar í lífi okkar, við erum alltaf að byrja upp á nýtt. Og ef ég hugsa betur um það þá er eitt sem virðist tengjast inn í þessi stóru kaflaskil í lífi okkar, inn í upphafið og endann og það er kirkjan.

Ef ég hefði verið spurð þegar ég var yngri hvort að hlutverk kirkjunnar væri mikilvægt í mínu lífi hefði ég örugglega svarað neitandi. Er ég trúuð? Ja, það hefur verið kaflaskipt eins og margt annað í lífinu……en þegar árin líða og lífið færir manni meiri gleði og fleiri áskoranir, þá verð ég alltaf trúaðari og trúaðari. Ég hef alltaf trúað á eitthvað meira, á það að eftir þetta líf bíði okkar eitthvað annað. Hef t.d. sett tilvitnanir í líf eftir dauðann og örlögin í næstum annan hvern söngtexta sem ég hef skrifað. Ég trúi því að fólkið sem tengist okkur í lífinu hafi verið með okkur áður, og trúi því að einhverju leyti að örlög okkar séu fyrirfram ákveðin, sem hefur hjálpað mér að takast á við erfiðleika og sorgir í lífinu.

Einnig hef ég upplifað fleiri “ótrúlegar tilviljanir” en ég hélt að væri mögulegt. En þetta er trúin mín, ég hef alltaf trúað á mátt orða og hugsana, að við verðum að einblína á jákvæðni og að við höfum vald yfir því hvernig við tökumst á við hlutina. Við höfum ekki vald yfir því hvað kemur fyrir okkur í lífinu en við getum reynt að að stjórna því hvernig við bregðumst við. Annað sem ég hef lært er að reyna að lifa lífinu á meðan við getum. Ekki að bíða eftir því að gera allt einhvern tímann seinna. Lífið er hér og nú. Við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut.

Þetta er trúin mín og hér áður hugsaði ég ekki svo mikið út í hlutverk kirkjunnar í því samhengi. Trúði bara því sem ég trúði og sagði t.d. oft “Ég þarf ekki að fara í kirkju til að trúa ég trúi bara sjálf, þar sem ég er.” Hljómar kannski svolítið eins og unglingur í uppreisn sem þarf ekki á foreldrum að halda, veit bara allt best sjálf. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvaða starf á sér stað í kirkjunni. Ég hafði sjálf ekki þurft að nýta mér það og þess vegna vissi ég það einfaldlega ekki. Þegar ég heyri fólk ræða um Þjóðkirkjuna, eins og umræðan er í Þjóðfélaginu núna, þá get ég ekki að því gert að ég hugsa stundum hvort það geti verið að viðkomandi hafi t.d. aldrei misst neinn……Prestar sjá ekki eingöngu um stóru athafnirnar hér í kirkjunni…..skírn, giftingu og jarðarfarir…..nei, það er svo miklu, miklu, miklu meira.

Þegar áföll dynja yfir, skella á okkur eins og flóð, þá er fátt sem heldur okkur uppi og fyrirfram hefði mig aldrei grunað hversu mikla hjálp í sorginni minni ég ætti eftir að fá frá prestum. Fyrstu dagana leiddi Jóna Hrönn Bolladóttir mig áfram, hjálpaði mér að taka erfiðar ákvarðanir, leiðbeindi mér og studdi mig. Hvenær sem er var hún til í að hjálpa. Hún kom hún mér í samband við hóp af ekkjum og ekklum sem hittast hér í kirkjunni en það hefur verið ómetanleg hjálp í sorginni minni. Prestar sinna sáluhjálp fyrir syrgjendur, ráðgjöf fyrir hjón og hér í kirkjunni er meira að segja boðið upp á yoga og djúpslökun. Taka þátt í gleðilegustu stundum lífs okkar, skírnum, brúðkaupum, vinna óeigingjarnt starf og eru til taks allan sólarhringinn. Í kjölfar áfalla á fólk það til að einangrast mikið og veit ekki hvert það getur leitað.

Kirkjan aðstoðar við þetta. Í mörgum kirkjum er einnig öflugt barnastarf, t.d sunnudagaskóli þar sem öll börn eru velkomin og það kostar ekki neitt. Kirkjan stendur einnig fyrir leiksýningum bæði fyrir börn og fullorðna og hef ég sjálf sýnt einleikinn minn um Guðríði Þorbjarnardóttur í Garðakirkju og Guðríðarkirkju. Kirkjan stendur fyrir ýmsum listasýningum sem og er kóra- tónlistarstarfið stór partur af lífi margra, veitir griðastað og útrás í listinni, sem er okkur svo mikilvæg. Það er annað sem kirkjan veitir okkur og það er staður þar sem við megum vera bæði glöð og sorgmædd. Við þekkjum það öll að gleði er sú tilfinning sem er hvað helst viðurkennd í okkar samfélagi.

Gleðin er þægileg, við eigum auðvelt með að vera innan um gleði og glatt fólk. Það sem við eigum erfiðara með er að umgangast fólk sem er að upplifa sorg. Sem er samt svo skrítið því við erum langflest að upplifa bæði gleði og sorg á sama tíma. Ef þið lítið á fólkið í kringum ykkur, er einhver sem er ekki að upplifa neitt erfitt? Ég held ekki. En við reynum að loka á sorgir okkar…..sorgin er oft talið veikleikamerki. En við vitum öll hvað það er stutt á milli gleði og sorgar og þessar tilfinningar dýpka hver aðra……við kunnum betur að meta gleðina og ástina þegar við gerum okkur grein fyrir að við gætum misst hana og sorgin verður líka dýpri ef við elskum heitt og upplifum innilega gleði. En af hverju er þá önnur tilfinningin þess eðlis að við reynum að vera sterk, harka hana af okkur, reynum að gráta ekki og sýna ekki veikleikamerki?

Ef við reyndum sífellt að bæla niður gleðina og hláturinn hvar værum við þá? Mér er það mjög hugleikið að við leyfum hvoru öðru í samfélaginu að upplifa alls konar tilfinningar, hræðumst þær ekki. Næst þegar þið farið á kassann í Hagkaup og starfsmaðurinn á kassanum er utan við sig, eða þegar einhver keyrir fyrir ykkur í umferðinni, í stað þess að verða reið og blóta þeim……gefiði þeim smá séns…..kannski er viðkomandi nýbúinn að verða fyrir áfalli……gefum hvoru öðru smá tækifæri á að vera mannleg. En aftur, ég er ekki talsmaður þess að nota sorgir sínar sem afsökun fyrir því að vera dónalegur…..það er ekki það sem ég er að meina. En hér í kirkjunni, eru allar tilfinningar leyfðar. Hér komum við saman, gleðjumst, hlæjum, grátum, minnumst, sýnum samkennd og kærleika. Snýst þetta ekki bara um það, trú von og kærleika?

En ég talaði um það áðan að ég hefði upplifað mikið af skrítnum “tilviljunum” í lífinu…..sem hafa gert það að verkum að mín persónulega trú á að ekkert sé í rauninni tilviljun, verður sterkari og sterkari. Mig langar til að deila einni sögu af slíkri “tilviljun” með ykkur. Þetta er ávarp sem ég skrifaði í leikskrá á leikritinu/söngleiknum Fjögur brúðkaup og jarðarför sem ég leikstýrði og gerði leikgerð að og frumsýndi á síðastliðinn fimmtudag í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.

Þetta er að vissu leyti verkefni sem hefur þroskast með mér……hefur fylgt mér lengi. Það er mér sérstaklega kært og stendur mér svo nærri. Ég hef þroskast og þar af leiðandi get ég loksins sett þetta upp.

Þetta byrjaði allt í pínulitlum bíósal í kjallara á spilavíti í bænum Montreux í Sviss árið 1994. Ég þá 18 ára fór í bíó að sjá einhverja mynd sem ég vissi ekkert um. Hún hét Four weddings and a funeral. Daginn eftir fór ég aftur að sjá hana, því mér fannst hún svo fyndin…..og daginn þar á eftir fór ég enn aftur……Skrítið? Kannski. Já, eflaust stórskrítið. En þess mynd snerti hina 18 ára mig á alls konar hátt og ég hef sjaldan hlegið eins mikið í bíó.

Fljótlega kunni ég myndina utan að og hún varð mín uppáhaldskvikmynd og sjarmörinn Hugh Grant varð sá sem allir strákar sem ég kynntist voru bornir saman. Auðvitað kom það í ljós að fáir stóðust samanburðinn við hinn heillandi, ráðvillta Charles….. Svo liðu árin og lífið, ég varð leikkona, fann ástina, stofnaði fjölskyldu og vann á fullu við það sem ég elska út af lífinu.

Síðla árs 2010 kom svo þessi uppáhaldskvikmynd aftur til mín…….mig vantaði góða hugmynd að verki til að setja upp í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Og þegar þessi hugmynd var komin til mín, að búa til söngleik úr þessari mynd, fannst mér ekkert annað koma til greina. Ég fór að skrifa og skrifa, vinnan fór á fullt og spenningurinn var mikill. Ég lifði og hrærðist í Fjórum brúðkaupum og jarðarför. Þótt handritaskrifum væri ekki alveg lokið var ég að kvöldi mánudags 17. Janúar 2011 stödd í FB til að tilkynna spenntum, áhugasömum framtíðarleikurum hvað þau ættu að leika í þessu draumaverkefni mínu.

Áður en hlutverkin voru kynnt, sátum við öll saman í hátíðarsalnum og horfðum á kvikmyndina og hlóum og grétum á víxl. Svo keyrði ég heim, með von og tilhlökkun í hjarta, með mörg draumaverkefni framundan, m.a. Eurovision.

En þá breyttist allt. Allt breyttist á nokkrum sekúndum. Þannig er lífið. Eina stundina erum við að stefna í einhverja átt og svo ………getur allt breyst. Líf mitt eins og ég þekkti það endaði þetta kvöld. Allt sem hafði verið bjart, varð á örskotstundu svart. Allur hláturinn hljóðnaði…….. Allt varð svart. Elsku fallegi og yndislegi eiginmaður minn hann Sigurjón Brink tónlistarmaður varð bráðkvaddur á heimili okkar á meðan ég var í vinnunni. Drengirnir okkar 2 ára og 5 ára voru einir heima með honum og 5 ára hetjan mín hringdi á sjúkrabíl.

Ég hætti við að setja upp sýninguna og leit ekki í tölvuna á handritið. Ég lokaði þessu. Gat ekki hugsað mér að horfa aftur á myndina……myndina sem ég var að horfa á þegar allt endaði………

Tveimur árum seinna, síðla árs 2012…….er ég allt í einu komin af stað aftur. Ég gat ekki haft þetta ofan í skúffu, verkið kallaði svo sterkt á mig, sagan er svo falleg…..ég opnaði tölvuna og ákvað að lesa handritið mitt aftur. Þá áttaði ég mig á því að ég var ekki komin lengra í skrifum en að endaatriði 3. brúðkaups. Þegar einn vinurinn verður bráðkvaddur í veislunni…… hitt var enn óskrifað. Eins og framtíðin. Skrítið hvernig lífið er……..líf og list virðast furðanlega oft haldast í hendur hjá mér…… Með einkennilegri blöndu af trega og tilhlökkun, setti ég myndina aftur í tækið, settist við tölvuna og hélt áfram að skrifa. Ég skrifaði jarðarför og annað brúðkaup.

Ég er reynslunni ríkari. Þetta ferðalag hefur verið óskiljanlegt, skrítið, erfitt, dásamlegt, fallegt, hjálplegt, huggunarríkt, hvetjandi, sársaukafullt, gleðilegt, uppörvandi, niðurdrepandi, en fyrst og fremst drepfyndið. Ég hef hlegið, grátið, stappað, öskrað, klappað, flautað, hvíslað, sungið, nöldrað (fullt), pissað í mig (úr hlátri), dansað, reiðst, sæst, fyrirgefið, elskað, hrifist, og síðast en ekki síst fyllst af von.

En til hvers erum við eiginlega að leggja þetta allt á okkur? Jú, af því að leikhúsið endurspeglar lífið, hjálpar okkur að gleyma okkur um stund, hlæja, dreyma, vona. Og þetta leikrit sýnir okkur eitt……..lífið heldur áfram………Við stjórnum því ekki hvert það fer með okkur……en ég er búin að læra það í lífinu að það er eitt sem kemur okkur í gegnum hvað sem er og það er …….ástin. Væmið, en satt. Það er allt hægt. ……Það er í alvöru allt hægt. Ekki gleyma því elskurnar. Sama hvað lífið færir ykkur, með kærleikann að vopni er hægt að gera kraftaverk og láta drauma sína rætast. Trúiði mér.

Þess vegna setti ég þetta upp…….

Þannig að bíóferðin í litla salnum 1994……….heldur áfram hér og nú árið 2013…….19 árum seinna eftir ástir og sorgir og nýja ást……..í hátíðarsal FG, með dásamlega hæfileikaríku, yndislegu fólki sem hefur þorað að fara í þetta ferðalag með mér og láta drauma sína og mína rætast…….

Nú get ég víst hætt að leita að upphafinu á þessari hugvekju, ég held að ég sé komin að endanum. En hvar ætli þetta endi? Ég veit það ekki…..en ég veit eitt…….að ef ástin verður með…..endar þetta þá ekki bara vel?